Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

819/2019. Úrskurður frá 10. september 2019

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að umsóknargögnum tilteknar vörumerkjarumsóknar. Ekki var fallist á það að gögnin væru undanskilin upplýsingarétti þar sem óheimilt hafi verið að veita aðgang að þeim á grundvelli ákvæðis í vörumerkjalögum sem var við gildi þegar umsóknin var lögð fram. Þá féllst nefndin ekki á að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að gögnunum vegna 9. gr. upplýsingalaga en í þeim væri ekki að finna upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu. Var því Hugverkastofunni gert að veita kæranda aðgang að umsóknargögnunum.

Úrskurður

Hinn 10. september 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 819/2019 í máli ÚNU 19040004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. apríl 2019, kærði Árnason Faktor ehf. afgreiðslu Einkaleyfastofunnar (nú Hugverkastofunnar) á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem varða vörumerkjaumsókn nr. 635/1991, vegna skráningar orð- og myndmerkisins WORLD CLASS. Í kæru kemur fram að beiðninni hafi verið synjað að hluta með ákvörðun, dags. 7. mars 2019, á grundvelli 64. gr. laga um vörumerki, nr. 45/1997, áður en ákvæðinu var breytt með lögum nr. 44/2012. Í erindi Hugverkastofunnar til kæranda var áréttað að umbeðin gögn væru frá árinu 1991 og að vörumerkjaumsóknir og umsóknargögn hefðu ekki verið gerð aðgengileg almenningi fyrr en með breytingum á 64. gr. laga um vörumerki árið 2012. Þau gögn tengd umsókninni sem borist höfðu Hugverkastofunni eftir birtingardag viðkomandi vörumerkjaskráningar, 26. september 1991, voru hins vegar afhent kæranda.

Kærandi vísar til þess að umbeðin gögn heyri undir 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga óháð ákvæðum vörumerkjalaga. Kærandi ber því við að þrátt fyrir að gögnin hafi á einhverjum tímapunkti verið undanþegin aðgengi almennings breyti það því ekki að samkvæmt gildandi rétti sé skylt að veita aðgang að þeim, enda falli þau undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá lýsir kærandi þeirri afstöðu að 64. gr. vörumerkjalaga hafi ekki falið í sér sérstakt þagnarskylduákvæði og að fullyrðing í svari Hugverkastofunnar um að almenningur hafi ekki haft aðgang að gögnum sem vörðuðu umsókn vörumerkisins fyrir gildistöku breytingalaga nr. 44/2012 sé röng. Gögnin hafi fallið undir gildissvið þágildandi upplýsingalaga, nr. 50/1996, sem hafi mælt fyrir um að almenningur ætti rétt á aðgangi að slíkum gögnum.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 3. apríl 2019, var kæran kynnt Hugverkastofunni og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt óskaði úrskurðarnefndin eftir að henni yrði afhent afrit af hinum umbeðnu gögnum. Í umsögn stofnunarinnar, dags. 16. apríl 2019, er fjallað um lög og reglugerðir sem gilda á starfssviði Hugverkastofunnar og því lýst hvernig ákvæði vörumerkjalaga gangi framar upplýsingalögum, enda séu vörumerkjalög sérlög. Þá vísar Hugverkastofan til þess að kærandi sé ekki aðili að vörumerkjamáli því sem um ræðir. Um aðila máls gildi rýmri reglur um afhendingu gagna.

Í umsögn Hugverkastofunnar er fjallað um 64. gr. vörumerkjalaga og vísað til þess að leynd hafi ríkt um umsóknir sem voru til meðferðar hjá stofnuninni fram til ársins 2012. Fyrir breytingar á vörumerkjalögum, með lögum nr. 44/2012, hafi öllum verið heimilt að kynna sér efni vörumerkjaskrár en upplýsingarétturinn hafi eingöngu náð til þess sem væri skráð í hina eiginlegu skrá. Í greinargerð með ákvæðinu hafi skýrt verið tekið fram að réttur til vitneskju næði til þess sem í skrána væri skráð. Hafi þetta verið skýrt nánar með þeim hætti að réttur til að fá upplýsingar um skráð réttindi væri ýmist gegn gjaldi (afrit úr skránni) eða með fyrirspurn í síma. Á þessum tíma hafi öll samskipti stofnunarinnar, umsóknir og síðari erindi verið lögð inn á pappírsformi og aðeins svonefndar bókfræðilegar upplýsingar (umsóknar-, skráningar- og forgangsréttarnúmer, dagsetningar, heiti umsækjenda, merki flokkar o.s.frv.) hafi verið færðar í vörumerkjaskrá. Vörumerkjaskráin samanstandi enn aðeins af þessum upplýsingum.

Fyrir breytingu á 64. gr. vörumerkjalaga hafi almennt ekki verið veittar upplýsingar um það hvaða merki hefðu verið sótt eða hver staða þeirra væri. Það hafi átt við um upplýsingar um hvort sótt hefði verið um skráningu tiltekins merkis og á hvaða formi, hvort greitt hefði verið fyrir viðkomandi umsókn eða ekki, hvort umsókn væri í rannsókn, hvort henni hefði verið hafnað eða hún væri í svokölluðu rökstuðningsferli eða hvort umsókn hefði verið samþykkt til skráningar. Með lagabreytingunum árið 2012 hafi orðalag ákvæðisins verið rýmkað þannig að það næði einnig til umsókna um vörumerkjaskráningu, þ.e. til umsókna og annarra móttekinna gagna, þó að teknu tilliti til takmarkana skv. 2. mgr. 64. gr. vörumerkjalaga. Við þinglega meðferð frumvarpsins hafi þetta ekki verið talið nægjanlega skýrt og orðalagi ákvæðisins því breytt lítillega áður en það var samþykkt.

Fram kemur að Hugverkastofan telji ekki unnt að líta svo á, með hliðsjón af 64. gr. vörumerkjalaga, að skylda til afhendingar umsóknargagna til þeirra sem ekki eru aðilar máls taki til þeirra umsókna sem lagðar voru inn fyrir gildistöku breytingalaga nr. 44/2012. Við þá túlkun sé m.a. tekið mið af réttmætum væntingum umsækjenda fyrir breytingarnar sem ætlað gátu með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins að umsóknargögn þeirra yrðu ekki afhent almenningi. Þá vísar Hugverkastofan til þess að vörumerki séu eignarréttindi og að takmörkun aðgangs almennings að vörumerkjaumsóknum eigi sér stoð í 9. gr. upplýsingalaga. Hugverkastofan afhenti úrskurðarnefndinni í trúnaði afrit af umsóknargögnum þeim sem kæran lýtur.

Umsögn Hugverkastofunnar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 16. apríl 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir frá kæranda bárust úrskurðarnefndinni þann 6. maí 2019. Þar kemur fram að kærandi fallist ekki á röksemdir Hugverkastofunnar og fari fram á að ákvörðunin verði felld úr gildi og honum veittur aðgangur að þeim gögnum sem kæran beinist að.

Kærandi vísar til þess að upplýsingalög eigi, skv. 1. mgr. 2. gr. laganna, að ná til allra stjórnvalda, þ.m.t. Hugverkastofunnar, og að meginreglan sé sú að stjórnvaldi sé skylt að veita aðgang að umbeðnum gögnum nema í undantekningartilfellum sem talin eru upp í 6.-10. gr. laganna. Þá leiði af 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum þó að sérstök ákvæði um þagnarskyldu geti gert það. Samkvæmt almennt viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum beri stjórnvöldum að túlka undanþáguákvæði frá upplýsingarétti almennings þröngt. Það hafi hvergi komið fram í 64. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997 að ákveðnar vörumerkjaumsóknir væru undanþegnar aðgangi almennings. Því sé ekki hægt að telja að sérreglan í 64. gr. sé sérstakt þagnarskylduákvæði sem geri vörumerkjaumsóknir sem lagðar voru inn fyrir 1. júní 2012 undanþegnar aðgangi almennings.

Loks kemur fram að kærandi telji ljóst að umbeðin gögn geti ekki talist varða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari, sbr. 9 gr. upplýsingalaga. Gögnin varði hvorki viðkvæmar persónuupplýsingar né mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja, enda komi þar aðeins fram upplýsingar um nafn eiganda vörumerkisins og heimilisfang hans, merkið sjálft, umboðsmann eiganda og þá vöru og þjónustu sem viðkomandi merki er ætlað að auðkenna.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um það hvort umsókn um skráningu vörumerkis og fylgigögn með henni sem bárust fyrir breytingu á lögum um vörumerki nr. 45/1997 árið 2012 séu undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum en synjun Hugverkastofunnar á beiðni um aðgang á gögnunum er aðallega byggð á því að samkvæmt 64. gr. þágildandi vörumerkjalaga hafi umsóknir og umsóknargögn ekki verið aðgengileg almenningi. Þá byggir Hugverkastofan einnig á því að gögnin séu undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

Óumdeilt er að Hugverkastofan er stjórnvald og fellur því undir gildissvið upplýsingalaga. Eins og réttur almennings til aðgangs að gögnum er afmarkaður í upplýsingalögum er fyrst og fremst gerður áskilnaður um að þau séu fyrirliggjandi hjá aðila sem fellur undir gildissvið laganna, þ.e. að þau séu í vörslum hans þegar beiðni um upplýsingar berst. Að meginstefnu skiptir ekki máli hvenær umbeðin gögn urðu til eða hvenær þau bárust viðkomandi aðila sem skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögunum, sbr. 2. mgr. 35. gr. upplýsingalaga.

Fyrir gildistöku laga nr. 44/2012 um breytingu á lögum um vörumerki nr. 45/1997, hljóðaði 64. gr. laganna svo:

„Öllum er heimilt að kynna sér efni vörumerkjaskrárinnar, annað hvort með því að skoða hana eða með því að fá endurrit úr henni. Þá eiga allir rétt á að fá vitneskju um hvort merki er skráð.“

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um vörumerki kemur fram að 64. gr. endurspegli að vörumerkjaskráin sé „opin“ og að almenningur eigi rétt á að fá vitneskju um það sem skráð er þar, með þeim fyrirvara að greitt sé fyrir endurrit úr skránni.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að hún fellst ekki á það með Hugverkastofunni að framangreint ákvæði hafi falið í sér sérstaka þagnarskyldureglu sem gengið hafi framar ákvæðum upplýsingalaga. Enda er í ákvæðinu aðeins mælt fyrir um heimild almennings til þess að kynna sér efni vörumerkjaskrárinnar, en ekki vikið að neinum upplýsingum sem leynt skulu fara. Þá verður almennt ekki gagnályktað frá ákvæðum er heimila aðgang að tilteknum upplýsingum. Nefndin telur því að um aðgang að þeim upplýsingum sem ekki féllu undir ákvæðið hefði farið samkvæmt upplýsingalögum.

Hvað sem þessu líður er ljóst að með fyrrnefndum breytingum á vörumerkjalögum var aðgangur almennings að upplýsingum um vörumerkjaumsóknir rýmkaður enn frekar og segir nú í 64. gr. orðrétt:

„Öllum er heimilt að kynna sér efni vörumerkjaumsókna og skráninga. Vörumerkjaumsóknir eru aðgengilegar frá fyrsta virka degi eftir móttöku. Hugverkastofunni er óheimilt að veita almenningi aðgang að fylgiskjölum eða gögnum í heild eða að hluta sem geyma viðskiptaleyndarmál og varða almennt ekki skráningu merkis eða einkarétt á merki.“

Af framangreindu leiðir að eftir gildistöku laga nr. 44/2012 þann 15. júní 2012 leikur enginn vafi á því að efni vörumerkjaumsókna og skráninga er háð upplýsingarétti almennings með þeim takmörkunum sem gerðar eru í 2. mgr. 64. gr. laga nr. 45/1997. Ekkert í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 44/2012 færir stoð undir þá ályktun Hugverkastofunnar að það hafði verið ætlun löggjafans að eldri umsóknir skuli undanþegnar þeirri reglu að vörumerkjaumsóknir séu aðgengilegar almenningi.

Í umsögn sinni vísar Hugverkastofan til væntinga umsækjenda sem fyrir breytingar á vörumerkjalögum árið 2012 gátu, með hliðsjón af orðalagi 64. gr., ætlað að umsóknargögn þeirra yrðu ekki afhent almenningi. Eins og vikið er að hér að framan er úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki sammála því að þeir sem lögðu inn umsóknir fyrir lagabreytinguna hafi mátt vænta þess að upplýsingalög giltu ekki um aðgang að umsóknargögnum. Þá er einnig til þess að líta að viðskiptaleyndarmál eða aðrar upplýsingar sem varða ekki skráningu merkis eða einkarétt á merki eru skv. núgildandi 64. gr. vörumerkjalaga undanþegin upplýsingarétti. Þá má ætla að í þeim tilfellum sem upplýsingar í umsóknargögnum eru viðkvæmar, þ.e. varða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, eða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja, væru þær einnig undanþegnar upplýsingarétti almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

Í ljósi framangreinds geta umsækjendur um vörumerki nú sem áður treyst því að fjárhagslegar, persónulegar eða aðrar upplýsingar sem koma fram í umsóknargögnum og eðlilegt og sanngjarnt er að leynt fari verði ekki gerðar aðgengilegar almenningi.

Að mati Hugverkastofunnar á takmörkun á aðgengi almennings að umsóknargögnum sér stoð í 9. gr. upplýsingalaga. Skráning vörumerkis feli í sér skráningu á eignarréttindum sem teljist til fjárhags- og viðskiptamálefna einstaklinga og lögaðila. Í 9. gr. upplýsingalaga segir eftirfarandi:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá verði að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingarnar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings, meðal annars með hliðsjón af því hvort þær séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni þeirra gagna sem falla undir upplýsingabeiðni kæranda. Í fyrsta lagi er um að ræða umsóknareyðublað, 3 blaðsíður að lengd, þar sem fram koma upplýsingar um umsækjanda og aðsetur hans, hvaða merki óskast skráð, hver umboðsmaður umsækjanda sé og aðsetur hans, númer þeirra vöruflokka sem sótt er um og um kostnað við umsóknina. Umsóknin er undirrituð af starfsmanni umboðsmanns umsækjanda og innfært er á eyðublað af hálfu Vörumerkjaskrárritara hvenær umsóknin barst og hvaða númeri henni var úthlutað. Í öðru lagi er um að ræða erindi umboðsmanns umsækjanda, dags. 9. ágúst 1991, með myndum af merkinu og meðfylgjandi eru nokkur eintök af merkinu á sérblaði. Í þriðja lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að umboði Sigurjónsson & Thor hf., undirritað af umsækjanda sem og starfsmanni umboðsmanns.

Í gögnum sem úrskurðarnefndin hefur fengið afhent og varða vörumerkjaumsókn nr. 635/1991 er ekki að finna upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Þá er ekki hægt að fallast á að um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis sé að ræða. Upplýsingarnar sem fram koma eru almenns eðlis og hefur löggjafinn litið svo á að sambærilegar upplýsingar skuli vera aðgengilegar almenningi samkvæmt núgildandi vörumerkjalögum. Auk þess hefur Hugverkastofan afhent kæranda gögn vegna umsókna um endurnýjun sama vörumerkis frá árunum 2001 og 2012 þar sem fram koma sambærilegar upplýsingar um greiðslur, umboðsmann og afrit af umboði.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til þess að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Hugverkastofuna að veita kæranda aðgang að þeim.

Úrskurðarorð:

Hugverkastofunni ber að veita kæranda, Árnason Faktor ehf., aðgang að þeim gögnum sem varða vörumerkjaumsókn nr. 635/1991.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira