Hoppa yfir valmynd

Nr. 387/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 387/2019

Miðvikudaginn 16. október 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. september 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. ágúst 2019 um skattalega meðhöndlun greiðslna vegna ársins 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2018. Í bréfinu koma fram upplýsingar um staðgreiðslu skatta af greiðslum stofnunarinnar vegna framangreinds bótagreiðsluárs.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. september 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að staðgreiðsla skatta af bótagreiðslum frá Tryggingastofnun verði endurgreidd. 

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun eigi ekki að halda eftir sköttum af greiðslum B ríkisborgara sem hafi verið búsettur þar frá árinu X. Kærandi hafi verið búsettur á Íslandi frá X þar til hann flutti til B X og frá þeim tíma hafi hann hvorki verið búsettur né unnið á Íslandi. Árlega leggi kærandi fram B skattframtöl sín til Tryggingastofnunar en hann hafi byrjað að þiggja lífeyrisgreiðslur frá Íslandi árið X. Enginn skattur hafi verið dreginn af ellilífeyrisgreiðslum hans vegna áranna […] en það hafi nú verið gert vegna ársins 2018.

III.  Niðurstaða

Kærð er skattaleg meðhöndlun Tryggingastofnunar ríkisins á greiddum bótum til hans vegna ársins 2018.

Í kæru fer kærandi fram á endurgreiðslu þess skatts sem dreginn hafi verið af greiðslum til hans frá Tryggingastofnun vegna ársins 2018.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Ákvörðun um skattalega meðhöndlun greiðslna kæranda frá Tryggingastofnun var ekki tekin á grundvelli laga um almannatryggingar. Ágreiningsefnið á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Bent er á að um er að ræða ágreiningsefni sem fellur undir valdsvið skattyfirvalda.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira