Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 181/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 181/2022

Fimmtudaginn 2. júní 2022

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 17. mars 2022, um að synja beiðni hennar um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 14. mars 2022, sótti kærandi um greiðslur húsnæðisbóta. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 15. mars 2022, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og fékk hún greiddar húsnæðisbætur frá og með umsóknarmánuði. Með erindi, dags. 15. mars 2022, óskaði kærandi eftir greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann frá og með 1. mars 2021. Kæranda barst svar þann 17. mars 2022 frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem kom fram að húsnæðisbætur væru greiddar frá umsóknarmánuði og að óheimilt væri að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 31. mars 2022. Með erindi, dags. 6. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Umbeðin gögn bárust frá kæranda samdægurs. Með bréfi, dags. 11. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 2. maí 2022. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 3. maí 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um afturvirkar húsnæðisbætur til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) vegna búsetuíbúðar sinnar, svokallaðrar tekjumarksíbúðar, en fengið höfnun. Í framhaldi af því vilji hún kæra niðurstöðu HMS til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Eins og fram komi í meðfylgjandi yfirlýsingu Búseta hafi ekki verið upplýst um að kærandi ætti möguleika á húsnæðisbótum og því hafi hún verið fullviss um að hún fengi vaxtabætur. Við skil á skattframtali hafi komið í ljós að þar sem um sé að ræða svokallaða tekjumarksíbúð sé aðeins möguleiki á greiðslum húsnæðisbóta. Búseti hafi viðurkennt að hafa ekki staðið nægilega vel að kynningu á framangreindu við samningsgerð og við afhendingu íbúðarinnar í febrúar 2021. Þeir beri fyrir sig Covid-19 en kærandi geti staðfest að undirritun samnings og annað tengt afhendingu íbúðarinnar hafi litast af veirunni eins og margt annað á þeim tíma.

Kærandi fari fram á að húsnæðisbætur verði greiddar afturvirkt frá 1. mars 2021. Hún geti ekki séð að nægileg rök séu fyrir því að ríkið hagnist á andvaraleysi sínu og telji sig eiga fullan rétt á umræddum húsnæðisbótum. Kærandi vilji taka fram að hún sé ung og einstæð móðir í lágtekjustarfi og muni því mikið um þessar krónur.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 14. mars 2022. Þann 15. mars 2022 hafi umsókn kæranda verið samþykkt. Sama dag hafi kærandi sent stofnuninni umsókn um afturvirkar húsnæðisbætur. Þar komi fram að kærandi hafi talið sig eiga rétt á vaxtabótum og ekki gert sér grein fyrir rétti sínum til húsnæðisbóta. Kærandi hafi fengið svar frá stofnuninni þann 17. mars 2022 þar sem beiðni hennar hafi verið hafnað á þeim grundvelli að réttur til húsnæðisbóta myndist í þeim mánuði sem umsókn sé móttekin.

Í máli þessu sé deilt um höfnun HMS á afgreiðslu húsnæðisbóta aftur fyrir þann mánuð sem umsókn kæranda hafi verið gerð. Í greinargerð kæranda komi fram að starfsmaður Búseta, sem sé leigusali kæranda, hafi ekki kynnt kæranda rétt hennar til húsnæðisbóta og að á þeim grundvelli sé beiðni um greiðslu afturvirkra húsnæðisbóta gerð. Kærandi fari fram á að húsnæðisbætur skuli reiknast frá 1. mars 2021 eða frá upphafi leigusambands hennar við leigusala.

Í 2. mgr. 21. gr. laga um húsnæðisbætur sé kveðið skýrt á um að húsnæðisbætur skuli reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttaki umsókn um húsnæðisbætur og jafnframt að óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Fyrir liggi að umsókn kæranda um húsnæðisbætur hafi verið skilað til stofnunarinnar þann 14. mars 2022 og að réttur til húsnæðisbóta hafi verið staðfestur frá 1. mars 2022. Fram komi í svörum stofnunarinnar til kæranda að ákvörðun um að veita ekki húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá fyrsta degi umsóknarmánaðar sé byggð á því að ekki sé heimild fyrir slíku í lögum. HMS geri kröfu um að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 17. mars 2022 um að synja beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann.

Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Þrátt fyrir 1. og 2. málsl. verða húsnæðisbætur aðeins greiddar vegna almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði þegar leigutími er hafinn og koma til greiðslu fyrsta dag næsta almanaksmánaðar á eftir. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 skulu húsnæðisbætur einungis veittar sé umsækjandi aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða.

Kærandi lagði inn umsókn um húsnæðisbætur 14. mars 2022 og fékk greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi ekki gert sér grein fyrir rétti sínum til húsnæðisbóta og hafi því ekki lagt inn umsókn fyrr. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 er óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Að því virtu er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 17. mars 2022, um að synja beiðni A, um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira