Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 12. ágúst 2021
í máli nr. 26/2021:
Ístak hf.
gegn
Nýjum Landspítala ohf. og
Ríkiskaupum

Lykilorð
Kröfu um stöðvun samningsgerðar hafnað.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu kæranda um stöðvun útboðs um hönnun og byggingu bílastæða- og tæknihúss við nýjan Landspítala við Hringbraut, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 15. júlí 2021 kærir Ístak hf. alútboð Nýs Landspítala ohf. og Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 21250 auðkennt „Nýr Landspítali við Hringbraut. Bílastæða- og tæknishús“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi hið kærða innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr um kæru. Þá er þess einnig krafist að ákvörðun um höfnun tilboðs kæranda verði felld úr gildi en að öðrum kosti verði lagt fyrir varnaraðila að auglýsa útboð á nýjan leik. Þá er óskað eftir því að kærunefnd veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Einnig er krafist málskostnaðar. Varnaraðilar krefjast þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir.

Í september 2021 auglýstu varnaraðilar eftir umsóknum til þátttöku í lokuðu alútboði um hönnun og byggingu bílastæða- og tæknihúss sem yrði hluti af nýjum Landspítala við Hringbraut. Í grein 0.1.1 í forvalsgögnum kom fram að fyrir lægi tillaga að skipulagi byggingarinnar og væri stærð hennar áætluð 19.500 fermetrar sem skiptast ætti á átta hæðir, þar af þrjár hæðir neðanjarðar. Í grein 0.2.1 kom fram að gert væri ráð fyrir bílastæðum á átta hæðum hússins. Aka ætti inni í húsið á jarðhæð þannig að það yrðu þrjár hæðir af stæðum neðan jarðhæðar og fjórar ofan hennar. Í forsögn sem fylgdi forvalsgögnum kom fram að bílageymslan væri samtals á átta hæðum, þremur neðanjarðar og fimm ofanjarðar og sams konar upplýsingar komu fram í kafla um burðarvirki. Í viðauka við forvalsgögn var auk þess að finna skissur að grunnmyndum átta hæða. Þá kom einnig fram í forvalsgögnunum að það væri ætlun verkkaupa að loknu forvali að velja fimm fyrirtæki úr hópir hæfra umsækjenda til þátttöku í lokuðu útboði. Í kjölfar forvalsins voru fimm fyrirtæki valin til þátttöku í lokuðu útboði, þ.á m. kærandi.

Í apríl 2021 fór fram útboð á hönnun og byggingu umrædds húsnæðis. Í grein 0.1.1. útboðsgögnum kom fram að verkið innifæli hönnun og byggingu bílastæðahúss á átta hæðum, þarf að þremur hæðum neðanjarðar. Í grein 0.3.1 kom fram að verkefnið skyldi meðal annars vinna í samræmi við forsögn byggingarinnar og nánar tilgreindar kröfulýsingar þar sem sams konar ákvæði var að finna. Í fylgigögnum útboðsgagna var einnig að finna lýsingar á tæknirýmum, m.a. hvar þau skyldu vera staðsett. Í grein 0.4.5 kom fram að við mat tilboða skyldi viðhaft „tveggja umslaga kerfi“, þar sem fyrst væri lagt mat á innsenda tillögu og að loknu mati hennar yrðu verðtilboð opnuð. Skyldi gefin einkunn fyrir bæði tillögu og verð samkvæmt nánar tilgreindum forsendum, þar sem verð gat mest gefið 70 stig en framlögð tillaga 30.

Kærandi skilaði tilboði í útboðinu og var tilboð hans lægst að fjárhæð. Með bréfi 7. júlí 2021 tilkynntu varnaraðilar að tilboð kæranda hefði ekki verið í samræmi við alútboðsgögn þar sem tillaga hans að hönnun byggingarinnar gerði ráð fyrir húsi á sjö hæðum, þar af tveimur neðanjarðar, á meðan útboðsögn hefði gert kröfu um hús á átta hæðum, þar af þremur neðanjarðar. Frávikstilboð hefðu ekki verið heimil og því væri tilboð kæranda ógilt, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þar að auki væri fyrirkomulag tæknirýma í húsinu ófullnægjandi og dygði bersýnilega ekki, án verulegra breytinga, til að mæta þeim þörfum verkkaupa sem fram komi í útboðsgögnum. Komi þar helst til að varaaflsvél sé ekki tryggð greið leið inn og út úr tæknirými eins og mælt hafi verið fyrir um í útboðsgögnum. Tilboðið væri því ekki aðgengilegt, sbr. 2. mgr. 82. gr. laga um opinber innkaup.

Kærandi byggir að meginstefnu á því að ekki hefði verið gerð krafa um það í útboðsgögnum að fyrirhugað hús skyldi vera átta hæða, þar af þrjár hæðir neðanjarðar. Þá hafi ekki komið fram að um sé að ræða kröfu sem leiði til þess að tilboð teljist ógilt sé hún ekki uppfyllt. Í forvalsskilmálum hafi komi fram að fyrir lægi tillaga að skipulagi byggingar sem væri átta hæðir og þar af þrjár neðanjarðar, en ekki hafi verið um kröfu að ræða. Af dómaframkvæmd verði ráðið að skilmálar verði að vera skýrir um slíkar kröfur svo að þær varði höfnun tilboðs. Meginmarkmiði varnaraðila um fjölda bílastæða hafi verið náð. Þá sé tilboð kæranda ekki óaðgengilegt, enda megi koma þeim vélum og tækjabúnaði sem um ræði fyrir í tæknirýmum eins og útboðsgögn hafi gert ráð fyrir. Varnaraðilar byggja að meginstefnu á því að tilboð kæranda hafi ekki fullnægt kröfum útboðsgagna um fjölda hæða og að tillaga kæranda að hönnun húss geri það að verkum að flóknara og kostnaðarsamara sé að koma nauðsynlegum tæknibúnaði fyrir en ella.

Niðurstaða

Hér á undan hefur forvals- og útboðsskilmálum verði lýst, þ.á m. ákvæðum þeirra um fjölda hæða. Eins og mál þetta liggur fyrir nú verður að miða við að í skilmálum þessum hafi falist skýr áskilnaður um að hið útboðna bílastæða- og tæknihús skyldi vera alls átta hæðir, þar af þrjár neðanjarðar. Fyrir liggur að tilboð kæranda gerði ráð fyrir alls sjö hæðum, þar af tveimur neðanjarðar. Verður því að miða við að tilboð kæranda hafi ekki verið í samræmi við útboðsgögn að þessu leyti og hafi því verið ógilt, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Verður þegar af þessari ástæðu ekki talið að kærandi hafi leitt verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Verður því að hafna kröfu kæranda um stöðvun hins kærða útboðs.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Ístaks hf., um að alútboð nr. 21250 auðkennt „Nýr Landspítali við Hringbraut. Bílastæða- og tæknishús“ verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.


Reykjavík, 12. ágúst 2021

Reimar Pétursson (sign)

Kristín Haraldsdóttir (sign)

Auður Finnbogadóttir (sign)
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum