Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 537/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 537/2019

Fimmtudaginn 20. ágúst 2020

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með tölvupósti 1. júlí 2020 óskaði A eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 537/2019 þar sem staðfest var ákvörðun Kópavogsbæjar vegna umsóknar kæranda um stuðningsfjölskyldu fyrir son hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði inn umsókn hjá Kópavogsbæ með ósk um stuðningsfjölskyldu fyrir son sinn sem væri búsettur hjá honum aðra hvora viku. Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi þjónustudeildar fatlaðra 27. ágúst 2019 þar sem ákveðið var að kanna afstöðu móður barnsins til umsóknarinnar með vísan til þess að lögheimili þess væri hjá henni. Kærandi mótmælti þeirri afgreiðslu með erindi 2. september 2019. Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi þjónustudeildar fatlaðra 5. nóvember 2019 þar sem samþykkt var að sonur kæranda fengi stuðningsfjölskyldu í tvo sólarhringa á mánuði til 31. desember 2020. Með tölvupósti starfsmanns þjónustu- og ráðgjafardeild fatlaðs fólks 13. desember 2019 var kæranda tilkynnt að samkvæmt svari frá lögfræðideild stjórnsýslusviðs hafi afgreiðsla málsins verið rétt og í raun hafi verið skylt að kanna afstöðu móður barnsins til umsóknarinnar. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. desember 2019. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 2. apríl 2020. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar vegna umsóknar kæranda um stuðningsfjölskyldu.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku kemur meðal annars fram að ekki hafi verið farið rétt með málsatvik í úrskurðinum. Kvörtun kæranda hafi að mestu leyti snúið að því að kærufrestur hans hafi ekki verið virtur. Hvergi sé tekið á því lagalega álitamáli í úrskurðinum og því hafi kvörtun kæranda ekki fengið stjórnsýslulega meðferð hjá úrskurðarnefndinni.

Móðir barnsins hafi fengið samþykkta stuðningsfjölskyldu en þá hafi ekki þurft að hafa samráð við kæranda. Það sé því mjög einkennilegt að móðir barnsins hafi eitthvað um það að segja þegar kærandi óski eftir sömu þjónustu og hún hafi fengið. Það sé óeðlilegt inngrip og mjög einkennilegt að móðir hafi neitunarvald þegar komi að veitingu þjónustu, eins og fullyrt sé í úrskurðinum. Það sé því ljóst að ekki hafi verið að kanna afstöðu móður heldur hafi verið að leita eftir því hvort hún gæfi leyfi. Það sé því rangt þar sem fram komi í úrskurðinum að aðeins væri verið að „kanna afstöðu móður barnsins“.

Í kæru til úrskurðarnefndar hafi kærandi bent á að mótmæli hans hafi aldrei verið tekin til afgreiðslu hjá Kópavogsbæ og að málið hafi þar af leiðandi ekki fengið fullnægjandi stjórnsýslulega meðferð. Í úrskurðinum sé ekki tekin afstaða til þessa og því virðist verklag Kópavogsbæjar, þ.e. að veita tveggja vikna kærufrest og virða hann ekki, vera samþykkt. Kópavogsbær hafi ekki virt 13. grein stjórnsýslulaga og úrskurðarnefndin telji það í lagi. Það sé í mótsögn við úrskurðinn, enda mat nefndarinnar að Kópavogsbær hafi þurft að leita afstöðu móður samkvæmt 14. gr. sömu laga.

Kærandi gerir athugasemd við það að orðið „álitið“ hafi verið sett í hornklofa í úrskurði nefndarinnar. Ljóst sé að Kópavogsbær hafi talið að kærandi ætti ekki rétt á þjónustu vegna fötlunar sonar hans. Ef þjónusta sé veitt foreldrum barna með fötlun á grundvelli laga hefðu kærandi og sonur hans átt að fá þjónustu. Kópavogsbær hafi hins vegar talið að kærandi ætti ekki rétt á þjónustu. Í stjórnsýslulögum, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stjórnarskránni sé að finna bann við mismunun. Ef sonur kæranda sé fatlaður ættu þeir báðir að fá sömu þjónustu og aðrir. Það sé því ljóst að Kópavogsbær álíti son kæranda ekki fatlaðan á meðan hann sé í hans umsjá. Það þurfi enga hornklofa á það. Sömu ákvæði um bann við mismunun eigi við í þessu máli. Ef móðir sé búin að fá samþykkta þjónustu ætti kærandi að fá sömu umsókn samþykkta svo að barn geti fengið heildstæða og sambærilega þjónustu og önnur börn.

Þegar barnsmóðir kæranda hafi sótt um stuðningsfjölskyldu hafi Kópavogsbær ekki kannað afstöðu hans eins og eigi að gera samkvæmt barnalögum. Fyrst eigi foreldrar að ræða umsóknina og taka í kjölfarið sameiginlega ákvörðun. Þá  hafi það verið afstaða Kópavogsbæjar að um væri að ræða minniháttar mál sem kærandi þyrfti hvorki að vera upplýstur um né þátttakandi að. Á þeim tíma sem barnsmóðir kæranda hafi sent inn umsókn sína hafi barnið verið hjá honum allar helgar. Það hefði því þurft að draga úr hans umgengni svo að hægt hefði verið að veita henni þennan stuðning. Þrátt fyrir að Kópavogsbær hafi vitað um fyrirkomulag umgengni hafi þeim aldrei dottið í hug að kanna afstöðu kæranda eða athuga hvort barnsmóðir hans hefði hans samþykki. Nú beri svo við að Kópavogsbær telji að um sé að ræða meiriháttar ákvörðun. Úrskurðarnefndin hefði átt að óska eftir frekari rökstuðningi fyrir þessari viðhorfsbreytingu Kópavogsbæjar og leita eftir afstöðu Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar (GEF). Í stað þess taki úrskurðarnefndin undir nýjustu skoðun Kópavogsbæjar sem kærandi telji vera ófaglegt og rangt. Úrskurðarnefndin verði að rökstyðja þá niðurstöðu.

Kærandi óski eftir því að úrskurðarnefndin taki málið upp aftur og taki til meðferðar það lagalega álitamál sem upprunalega kvörtun hans hafi snúist um, þ.e. hvort ekki þurfi að virða tveggja vikna frest hans til að mótmæla.

III.  Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í endurupptökubeiðni kæranda er meðal annars vísað til þess að ekki sé rétt farið með málsatvik í úrskurði nefndarinnar og gerð athugasemd við að ekki hafi verið tekið á því álitaefni að mál kæranda hafi ekki fengið fullnægjandi stjórnsýslulega meðferð hjá Kópavogsbæ.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að úrskurður var kveðinn upp.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir hefur úrskurðarnefnd velferðarmála eftir atvikum heimild til að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur kæranda ekki hafa leitt í ljós slíkar vísbendingar. Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 537/2019 synjað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 537/2019 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira