Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 131/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 131/2020

Miðvikudaginn 19. ágúst 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 11. mars 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. desember 2019 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 12. desember 2019. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. desember 2019, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi stofnunarinnar og var rökstuðningur veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. janúar 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. mars 2020. Með bréfi, dags. 13. mars 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. mars 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur þann skilning í kæruna að kærandi óski eftir endurskoðun á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. desember 2019 um að synja kæranda um örorkulífeyri.

Með kæru lagði kærandi meðal annars fram bréf til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. mars 2020. Þar segir að óskað sé eftir endurupptöku ákvörðunar um synjun á mati á örorku. Vísað sé til rökstuðnings stofnunarinnar, dags. 16. janúar 2020, vegna umsóknar kæranda um mat á örorku.

Ekki verði séð með hvaða hætti rökstuðningur bréfsins tengist ákvæðum laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með beinum hætti og sé kæranda gert að fylla í eyðurnar. Þar sem efni umrædds bréfs sé rökstuðningur, samkvæmt titli þess, sé kæranda ekki annað fært en að óska eftir endurupptöku málsins á grundvelli þess annars vegar að málið hafi ekki verið fyllilega kannað, sbr. meginreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem lögfest sé með 10. gr. laganna, og hins vegar vegna þess að rökstuðningurinn sé ekki í samræmi við V. kafla stjórnsýslulaga með tilliti til 19. gr. sömu laga.

Hvað varði fyrra atriðið virðist sem Tryggingastofnun ríkisins byggi á gögnum sem séu ekki tiltæk. Samkvæmt svari við fyrirspurn kæranda um aðgang að þeim gögnum hjá VIRK, dags. 3. febrúar 2020, hafi þau gögn ekki verið til staðar.

Í ljósi þess að kærandi hafi vissulega sótt úrræði hjá VIRK, en sökum veikinda hafi það úrræði verið aðeins lítill þáttur í þeirri meðferð sem nýtt hafi verið, skjóti það skökku við að það úrræði hafi meira vægi en þau læknisfræðilegu úrræði sem tiltekin hafi verið, en það sé hreinlega ámælisvert að ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli gagna sem ekki hafi verið til. Hið rétta sé að skjalið sem vísað sé til sé mat á raunhæfi endurhæfingar sem sé, þegar þetta sé skrifað, komið vel á veg með að vera eins og hálfs árs gamalt.

Hvað varði annað atriðið sé það skylda þeirra sem taki ákvarðanir að vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á og þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið og þar fram eftir götunum. Óljóst sé að þetta sé tilfellið í þeim rökstuðningi sem vísað sé til. Óljóst sé einnig hvernig vægi fyrirliggjandi gagna sé metið. Kærandi spyr hvert sé vægi greiningar geðlæknis kæranda, B, sem hafi sinnt undirrituðum frá því að bera hafi farið á veikindum og hafi verið læknir kæranda á C við innlögnina þar. Í ljósi þess að úrræði hjá VIRK hafi vikið fyrir öðrum úrræðum sökum læknisfræðilegra ástæðna, þ.e. að mat og meðhöndlun þar til bærra sérfræðinga hafi á einhvern hátt minna vægi en félagslegt úrræði, sem kæranda hafi reynst ómögulegt að sækja öllum stundum, þyki honum tæpast vera í anda laganna miðað við augljóst eðli örorkumats.

Kærandi verði X ára í sumar, hann sé ófær um að stunda vinnu eða skóla og reiði sig á X til framfærslu, enda tekjulaus með öllu. Slíkt ástand sé ekki beinlínis til þess fallið að styðja við meðferð í veikindum og líklegra til að ýta enn fremur undir þau.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. desember 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hans þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað. Kærandi hafi hins vegar verið hvattur til að hafa samband við heimilislækni til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði séu.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði, séu sérstakar ástæður fyrir hendi. Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun með umsókn, dags. 12. desember 2019. Með bréfi, dags. 16. desember 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hans þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað. Kæranda hafi hins vegar verið bent á reglur er varði endurhæfingarlífeyri og hann verið hvattur til að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði séu.

Rökstuðningur fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið veittur með bréfi, dags. 16. janúar 2020. Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi sótt um endurhæfingarlífeyri í tvígang í upphafi árs 2019, annars vegar með umsókn, dags. 7. janúar, og hins vegar með umsókn, dags. 5. febrúar. Lagt hafi verið fram starfsendurhæfingarmat VIRK, dags. 19. desember 2018, og bréf frá VIRK, dags. 11. janúar 2019.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. janúar 2019, hafi verið óskað eftir frekari gögnum frá kæranda. Nánar tiltekið hafi verið óskað eftir endurhæfingaráætlun undirritaðri af umsækjanda og þeim sem hafi umsjón með henni, staðfestingu sjúkrasjóðs stéttarfélags um að áunnum rétti til greiðslna væri lokið eða réttur væri ekki til staðar sem og læknisvottorði.

Læknisvottorði hafi verið skilað til Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 10. apríl 2019. Önnur umbeðin gögn hafi hins vegar ekki borist. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. júlí 2019, hafi umsókn kæranda því verið vísað frá með þeim rökum að umbeðin gögn hefðu ekki borist til að hægt væri að leggja mat á umsókn hans.

Þjónustulokaskýrsla VIRK hafi borist Tryggingastofnun þann 5. desember 2019. Samkvæmt henni hafi kærandi hafið þátttöku í úrræðum á vegum VIRK þann 1. febrúar 2019 en þjónustulok séu skráð 3. júlí 2019. Samkvæmt framansögðu hafi engar greiðslur fylgt frá Tryggingastofnun samhliða þátttöku kæranda í úrræðum hjá VIRK.

Í kærumálsgögnum frá úrskurðarnefnd velferðarmála hafi fylgt með bréf kæranda, dags. 10. mars 2020, sem stílað sé á Tryggingastofnun ríkisins sem virðist þó ekki hafa borist stofnuninni.

Við mat á umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi tryggingalæknir stuðst við umsókn, dags. 12. desember 2019, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, læknisvottorð vegna umsóknar um örorkulífeyri, dags. 25. nóvember 2019, og starfsgetumat VIRK, dags. 19. desember 2018.

Í læknisvottorði, dags. 25. nóvember 2019, komi fram að kærandi eigi langa sögu um kvíðaeinkenni, einkum síðari hluta grunnskólagöngu og síðustu X ár hafi hann mætt lítið. Margskonar meðferðarúrræði hafi verið reynd, bæði í formi samtalsmeðferðar og einnig lyfjameðferðar. Kvíðaeinkenni séu hins vegar enn til staðar og vaxandi einangrun. Hann eigi að baki legu á legudeild C frá X 2018 en hafi verið vísað í VIRK og endurhæfingu hjá Janusi endurhæfingu sem hann hafi ekki náð að nýta sér vegna erfiðleika sinna. Að mati læknis sé kærandi ekki á leið á almennan vinnumarkað á næstunni. Sömu upplýsingar um heilsufar kæranda hafi komið fram í gögnum frá VIRK. Ekki sé um sérstaka skerðingu á líkamlegri færni að ræða.

Í rökstuðningi sem veittur hafi verið með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. janúar 2020, hafi verið vísað til þess að samkvæmt niðurstöðu frá VIRK hafi kærandi ekki nýtt sér meðferð á vegum VIRK og hafi verið mælt með áframhaldandi eftirliti og meðferð innan heilbrigðisþjónustu. Því hafi sú afstaða verið tekin af hálfu Tryggingastofnunar að mæla með áframhaldandi heilbrigðisþjónustu. Ekki hafi verið tímabært að setja kæranda í örorkumat heldur hafi þess í stað verið beitt þeirri heimild sem skýrt sé kveðið á um í 18. gr. laga um almannatryggingar. Að mati Tryggingastofnunar sé ekki útséð um að finna megi með aðstoð fagaðila viðeigandi úrræði að teknu tilliti til heilsufars og ungs aldurs kæranda sem stuðlað geti að starfshæfni hans, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði, heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Í áðurnefndu bréfi kæranda, dags. 10. mars 2020, til Tryggingastofnunar, sé það gagnrýnt að rannsókn málsins af hálfu Tryggingastofnunar hafi verið ófullnægjandi þar sem vísað hafi verið til gagna frá VIRK sem að teknu tilliti til aldurs þeirra hefðu ekki átt að hafa þýðingu við afgreiðslu málsins, auk þess sem rökstuðningur Tryggingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Tryggingastofnun telur að þessar athugasemdir eigi ekki við rök að styðjast. Í fyrsta lagi hafi umrædd gögn, þ.e. starfsendurhæfingarmat VIRK, miðað við skoðunardag 19. desember 2018 annars vegar og hins vegar staðfesting VIRK, dags. 11. janúar 2019, um að beiðni læknis vegna kæranda hafi borist, en þessi gögn hafi borist með netpósti frá kæranda þann 23. janúar 2019. Þær upplýsingar sem fram komi í þessum gögnum séu í samræmi við önnur gögn sem liggi fyrir og vísað sé til hér að framan.

Varðandi skort á tilvísun til réttarreglna sé bent á að í höfnunarbréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 16. desember 2019, og rökstuðningi, dags. 16. janúar 2020, hafi verið með réttum og fullnægjandi hætti vísað í 18. gr. laga um almannatryggingar. Auk þess megi benda á að Tryggingastofnun hafi kynnt sér aðstæður kæranda og leiðbeint honum um réttindi hans og skyldur að því er varði reglur um endurhæfingarlífeyri og örorkubætur, sbr. 37. gr. laga um almannatryggingar.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og vísa þess í stað á viðeigandi úrræði innan ramma reglna um endurhæfingarlífeyri hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. desember 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 10. október 2019, þar sem fram kemur að kærandi sé óvinnufær. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„Geðlægðarlota, ótilgreind, F32.9

Kvíðaröskun, ótilgreind, F41.9

Félagsfælni, F40.1“

Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„Löng saga um kvíðaeinkenni einkum síðari hluta grunnskólagöngu og síðustu X ár mætti hann lítið. Meðganga og fæðing og þroskasaga eðlileg.

[Kærandi] hefur verið skjólstæðingur undirritaðs og C til margra ára. Margskonar meðferðarúrræði hafa verið reynd, bæði í formi samtalsmeðferðar og einnig lyfjameðferð. Svarað illa SSRI lyfjameðferð, hamlandi kvíðaeinkenni hafa verið til staðar og vaxandi einangrun. Á í raun erfitt með að komast út úr húsi heima hjá sér, fær líkamleg einkenni, svitnar, hækkaður blóðþrýstingur og púls einnig. [Kærandi] á að baki legu á legudeild C frá X 2018. Á legudeildinni var gert mat á einhverfuröskun en uppfyllti ekki greiningarskilmerki um slíkt. Vísað í VIRK í kjölfarið. Byrjaði þar X 2018 og var X mánuði í þjónustu. Vísað í Janus endurhæfingu sem hann náði ekki að nýta sér vegna erfiðleika sinna. Því vísað aftur í heilbrigðiskerfið til meðferðar og uppvinnslu.

Að mati undirritaðs er um að ræða ungan mann með hamlandi kvíðaeinkenni sem leitt hafa til mikillar einangrunar og vanvirkni. Farið í gegnum margvísleg meðferðarúrræði og ljóst að [kærandi] er ekki á leið inn á almennan vinnumarkað á næstunni.“

Fyrir liggur einnig læknisvottorð E, dags. 10. apríl 2019, sem fylgdi með umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri, en þar kemur fram eftirfarandi sjúkdómsgreining:

„Kvíðaröskun, ótilgreind F41.9“

Um lýsingu á tildrögum, gangi og einkennum sjúkdóms segir:

„Hamlandi kvíða og vanvirkni, meira og minna í ca X ár. Kvíðinn hefur leitt til félagslegrar einangrunar, á erfitt með að fara úr húsi og ítrekað ekki mætt í viðtöl í göngudeild *C vegna kvíða og vanlíðunar. Hræðist margmenni og nýjar aðstæður. Var í eftirliti á C síðustu árin, Útskrifaður þar nú,“

Í samantekt, rökum og meginforsendum tillagna um meðferð segir í læknisvottorðinu:

„Núverandi vinnufærni: Ekki á vinnumarkaði áður, félagsfælni ogkvíði

Framtíðar vinnufærni: Ekki veirð á vinnumarkaði áður. Félagsfælni“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni hans. Af svörum hans verður ráðið að vegna geðrænna vandamála eigi hann í erfiðleikum með að sinna ýmsum athöfnum daglegs lífs.

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 3. júlí 2019, segir um ástæðu þjónustuloka:

„[Kærandi] var á matsbraut Janus endurhæfingar frá 25/3 til 24/5 [2019]. Hann náði ekki að nýta sér úrræðið vegna veikinda og mætti aðeins í 2 viðtöl á matstímanum og ekki heldur í mat hjá geðlækni Janusar þrátt fyrir ítrekaðar boðanir af þeirra hálfu. [Kærandi] fór í mat hjá Virk í upphafi þjónustu og náði ekki að uppfylla þau markmið. Í samráði við tengilið D, F og lækni hans, B, er honum því vísað til meðferðar og uppvinnslu í heilbrigðiskerfinu. B mun hafa milligöngu um að leggja inn beiðni fyrir [kæranda] á LSH“.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint um að sækja um greiðslur endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af geðrænum toga og hefur hann verið í nokkurri starfsendurhæfingu vegna þeirra. Samkvæmt læknisvottorði B, dags. 25. nóvember 2019, telur læknir kæranda hann vera óvinnufæran og ekki á leið inn á almennan vinnumarkað á næstunni. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 3. júlí 2019, að starfsendurhæfing á þeirra vegum og Janusar endurhæfingar sé fullreynd að sinni. Ekki verður dregin sú ályktun af matinu að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á frekari starfsendurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Kærandi byggir á því að rökstuðningur Tryggingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga segir að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Þá segir svo í 2. mgr. 20. gr. laganna:

„Þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skal veita leiðbeiningar um:

   1. heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda,

   2. kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru,

   3. frest til þess að bera ákvörðun undir dómstóla ef slíkur frestur er lögákveðinn.“

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið.

Fyrir liggur að kærandi óskaði eftir rökstuðningi frá Tryggingastofnun vegna ákvörðunar stofnunarinnar og var rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 16. janúar 2020. Úrskurðarnefndin telur að rökstuðningur Tryggingastofnunar hafi ekki verið fullnægjandi, enda var ekki fjallað um þann málslið 18. gr. laga um almannatryggingar sem niðurstaða Tryggingastofnunar byggðist á. Það var aftur á móti gert í hinni kærðu ákvörðun frá 16. desember 2019. Þrátt fyrir framangreindan annmarka á rökstuðningi stofnunarinnar verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi vegna hans þar sem efnisleg niðurstaða Tryggingastofnunar er rétt að mati úrskurðarnefndarinnar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. desember 2019 um að synja kæranda um örorkumat.

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. desember 2019, um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira