Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 20/2017. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Með kæru 19. september 2017 kærði Stólpavík ehf. útboð Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20452 „Salt til rykbindingar og hálkuvarna fyrir Kópavog og Garðabæ“. Kærandi gerir kröfu um að felld verði úr gildi sú ákvörðun varnaraðila að meta tilboð kæranda ógilt, að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og að varnaraðili greiði kæranda málskostnað. Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við kæruna og bárust þær 5. október 2017 þar sem þess var krafist að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá eða hafnað og kæranda gert að greiða málskostnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila 29. nóvember 2017.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 14. júní 2018
í máli nr. 20/2017:
Stólpavík ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Garðabæ
og Kópavogsbæ

Með kæru 19. september 2017 kærði Stólpavík ehf. útboð Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20452 „Salt til rykbindingar og hálkuvarna fyrir Kópavog og Garðabæ“. Kærandi gerir kröfu um að felld verði úr gildi sú ákvörðun varnaraðila að meta tilboð kæranda ógilt, að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og að varnaraðili greiði kæranda málskostnað. Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við kæruna og bárust þær 5. október 2017 þar sem þess var krafist að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá eða hafnað og kæranda gert að greiða málskostnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila 29. nóvember 2017.

I

Í júlí 2017 auglýsti varnaraðili Ríkiskaup, fyrir hönd varnaraðila Kópavogsbæjar og Garðabæjar, hið kærða útboð þar sem óskað var eftir tilboðum í „útvegun, birgðahald og afgreiðslu á dreifibíla á samtals 2.800 tonnum (+/- 25%) af nýju og ónotuðu salti (NaCl) til rykbindingar og hálkuvarna á árunum 2017-2020 […]“. Bjóðendur skyldu leggja til aðstöðu undir salt og pækilblöndunartæki í birgðaskemmum ásamt því að afgreiða salt og saltpækil á dreifikerfi á samningstímanum. Bjóðendur skyldu hafa yfir að ráða birgðastöð í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ eða Hafnarfirði sem og öllum þeim búnaði og tækjum sem nánar var lýst í útboðsgögnum. Kafli 4 í útboðsgögnum nefndist „Kröfulýsing“ og í upphafi kaflans kom fram að óskað væri eftir tilboði í 2.800 tonn af nýju, ónotuðu salti til rykbindingar. Í kaflanum voru svo gerðar nánari kröfur til saltsins en þar kom meðal annars fram að með tilboði skyldi fylgja „gerðarlýsing (upprunavottorð) boðins salts“. Samkvæmt tilboðsblaði útboðsins skyldu bjóðendur gera grein fyrir því hvernig boðin þjónusta uppfyllti allar kröfur útboðsgagna og leggja fram undirrituð skjöl og vottorð því til sönnunar. Í skjali sem fylgdi tilboði kæranda var að finna ýmsar upplýsingar um hið boðna salt og þar sagði meðal annars: „Hjálagt fylgir vörulýsing frá Saida SA. Upprunaland saltsins sem boðið er – er Túnis. NaCl innihald er 98,2%. Hjálagt fylgir vörulýsing frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands varðandi endurunnið salt. Upprunaland er Túnis. NaCl innihald er 98,2%“. Í 9 hluta tilboðsblaðs skyldi gera grein fyrir „því húsnæði sem bjóðandi hyggst nota sem birgðastöð, m.a. skal greina frá stærð þess (nettó gólfflatarmál og nettó innanrými) og staðsetningu. Einnig skal gera grein fyrir tæknilegum upplýsingum pækilblöndunartækja, birgðatanka og ámoksturstækja sem bjóðandi býður til verksins“.

Tveir bjóðendur skiluðu tilboðum. Annars vegar kærandi sem bauð 115,32 evrur fyrir hvert tonn og hins vegar Saltkaup ehf. sem bauð 35.700.000 krónur fyrir verkefnið í heild sinni. Með bréfi 30. ágúst 2017 tilkynnti varnaraðili að tilboð kæranda hefði verið metið ógilt. Kom þar fram sá meginrökstuðningur fyrir mati varnaraðila að kærandi hefði aðeins látið fylgja með yfirlitskort sem sýndi staðsetningu birgðastöðvar en aðrar umbeðnar upplýsingar um um hana hefði vantað. Þá hafi verið gerð skýr krafa um að boðið salt skyldi vera nýtt og ónotað en samkvæmt tilboði kæranda hefði hann boðið endurunnið salt.

II

Kærandi vísar til þess að tilboð hans hafi verið um 30% lægra en það tilboð sem valið var og þannig hagkvæmast. Varnaraðili hafi gert mistök með því að meta það ógilt. Í útboðsgögnum hafi engin krafa verið gerð um sérstaka stærð á birgðastöðvum, einungis að birgðastöðvar væru til reiðu. Þá hafi tilboðsblað ekki tilgreint með nægjanlega nákvæmum hætti hvaða eiginleikar birgðastöðvar skyldu hafa og ekki gert sérstakar kröfur um lágmarksstærð. Aðalatriðið sé að tilboðsgjafar skuli hafa yfir að ráða húsnæði á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum. Varnaraðila sé ómögulegt að fullyrða um hvort gæði húsnæðisins, þar með talin stærð þess, sé fullnægjandi án þess að skoða það. Í útboðsgögnum hafi verið kveðið skýrt á um að kaupandi skyldi samþykkja húsnæðið áður en til undirritunar samnings kæmi og bjóðandi hljóti þannig að fullnægja þessum lið útboðsgagna með því að gera grein fyrir staðsetningu húsnæðisins auk fyrirheits um að birgðastöðin uppfylli önnur skilyrði. Þá verði ráðið af upplýsingum á yfirlitsmynd húsnæðisins hver brúttó stærð þess sé. Kvarði á yfirlitsmyndinni gefi til kynna að lengd þess sé um það bil 50 metrar á langhlið og 20 metrar á breidd og því sé heildarrýmið nálægt 1000 fermetrum. Kærandi telur þetta húsnæði eitt og sér duga til þess að geyma allt það salt sem þurfi að nota á hverju tímabili samningsins og því geti vart talist þörf á því að gera grein fyrir stærð húsnæðis í Kópavogi sem kærandi hafi einnig yfir að ráða.

Kærandi kveðst ekki hafa boðið endurunnið salt og það sé misskilningur hjá varnaraðila. Í bréfi kæranda, sem hafi verið hluti af tilboði, hafi verið vísað í vörulýsingu frá Saida SA en um nýtt salt hafi verið að ræða. Fyrir mistök hafi komið fram í bréfinu að meðfylgjandi væri einnig vörulýsing frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands um endurunnið salt. Ástæðan sé sú að kærandi hafi verið að endurnýta eldra tilboðsblað og láðst að taka þessa setningu úr bréfinu. Engin vörulýsing frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafi þó fylgt með tilboðinu. Um augljósa villu hafi verið að ræða í ljósi þess að útboðsgögn gerðu ráð fyrir nýju salti og varnaraðila hafi verið rétt að kalla eftir skýringum kæranda. Afla hefði mátt skýringa um bæði birgðastöð og gæði saltsins með einfaldri fyrirspurn án þess að brjóta gegn jafnræði bjóðenda.

III

Varnaraðili byggir á því að tilboð kæranda hafi ekki verið í samræmi við kröfur útboðsgagna og hafi því verið hafnað. Tilboðsgerð sé á ábyrgð bjóðenda en auk þess hafi kærandi áður kært sams konar útboð og hefði því átt að draga lærdóm af þeim úrskurði. Með tilboði kæranda hafi einungis fylgt yfirlitskort sem sýndi staðsetningu birgðastöðvar en aðrar upplýsingar hafi vantað. Kærandi hafi boðið endurunnið salt en ekki nýtt og ónotað eins og útboðsgögn hafi gert kröfu um. Skýringar, lagfæringar og viðbótarupplýsingar megi ekki fela í sér breytingu á grundvallarþáttum tilboðs. Kæranda hafi borið að skila inn öllum upplýsingum sem útboðsgögn hafi áskilið og ekki getað gert ráð fyrir því að varnaraðili myndi kalla eftir frekari gögnum. Varnaraðili telur að ef hann hefði haft samband við kæranda og spurt hvort hann væri í raun að bjóða nýtt og ónotað salt hefði það verið brot gegn jafnræði bjóðenda. Varnaraðili hafi hvorki getað vitað né áttað sig á að kærandi hefði gert mistök við gerð tilboðs síns.

IV

Það er meginregla útboðsréttar að bjóðandi ber ábyrgð á því að tilboð hans fullnægi útboðsskilmálum og geti ekki breytt tilboði sínu eftir opnun tilboða. Í málinu liggur fyrir að tilboð kæranda var ekki í samræmi við útboðsgögn enda skorti tilvísun til gagna sem staðfestu að tilteknar kröfur útboðsgagna um birgðageymslu væru uppfylltar. Þá var tilboðið beinlínis í andstöðu við útboðsgögn að því leyti að það bar með sér að kærandi gerði ráð fyrir að afhenda endurunnið salt en ekki nýtt og ónotað eins og skýrlega varð ráðið af útboðsgögnum.

Samkvæmt 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kaupanda heimilt að fara fram á að bjóðandi leggi fram, bæti við, skýri eða fullgeri upplýsingar eða gögn innan hæfilegs frests þegar upplýsingar eða gögn, sem bjóðandi leggur fram, virðast vera ófullkomin eða innihalda villur eða ef tiltekin skjöl vantar. Slíkar skýringar, lagfæringar eða viðbótarupplýsingar mega þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs eða vera líkleg til að raska samkeppni eða ýta undir mismunun. Verður kaupandi því að horfa til þess hvort skýringar, lagfæringar eða viðbótarupplýsingar kunni að leiða til efnislegra breytinga á fyrirliggjandi tilboði þannig að hlutaðeigandi bjóðanda sé í reynd veitt forskot gagnvart öðrum bjóðendum að þessu leyti. Svo sem áður greinir mátti skilja tilboð kæranda þannig að boðið væri endurunnið salt en það var í andstöðu við skilyrði útboðsgagna. Þar sem útboðið laut að útvegun, birgðahaldi og afgreiðslu á salti og miklar kröfur voru gerðar til gæða saltsins var um að ræða einn af grundvallarþáttum tilboðsins. Breytingar á þessu atriði eftir opnun tilboða hefðu þar af leiðandi falið í sér röskun á jafnræði bjóðenda. Þegar af þeirri ástæðu telur nefndin að varnaraðili hafi ekki brotið gegn lögum um opinber innkaup við þá ákvörðun að meta tilboð kæranda ógilt. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda.

Rétt er að málskostnaður falli niður.

Úrskurðararorð:

Hafnað er öllum kröfum kæranda, Stólpavíkur ehf., vegna ákvörðunar varnaraðila, Ríkiskaupa, um að meta tilboð kæranda ógilt í útboði nr. 20452 „Salt til rykbindingar og hálkuvarna fyrir Kópavog og Garðabæ“.

Málskostnaður fellur niður.

Reykjavík, 14. júní 2018.


Skúli Magnússon


Auður Finnbogadóttir


Ásgerður RagnarsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira