Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

8/2009

Mál nr. 8/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2010, mánudaginn 13. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2010 Landsamband sumarhúsaeigenda, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi, gegn Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð, Selfossi, hér eftir nefndur kærði.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur.

Með stjórnsýslukæru, dags 27. október 2009, kærði Sveinn Guðmundsson, hrl. f.h. Landsambands sumarhúsaeigenda únbogason HH hf.  (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar (hér eftir nefnd kærði) frá 3. desember 2009 um breytingu á gjaldskrá á sorphirðu í Grímsnes- og Grafningshreppi.  

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að ákvörðun um breytingu á sorphirðugjaldi verði felld úr gildi og að kærða verði gert skylt að hafa sorpílát opin og staðsett þannig að þau uppfylli ákvæði reglugerðar um meðhöndlun úrgangs.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 27. október 2009.   

2. Athugasemdir kærða dags. 7. janúar 2010.  

3. Athugasemdir kæranda dags. 19. janúar 2010.         

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð.

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd með bréfi Umhverfisráðuneytisins dags. 16. desember 2009.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. 

III. Málsatvik.

Í desember 2009 var ákvörðun tekin um breytingar á sorphirðugjaldi fyrir frístundahúsabyggð í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð.

Með stjórnsýslukæru dags. 27. október 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

Kærða var með bréfi dags. 21. desember 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 7. janúar 2010.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 7. janúar 2010 og bárust athugasemdir þann 17. janúar s.l.

IV. Málsástæður og rök kæranda.

Kærandi telur ákvörðun um hækkun sorphirðugjalda hafa verið einhliða án þess að fyrirliggjandi gjaldskrá hafi runnið sitt skeið á enda. Kærandi telur að gjaldskrá sem þegar hefur verið sett verði að fá að renna sitt skeið á enda áður en henni er breytt, eins og gildir með fasteignagjöld, þar sem sorphirðugjald er innheimt árlega samhliða fasteignagjöldum.

 

Kærandi telur einhliða ákvörðun um hækkun sorphirðugjalda vera ólöglega en þjónusta hefur einnig verið takmörkuð á þann hátt að móttökustöðvum hefur verið fækkað og gjaldskylda sett á úrgang sem ekki ber úrvinnslugjald. Kærandi telur alveg ljóst að þar sem móttökustöðvum hefur verið fækkað og opnunartími þeirra styttur sé ljóst að eigendur sumarhúsa í frístundabyggð Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar verði að fara með sorp með sér til þess byggðarlags þar sem það á lögheimili og því fargað þar.

 

Kærandi bendir á að reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 kveði á um skyldur sveitastjórna um að sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem falli til í sveitarfélaginu. Þá bendir kærandi á að kærða sé skylt samkvæmt nefndri reglugerð að farga sorpi frá öllum heimilum viðkomandi sveitarfélags og skuli  sjá til þess að staðsetning sorpíláta sé þannig að aðgangur að þeim sé góður. Þá bendir kærandi á  að í reglugerðinni sé sérstaklega vikið að sumarhúsahverfum varðandi sorpílát og staðsetningu þeirra n.t.t. í 6. gr. en þar segir að aðgengi að sorpílátum eigi að vera þannig að staðsetning sé hentug til að losa í þau þegar farið er frá svæðinu. Þau skuli vera opin þegar almennt er dvalið í sumarhúsunum í hverfinu og að aðgangur að þeim eigi að vera greiður.  Kærandi kveður suma frístundaíbúa þurfa að ferðast langar leiðir með sorp og að á sumum stöðum séu sorpstöðvar aðeins opnar yfir sumarmánuðina. Kveður kærandi framangreint ekki í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 737/2003.

 

Kærandi bendir á að kærði hafi byrjað að framfylgja samþykktum, reglum um takmörkun á þjónustu og hækkun á sorphirðugjaldi áður en þær voru endanlega samþykktar af hálfu Umhverfisráðuneytisins og að enn eigi eftir að auglýsa þær í B deild Stjórnartíðinda. Hann telur að með framangreindum hætti hafi mismunun átt sér stað milli fasteignaeigenda, en þar að auki mun gjaldtakan ekki endurspegla þjónustu sem kærendur fá við sorphirðu.

 

Þá bendir kærandi á að um 1800 frístundahús séu í hvoru sveitarfélagi eða samtals um 3600 og því um mikla hagsmuni að ræða, mikilvægt sé að aðgengi að sorpílátum sé gott en ekki takmarkað eins og nú er. Þá ítrekar kærandi skyldu kærða um staðsetningu sorpíláta í nánd við sumarhúsahverfi, en kærandi telur að þetta ákvæði reglugerðar um meðhöndlun úrgangs hafi aldrei verið uppfyllt.

 

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði bendir á að sveitarfélögin hafi staðið sameiginlega að setningu nýrra reglna og útboði á sorphirðu. Kærði gekk til samninga sumarið 2009 við lægstbjóðanda, Gámþjónustuna hf. Kærði kveður breytingar á gjaldskrá hafa verið samþykktar hjá hvoru sveitarfélagi þann 3. og 8. desember 2009 og þær samþykktar af Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Breytingarnar séu nú til afgreiðslu hjá Umhverfisráðuneytinu.

Kærði bendir á að þegar stjórnsýslukæra kæranda barst hafi umrædd gjaldskrá ekki tekið gildi, en gildistími hennar er upphaf árs 2010. Kærði bendur á að gjaldskráin sé enn til meðferðar hjá Umhverfisráðuneytinu og endanleg ákvörðun liggi því ekki fyrir. Kærði leggur áherslu á það sjónarnmið að þjónusta við fjærbúa hafi ekki tekið breytingum árið 2009 og að gámar hafi ekki verið fjarlægðir. Þar að auki sé gámaþjónusta opin á ákveðnum tímum og ekkert gjald innheimt fyrir móttöku á sorpi árið 2009. Verður það ekki innheimt fyrr en nýjar reglur hafa tekið formlega gildi. Kærði telur kæru kæranda varða kynningu á fyrirhuguðum breytingum sem höfðu ekki tekið gildi þegar kæran var lögð fram.

Kærði telur því að vísa beri stjórnsýslukæru kæranda frá, þar sem þau atriði er kæran varðar höfðu ekki tekið gildi þegar kæran var lögð fram. Þá hafi enginn aukakostnaður verið lagður á íbúa sveitarfélagsins árið 2009.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnar er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem og 1. mgr. 39. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Kæra kæranda er tvíþætt. Annars vegar ákvörðun kærða um hækkun á gjaldtöku vegna sorphirðu og hins vegar krafa um staðsetningu sorpíláta í sumarhúsabyggð.

 

Lög um meðhöndlun úrgangs hafa það að markmiði að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, sbr. 1. gr. laganna. Reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs er sett með stoð í 4. og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Markmið reglugerðarinnar er það sama og laga nr. 55/2003.

 

Varðandi fyrri hluta kæru kæranda um hækkun á gjaldtöku vegna sorphirðu þá kemur fram í gögnum málsins að breytingarnar voru kynntar á sveitarstjórnarfundi fyrir íbúum sveitarfélagsins í desember 2009 og einnig fyrir Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Heilbrigðiseftirlitið samþykkti breytingarnar án athugasemda. Reglurnar voru sendar Umhverfisráðuneytinu til staðfestingar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Var gjaldskráin staðfest af ráðuneytinu með nr. 70/2010.

 

Í 10. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 er að finna ákvæði um gjaldtöku. Í ákvæðinu segir að rekstraraðila förgunarstaðar sé skylt að innheimta gjald fyrir förgun úrgangs.  Eina viðmið ákvæðins um fjárhæð gjalds er að gjaldið eigi að nægja fyrir förgun úrgangs, þar með talin uppsetningu og rekstri viðkomandi förgunarstaðar.  Í 2. mgr. 10. gr. segir að sveitarfélagi sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangsog tengda starfsemi sem samræmist því markmiði laga um meðhöndlun úrgangs um að draga úr óæskilegum áhrifum úrgangs á umhverfið. Í ákvæðinu segir að sveitarfélagi sé heimilt að miða gjaldtöku við magn úrgangs, gerð, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Þá kemur fram í niðurlagi ákvæðisins að kærða sé einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Þá sé skylt að birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Af framangreindu ákvæði má ráða að kærða er heimilt að leggja sorpgjald á vegna meðhöndlunar úrgangs. Þá kveður ákvæðið á um heimild til að hækka gjald svo fremi sem það sé í samræmi við kostnað á förgun úrgangs. Ekkert hefur komið fram af hálfu kæranda um að ákvörðun um hækkun á sorphirðugjaldi sé í ósamræmi við 10. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þar sem kærða er heimilt að setja á sorpeyðingargjald og heimilt að kveða á um hækkun þess, verður ekki fallist á kröfu kæranda um að ákvörðun kærða um breytingu á sorpeyðingargjaldi verði felld úr gildi.


Varðandi seinni hluta kæru kæranda um staðsetningu á sorpílátum í sumarhúsabyggð, þá kemur fram í gögnum málsins að frá og með 1. október 2009 séu þrjár móttökustöðvar fyrir úrgang í sveitarfélögunum Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð starfandi, nánar tiltekið á Laugarvatni, í Reykholti og í Grímsnes- og Grafningshreppi. Ljóst er að opnunartími stöðvanna er skammur, ekki er opið alla daga vikunnar og opið skamman tíma í senn, yfirleitt um tvær til fjórar klukkustundir. Af 6. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs er ljóst að kærða ber að halda úti móttöku- og söfnunarstöðvum fyrir útgang sem fellur til í sveitarfélaginu. Í 4. mgr. 6. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs er sérstaklega kveðið á um fyrirkomulag sorpíláta í sumarhúsahverfi en þar segir að staðsetning sorpíláta skuli vera sem næst hverfinu og/eða þannig að hentugt sé að losa í það á leið frá hverfinu. Í niðurlagi ákvæðisins segir að sorpílátin skulu vera til staðar á því tímabili sem almennt er dvalist í húsunum í hverfinu og skal gætt að því að aðgangur sé greiður að sorpílátum, m.t.t. tegundar úrgangs. Af framangreindu er ljóst að kærða er skylt að hafa sorpílát í nánd við sumarhúsahverfi. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu og með þeirri breytingu sem kærði gerði á sorpmálum voru ákvæði 6. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs brotin, bæði að því er varðar opnunartíma og staðsetningu þeirra, þannig að hentugt sé að losa í þau þegar farið er frá svæðinu. Ber því að fallast á þann hluta í kröfu kæranda.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á kröfur kæranda um ógildingu á ákvörðun kærða um breytingu á gjaldskrá sorpeyðigjalds. Fallist er á kröfur kæranda að staðsetning sorpíláta í sumarhúsabyggð Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógarbyggð sé andstæð 6. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.                                                                   

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum