Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 33/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. júlí 2023
í máli nr. 33/2023:
Kraftvélar ehf.
gegn
Ríkiskaupum,
Vegagerðinni og
Aflvélum ehf.

Lykilorð
Bindandi samningur. Stöðvunarkröfu hafnað.

Útdráttur
Hafnað var kröfu K um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir þar sem bindandi samningur hefði komist á með tilkynning um töku tilboðs, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 28. júní 2023 kæra Kraftvélar ehf. útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Vegagerðarinnar (hér eftir vísað til sem varnaraðilar) nr. 22035 auðkennt „Tractor 4x4 (Dráttarvél fyrir Ólafsvík)“. Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun varnaraðila 12. júní 2023 um að velja tilboð varnaraðila Aflvéla ehf. (hér eftir Aflvélar ehf.) hagstæðast í fyrrnefndu innkaupferli verði felld úr gildi en til vara að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá verði varnaraðilum gert að greiða honum málskostnað. Í þessum hluta málsins tekur kærunefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í greinargerð Aflvéla ehf. 3. júlí 2023 og varnaraðila 11. sama mánaðar er þess krafist að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað.

I

Hinn 16. maí 2023 óskuðu Ríkiskaup, fyrir hönd Vegagerðarinnar, eftir tilboðum í nýja dráttarvél, 4x4, a.m.k. 7.500 kg. Tilboðsfrestur var veittur til klukkan 12 á hádegi 5. júní sama ár. Í kafla 3 í útboðsgögnum kom fram að fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið yrði valið á grundvelli besta hlutfalls milli verðs og gæða. Samkvæmt grein 3.1.1. gilti verð 90% þar sem lægsta verð fengi fullt hús stiga og önnur hærri tilboð fengju færri stig í réttu hlutfalli við lægsta tilboðið. Þá kom fram í grein 3.1.2 að „gæði – þjónusta“ giltu 10%. Gerð var krafa um framboð á viðhalds- og varahlutaþjónustu á Íslandi, viðurkenndri af framleiðanda, vegna boðins tækis og var heimilt að vísa til undirverktaka. Þá sagði að æskilegt væri að þjónustan væri í eigin rekstri bjóðanda, þ.e. á sömu kennitölu. Þrjú þjónustustig voru skilgreind og hvernig stigagjöf væri háttað fyrir hvert og eitt þeirra. Þannig fengjust tíu stig ef bjóðandi bauð upp á fulla þjónustu, þ.e. viðgerðar- og varahlutaþjónustu í eigin rekstri. Fimm stig voru gefin ef bjóðandi var með varahlutaþjónustu í eigin rekstri og samning um viðgerðarþjónustu, þ.e. við undirverktaka. Engin stig væru gefin ef samningur væri við undirverktaka um bæði viðgerða- og varahlutaþjónustu. Samkvæmt grein 1.2.10 í útboðsgögnum teldist tilboð samþykkt þegar send hefði verið út tilkynning um töku tilboðs, að liðnum tíu daga biðtíma frá tilkynningu um val tilboðs, og væri þá kominn á bindandi samningur milli aðila á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda.

Fyrir liggur að tvö tilboð bárust á tilboðstíma, annað frá Aflvélum ehf., að fjárhæð 29.832.436 krónur, og hitt frá kæranda, að fjárhæð 30.075.936 krónur. Með bréfi 12. júní 2023 var bjóðendum tilkynnt um að tilboð Aflvéla ehf. hefði verið valið þar sem að það hefði verið metið hagstæðast fyrir kaupanda með 100 stig samkvæmt valforsendum útboðslýsingar. Í málinu er upplýst um að tilboð kæranda hlaut 99 stig. Hinn 23. júní 2023 var bjóðendum send tilkynning um töku tilboðs Aflvéla ehf. þar sem fram kom að bindandi samningur væri kominn á milli aðila.

II

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu til á því að ekki hafi átt að gefa Aflvélum ehf. tíu stig vegna þjónustu og gæða. Vísar kærandi til þess að hann hafi upplýsingar um að Aflvélar ehf. feli ótengdum undirverktaka viðgerðarþjónustu vegna dráttarvéla en sinni ekki slíkri þjónustu í eigin rekstri. Aflvélar ehf. hafi ekki átt að hljóta meira en fimm stig fyrir þjónustu og gæði og þar með borið að meta tilboð kæranda hagstæðast í útboðinu. Kærandi telur verulegar líkur á að varnaraðilar hafi brotið gegn lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þá telur kærandi ekki liggja fyrir með afdráttarlausum hætti að samningur hafi þegar verið gerður milli varnaraðila og Aflvéla ehf.

III

Í 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Varnaraðilar hafa upplýst um að bindandi samningur hafi komist á við Aflvélar ehf. 23. júní 2023 er bjóðendum var tilkynnt um töku tilboðs. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna þeirri kröfu kæranda að samningsgerð verði stöðvað um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016.

Ákvörðunarorð

Hafnað er kröfu kæranda, Kraftvéla ehf., um að stöðva um stundarsakir útboð Ríkiskaupa, fyrir hönd Vegagerðarinnar, nr. 22035 auðkennt „Tractor 4x4 (Dráttarvél fyrir Ólafsvík)“.


Reykjavík, 24. júlí 2023


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum