Hoppa yfir valmynd

Nr. 367/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. ágúst 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 367/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060041

 

Kæra […]

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. júní 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu, (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 19. júní 2021, um frávísun frá Íslandi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi Wizz Air nr. W61539 frá Varsjá, Póllandi, hinn 17. júní 2021. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 19. júní 2021 var kæranda frávísað frá landinu. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 21. júní 2021 en meðfylgjandi kæru voru athugasemdir kæranda og fylgigögn. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun lögreglu á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 23. júní 2021 synjaði kærunefnd beiðninni. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 23. júní 2021.

III.          Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda væri frávísað frá Íslandi á grundvelli a- og c-liða 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð lögreglu til kærunefndar, dags. 22. júní 2021, kemur fram að skömmu fyrir miðnætti þann 17. júní 2021 hafi tollverðir í flugstöð Leifs Eiríkssonar óskað eftir aðstoð lögreglu vegna aðila sem hafi ekki getað gert nægilega grein fyrir því hvað þeir væru að fara að gera á Íslandi, þ. á m. kærandi. Hafi hann framvísað vegabréfi útgefnu frá Georgíu, hann hafi ekki verið með neinn innritaðan farangur á leið sinni til Íslands en væri með 20 kg tösku skráða á flug sitt til baka. Hafi lögregla rætt við kæranda með aðstoð félaga hans, […], sem talaði góða ensku. Hafi kærandi sagst vera að koma til Íslands sem ferðamaður í tíu daga, hann hafi ferðast með tveimur góðum vinum sínum og að þeir ætluðu sér að dvelja á sóttkvíarhóteli í fimm daga. Hafi kærandi tekið fram að hann og félagar sínir væru ekki bólusettir en hafi framvísað PCR-prófi vegna Covid-19. Hafi kærandi tjáð lögreglu að eftir fimm daga dvöl á sóttkvíarhóteli ætluðu þeir sér að leigja ódýrustu bílaleigubifreiðina sem þeir gætu fundið og bóka hótel jafnóðum á leið sinni um landið. Þá hafi kærandi kvaðst ætla að skoða eldgosið en hafi ekki getað gert grein fyrir því hvaða aðra staði hann ætlaði sér að skoða. Við skoðun á vegabréfi kæranda hafi mátt sjá D-áritun útgefna í Póllandi með gildistíma frá 23. maí til 27. október 2021. Aðspurður hvort kærandi væri búsettur í Póllandi hafi hann svarað því neitandi en hann væri að vinna þar í landi. Hafi kærandi haft meðferðis 455 evrur í reiðufé og kvaðst vera með um 700 evrur á greiðslukorti. Hafi kærandi framvísað flugmiða til baka þann 27. júní 2021. Hafi lögregla tekið ákvörðun um að synja kæranda landgöngu í landið til bráðabirgða á grundvelli 2. mgr. 106. gr. laga um útlendinga og hafi hann verið færður á Aurora hótel á meðan skoðað hafi verið hvort hann uppfyllti skilyrði um inngöngu í landið með tilliti til mögulegrar frávísunar.

Er vísað til þess að hinn 18. júní hafi kæranda verið birt ákvörðun um frávísun á grundvelli a- og c-liða 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Hafi kærandi brugðist ókvæða við og ætlað að leita réttar síns með aðstoð lögmanns vegna ákvörðunar lögreglu. Þann 19. júní 2021 hafi tveir lögreglumenn úr stoðdeild ríkislögreglustjóra farið að hitta kæranda en ásamt honum í herberginu hafi verið áðurnefndir félagar hans. Hafi lögreglumennirnir útskýrt fyrir kæranda og félögum hans á nákvæman hátt að þeim hefði verið frávísað á grundvelli ákvæða laga um útlendinga og birt fyrir þeim nýjar ákvarðanir um frávísun, byggðar á c- og d- liðum 1. mgr. 106. gr. laganna. Hafi þeir sagst skilja ákvarðanirnar en neitað að undirrita þær og viljað fá tækifæri til að ræða við lögmann. Ef niðurstaða í máli þeirra yrði sú að þeir myndu ekki fá landgöngu myndu þeir fara til Póllands aftur hinn 23. júní 2021 og greiða flugmiðana sjálfir.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi sé staddur á Keflavíkurflugvelli og verði fluttur úr landi við fyrsta tækifæri nema ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum verði felld úr gildi áður en til þess kemur. Málsatvik séu með þeim hætti að fyrst hafi kæranda verið birt ákvörðun lögreglu þann 17. júní 2021 um frávísun á landamærum, á þeim forsendum að kærandi hefði ekki gilt vegabréf, enga heimild til komu og dvalar og gæti ekki sýnt fram á tilgang dvalar. Þann 19. júní 2021 hafi lögreglumenn komið til hans og birt honum nýja ákvörðun, einnig dagsetta þann 17. júní 2021, þar sem forsendum frávísunar hafði verið breytt. Byggi síðari ákvörðunin á því að kærandi geti ekki sýnt fram á tilgang dvalar og hafi ekki næg fjárráð til þess að sjá fyrir sér á meðan dvöl stendur og/eða til þess að fara úr landi að nýju að dvöl lokinni. Að mati kæranda sé ljóst að ákvörðuninni hafi verið breytt eftir að kærandi leitaði til lögmanns, sem bent hefði á að forsendur frávísunar stæðust ekki. Séu forsendar hinnar nýju ákvörðunar einnig rangar enda komi á daginn að ástæða þess að kærandi hafi verið hnepptur í varðhald lögreglu og honum frávísað sé allt önnur og ótengd. Munnlega hafi kæranda verið tjáð að honum yrði ekki sleppt og að honum yrði vísað frá landinu vegna þess að lögreglan teldi hann kominn hingað til lands til að stunda þjófnað. Þetta komi þó hvergi fram í skriflegri ákvörðun lögreglunnar. Þá hafi lögregla gefið þær skýringar munnlega að ástæður frávísunar tengist heimsfaraldri Covid-19, þó það komi heldur ekki fram í hinni kærðu ákvörðun. Af þessum misvísandi og síbreytilegu forsendum lögreglu fyrir því að frelsissvipta kæranda og vísa honum frá landi megi vera ljóst að ákvörðunin sé ekki byggð á lögmætum grundvelli.

Vísar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun sé byggð á því að kærandi geti ekki sýnt fram á ástæður komu eða dvalar og hafi ekki ráð á að halda sér uppi hér á landi og/eða til þess að fara aftur frá landi. Við komu til landsins hafi kærandi framvísað gildu georgísku vegabréfi með gildistíma til 5. febrúar 2028 og í vegabréfinu sé Schengen-áritun útgefin af pólskum stjórnvöldum þann 14. maí 2021 með gildistíma til 27. október 2021. Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga um útlendinga gildi vegabréfsáritun sem gefin sé út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu til komu og dvalar hér á landi þann tíma sem tilgreindur sé í árituninni. Sé því ljóst að kærandi hafi gild ferðaskilríki, leyfi til komu og dvalar þann tíma sem tilgreindur er í árituninni, auk flugmiða til Póllands þann 27. júní 2021 sem styðji við frásögn hans af tilgangi dvalar hér á landi, auk þess sem kærandi hafi ráð á að fara úr landi aftur að dvöl lokinni. Kærandi hafi ætlað sér að dvelja á Íslandi í nokkra daga, hafi verið með flugmiða aftur til Póllands auk þess að vera með samtals 1155 evrur. Séu forsendur hinnar kærðu ákvörðunar því rangar og beri af þeirri ástæðu að fella hana úr gildi. Þá sé ljóst að raunverulegar ástæður frelsissviptingar og frávísunar kæranda hafi verið aðrar en þær sem komi fram í hinni kærðu ákvörðun og sé um misbeitingu valds að ræða vegna órökstudds gruns lögreglu um að kærandi hafi ætlað sér að brjóta af sér hér á landi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda byggir á c- og d-liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, með síðari breytingum.

Í 106. gr. laga um útlendinga er kveðið á um frávísun við komu til landsins. Heimilt er að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu þegar hann hefur ekki tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu eða getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni, sbr. c-lið ákvæðisins, og þegar hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi nægileg tryggð fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar, sbr. d-lið ákvæðisins. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ákvæði c-liðar mæli fyrir um að heimilt sé að vísa útlendingi frá landi ef hann geti ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn sé upp fyrir dvölinni. Sé ákvæðið efnislega samhljóða c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar). Þá er í greinargerðinni vísað til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri nr. 866/2017. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a. laga um útlendinga tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins samkvæmt a-j lið 1. mgr. 106. gr. laganna. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna. Þá segir í greinargerðinni um ákvæði d-liðar að meta þurfi hverju sinni hvenær útlendingur teljist hafa nægileg fjárráð, m.a. skuli tekið mið af lengd og tilgangi dvalar. Mat á fjárráðum megi byggja á reiðufé, ferðatékkum og greiðslukortum sem útlendingur sé handhafi af. Þá kæmi jafnframt til skoðunar hvort útlendingur hafi fengið dvalar- og atvinnuleyfi áður en hann komi til landsins. Skilyrði um nægileg fjárráð til heimferðar yrði t.d. fullnægt með framvísun farmiða.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 866/2017, með síðari breytingum, er mælt fyrir um skilyrði fyrir komu útlendinga til landsins sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar. Kemur þar fram að útlendingur sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, sem hyggst dvelja á Schengen-svæðinu, þ.m.t. Íslandi, í allt að 90 daga á 180 daga tímabili verður, auk þeirra skilyrða sem koma fram í 106. gr. laga um útlendinga, að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í a-d liðum ákvæðisins. Eru skilyrðin eftirfarandi: Að framvísa gildum, lögmætum og ófölsuðum ferðaskilríkjum eða öðru kennivottorði sem heimilar honum för yfir landamæri, sbr. viðauka 3. Ferðaskilríki skal vera gefið út á sl. 10 árum til þess að það teljist gilt og gildistími ferðaskilríkis vera í a.m.k. þrjá mánuði umfram brottfarardag, sbr. a-lið. Hafa gilda vegabréfsáritun sé hann ekki undanþeginn áritunarskyldu, nema hann hafi gilt dvalarleyfi eða gilda vegabréfsáritun til langs tíma, sbr. viðeigandi viðauka í reglugerð um vegabréfsáritanir, sbr. b-lið. Má ekki vera skráður í Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að meina honum komu til landsins, sbr. c-lið. Má ekki vera talinn ógna þjóðaröryggi, allsherjarreglu, almannaheilsu eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis, sbr. d-lið. Við mat á því hvort útlendingur samkvæmt 1. mgr. teljist hafa nægileg fjárráð til dvalar hér á landi skuli meðal annars tekið mið af lengd og tilgangi dvalar og mat á fjárráðum megi byggja á reiðufé, ferðatékkum og greiðslukortum sem hann sé handhafi af.

Til sönnunar á framangreindum skilyrðum 5. gr. reglugerðarinnar fyrir komu sé fullnægt sé landamæraverði m.a. heimilt að krefja útlending samkvæmt 1. mgr. um eftirfarandi gögn vegna ferðalaga af persónulegum ástæðum: Gögn sem sýna fram á tryggt húsnæði, t.d. boðsbréf frá gestgjafa eða önnur gögn sem sýna fram á hvar viðkomandi hyggst búa, gögn sem staðfesta ferðaáætlun, staðfesting bókunar á skipulagðri ferð eða önnur gögn sem varpa ljósi á fyrirhugaða ferðaáætlun og gögn varðandi heimsferð, s.s. farmiða.

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér á landi í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Kærandi er ríkisborgari Georgíu og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi, sé hann handhafi vegabréfs með lífkennum. Af fyrirliggjandi gögnum málsins er jafnframt ljóst að kærandi er með D-áritun útgefna af pólskum stjórnvöldum.

Líkt og greinir í II. kafla úrskurðarins var það mat lögreglu að kærandi hefði ekki getað leitt líkum að þeim tilgangi sem gefinn var upp fyrir dvölinni. Fyrirhuguð dvöl kæranda var á tímabilinu 17. júní til 27. júní 2021 og af þeim tíma var ætlun kæranda að dvelja í fimm daga á sóttkvíarhóteli. Kvaðst kærandi ætla sér að leigja ódýrustu mögulegu bílaleigubifreiðina að þeim tíma loknum og bóka hótel jafnóðum á leiði sinni um landið. Við mat á því hvort skilyrðum c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga sé fullnægt er líkt og áður greinir unnt að líta til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri, með síðari breytingum, en ákvæðið mælir fyrir um ákveðin hlutlæg skilyrði sem lögreglu er heimilt að krefja þriðja ríkis borgara um á landamærunum. Kærandi framvísaði ekki gögnum til lögreglu sem sýndu fram á dvalarstað á Íslandi á meðan fyrirhugaðri dvöl stæði, s.s. bókanir á hótelgistingum né trúverðuga ferðaáætlun. Þá er ljóst að kærandi ætlaði um helming dvalartímans að dveljast í sóttkví. Að mati kærunefndar stóð það kæranda nærri að framvísa slíkum gögnum, að beiðni lögreglu, auk þess sem skortur á slíkum gögnum dregur verulega úr trúverðugleika dvalar kæranda hér á landi.

Með vísan til framangreinds fellst kærunefnd á það mat lögreglu að kærandi hafi ekki getað leitt líkur að þeim tilgangi sem hann hafi gefið upp fyrir dvöl sinni hér á landi. Voru skilyrði til frávísunar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Hvað varðar frávísun kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga þá framvísaði kærandi 455 evrum í reiðufé auk þess sem hann kvaðst vera með um 700 evrur á greiðslukorti. Jafnframt framvísaði kæranda flugmiða til heimferðar hinn 27. júní 2021. Með vísan til þess er það mat kærunefndar að hin kærða ákvörðun renni ekki nægum stoðum undir frávísun á þeim grundvelli.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga staðfest.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er staðfest.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira