Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 63/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 63/2022

Fimmtudaginn 10. mars 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 24. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 29. september 2021, á umsókn um styrk að fjárhæð 355.000 kr. til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 21. september 2021, sótti kærandi um styrk hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 355.000 kr. til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 23. september 2021. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun með ákvörðun, dags. 29. september 2021. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 26. október 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. janúar 2022. Með bréfi, dags. 28. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 10. febrúar 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 22. febrúar 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar vísar kærandi til fyrri rökstuðnings í máli hennar nr. 294/2021 hjá nefndinni sem varði sömu ákvörðun. Kærandi hafi misst heilsuna árið 2018 vegna langvarandi álags við umönnun fatlaðs sonar hennar. Sonurinn hafi að sögn verið settur í forgang á biðlista eftir búsetu vegna veikinda kæranda. Nú þremur árum síðar sé hann enn búsettur hjá kæranda. Reykjavíkurborg hafi hafnað ósk hennar um styrk til að komast til heilsu til að geta haldið áfram að vinna launalaust fyrir borgina. Kærandi hafi farið á Heilsustofnun NLFÍ en ekki klárað meðferðina vegna fullyrðinga Sjúkratrygginga um að stofnunin væri að ofrukka sjúklinga og stunda ólöglega starfsemi. Upphæðin sem kærandi hafi greitt hafi því lækkað um 100.000 kr.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að áfrýjunarnefnd hafi samþykkt umsókn sonar hennar um búslóðastyrk en upphaflega hafi beiðni hans verið hafnað á sömu forsendum og hennar beiðni, þ.e. að þau hefðu ekki þegið fjárhagsaðstoð. Kærandi vilji vita hvað greini þar á milli.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi sé 75% öryrki og búi með X ára fötluðum syni sínum sem sé með samþykkta 14 sólarhringa á mánuði í skammtímavistun að B og 30 klukkustundir í liðveislu á mánuði, en hann vinni alla virka daga hjá C. Hann hafi nýverið fengið úthlutað búsetuúrræði að D og muni flytja inn fljótlega. Kærandi hafi sótt um styrk til að greiða fyrir dvöl í einn mánuð á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, að fjárhæð 355.000 kr., samkvæmt a. lið 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð sem fjalli um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna. Áður hafi kærandi sótt um styrk vegna sömu dvalar á grundvelli 24. gr. sömu reglna.

Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi tekið gildi 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 24. febrúar 2021, á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021 og á fundi borgarstjórnar þann 16. mars 2021. Reglurnar séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Ákvæði a. liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð sé svohljóðandi:

„Heimilt er að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miðar [að því] að viðhalda árangri sem náðst hefur með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Skilyrðin eru að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum og að einstaklingsáætlun hafi verið gerð.“

Samkvæmt framangreindu ákvæði sé gert ráð fyrir að heimilt sé að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið sé að veita markvissan stuðning sem miði að því að viðhalda árangri sem náðst hafi með úrræðum og/eða stuðningsvinnu í málefnum umsækjanda. Ekki hafi verið veittur markviss stuðningur í þessu tilliti vegna málefna kæranda með þeim hætti að tilefni sé nú til að viðhalda þeim árangri sem náðst hafi, með dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.

Eitt af skilyrðum a. liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar sé að um mikla félagslega erfiðleika sé að ræða. Við mat á félagslegum erfiðleikum hafi verið talið að þeir væru ekki með þeim hætti að unnt væri að veita styrk á grundvelli þessa ákvæðis reglnanna. Sonur kæranda hafi átt og eigi vissulega við margvíslega og mikla félagslega erfiðleika að stríða vegna fötlunar en umönnun hans með aðstoð Reykjavíkurborgar þar til honum hafi verið úthlutað búsetuúrræði falli ekki þar undir. Með hliðsjón af aðstæðum öllum hafi því verið talið að ekki væru efni til að samþykkja umsóknina. Það hafi verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að skilyrði a. liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar væru ekki uppfyllt og því hafi verið staðfest synjun þjónustumiðstöðvar um styrk til að greiða fyrir dvöl í einn mánuð á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, að fjárhæð 355.000 kr.

Með hliðsjón af öllu framansögðu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk að fjárhæð 355.000 kr. til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna. Samkvæmt a-lið 27. gr. er heimilt að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miðar að því að viðhalda árangri sem náðst hefur með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum og að einstaklingsáætlun hafi verið gerð.

Umsókn kæranda var synjað á grundvelli þess að aðstæður hennar hafi ekki fallið að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 27. gr. framangreindra reglna. Við meðferð kærumáls þessa hefur komið fram af hálfu Reykjavíkurborgar að ekki hafi verið veittur markviss stuðningur vegna málefna kæranda með þeim hætti að tilefni væri til að viðhalda þeim árangri sem hafi náðst, með dvöl á Heilsustofnun Náttúrulæknigafélags Íslands í Hveragerði.

Í greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd, dags. 22. september 2021, kemur fram að á síðastliðnum 12 mánuðum hafi kærandi þegið félagslega ráðgjöf og fengið samþykktan styrk vegna sálfræðiviðtala. Að mati úrskurðarnefndarinnar benda gögn málsins ekki til þess að málefni kæranda hafi talist vera í markvissu ferli í skilningi 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð þegar hún sótti um styrk til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Verður því ekki séð að í styrknum felist aðstoð sem miði að því að viðhalda árangri sem náðst hafi með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 29. september 2021, um synjun á umsókn A styrk að fjárhæð 355.000 kr. til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira