Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 519/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 519/2020

Þriðjudaginn 19. janúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. september 2020, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 4. ágúst 2020. Með ákvörðun, dags. 23. september 2020, var umsókn kæranda synjað á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. október 2020. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 11. desember 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2020, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til 76. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum sem þess þurfi skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Þá skuli öllum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Með vísan til þess eigi kærandi að fá atvinnuleysisbætur.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í a. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á launamanni. Þar segi að launamaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt sé tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um hvaða tímabil teljist til ávinnslutímabils atvinnuleitanda sem starfað hafi sem launþegi þegar ákvarða skuli rétt hans til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum. Samkvæmt því ákvæði beri við útreikning á bótarétti atvinnuleitanda að líta til starfstíma og starfshlutfalls umsækjanda. Launamaður í 100% starfshlutfalli, sem starfi samtals í þrjá mánuði, öðlist þannig rétt til lágmarks 25% grunnatvinnuleysisbóta. Starfi hann í sex mánuði ávinni hann sér rétt til 50% atvinnuleysisbóta. Hafi sá hinn sami starfað í níu mánuði á ávinnslutímabilinu eigi hann rétt til 75% atvinnuleysisbóta. Tólf mánaða starf í 100% starfshlutfalli veiti rétt til 100% atvinnuleysisbóta. Störf í lægra starfshlutfalli en 25% komi þó ekki til ávinnslu bótaréttar, sbr. a. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

Við mat á tryggingarhlutfalli kæranda sé horft til síðustu 36 mánaða frá því að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi borist til Vinnumálastofnunar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nægi störf kæranda á ávinnslutímabili ekki til ávinnslu lágmarksréttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins, það er að starfshlutfall og starfstími kæranda veiti honum ekki rétt til lágmarksbóta. Af þeim sökum hafi umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar verið hafnað. Samkvæmt upplýsingum frá skattinum hafi kærandi ekki starfað á síðastliðnum árum. Síðasta starf kæranda, sem Vinnumálastofnun sé kunnugt um, sé á tímabilinu 14. febrúar 2012 til 31. október 2012 þegar kærandi hafi starfað sem B.

Launamaður þurfi að hafa starfað í að minnsta kosti þrjá mánuði á ávinnslutímabili í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli til að geta talist tryggður á grundvelli laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekki starfað í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á ávinnslutímabili. Í ljósi alls framangreinds beri því að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna, eins og ákvæðið var þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur, telst launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. getur tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.

Við mat á tryggingarhlutfalli kæranda leit Vinnumálastofnun til síðustu 36 mánaða frá því að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur barst til stofnunarinnar. Þar sem kærandi starfaði ekki á innlendum vinnumarkaði á því tímabili hefur hann ekki áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga á grundvelli 15. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi hefur vísað til þess að hann eigi rétt á atvinnuleysisbótum á grundvelli 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að löggjafanum sé heimilt að setja í lög ákvæði um að einstaklingar þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að þeir öðlist rétt samkvæmt atvinnuleysistryggingakerfinu. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að kærandi eigi skilyrðislausan rétt til atvinnuleysisbóta á grundvelli framangreinds ákvæðis stjórnarskrárinnar.

Að því virtu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. september 2020, um að synja umsókn A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira