Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 135/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 135/2024

Fimmtudaginn 23. maí 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. mars 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. febrúar 2024, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 30. janúar 2023 og var umsóknin samþykkt 15. febrúar 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. febrúar 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hún hefði hafnað atvinnutilboði.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. mars 2024. Með bréfi, dags. 19. mars 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 16. apríl 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. apríl 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá því að kærandi hafi verið búsett á Ísland síðastliðin fimm ár. Hún hafi unnið og borgað skatta þar til hún hafi lent í bílslysi árið 2023. Það sé ástæða þess að hún hafi endað á atvinnuleysisbótum. Kærandi vilji vinna, hún sjái fyrir sér framtíðina á Íslandi þar sem öll fjölskylda hennar sé búsett. Kærandi hafi verið beitt viðurlögum vegna höfnunar á atvinnutilboði. Hún hafi hins vegar ekki alveg skilið símtalið sem hún hafi fengið, enda hafi það ekki verið á hennar tungumáli. Kærandi haldi jafnvel að símtalið hafi ekki verið ætlað henni þar sem hún hafi verið spurð hvort hún væri ekki karlmaður. Kæranda hafi ekki verið boðið að ræða málið augliti til auglitis, sem sýni hversu léleg samskipti hafi verið um að ræða.

Kærandi bendi á að hún sé í atvinnuleit og hún vilji líka læra íslensku. Hún þurfi að borga leigu og allar helstu nauðsynjar en sé nú án innkomu. Geðheilsa kæranda sé einnig í húfi því hún viti ekki hvernig hún eigi að lifa af. Kærandi óski því eftir að mál hennar verði endurskoðað.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysistryggingar þann 30. janúar 2023. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt með 100% bótarétti en með vísan til starfsloka hafi henni verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga.

Ferilskrá kæranda hafi verið send fyrirtækinu B þann 9. janúar 2024 og með tilkynningu frá atvinnurekanda, dags. 18. janúar 2024, hafi Vinnumálastofnun verið upplýst um að kærandi hefði hafnað atvinnutilboði í fiskvinnslu vegna heilsufarsástæðna. Með erindi, dags. 19. janúar 2024, hafi kærandi verið innt eftir skýringum vegna höfnunar á atvinnutilboði og henni boðið að skila inn gögnum og skýringum vegna þess ásamt athugasemdum, hefðu skýringar þegar verið sendar stofnuninni. Hvorki skýringar né gögn hafi borist frá kæranda og með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 1. febrúar 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um  niðurfellingu bótaréttar í þrjá mánuði samkvæmt 57. gr., sbr. 1. mgr. 61 gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 11. mars 2024 hafi borist skýringar frá kæranda ásamt beiðni um endurumfjöllun á ákvörðun stofnunarinnar. Í tölvupósti kæranda komi fram að viðtalið hafi farið fram símleiðis og á rússnesku, sem hún geti skilið en ekki talað. Þá hafi verið greint frá því að kærandi hefði átt bókaðan tíma hjá lækni og því ekki getað mætt í viðtal. Þar að auki væri hún bíllaus og ætti í erfiðleikum með að ferðast til Hafnafjarðar.

Vinnumálastofnun hafi óskað eftir frekari skýringum frá atvinnurekanda og samkvæmt tölvupósti framkvæmdastjóra B, dags. 14. mars 2024, hafi þeir sem séu boðaðir til viðtals forræði á því hvenær viðtalið fari fram og því hefði kæranda verið möguleg önnur tímasetning sem myndi ekki stangast á við læknatíma hennar. Með bréfi, dags. 15. mars 2024, hafi Vinnumálastofnun staðfest fyrri ákvörðun.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir leiti nýs starfs. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af almennum skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í athugasemdum með 57. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé tekið fram að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem bjóðist. Ástæðan sé einkum sú að atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þyki mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við það að hafna starfi.

Fyrir liggi að kærandi hafi verið boðuð til atvinnuviðtals hjá B. Kærandi hafi greint frá því að atvinnuviðtalið hafi farið fram á rússnesku og auk þess eigi hún ekki bifreið sem torveldi ferðalögum til Hafnafjarðar. Þá hafi kærandi sagst hafa upplýst um að hún væri að fara til læknis í viðtal sem hún hafi átt bókað. Meðal gagna í máli kæranda séu tölvupóstsamskipti Vinnumálastofnunar og atvinnurekanda en þar megi sjá að atvinnurekandi hafi haft samband við kæranda með aðstoð rússneskumælandi starfsmanns og hvernig fyrirkomulag fyrirtækisins væri við að boða fólk í viðtal. Upplýst hafi verið að kærandi hefði átt möguleika á því að ráða tímasetningum sjálf.

Að mati Vinnumálastofnunar hafi framferði kæranda augljóslega ekki verið þess eðlis að henni yrði boðið til atvinnuviðtals að nýju, sem jafna megi við það að hafna atvinnuviðtali. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun einkum til þess að atvinnurekandi hafi sett sig í samband við kæranda til að bjóða viðtal en hafi fengið þau svör sem fram komi í erindi til stofnunarinnar að kærandi hefði hafnað starfi vegna heilsufarsástæðna.

Í umsókn kæranda frá 30. janúar 2023 sé tungumálaþekking hennar tilgreind af henni sjálfri og í umsókninni segi að í íslensku og ensku sé hún með merkinguna A - lágmarkskunnátta en litháíska og rússneska séu bæði með merkinguna C - Fær notandi. Þær upplýsingar hafi borist atvinnurekanda þegar ferilskrá hennar hafi verið miðlað af Vinnumálastofnun og verði vart annað ráðið en að eðlilegt væri að ætla að viðtal sem fari fram á rússnesku ætti að vera kæranda vel skiljanlegt.

Að mati Vinnumálastofnunar sé ekkert sem skýrt gæti vandræði við samskipti á rússnesku ef tillit sé tekið til þeirrar skráningar sem fram komi í umsókn kæranda. Þá sé það jafnframt mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda, þess efnis að bifreiðaleysi hamli ferðum til Hafnafjarðar frá lögheimili kæranda sem sé í 101 Reykjavík, geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, enda sé greiður aðgangur að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Viðbrögð kæranda endurspegli áhugaleysi á starfinu að mati Vinnumálastofnunar. Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað því að mæta í atvinnuviðtal hjá B í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna atvinnuviðtali hafi verið réttlætanleg en í 4. mgr. segi orðrétt:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir því að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Kærandi hafi að mati Vinnumálastofnunar ekki veitt skýringar sem réttlæti höfnunar hennar á atvinnuviðtali hjá B.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað því að mæta í atvinnuviðtal í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ekki haft þar að baki gildar ástæður, sbr. 4. mgr. 57. gr. laganna. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kæranda hafi verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma við umsókn á grundvelli 54. gr. komi til ítrekunarákvæðis 1. mgr. 61. gr. og því séu viðurlögin þrír mánuðir.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57 gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 kemur fram:

„Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu.“

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda miðlað í starf hjá B. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun að kærandi hefði hafnað starfinu vegna heilsufarsástæðna. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi reynt að útskýra fyrir þeim sem hafi hringt í hana að hún ætti tíma hjá lækni og gæti því ekki komið í atvinnuviðtalið. Einnig að það væri erfitt fyrir hana að komast til Hafnarfjarðar þar sem hún ætti ekki bíl. Símtalið hafi ekki gengið vel og líklegast hafi verið um einhvern misskilning að ræða, enda hafi það ekki farið fram á hennar tungumáli. Í kjölfar skýringa kæranda óskaði Vinnumálastofnun eftir frekari upplýsingum frá fyrirtækinu. Í svari fyrirtækisins kemur fram að þeir sem séu boðaðir í atvinnuviðtal fái að stjórna tímasetningu viðtalsins og því hefði verið auðvelt að haga því þannig að það myndi ekki stangast á við læknatíma kæranda.

Að virtum framangreindum upplýsingum er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi í reynd hafnað atvinnuviðtali hjá B. Í 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um viðurlög við því að hafna atvinnuviðtali. 

Í 1. mgr. 61. gr. laganna er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði þann 15. febrúar 2023 á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laganna, kom til ítrekunaráhrifa samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. laga nr. 54/2006, staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. febrúar 2024, um að fella niður rétt A, atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum