Hoppa yfir valmynd

Nr. 195/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 5. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 195/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23030008

Beiðni um endurupptöku í máli […]

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 51/2023, dags. 25. janúar 2023, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […]og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 26. janúar 2023. Hinn 31. janúar 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og 12. febrúar 2023 var þeirri beiðni kæranda synjað. Hinn 2. mars 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn 6. mars 2023.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Beiðni kæranda um endurupptöku er byggð á því að forsendur hafi breyst í máli hans með vísan til fyrirliggjandi gagna og nýrra upplýsinga. Kærandi telur réttarstöðu sína vera aðra en þegar ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður kærunefndar var kveðinn upp í máli hans, enda sé búið að veita bróður kæranda alþjóðlega vernd hérlendis. Með tilliti til framangreinds telji kærandi að nýtt mat þurfi að fara fram á sérstökum tengslum kæranda, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. einnig úrskurður kærunefndar nr. 589/2021 frá 18. nóvember 2021, en kærandi telji atvik sambærileg máli kæranda hvað varðar tengsl og samskipti. Hinar breyttu forsendur kalli á frekari rannsókn í málinu. Þá sé einnig nauðsynlegt fyrir kæranda að fá leyst úr hinni breyttu málsástæðu á tveimur stjórnsýslustigum. Þannig verði ekki hjá því komist að samþykkja beiðni kæranda um endurupptöku, enda sé ljóst að atvik hafi breyst verulega í máli hans, sbr. 2. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga. Sé vafi um fjölskyldutengsl sé kærandi reiðubúinn að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn, en í framangreindum úrskurði hafi ekki verið efast um ættartengsl þeirra.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 25. janúar 2023. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku ásamt þeim fylgigögnum sem liggja fyrir. Á meðal þeirra eru fæðingarvottorð frá heimaríki, ljósmyndir, myndband sem kærandi kveður vera af sér, bróður sínum og bróðurdóttur og skjáskot af samskiptum kæranda og bróður hans á samskiptamiðlum. Þá lagði kærandi fram ákvörðun í máli nafngreinds bróður síns þar sem fram kemur að hann hafi hlotið viðbótarvernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 25. janúar 2023, byggði kærandi á því að hann hefði sérstök tengsl við landið samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þar sem kærandi ætti bróður sem væri búsettur hér á landi, en mál bróður kæranda sætti efnismeðferð hjá Útlendingastofnun. Í fyrrgreindum úrskurði var það mat nefndarinnar að kærandi hefði ekki sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað. Í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríkið, svo sem vegna fyrri dvalar. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Samkvæmt framansögðu getur komið til skoðunar hvort kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þegar hann á ættingja hér á landi. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að það mælir fyrir um tengsl við landið en ekki aðeins tengsl við einstaklinga sem hér kunna að dvelja á einhverjum tíma. Kærunefnd telur ljóst að byggist málsástæða um sérstök tengsl við landið á tengslum við tiltekinn eða tiltekna einstaklinga þurfa þeir einstaklingar almennt að hafa heimild til dvalar hér á landi og að sú heimild þurfi að hafa tiltekinn varanleika.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku líktur og áður segir á því að bróðir hans sé nú handhafi alþjóðlegrar verndar hér á landi og hefur kærandi lagt fram ákvörðun Útlendingastofnunar frá 1. mars 2023 þess efnis. Þá hefur kærunefnd jafnframt skoðað þau fylgigögn sem bárust með beiðni kæranda. Kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu tengsla kæranda við bróður hans í úrskurði kærunefndar frá 25. janúar 2023 en þar voru ættartengsl þeirra ekki dregin í efa. Kærunefnd ítrekar það sem fram kemur í úrskurði kæranda um að ekki verði litið svo á að um sé að ræða bræður sem séu háðir hvor öðrum þannig að þeir njóti stuðnings hvors annars. Þá verður ekki talið ósanngjarnt gagnvart kæranda, bróður hans eða bróðurdóttur að endursenda kæranda til Grikklands. Auk þess geti kærandi, sem handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi, nýtt rétt sinn til komu og tímabundinnar dvalar hér á landi á grundvelli 20. gr. laga um útlendinga í því skyni að dveljast tímabundið hér á landi og halda tengslum við bróður sinn. Þrátt fyrir að bróðir kæranda hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi er það mat kærunefndar að tengsl kæranda við landið séu ekki slík að hægt sé að fallast á að skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt.

Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 589/2021 frá 18. nóvember 2021 máli sínu til stuðnings. Í fyrrgreindu máli byggði niðurstaða kærunefndar m.a. á því að Útlendingastofnun hafði þegar tekið mál bræðra kæranda vegna tengsla við sama aðila til efnismeðferðar á grundvelli svipaðra gagna og kærandi hafði lagt fram hjá kærunefnd. Verður því talið að aðstæður séu ekki sambærilegar máli kæranda. Þá hefur kærunefnd í nýlegri úrskurðarframkvæmd sinni lagt til grundvallar að bræðratengsl ein og sér séu ekki grundvöllur sérstakra tengsla.

Af heildarmati á aðstæðum kæranda og fyrirliggjandi gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að sú staðreynd að bróðir kæranda hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi og önnur gögn málsins leiði ekki til þess að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var birtur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda frá því að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 25. janúar 2023, var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The appellant’s request to re-examine the case is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Gunnar Páll Baldvinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum