Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 400/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 400/2021

Fimmtudaginn 4. nóvember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. ágúst 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. ágúst 2021, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 30. júní 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. ágúst 2021, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hann væri ekki skráður með lögheimili á Íslandi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 3. september 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. september 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann sé með lögheimili í B en hafi starfað á Íslandi síðan 2017 sem kennari og verkefnastjóri. Á þeim tíma hafi kærandi verið búsettur á haust- og vorönnum á C. Kærandi sé íslenskur ríkisborgari, með lögheimili í B þar sem kona hans og börn búi. Síðastliðinn vetur hafi kærandi sótt kennslufræðinám við Háskóla Íslands og eftir áramótin 2021 hafi hann verið í 50% starfi. Sá samningur hafi runnið út 30. júní 2021 en nýr samningur hafi verið gerður við kæranda sem hafi tekið gildi 1. ágúst 2021. Á þeim grundvelli hafi hann sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunnar fyrir júlímánuð. Þeirri umsókn hafi verið hafnað á þeirri forsendu að hann sé með lögheimili í B. Kærandi óski þess að sá úrskurður verði felldur úr gildi og að hann fái greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuð 2021 á þeirri forsendu að hann hafi og sæki áfram vinnu hér á landi og sé með aðsetur á C

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 30. júní 2021. Með erindi, dags. 9. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið synjað. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafi kærandi ekki verið með skráð lögheimili á Íslandi og því ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. c-lið 13. gr. og c-lið 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda um atvinnuleysistrygginga launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði þess að launamaður teljist tryggður samkvæmt lögunum. Þá sé í 1. mgr. 18. gr. að finna hin almennu skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum sé að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. og c-lið 1. mgr. 18. gr. Með lögum nr. 94/2020 um breytingu á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerð breyting á ákvæðum c-liðar 1. mgr. 13. gr. og c-liðar 1. mgr. 18. gr. Áður hafi í lögum um atvinnuleysistryggingar aðeins verið kveðið á um skilyrði um að vera búsettur og staddur á Íslandi til að eiga rétt til atvinnuleysistrygginga. Með umræddum breytingarlögum hafi skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. og c-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið breytt með þeim hætti að nú sé jafnframt gert að skilyrði að aðili sé með skráð lögheimili á Íslandi.

Í athugasemdum með 2. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 94/2020 um breytingu á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi að með þessari breytingu væri verið að bregðast við úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 173/2017 þar sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á greiðslum atvinnuleysisbóta til einstaklings sem hafi verið með skráð lögheimili í erlendu ríki. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafi Vinnumálastofnun borið að meta búsetu umsækjanda óháð opinberri skráningu á lögheimili hans, enda hefði stofnunin ekki heimildir til annars samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Þessi túlkun hafi leitt til þess að Vinnumálastofnun hafi borið að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem hafði skráð lögheimili sitt erlendis. Í athugasemdum með 2. gr. segi jafnframt að skráning lögheimilis samkvæmt lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur feli í sér tiltekna tilhögun opinberrar skráningar á búsetu sem geti veitt einstaklingi ýmis réttindi. Sá sem sé með skráð lögheimili í erlendu ríki kunni að eiga rétt til atvinnuleysistrygginga í því landi þar sem lögheimili sé skráð eða annars konar greiðslna vegna atvinnumissis í gegnum önnur tryggingakerfi þar í landi. Heimildir Vinnumálastofnunar til að afla upplýsinga um stöðu eða tekjur atvinnuleitanda nái aftur á móti ekki til tryggingakerfa eða skattyfirvalda í erlendum ríkjum. Með því að gera það að almennu skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að umsækjandi sé með skráð lögheimili á Íslandi sé þannig meðal annars komið í veg fyrir að atvinnuleitandi fái samtímis greiddar atvinnuleysisbætur úr tveimur mismunandi og ósamrýmanlegum tryggingakerfum í fleiri en einu ríki.

Fyrir liggi að kærandi sé ekki með skráð lögheimili á Íslandi. Kærandi uppfylli því ekki almenn skilyrði atvinnuleysistrygginga, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. og c-lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til alls ofangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga, enda uppfylli hann ekki almenn skilyrði þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. og c-lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því hafi borið að synja umsókn hans um greiðslu atvinnuleysistrygginga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann væri ekki með lögheimili á Íslandi.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. Ákvæðinu var breytt með lögum nr. 94/2020, um breytingu á lögum nr. 54/2006, en áður var einungis gert að skilyrði að vera búsettur og staddur hér á landi. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna segir um þessa breytingu:

„Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi sé með skráð lögheimili á Íslandi, bæði þegar umsækjandi er launamaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna. Með þessari breytingu er brugðist við úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 22. júní 2017 í máli nr. 173/2017, sem fyrr segir, þar sem úrskurðarnefndin felldi úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja einstaklingi sem var með skráð lögheimili í erlendu ríki um greiðslu atvinnuleysisbóta. Að mati nefndarinnar bar Vinnumálastofnun að meta búsetu umsækjanda óháð opinberri skráningu á lögheimili hans enda hefði stofnunin ekki heimildir til annars samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Þá hefur framkvæmd laganna sýnt að oft reynist Vinnumálastofnun erfitt að afla gagna og staðreyna hvar aðili er í raun búsettur og staddur þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur hér á landi. Til að bregðast við þessu er lagt til að það verði gert að almennu skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi, hvort sem hann er launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sé með skráð lögheimili á Íslandi í samræmi við lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018.“

Óumdeilt er að kærandi er ekki með skráð lögheimili hér á landi og er því ljóst að hann uppfyllir ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. ágúst 2021, um að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira