Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 316/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 316/2021

Fimmtudaginn 9. september 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um tilhögun og lengd orlofstímabils.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 15. apríl 2021. Með ákvörðun, dags. 26. maí 2021, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 100%. Þá var kæranda tilkynnt að hann væri skráður í orlof á tímabilinu 15. til 28. apríl 2021 og 31. maí til 9. júlí 2021 og fengi því ekki greitt fyrir þá daga. Það fyrirkomulag væri í samræmi við 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir því að taka hluta orlofsins utan orlofstímabilsins en var synjað með erindi Vinnumálastofnunar 24. júní 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. júní 2021. Með bréfi, dags. 29. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 5. ágúst 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. ágúst 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. ágúst 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé atvinnulaus og hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Greiðslustofa hafi ákveðið að kæranda bæri að taka orlof í 78 daga frá 26. júní til 15. september 2021, enda þótt hann ætti einungis inni 32 daga samkvæmt síðasta launaseðli.

Í samræmi við kjarasamning sem kærandi hafi starfað eftir sé honum heimilt að taka þá daga sem séu umfram 20 utan sumarleyfistímabilsins 2. maí til 30. september ár hvert. Kærandi hafi óskað eftir því við Vinnumálastofnun en því hafi verið hafnað. Kærandi hafi þegar gert ráðstafanir til að taka frí í september.

Kærandi sé ósáttur og kæri ákvörðun Greiðslustofu, annars vegar um tímasetningu á orlofi og hins vegar á lengd þess tíma sem kæranda sé gert að taka orlof.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að meðal gagna málsins sé staðfesting á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda kæranda sem hafi borist stofnuninni þann 30. apríl 2021. Komi þar fram að kærandi hafi lokið störfum 5. apríl 2021 og að hann hafi fengið 47 ótekna orlofsdaga greidda út við starfslok.

Þann 5. maí hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist tilkynning þess efnis að kærandi hafi óskað eftir því að orlofstaka færi fram á tímabilinu 31. maí til 9. júlí 2021. Í kjölfarið hafi kærandi verið skráður í orlof á umræddu tímabili, þ.e. í 30 daga. Kærandi hafi að auki verið skráður í orlof dagana 15. apríl til 28. apríl 2021 þar sem kærandi hafi samkvæmt staðfestingu á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda fengið 47 orlofsdaga greidda út við starfslok. Sjö virkir dagar hafi liðið frá því að kærandi hafi lokið störfum og þar til hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga. Hafi hann því samtals verið skráður í orlof í 40 daga.

Með erindi, dags. 26. maí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði verið samþykkt. Kæranda hafi sömuleiðis verið tilkynnt að með vísan til ótekins orlofs hans hjá fyrrum vinnuveitanda væri hann skráður í orlof á tímabilinu 15. apríl 2021 til 28. apríl 2021 og á tímabilinu 31. maí 2021 til 9. júlí 2021. Hann fengi því ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þá daga sem hann væri skráður í orlof, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að honum væri heimilt að óska eftir því að taka orlofsins færi fram á öðru tímabili, en orlofstökunni þyrfti þó að vera lokið fyrir lok orlofstímabilsins, þ.e. fyrir 15. september 2021.

Þann 26. maí 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist beiðni frá kæranda um breytingu á töku orlofsins. Kærandi kveðist aðeins hafa fengið 32 daga greidda út við starfslok og hafi kærandi óskað eftir því að taka orlofsins færi fram með þeim hætti að seinasti dagur orlofsins yrði skráður þann 30. september 2021. Kæranda hafi í kjölfarið verið greint frá því að ekki væri hægt að verða við beiðni hans þar sem hann þyrfti að taka út alla orlofsdaga sína fyrir 15. september 2021. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að samkvæmt staðfestingu á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda hans hafi hann fengið 47 orlofsdaga greidda út við starfslok. Teldi kærandi þær upplýsingar rangar hafi þess verið óskað að Vinnumálastofnun yrði látin í té ný staðfesting á starfstímabili með réttum upplýsingum um ógreidda orlofsdaga við starfslok.

Þann 23. júní 2021 hafi kærandi áréttað beiðni sína um að taka orlofsins færi fram með þeim hætti að seinasti dagur orlofsins yrði skráður þann 30. september. Athygli kæranda hafi aftur verið vakin á því að einstaklingar þurfi að vera búnir að taka út orlof sitt fyrir 15. september og því væri ekki hægt að verða við beiðni hans. Til að koma til móts við kæranda hafi taka orlofsins þó alfarið verið færð til tímabilsins 26. júlí til 15. september 2021. Mistök hafi hins vegar orðið við skráningu orlofsins á umræddu tímabili, þess efnis að kærandi hafi verið skráður í orlof á tímabilinu 26. júní til 15. september. Þau mistök hafi verið leiðrétt og sé taka orlofs kæranda nú skráð á tímabilinu 26. júlí til 15. september. Þá hafi jafnframt komið í ljós við skráninguna að aðeins hafi 38 orlofsdagar verið skráðir, en ekki 40 líkt og réttilega hafi átt að vera skráðir. Í ljósi þess að um mistök stofnunarinnar hafi verið að ræða hafi verið tekin sú ákvörðun að kærandi skyldi aðeins skráður í orlof í 38 daga og því hafi umrædd skráning ekki verið leiðrétt.

Ágreiningur málsins snúi að því hversu marga orlofsdaga kærandi hafi fengið greidda út við starfslok og hvort honum sé heimilt að haga töku orlofsins með þeim hætti að seinasti dagur orlofsins sé skráður þann 30. september 2021.

Samkvæmt 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið sé á um upplýsingar í tengslum við umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli launamaður þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur tilgreina hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi. Jafnframt sé Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda til að staðreyna slíkar upplýsingar. Eins og rakið hafi verið þá sé meðal gagna í máli þessu staðfesting á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda kæranda. Þar komi fram að kærandi hafi fengið 47 orlofsdaga greidda út við starfslok. Kærandi kveðist hins vegar aðeins hafa fengið 32 orlofsdaga greidda við starfslok. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að ef hann teldi þær upplýsingar sem fram kæmu í vottorði fyrrum vinnuveitanda hans rangar, þyrfti Vinnumálastofnun að berast nýtt vottorð með réttum upplýsingum. Vinnumálastofnun hafi ekki borist ný staðfesting á starfstímabili sem styðji staðhæfingar kæranda um að hann hafi aðeins fengið 32 orlofsdaga greidda út við starfslok. Það sé því mat stofnunarinnar að fara skuli eftir þeim upplýsingum sem stofnunin hafi undir höndum frá fyrrum vinnuveitanda kæranda, þess efnis að kærandi hafi fengið 47 orlofsdaga greidda út við starfslok. Hins vegar vegna mistaka við skráningu orlofsins, eins og rakið hafi verið í málsatvikum, hafi það verið mat stofnunarinnar að rétt hafi þótt að kærandi skyldi aðeins skráður í orlof í 38 daga.

Í 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um þær greiðslur sem atvinnuleitandi kunni að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum og séu ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður. Hafi verið talið eðlilegt að líta á slíkar greiðslur sem ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. sé kveðið á um ótekið orlof sem greitt hafi verið út við starfslok. Segi þar orðrétt:

,,Hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.“

Atvinnuleitandi teljist því ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemi þeim orlofsdögum sem hann hafi ekki nýtt sér þegar hann hafi hætt störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslok.

Hvað varði ágreining í máli þessu er snúi að því hvort kæranda sé heimilt að haga töku orlofsins með þeim hætti að seinasti dagur orlofsins sé skráður þann 30. september 2021, telji Vinnumálastofnun að rétt sé að falla frá þeirri ákvörðun. Stofnunin hafi því leiðrétt skráningu kæranda í orlof með þeim hætti að seinasti dagur orlofsins sé 30. september 2021. Kærandi hafi því verið skráður í orlof á tímabilinu 10. ágúst 2021 til 30. september 2021.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga í 38 daga með vísan til ótekins orlofs hans hjá fyrrum vinnuveitanda, sbr. 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Að mati stofnunarinnar sé kæranda hins vegar heimilt að ráða tilhögun orlofs síns.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um tilhögun og lengd orlofstímabils kæranda. Undir rekstri málsins féllst Vinnumálastofnun á beiðni kæranda um tilhögun orlofsins og því lýtur ágreiningur málsins einungis að fjölda orlofsdaga sem kærandi fékk greidda út við starfslok hjá fyrrum vinnuveitanda.

Í 51. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um greiðslur sem eru ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. kemur fram að hver sá sem fengið hefur greitt út orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um.

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir svo:

„Lagt er til að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemur þeim orlofsdögum sem hann hafði ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslokin. Þó er gert ráð fyrir að umsækjandi geti tilgreint á umsókn um atvinnuleysisbætur hvenær hann ætli að taka út orlof sitt á orlofstímanum og er miðað við að hann hafi tekið út orlofið fyrir lok næsta orlofstímabils eða 15. september ár hvert, sbr. lög nr. 30/1987, um orlof. Kemur orlofsgreiðslan þá til frádráttar fyrir þann tíma sem hinn tryggði ætlaði í orlof samkvæmt umsókninni en ekki þegar í upphafi tímabilsins.“

Samkvæmt gögnum málsins voru starfslok kæranda 5. apríl 2021 og átti hann þá 47 ótekna orlofsdaga sem greiddir voru út við starfslok, sbr. staðfestingu á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda hans. Kærandi sótti ekki um atvinnuleysisbætur fyrr en sjö virkum dögum eftir að hann lauk störfum og var því skráður í orlof í 40 daga. Vegna mistaka Vinnumálastofnunar við skráningu orlofsins var því síðar breytt í 38 daga. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi einungis átt 32 daga í orlof við starfslok. Vinnumálastofnun vakti athygli kæranda á því að ef hann teldi upplýsingar á vottorði vinnuveitanda vera rangar þyrfti hann að skila inn nýju vottorði þess efnis. Engar frekari upplýsingar bárust frá kæranda og verða því fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda hans lagðar til grundvallar. Að því virtu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um skráningu orlofsdaga kæranda staðfest. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um skráningu orlofsdaga A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira