Hoppa yfir valmynd

Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 2/2025

Miðvikudaginn 19. febrúar 2025 var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dags. 7. september 2023, kærði […] lögmaður, fyrir hönd […], kt. […], ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 5. september 2022, um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Lagoon Car Rental ehf., kt. 561214-1660.

 

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Lagoon Car Rental ehf. um vangreidd laun, orlof og uppbætur.

 

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og óskaði hann því eftir rökstuðningi Ábyrgðasjóðs launa á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Rökstuðningur Ábyrgðasjóðs launa var veittur kæranda 7. júlí 2023 og kærði hann í kjölfarið til ráðuneytisins umrædda ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa með erindi, dags. 7. september 2023, með vísan til 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

 

Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að kærandi hafi starfað sem almennur starfsmaður hjá hlutaðeigandi félagi, sem sé bílaleiga, og séð um að stýra bílaflota en starfið hafi meðal annars falið í sér að sjá um sölu á notuðum bifreiðum. Starfs síns vegna hafi hann verið með prókúru í hlutaðeigandi félagi svo hann gæti undirritað sölusamninga en hann hafi að öðru leyti ekki komið nálægt fjármálum fyrirtækisins.

 

Í erindi kæranda kemur fram að rekstur félagsins hafi gengið vel en á árinu 2020 hafi heimsfaraldur kórónuveiru haft áhrif á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja og þar með talið rekstur umræddrar bílaleigu. Kærandi hafi á vormánuðum ákveðið að leita að öðru starfi og hafi hann þess vegna sagt sig úr stjórn bílaleigunnar þann 9. júlí 2020. Þá hafi reksturinn verið í ágætu lagi en nokkur óvissa hafi verið uppi um áhrif heimsfaraldursins á reksturinn. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að hann hafi verið hættur í stjórn bílaleigunnar sem fram hafi komið greiðsluáskorun frá Landsbankanum vegna kaupleigubifreiða. Sú áskorun hafi borist í ágúst 2020 og hafi hún komið á óvart þar sem ljóst hafi verið að innkoma hafi verið lítil vegna heimsfaraldursins og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi á þessum tíma ekki enn litið dagsins ljós. Telur kærandi ljóst að staðan hafi gjörbreyst á þessum stutta tíma og störf hans hafi ekki haft neitt með það að gera.

 

Í erindi kæranda kemur jafnframt fram að umrætt félag hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Landsbankans þann 5. október 2020. Kröfur kæranda á hendur Ábyrgðasjóði launa séu vegna vangoldinna launa frá 21. júlí 2020 til 1. ágúst sama ár og launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Krafan hafi verið samþykkt af skiptastjóra þrotabúsins en henni hafi verið hafnað af Ábyrgðasjóði launa með þeirri skýringu að kærandi hafi verið prókúruhafi í hlutaðeigandi félagi. Ekkert sé í lögum sem kveði á um að krafa sem skiptastjóri samþykki falli niður ef starfsmaður er prókúruhafi og því hafi kærandi krafist rökstuðnings frá sjóðnum. Í rökstuðningi Ábyrgðasjóðs launa fyrir hinni kærðu ákvörðun komi fram að kröfunni hafi upphaflega verið hafnað þar sem kærandi hafi verið prókúruhafi. Þeirri málsástæðu hafni kærandi.

 

Að mati kæranda felist í prókúru takmarkað umboð til að skuldabinda félag og telur kærandi það eitt ekki geta valdið því að Ábyrgðasjóður launa synji um ábyrgð sjóðsins. Fram kemur að kærandi hafi verið með prókúru vegna sölu á notuðum bifreiðum sem hafi verið hluti af starfsskyldum hans. Hafi prókúran því ekki snúið að stórum ákvörðunum í rekstri félagsins. Kærandi telur ákvörðun Ábyrgðarsjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins, á grundvelli þess að kærandi hafi verið prókúruhafi, verða að byggja á skýrum lagafyrirmælum og vísar í því sambandi til meginreglna stjórnsýslulaga um meðalhóf og rannsókn mála. Telur kærandi að slík synjun geti ekki verið geðþóttaákvörðun starfsmanna Ábyrgðasjóðs launa. Að mati kæranda sé hvergi í lögum um Ábyrgðasjóð launa minnst á að prókúra starfsmanna geti haft áhrif á rétt til greiðslu úr sjóðnum, enda myndi slík skilgreining útiloka almenna gjaldkera og aðra sem starfa sinna vegna þurfi að undirrita skjöl fyrir hönd félaga, líkt og átt hafi við um kæranda. Synjun á ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á þessum grundvelli standist þannig ekki lagaskilyrði að mati kæranda.

 

Þá segir í erindi kæranda að í rökstuðningi Ábyrgðasjóðs launa hafi einnig komið fram aðrar ástæður fyrir synjun á ábyrgð sjóðsins sem ekki hafi komið fram í ákvörðun sjóðsins, dags. 5. september 2022, meðal annars að kærandi hafi verið í stjórn félagsins. Því sé af hálfu kæranda alfarið hafnað að í rökstuðningi geti komið fram ný rök eða ástæður, enda sé slíkt andstætt meginreglum stjórnsýslulaga. Kærandi taki þó fram að kærandi hafi ekki verið í stjórn félagsins þegar það hafi orðið gjaldþrota og því sé rangt að halda því fram að hann hafi áunnið sér réttindi á meðan hann hafi verið í stjórn. Áunnin réttindi kæranda hafi áunnist á grundvelli kjarasamnings þar sem hann hafi verið almennur starfsmaður.

 

Í erindi kæranda kemur enn fremur fram að þar sem ekki sé að finna skýlaust ákvæði í lögum um Ábyrgðasjóð launa þess efnis að réttur til greiðslu úr sjóðnum sé háður því skilyrði að viðkomandi hafi ekki verið í stjórn viðkomandi félags í einhvern tíma fyrir gjaldþrot þess þá verði að mati kæranda að horfa til þess að um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun í máli þessu og að túlka verði umrætt ákvæði þröngt. Að mati kæranda sé einungis hægt að miða við þá sem séu í stjórn þegar félag er tekið til gjaldþrotaskipta en í máli þessu hafi hlutaðeigandi félag verið tekið til gjaldþrotaskipta eftir að kærandi hafi verið hættur í stjórn. Að mati kæranda beri því að ógilda ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa og samþykkja kröfuna á hendur sjóðnum eins og henni hafi verið lýst.

 

Erindi kæranda var sent Ábyrgðasjóði launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 28. september 2023, og var sjóðnum veittur frestur til 11. október sama ár til að veita ráðuneytinu umsögn sína. Þar sem umsögn Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu ekki innan þess frests sem veittur hafði verið ítrekaði ráðuneytið beiðni sína um umsögn sjóðsins með bréfum, dags. 20. október 2023 og 16. nóvember sama ár.

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa, dags. 4. desember 2023, kemur meðal annars fram að umsókn vegna vangreiddra launa ásamt fylgiskjölum hafi borist sjóðnum 7. desember 2020 þar sem lýst hafi verið launakröfu að fjárhæð 3.204.863 kr. Krafan hafi verið tilkomin vegna vangoldinna launa fyrir ágúst til og með nóvember 2020. Fram kemur að bú fyrrum vinnuveitanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 5. október 2020 en kærandi hafi verið stjórnarmaður í hlutaðeigandi félagi frá því í desember 2015 til 9. júlí 2020 og prókúruhafi frá árinu 2015 og allt þar til félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Upphaflega hafi kröfu kæranda verið hafnað af skiptastjóra á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en í umsögn skiptastjóra, sem hafi borist sjóðnum 1. apríl 2022, hafi komið fram að krafan hafi verið samþykkt en skiptastjóri hafi hins vegar vakið athygli á að krafan kynni að falla undir 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa.

 

Enn fremur kemur fram í umsögn Ábyrgðasjóðs launa að með ákvörðun sjóðsins, dags. 5. september 2022, hafi kröfunni verið hafnað á eftirfarandi grundvelli: „Samkvæmt 10. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, njóta kröfur stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis ekki ábyrgðar sjóðsins. Þar sem [kærandi] var prókúruhafi hins gjaldþrota félags er kröfunni hafnað á grundvelli 10. gr. laga nr. 88/2003.“ Þá kemur fram í umsögninni að rökstuðningur fyrir ákvörðun sjóðsins hafi verið sendur kæranda þann 7. júlí 2023.

 

Auk þess kemur fram í umsögninni að það sé mat Ábyrgðasjóðs launa að sjóðurinn sé ekki bundinn af afstöðu skiptastjóra til krafna sem lýst hafi verið í þrotabú gjaldþrota atvinnurekanda og gerð hafi verið krafa um að Ábyrgðasjóður launa ábyrgist. Jafnframt kemur fram að skiptastjóri hafi upphaflega hafnað kröfunni sem forgangskröfu á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en síðar hafi skiptastjóri samþykkt kröfuna sem forgangskröfu. Auk þess kemur fram að í umsögn skiptastjóra segi að „samkvæmt hlutafélagaskrá sat [kærandi] í stjórn félagsins frá desember 2015 til 9. júlí 2020, en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta skömmu síðar, eða 5. október 2020. Þá var [kærandi] einn af þremur prókúruhöfum félagsins frá árinu 2015 og allt þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Telur skiptastjóri að það hafi verið fyrirséð í júlí 2020 að félagið stefndi í þrot, en það hafði þá gengið í gengnum mikla erfiðleika vegna Covid 19 faraldurs. Rekstri félagsins var hætt í ágúst 2020 og öllum starfsmönnum sagt upp.“

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa kemur fram að í 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa sé kveðið á um undanþágur frá ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa en í 1. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um að kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum. Sama gildi um kröfur launamanns sem hafi verið eigandi, einn eða ásamt maka sínum eða öðrum nákomnum, að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafi haft umtalsverð áhrif á rekstur þess. Tekið er fram í umsögn Ábyrgðasjóðs launa að í athugasemdum með 10. gr. frumvarps þess er hafi orðið að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, segi meðal annars að ekki sé talið eðlilegt að sjóðurinn ábyrgist kröfur eigenda, framkvæmdastjóra og stjórnarmanna um laun, launatengd réttindi og bætur vegna missis launa í uppsagnarfresti. Skipti í því sambandi ekki máli þótt þeir verði eftir atvikum taldir launamenn í skilningi skattalaga.

 

Enn fremur kemur fram í umsögn Ábyrgðasjóðs launa að óumdeilt sé að mati sjóðsins að kærandi hafi verið í stjórn þess félags sem um ræðir frá desember 2015 til 9. júlí 2020. Jafnframt sé óumdeilt að kærandi hafi verið einn af þremur prókúruhöfum félagsins frá árinu 2015 og allt þar til félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá hafi það verið mat skiptastjóra að fyrirséð hafi verið að félagið stefndi í þrot þegar kærandi hætti í stjórn félagsins en það hafi þá gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í kjölfarið hafi rekstri félagsins verið hætt í ágúst 2020 og öllum starfsmönnum sagt upp. Samkvæmt yfirliti yfir skráningar á vanskilaskrá hafi áskorun um greiðslufærni frá Landsbankanum, dags. 5. ágúst 2020, ekki verið sinnt.

 

Þá er þess getið í umsögn Ábyrgðasjóðs launa að í frétt Morgunblaðsins frá 7. ágúst 2020, þar sem fjallað hafi verið um bílaleigur sem teknar hafi verið til gjaldþrotaskipta segi: „Heimildir Morgunblaðsins herma að bílaleigan Lagoon Car Rental, sem hefur verið með um 400 bíla í flota sínum, muni einnig verða tekin til gjaldþrotaskipta á allra næstu dögum. Hefur fyrirtækið nú þegar tilkynnt viðskiptavinum sínum, sem pantað höfðu bíla hjá því til notkunar á komandi vikum, um að ekki verði hægt að uppfylla þjónustuna með umsömdum hætti. Þá hefur fyrirtækið einnig gefið út að það sé ekki í aðstöðu til þess að endurgreiða viðskipavinum sínum sem enn áttu eftir að taka bíla á leigu þar sem fjármunir fyrirtækisins hafi verið fyrstir“.

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa kemur enn fremur fram að krafa kæranda sé vegna vangreiddra launa fyrir tímabilið 21. júlí til 31. ágúst 2020 og á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá september til nóvember 2020 sem og vegna vangreidds orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Að mati sjóðsins sé um að ræða réttindi sem kærandi hafi áunnið sér meðan hann hafi verið í stjórn félagsins og verði því að líta svo á að krafa hans njóti ekki ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa á grundvelli 1. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Að mati sjóðsins væri það andsætt lögum um Ábyrgðasjóð launa að líta svo á að stjórnarmenn sem hafi sagt sig úr stjórn rétt fyrir gjaldþrot félags eigi rétt á að fá greiðslur úr sjóðnum. Þá skuli þess getið að í 10. gr. laganna sé ekki kveðið á um tímamark stjórnarsetu heldur sé einungis kveðið á um að kröfur einstaklinga sem hafi verið í stjórn félags njóti ekki ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa.

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. desember 2023, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Ábyrgðasjóðs launa og var frestur veittur til 8. janúar 2024.

 

Í svarbréfi kæranda, dags. 12. desember 2023, kemur fram að kærandi telji ágreining málsins snúast um túlkun á hugtakinu nákominn skv. 3. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. gr. sömu laga, sem og um það hvort hugtakið taki til fleiri aðila en þeirra sem hafi verið í stjórn þegar umrætt félag fór í þrot.

 

Að mati kæranda sé óumdeilt að kærandi hafi hætt í stjórn þess félags sem um ræðir 9. júlí 2020 og að hann hafi því ekki verið í stjórn félagsins er félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Undantekningarákvæði 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. gr. sömu laga kveði á um að það taki til nákominna og nái til þeirra sem sitji í stjórn félaga þó þeir séu ekki eignaraðilar. Vekur kærandi athygli á því að í 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé einungis kveðið á um þá sem sitji í stjórn félags en þeir sem áður hafi verið í stjórn félags séu ekki tilgreindir. Þar sem um undantekningarákvæði sé að ræða sé að mati kæranda ekki hægt að beita rýmri skýringu en fram komi samkvæmt orðanna hljóðan og ítrekar kærandi í því sambandi að hann hafi verið hættur í stjórn félagsins þegar það hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í október 2020 og því eigi undantekningarákvæðið ekki við.

 

Í svarbréfi kæranda ítrekar kærandi jafnframt að hann hafi verið almennur starfsmaður í félaginu. Ávinnsla réttinda í Ábyrgðasjóði launa fari eftir kjarasamningi og starfsaldri og hafi stjórnarseta að mati kæranda engin áhrif á réttindaávinnslu hans. Varðandi túlkun á hugtakinu nákominn telur kærandi engu máli skipta hvort kærandi hafi verið með prókúru. Hvergi sé minnst á prókúru í lögum um Ábyrgðasjóð launa og hafi það atriði því að mati kæranda ekkert með það að gera hvort kærandi eigi rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa. Hið rétta sé að kærandi hafi unnið við endurnýjun bílaflota og að hann hafi því verið með prókúru til að geta afsalað bifreiðum sem ákveðið hafi verið að selja við endurnýjun bílaflotans. Prókúra hans hafi ekkert haft að gera með almennan rekstur eða fjármögnun félagsins að hans mati.

 

Kjarni málsins snúist að mati kæranda um að Ábyrgðasjóður launa hafi byggt ákvörðun sína á þeirri forsendu að kærandi hafi setið í stjórn þess félags sem um ræðir þrátt fyrir að stjórnarsetu hans hafi verið lokið er félagið hafi tekið ákvörðun um að hætta rekstri og fara í þrot. Að mati kæranda eigi sú ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa sér ekki stoð í lögum og sé í raun í andstöðu við lög. Hvergi komi fram í lögum að undantekningarákvæði 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. gr. laga sömu laga, eigi við um fyrrverandi stjórnarmenn félaga og að mati kæranda sé ekki hægt að beita rýmri skýringu við túlkun þess. Telur kærandi að styðjast beri við túlkun samkvæmt orðanna hljóðan. Hafi það verið vilji löggjafans að ákvæðið ætti einnig við um fyrrverandi stjórnarmenn hefði að mati kæranda þurft að tilgreina það sérstaklega í lögum um Ábyrgðasjóð launa og þá hve langt aftur í tímann skyldi líta. Því beri að mati kæranda að fella ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa úr gildi og viðurkenna kröfur kæranda.

 

 

II. Niðurstaða.

Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, er kveðið á um að heimilt sé að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa sem teknar eru á grundvelli laganna. Mál þetta lýtur að ágreiningi um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfu kæranda á hendur þrotabúi vinnuveitanda.

 

Í 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að markmið laganna sé að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda eða þegar dánarbú vinnuveitanda er til opinberra skipta og erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að starfrækja skuli Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslur á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningum, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa eru síðan nánar skilgreindar í a-e lið 5. gr. laganna. Samkvæmt a-lið ákvæðisins tekur ábyrgð sjóðsins til krafna launamanns í bú vinnuveitanda um vinnulaun í allt að þrjá starfsmánuði í þjónustu vinnuveitanda og í b-lið ákvæðisins er kveðið á um að ábyrgð sjóðsins taki til krafna um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningasamningi hafi kröfuhafi ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða hafið sjálfstæðan rekstur á því tímabili. Samkvæmt c-lið sama ákvæðis tekur ábyrgð sjóðsins einnig til krafna um orlofslaun sem réttur hefur unnist til á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. laganna.

 

Í 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa er kveðið á um tilteknar undanþágur frá ábyrgð sjóðsins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum. Sama gildi um kröfur launamanns sem hafi verið eigandi, einn eða ásamt maka sínum eða öðrum nákomnum, að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafi haft umtalsverð áhrif á rekstur þess. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að lögum um Ábyrgðasjóð launa kemur meðal annars fram að í 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins sé „kveðið á um að kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um kröfur þeirra sem eiga, einir eða ásamt maka eða öðrum nákomnum, verulegan hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki ásamt því að hafa umtalsverð áhrif á rekstur þess. Hin rekstrarlega ábyrgð hvílir á stjórnendum hins gjaldþrota fyrirtækis auk þess sem þeir eiga að hafa yfirsýn yfir fjárhagsstöðu félagsins. Um hlutverk og ábyrgð félagsstjórnar og framkvæmdastjórnar er m.a. fjallað í 68. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Segir í ákvæði þessu að félagsstjórn fari með málefni félagsins og skuli annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Skal stjórnin annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Sambærileg ákvæði er að finna í lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Í 64. gr. gjaldþrotaskiptalaga er einnig kveðið á um að skuldara sem er bókhaldsskyldur sé skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar svo er ástatt að hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms. Í ljósi þessa er ekki talið eðlilegt að sjóðurinn ábyrgist kröfur framangreindra aðila um laun, launatengd réttindi og bætur vegna missis launa í uppsagnarfresti. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt þeir verði eftir atvikum taldir launamenn í skilningi skattalaga.“ Þá kemur einnig fram í fyrrnefndum athugasemdum að „að því er varðar stjórnarmenn sérstaklega má gera ráð fyrir að sjóðnum verði þrátt fyrir orðalag 1. mgr. heimilt að greiða kröfur slíkra aðila í undantekningartilvikum. Má sem dæmi gera ráð fyrir að kröfuhafi geti í einhverjum tilvikum sýnt fram á að skipan sín í stjórn félags hafi verið til málamynda og í raun aldrei ætlast til þess að hann skipti sér af störfum stjórnar.“

 

Í máli þessu liggur fyrir að bú vinnuveitanda var tekið til gjaldþrotaskipta 5. október 2020. Þá liggur fyrir ráðningarsamningur milli félagsins og kæranda, dags. 21. nóvember 2018, þar sem segir að kærandi sé ráðinn til starfa hjá félaginu sem stjórnandi. Í umsögn skiptastjóra, dags. 1. apríl 2022, kemur fram að krafa kæranda hafi verið samþykkt sem forgangskrafa en skiptastjóri telji kröfuna kunna að falla undir ákvæði 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa þar sem fram komi í hlutafélagaskrá að kærandi hafi setið í stjórn félagsins frá desember 2015 til 9. júlí 2020, en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta skömmu síðar eða 5. október 2020. Enn fremur kemur fram í umsögn skiptastjóra að kærandi hafi verið einn af þremur prókúruhöfum félagsins allt frá árinu 2015 þar til félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Að mati skiptastjóra hafi verið fyrirséð í júlí 2020 að félagið stefndi í þrot en það hafi á þeim tíma gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá kemur fram í umsögn skiptastjóra að rekstri félagsins hafi verið hætt í ágúst 2020 og öllum starfsmönnum verið sagt upp.

 

Í fyrrgreindum athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að lögum um Ábyrgðasjóð launa kemur fram, til viðbótar við það sem að framan er rakið, að með ákvæðinu séu lagðar til breytingar sem hafi í för með sér að í mörgum tilvikum ráðist það af huglægu mati hvort kröfur þeirra sem tengjast eigendum eða stjórnendum hins gjaldþrota fyrirtækis njóti ábyrgðar sjóðsins. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram, líkt og að framan er rakið, að Ábyrgðsjóði launa sé heimilt að greiða kröfur stjórnarmanna í undantekningartilvikum, svo sem þegar sýnt hefur verið fram á að skipan í stjórn félags hafi aðeins verið til málamynda og að ekki hafi verið ætlast til að viðkomandi gegndi raunverulegu hlutverki stjórnarmanns. Að mati ráðuneytisins bendir ekkert í gögnum málsins til þess að um slíkt tilvik hafi verið að ræða í máli þessu.

 

Ákvæði 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa kveður að mati ráðuneytisins með skýrum hætti á um að kröfur stjórnarmanna gjaldþrota félags njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum. Það er jafnframt mat ráðuneytisins að fyrrnefnt ákvæði einskorðist ekki við þau tilvik þar sem stjórnarmenn hafa átt sæti í stjórn á þeim degi sem félag er úrskurðað gjaldþrota. Á það ekki síst við í ljósi þess að ríkar skyldur hvíla á stjórnarmönnum félaga en þeim ber meðal annars að hafa yfirsýn yfir fjárhagsstöðu þeirra félaga sem þeir sitja í stjórn fyrir auk þess sem þeir bera ábyrgð á að skipulag og starfsemi félaga sem þeir sitja í stjórn fyrir sé í réttu og góðu horfi. Það er mat ráðuneytisins að meðal annars vegna þessarar skyldu hafi rök ekki þótt standa til þess að Ábyrgðasjóður launa ábyrgist kröfur slíkra aðila um laun, launatengd réttindi og bætur vegna missis launa í uppsagnarfresti og skiptir í því sambandi ekki máli þótt þeir verði eftir atvikum taldir launamenn í skilningi skattalaga líkt og að framan er rakið.

 

Það að kærandi hafi í máli þessu sagt sig úr stjórn hlutaðeigandi félags skömmu áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta kemur því að mati ráðuneytisins ekki í veg fyrir að 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa eigi við. Af gögnum málsins má ráða að félagið hafi verið í verulegum greiðsluerfiðleikum þegar kærandi sagði sig úr stjórn félagsins í júlí 2020 og að rekstri þess hafi verið hætt í ágúst sama ár með uppsögn allra starfsmanna. Að mati ráðuneytisins hafi því verið fyrirséð á þeim tíma þegar stjórnarsetu kæranda lauk að félagið hafi verið komið í verulegan greiðsluvanda og stefndi í gjaldþrot og stjórnarmönnum félagsins hefði mátt vera það ljóst.

 

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að Ábyrgðasjóði launa hafi borið að hafna ábyrgð sjóðsins á umræddri kröfu kæranda þar sem krafan hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um Ábyrgðasjóða launa fyrir ábyrgð sjóðsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 5. september 2022, um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu […] á hendur þrotabúi Lagoon Car Rental ehf., skal standa.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta