Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 463/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. maí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 463/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24020199

 

Kæra [...]

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 26. febrúar 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 12. febrúar 2024, um frávísun frá Íslandi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi frá Mílanó, Ítalíu, 12. febrúar 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 12. febrúar 2024, var kæranda frávísað frá landinu.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga en fram kom í ákvörðuninni að hann ætti ógreidda skuld við ríkissjóð. Í skýrslu lögreglu, dags. 13. febrúar 2024, er vísað til afskipta lögreglu af kæranda á Keflavíkurflugvelli. Fram kemur að kæranda hafi í þrígang verið vísað frá Íslandi.

Í fyrstu upplýsingatöku kvaðst kærandi ætla að dvelja á Íslandi í fimm daga, og framvísaði farmiða frá Íslandi 19. febrúar 2024. Þá hafi kærandi sýnt fram á fjármuni á greiðslukorti og lögregla rætt við hann um vinkonu sem byggi á Íslandi. Kæranda hafi síðar verið birt ráðstöfun um að halda sig á Keflavíkurflugvelli, sbr. 15. gr. laga um landamæri.

Í annarri upplýsingatöku hafi lögregla spurt kæranda út í skuldaviðurkenningar sem hann hafi undirritað í kjölfar ákvarðana lögreglu um brottvísun dagana 9. og 27. janúar 2024. Kærandi kvaðst ekki vita hvernig ætti að greiða skuldir sínar og því hafi hann ekki gert það. Lögreglufulltrúi hafi því bent kæranda á að hann hafi fengið leiðbeiningar samhliða birtingu fyrri skuldaviðurkenninga. Þar hafi m.a. komið fram að ógreiddar skuldir gætu leitt til frávísunar í samræmi við h-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Í upplýsingatökunni hafi kærandi einnig verið spurður út í systkini sín.

Í þriðju upplýsingatöku hafi lögregla haft samband við bróður kæranda en í ljós hafi komið upplýsingar sem væru í ósamræmi við fyrri yfirlýsingar kæranda og taldi lögregla kæranda því hafa ítrekað logið eða gefið villandi upplýsingar um tilgang dvalar sinnar, tengsl sín við fólk á Íslandi og bókanir um hótel og flugmiða. Þá hafi kæranda verið tilkynnt að honum yrði frávísað vegna ógreiddra skulda sinna við íslenska ríkið sem kærandi hafi undirritað. Fram kemur að stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi útvegað kæranda flugmiða og var honum birt ný skuldaviðurkenning, dags. 12. febrúar 2024 sem hann undirritaði.

Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 26. febrúar 2024. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 12. mars 2024.

III.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið til landsins og verið stöðvaður af lögreglu og meinuð innganga í landið. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi fyrirspurnir lögreglu að mestu varðað fyrri komur kæranda til landsins, þar sem honum hafi verið frávísað. Tilgangur kæranda hafi verið að skoða Ísland, höfuðborgina og náttúru Íslands. Á engum tímapunkti í skýrslutöku kæranda, sem lögmaður hans hafi verið viðstaddur, hafi kæranda verið veittar upplýsingar eða honum kynnt skuld hans við íslenska ríkið vegna fyrri frávísana hans.

Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga vegna ákvarðana sem teknar voru 9. og 27. janúar 2024. Kærandi byggir á því að hinar fyrri ákvarðanir lögreglu hafi verið ólögmætar og því sé ólögmætt að láta kæranda bera kostnað af ákvörðunum sem ekki hafi verið fullnægjandi lagastoð fyrir. Þá hafi lögregla tekið það upp á eigin spýtur að fjárfesta í flugmiðum fyrir kæranda í kjölfar fyrri ákvarðana. Að sögn kæranda sé sú framkvæmd í ósamræmi við reglur laga um útlendinga og því geti ekki myndast endurkröfuréttur á hendur kæranda sem geti réttlætt frávísun á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Þar að auki hafi verulegir annmarkar verið á málsmeðferð lögreglu varðandi töku ákvörðunar auk upplýsinga um tilurð eða grundvöll hinnar meintu skuldar sem ákvörðun hafi grundvallast á. Kærandi hafi ekki verið upplýstur um skuldina né tilurð hennar né heldur veittur kostur á því að greiða skuldina svo hann gæti fengið inngöngu í landið. Að sögn kæranda hafi lögregla beitt sig óþarflega íþyngjandi og hörðum aðgerðum. Hann hafi verið reiðubúinn að greiða skuldina hefði honum gefist þess kostur til eða í það minnsta verið upplýstur um skuldina. Hafi lögregla brotið gegn leiðbeiningarskyldu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar með framangreindu, sbr. 7. og 12. gr. stjórnsýslulaga.

Að mati kæranda sé ljóst að lögregla hafi horn í síðu hans, þar sem honum sé ítrekað meinuð landganga án fullnægjandi lagastoðar og virðist reglur stjórnsýsluréttarins að engu hafðar við málsmeðferð og töku ákvarðana. Loks telur kærandi að lögregla hafi virt andmælarétt hans að vettugi með því að gefa honum ekki kost á því að tjá sig um skuldina sem ákvörðunin byggist efnislega á og koma á framfæri gögnum er varða grundvöll ákvörðunarinnar fyrir töku hennar. Vísar kærandi því til þess að lögregla hafi farið umfram það sem meðalhófi gegnir við töku stjórnvaldsákvarðana sem hafi bakað kæranda fjártjón að tilefnislausu.

 IV.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda byggir á h-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017.

Í 106. gr. laga um útlendinga er kveðið á um frávísun við komu til landsins. Samkvæmt ákvæðinu er m.a. heimilt að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu þegar hann hefur ekki greitt kostnað hins opinbera við fyrri færslu hans úr landi, sbr. 1. mgr. 107. gr., eða sekt sem honum var gert að greiða meðan á fyrri dvöl hans stóð, sbr. h-lið ákvæðisins.

Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a. laga um útlendinga tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins samkvæmt a-j-lið 1. mgr. 106. gr. laganna. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna.

Í hinni kærðu ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum var kæranda frávísað á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda birtar tvær skuldaviðurkenningar, dags. 10. og 28. janúar 2024. Kærandi hafi þó neitað að undirrita fyrri viðurkenninguna sem vottað er af lögreglumanni. Telur kærunefnd þá afstöðu kæranda ekki hafa áhrif enda bera gögn málsins með sér að umrædd skuldaviðurkenning hafi sannarlega verið birt fyrir kæranda. Samtala umræddra skuldaviðurkenninga er [...] kr. en af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi greitt skuld sína við ríkissjóð.

Í röksemdum kæranda gegn ákvörðun lögreglu er m.a. vísað til þess að fyrri ákvarðanir lögreglu hafi verið ólögmætar og geti ekki myndast endurkröfuréttur gagnvart kæranda í ljósi þess. Þar að auki hafi kærandi borið fyrir sig að hann hafi ekki fengið nægar upplýsingar um tilurð eða grundvöll hinnar meintu skuldar og ekki gefinn kostur á því að greiða hana.

Um er að ræða kærða stjórnvaldsákvörðun sem grundvallast að töluverðu leyti á niðurstöðu tveggja stjórnvaldsákvarðana, sem lögregla tók 9. og 27. janúar 2024. Allar framangreindar ákvarðanir hafa verið kærðar til kærunefndar sem hefur kveðið upp tvo úrskurði, nr. 453/2024 og nr. 462/2024, en úrskurður þessi er vegna þriðja málsins. Ljóst er af atburðarás málanna að ákvörðun lögreglu, dags. 12. febrúar 2024, um frávísun vegna skuldar við ríkissjóð hafi verið rétt að efninu til við töku ákvörðunarinnar. Þrátt fyrir það er ljóst að með úrskurði nr. 462/2024 hafi ákvörðun lögreglu dags. 27. janúar verið felld úr gildi. Af úrskurðinum leiðir jafnframt að skuld kæranda vegna ákvörðunar lögreglu hafi byggst á röngum forsendum, sem ekki verður grundvöllur frávísunar með vísan til h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Úrskurður kærunefndar nr. 453/2024 felur í sér að réttaráhrif fyrri ákvörðunar lögreglu, dags. 9. janúar 2024, standa óhögguð, en kunna þó að vera endurskoðuð af lögreglu, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd ekki forsendur til þess að fella úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 12. febrúar 2024, vegna ólögmætis fyrri ákvarðana lögreglu.

Af gögnum málsins liggur fyrir að kærandi hafi haft nægar upplýsingar um réttaráhrif skuldar sinnar við ríkissjóð og hvernig honum bæri að bera sig að varðandi greiðslu skuldarinnar. Enn fremur hafi hann haft nægt ráðrúm til þess að greiða skuld sína, en skuldaviðurkenningar voru birtar fyrir kæranda 10. og 28. janúar 2024 en ákvörðun um frávísun tekin 12. febrúar 2024. Í stað þess að greiða skuld sína hafi kærandi ákveðið að koma til Íslands þar sem hann vissi eða mátti vita að skuldin gæti leitt til frávísunar, sbr. h-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er staðfest.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum