Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 16/2023

Úrskurður nr. 16/2023

 

Fimmtudaginn 10. ágúst 2023 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með bréfi dags. 21. febrúar 2023, kærði […] (hér eftir kærandi), kt. […], ákvörðun embættis landlæknis, dags. 24. nóvember 2022, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku á áliti embættisins frá 22. ágúst 2006.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kæra byggir á óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um kæruheimild til æðra stjórnvalds.

I. Málavextir og málsmeðferð ráðuneytis.

Samkvæmt gögnum málsins kvartaði kærandi til embættis landlæknis þann 27. apríl 2005 vegna meints heilsutjóns, miska og örorku vegna læknismeðferðar á Landspítala. Bera gögn málsins með sér að kærandi hafi verið lögð inn á geðdeild Landspítala í apríl og maí 1995 og verið í samtalsmeðferð á árunum 1995-1997. Í kvörtun greinir kærandi frá aðstæðum sínum á geðdeildinni sem hún taldi m.a. hafa falið í sér andlegt ofbeldi. Eftir að innlögn lauk hafi læknar verið sinnulausir um meðferð hennar sem hafi stuðlað að þróun áframhaldandi andlegra veikinda. Þann 22. ágúst 2006 lauk embætti landlæknis málinu með áliti án þess að gerðar væru athugasemdir við þá heilbrigðisþjónustu sem hún hafði hlotið. Þann 30. júní 2022 óskaði kærandi eftir því við landlækni að málið yrði tekið upp að nýju en eins og áður greinir synjaði embættið beiðninni þann 24. nóvember sl.

 

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna sem barst með bréfi, dags. 13. mars 2023. Kærandi gerði athugasemdir við umsögnina þann 3. apríl 2023. Lauk þá gagnaöflun í málinu og var það tekið til úrskurðar.

 

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru vísar kærandi til þess að þann 31. ágúst 2021 hafi komið fram upplýsingar sem hún hafi talið vera mikilvægar og ekki legið fyrir við upphaflega meðferð málsins hjá embætti landlæknis, en um sé að ræða eiginlega sjúkdómsgreiningu á því heilsutjóni sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir vegna fyrrgreindrar heilbrigðisþjónustu. Kærandi byggir á því að ekki sé ómögulegt að fá faglegt mat í a.m.k. einhverjum hluta málsins þótt langt sé liðið frá atvikum málsins. Bendir kærandi á að einn þeirra þriggja lækna sem kvartað hafi verið undan sé enn starfandi. Rekur kærandi ítarlega þau atvik sem voru tilefni kvörtunar hennar til embættisins. Byggir kærandi á því að mál hennar beri merki um alvarlegan gæðaskort í þjónustu geðdeildar Landspítala, lítt vönduð vinnubrögð og almennt neikvætt viðhorf til einstaklinga með geðræn vandamál. Telur kærandi að atvik málsins séu tilefni til endurupptöku. Kvörtunarefnið bendi til alvarlegra vandamála í þjónustunni sem ekki sé hægt að una við auk þess sem málið hafi tilfinningalegt gildi fyrir kæranda sem hafi þörf fyrir viðurkenningu á því sem hafi raunverulega gerst.

 

III. Málsástæður og lagarök embættis landlæknis.

Embætti landlæknis telur ekki tilefni til að fallast á endurupptöku málsins. Ekki verði séð að veigamiklar ástæður séu fyrir endurupptöku og að hafa verði í huga að kvörtunin varði heilbrigðisþjónustu sem veitt hafi verið fyrir 27 árum. Þá séu 17 ár liðin frá því embættið hafli lokið málinu með áliti. Vísar embættið einnig til þeirra tímafresta sem tilgreindir eru í 24. gr. stjórnsýslulaga, sem og 4. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Litlar líkur séu á því að unnt sé að upplýsa atvik með fullnægjandi hætti til að landlæknir geti veitt faglegt álit þar sem of langt sé um liðið.

IV. Athugasemdir kæranda.

Í athugasemdum kæranda er fjallað um skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku, t.a.m. að krafist sé samþykki annarra aðila máls og hvort það samþykki þurfi að liggja fyrir á sama tíma og beiðni um endurupptöku sé lögð fram til þess að réttur til endurupptöku sé talinn vera fyrir hendi. Kærandi telur einnig að hugtakið „veigamiklar ástæður“ sé ógagnsætt og að varpa þurfi ljósi á hvaða viðmið séu lögð til grundvallar við túlkun á því. Að því er varðar tíma frá atvikum telur kærandi að ekki sé útilokað að upplýsa um málið þótt langt sé liðið. Þá sé margt óljóst í forsendum embættis landlæknis fyrir ákvörðun um að synja um endurupptöku. Beiðni um endurupptöku hafi verið lögð fram fyrst og fremst þar sem ný meðferð hefði þýðingu fyrir kæranda.

V. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að kæru kæranda á synjun embættis landlæknis á beiðni kæranda um endurupptöku á kvörtunarmáli.

Ráðuneytið hefur talið að einstaklingar sem lagt hafa fram kvörtun til embættis landlæknis hafi heimild til að kæra ákvarðanir embættis landlæknis um synjun á endurupptöku slíkra mála til ráðuneytisins, sbr. úrskurð þess nr. 6/2022. Með vísan til úrskurðarins og álits umboðsmanns Alþingis frá 28. febrúar 2014, í máli nr. 7323/2012 verður að ganga út frá því að óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar um endurupptöku gildi við úrlausn málsins en ekki 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda felur álit embættis landlæknis á því, hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu, ekki í sér stjórnvaldsákvörðun skv. 2. mgr. 1. gr. sömu laga.

Í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá tímamörkum ákvæðisins nema veigamiklar ástæður mæli með því. Af ákvæðinu er ljóst að sérstaklega mikilvægir hagsmunir verða að vera fyrir hendi til að unnt sé að fallast á endurupptöku þegar langt er liðið frá því að ákvörðun var tekin. Telur ráðuneytið að hafa megi hliðsjón af þessum sjónarmiðum við úrlausn málsins. Við mat á því hvað teljast veigamiklir hagsmunir kæranda af því að kvörtun verði tekin til meðferðar að nýju þegar langt er liðið frá atvikum hefur ráðuneytið m.a. litið til hagsmuna kæranda af úrlausn málsins, hvort málið varði almannahagsmuni og geti þannig verið fordæmisgefandi, hvort málið varði meint mistök eða vanrækslu sem telja megi mjög alvarlega og að embætti landlæknis, sem eftirlitsaðila með heilbrigðisþjónustu, verði á þeim grundvelli gert að rannsaka efni kvörtunarinnar. Vísar ráðuneytið í þessu sambandi til umfjöllunar í úrskurði ráðuneytisins nr. 7/2022. Í úrskurðinum leit ráðuneytið einnig til þess að því lengra sem liðið er frá því að atvik, sem urðu tilefni til kvörtunar, áttu sér stað séu almennt minni líkur á að unnt sé að upplýsa mál með fullnægjandi hætti til að landlæknir geti veitt faglegt álit.

Í máli þessu var kvartað yfir heilbrigðisþjónustu sem átti sér stað á árunum 1995-1997 vegna innlagnar kæranda á geðdeild Landspítala sem kærandi kveður hafa aukið á kvíða, vanlíðan og óöryggi, og þeirri heilbrigðisþjónustu sem hún hlaut í kjölfarið í samtalsmeðferð á göngudeild. Kveður kærandi að skort hafi á að gripið hafi verið til aðgerða vegna svefnleysi og að van- eða misgreining hafi verið á áfallastreituröskun og einhverfu. Sú heilbrigðisþjónusta sem kærandi hafi fengið hafi valdið vanlíðan og skerðingu á lífsgæðum í langan tíma.

Ráðuneytið hefur kynnt sér þau gögn sem kærandi hefur lagt fram þar sem upplifun hennar af atvikum er rakin ítarlega. Ljóst er að kvörtunin varðar atvik sem áttu sér stað fyrir rúmlega 25 árum. Þegar svo langt er liðið frá atvikum telur ráðuneytið sérstaklega mikilvæga hagsmuni þurfa að vera fyrir hendi til að embætti landlæknis verði gert að taka kvörtun til rannsóknar að nýju. Er það mat ráðuneytisins að þótt kærandi hafi nú fengið tilteknar greiningar í ágúst 2021, svo sem um áfalla- og einhverfuröskun, hafi þær upplýsingar ekki slíka þýðingu að það leiði til þess að veigamiklir hagsmunir séu fyrir því að fallast á endurupptöku og rannsaka beri fyrrgreinda heilbrigðisþjónustu. Verður ekki heldur talið að upplýsingarnar hefðu mikilvæga þýðingu fyrir úrlausn málsins á grundvelli sömu sjónarmiða og liggja til grundvallar 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það jafnframt mat ráðuneytisins, að virtum öllum gögnum málsins, að efni kvörtunarinnar nái ekki því alvarleikastigi að mikilvægt sé vegna almannahagsmuna að hún verði rannsökuð á ný eða að niðurstaða málsins yrði fordæmisgefandi fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á þeim sviðum Landspítala sem um ræðir. Er það mat ráðuneytisins að eðli málsins sé ekki slíkt að veigamiklir hagsmunir standi til þess að embætti landlæknis, á grundvelli eftirlitshlutverks síns með veitingu heilbrigðisþjónustu, verði gert að taka málið upp að nýju og leggja faglegt álit á það hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað í máli kæranda. Þótt ljóst sé að málið hafi þýðingu fyrir kæranda er það jafnframt mat ráðuneytisins að þeir hagsmunir leiði ekki til þess að fallast beri á endurupptöku í málinu.

Með vísan til framangreinds verður ákvörðun embættis landlæknis, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku, staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 24. nóvember 2022, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku á áliti embættisins frá 22. ágúst 2006, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum