Hoppa yfir valmynd

Nr. 444/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 444/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU21080036 og KNU21080037

 

Beiðni […], […] og barna þeirra um endurupptöku

 

I.          Málsatvik og málsmeðferð

Þann 20. maí 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 5. mars 2021, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir K), […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir M), og börnum þeirra, […], fd. 28. apríl 2015, ríkisborgara Nígeríu (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir B), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 25. maí 2021. Þann 1. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 303/2021, dags. 24. júní 2021, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað. Þann 20. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum.

Beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á því að ákvörðun í máli þeirra hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum. 

Í endurupptökubeiðni kærenda kemur fram að við meðferð málsins hjá kærunefnd hafi kærendur lagt fram tvö skjöl sem M hafi sagt vera dánarvottorð föður síns og bróður. Allt að einu hafi skjölin verið talin ótrúverðug og af þeim sökum hafi þau ekki verið lögð til grundvallar í málinu. Nú hafi kærendur lagt fram eiðsvarið vottorð frá Ondo fylki í Nígeríu og dánarvottorð þar sem því sé slegið föstu að bróðir M, […], hafi fallið frá þann 14. febrúar 2008. Kærendur telja að þessi nýju gögn séu til þess fallin að varpa ljósi á að úrskurður kærunefndar í máli kærenda hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum í skilningi 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, en í úrskurðinum hafi nefndin talið gögn málsins ekki gefa til kynna að kærendur væru í raunverulegri hættu í heimaríki sínu. Því sé krafist endurupptöku á máli kærenda og barna þeirra.

III.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kærenda, dags. 20. maí 2021, var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í endurupptökubeiðni kærenda kemur fram að þau telji úrskurður kærunefndar hafa byggst á ófullnægjandi upplýsingum. Kærunefnd hafi í úrskurðinum talið skjöl, sem kærendur kváðu vera dánarvottorð föður og bróður M, vera ótrúverðug en nú hafi kærendur lagt fram önnur skjöl sem staðfesti að bróðir M hafi fallið frá 14. febrúar 2008.

Ásamt endurupptökubeiðni lögðu kærendur fram ljósrit af skjali, undirrituðu af konu að nafni […], dags. 19. júlí 2021, þar sem fram kemur að hún sé systir manns að nafni […] sem hafi látist af völdum hjartaáfalls þann 14. febrúar 2008. Þá lögðu kærendur jafnframt fram ljósrit af dánarvottorði, dags. 22. júlí 2021, þar sem fram kemur m.a. að maður að nafni […] hafi látist á sjúkrahúsinu Federal Medical Centre (FMC) í bænum Owo í Ondo ríki.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun greindi M frá því að bróðir hans, […], hafi verið myrtur á heimili fjölskyldu þeirra. Aðilarnir sem hafi myrt hann hafi talið að um M hafi verið að ræða. Kvað M bróður sinn hafa verið sleginn í höfuðið með þungum hlut sem hafi leitt til andláts hans. Með vísan til framangreinds er ljóst að frásögn M fær ekki stoð í þeim gögnum sem nú hafa verið lögð fram, hvorki hvað varðar dánarorsök né dánarstað bróður hans.

Í úrskurði kærunefndar frá 20. maí 2021 var það mat nefndarinnar að dánarvottorð föður og bróður M, sem kærendur lögðu fram til stuðnings þeirri málsástæðu að M væri í hættu í heimaríki væru ótrúverðug. Jafnframt var það mat kærunefndar að önnur gögn væru ekki til þess fallin að renna stoðum undir frásögn M og var hún metin ótrúverðug. Það er mat kærunefndar að þau gögn sem kærendur hafa lagt fram til stuðnings endurupptökubeiðni sinni hafi takmarkað sönnunargildi í málinu þar sem um er að ræða ljósrit af skjölunum. Í mati sínu horfir kærunefnd jafnframt til þess, líkt og áður greinir, að þær upplýsingar sem fram koma á skjölunum samrýmast ekki frásögn M varðandi það hvernig andlát bróður hans hafi borið að.

Með vísan til framangreinds verður ekki talið að um sé að ræða nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Þá er það mat kærunefndar að hin nýju gögn sem kærendur hafa nú lagt fram hefðu ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu nefndarinnar í máli kærenda.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að niðurstaða í máli kærenda og barna þeirra hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum í skilningi 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni kærenda um endurupptöku máls þeirra hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine the cases is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira