Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2011

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 11. janúar 2012 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 14/2011, A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur, vegna umgengni hennar við dóttur hennar, B, og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

Í bréfi C til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 27. október 2011, var kærð, fyrir hönd A, sú ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 4. október 2011 að umgengni hennar við dóttur sína, B, skuli vera einu sinni í viku, á föstudögum frá kl. 16.00 til kl. 18.00. Umgengnin var ákveðin undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í Þorraseli. Ákveðið var að umgengnin yrði með þessum hætti þar til niðurstaða í forsjársviptingarmáli lægi fyrir.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krafðist þess upphaflega að hinn kærði úrskurður yrði staðfestur. Í bréfi barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 18. nóvember 2011, er rakið að kærandi hafi farið til D og upplýsingar hafi legið fyrir um að hún væri á leið til E í þrjá mánuði. Hafi hún komið á framfæri óskum um að fá umgengni við dóttur sína í gegnum Skype. Í þessu ljósi var þess krafist að málinu yrði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála þar sem ljóst væri að umgengni samkvæmt úrskurðinum frá 4. október 2011 færi ekki fram vegna aðstæðna kæranda.

Lögmaður kæranda mótmælti frávísunarkröfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur og krafðist þess að úrskurðinum yrði breytt þannig að umgengnin yrði meiri en hinn kærði úrskurður kveður á um og jafnframt að umgengnin fari fram á heimili kæranda.

Í tölvupósti lögmanns kæranda til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 3. janúar 2012, kom fram að kærandi hefði komið aftur til landsins fyrir jólin.

II.

Málavextir

Kærandi kom til Íslands í apríl 2007, en hún er ættuð frá E. Kærandi eignaðist stúlkuna B með F, en hann lést áður en stúlkan fæddist. Hún er rangfeðruð þar sem kærandi var í hjúskap með G á getnaðartíma hennar. Þau eru nú skilin. Hann hefur undirritað yfirlýsingu þess efnis að hann sé ekki faðir stúlkunnar og muni ekki hafa afskipti af henni eða vinnslu málsins hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Kærandi á við geðræna erfiðleika að stríða og hún hefur fjórum sinnum verið nauðungarvistuð á geðdeild vegna þess. Hún var fyrst nauðungarvistuð á geðdeild á Akureyri árið 2007. Hún fékk þá meðferð með lyfjum sem hún mun hafa svarað nokkuð vel og tók lyfin í u.þ.b. eitt ár en hætti því síðan. Árin 2009 og 2010 var kærandi innlögð á deild 33 C á Landspítala og var hún í bæði skiptin meðhöndluð með lyfjum sem hún svaraði vel. Fram kemur að hún virðist ekki sinna því að taka lyfin þegar hún útskrifast af geðdeildinni. Þá hafi hún ekki mætt í eftirfylgd á sjúkrahúsið og telur hún sig ekki haldna geðsjúkdómi. Þá hafi reynst erfitt að fá hana til að fylgja sínum málum eftir hvað varði veikindin. Kærandi var í fjórða sinn nauðungarvistuð á deild 33 C á Landspítala í lok maí 2011.

Barnavernd Reykjavíkur barst tilkynning 25. maí 2011 frá starfsmanni hjá samfélagsgeðteymi Landspítalans sem hafði verið í samskiptum við kæranda og verið inni á heimili hennar. Voru áhyggjur af andlegu ástandi kæranda sem hafði meðal annars verið á flækingi með barnið utandyra. Ekki var þó talið að koma þyrfti til vistunar barnsins utan heimilis. Andlegt ástand kæranda versnaði og 27. maí 2011 var hún nauðungarvistuð á deild 33 C á Landspítala ásamt barninu. Hinn 30. maí 2011 ræddu starfsmenn barnaverndarnefndar við félagsráðgjafa á Landspítala vegna málefna barnsins og móður þess. Fram kom að móðir væri með litla foreldrafærni og að barnið væri að mestu í umsjá starfsmanna á deild 33 C. Móðir kæmi eitthvað að umönnun barnsins en ávallt undir eftirliti. Eins og fram kemur í gögnum málsins tók Barnavernd Reykjavíkur þá ákvörðun, 31. maí 2011, að taka barnið úr umsjá móður með neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga til þess að tryggja öryggi þess. Barnið var þó áfram á deild 33 C á Landspítala ásamt móður sinni og var starfsmönnum deildarinnar falin umsjá stúlkunnar.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. júní 2011. Lagt var fram bréf frá geðlækni kæranda þar sem fram kom að hún væri að svo komnu ekki fær um að annast barn sitt án stöðugs eftirlits. Var það mat nefndarinnar að kærandi væri ekki í stakk búin til að sinna umönnun dóttur sinnar að svo stöddu vegna veikinda sinna og brýnt væri að tryggja stúlkunni öruggar aðstæður og viðunandi uppeldisumhverfi utan geðdeildarinnar á meðan kærandi næði heilsu. Þótti því nauðsynlegt að vista stúlkuna utan heimilis í allt að tvo mánuði. Samþykki kæranda skorti fyrir vistun barnsins og var því kveðinn upp úrskurður á fundinum um vistun stúlkunnar hjá föðurforeldrum sínum.

Hinn 23. júní 2011 var ákveðið að kærandi kæmi á hverjum degi á Vistheimili barna í greiningar- og kennsluvistun og væri þar í tvær klukkustundir með dóttur sinni. Þar átti að fylgjast með því hvernig hún annaðist hana. Föðuramma stúlkunnar kom með hana og sótti hana að tíma loknum. Í gögnum málsins er gerð ítarleg grein fyrir því hvernig kæranda gekk. Meðal annars kemur þar fram að augljóst sé að kæranda þyki vænt um stúlkuna og vilji henni allt það besta. Hún nái þó ekki að lesa þarfir barnsins eða sinna stúlkunni á hennar forsendum. Þrátt fyrir tilraunir starfsmanna til að leiðbeina kæranda hafi hún ekki náð að tileinka sér leiðbeiningarnar. Í kjölfar krafna kæranda um rýmri umgengni við dóttur sína var samþykkt á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur þann 14. júlí 2011 að kærandi yrði með dóttur sinni á Vistheimili barna frá morgni og fram að kvöldmatartíma.

Í skýrslu Vistheimilis barna, dags. 9. ágúst 2011, kemur fram að kærandi sé ánægð að sjá stúlkuna þegar þær hittast og að hún vilji henni vel. Henni gangi þó ekki vel með að lesa í þarfir barnsins hvað varði til dæmis mjólkurgjafir og almenna umhirðu líkt og bleyjuskipti og viðeigandi fatnað. Stúlkan hafi til að byrja með ekki myndað augnsamband við móður sína en það hafi þó batnað með tímanum þó það væri ekki mikið og eigi stúlkan það til að snúa höfðinu í aðra átt til að forðast augnsamband við móður sín en sömu hegðun hafi hún ekki sýnt við föðurforeldra sína.

Vegna mikils andlegs ójafnvægis kæranda á Vistheimili barna þann 20. ágúst 2011 var ákveðið að greiningar- og leiðbeiningarvistun yrði ekki daginn eftir eins og áætlað hafði verið. Á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur 22. ágúst 2011 var ákveðið að umgengni kæranda við stúlkuna yrði í eina klukkustund á dag klukkan 9–10, fimm daga vikunnar. Eins og rakið er í gögnum málsins var móðir ósátt við þá ákvörðun. Hinn 23. ágúst 2011 var ákveðið á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur að umgengni yrði annan hvern dag í eina klukkustund í senn klukkan 14–15. Forstöðumaður Vistheimilisins taldi að í ljósi atburða síðustu daga og andlegs ástands kæranda gæti umgengni ekki farið fram nema undir eftirliti og með aðkomu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur.

Forsjárhæfnimat á kæranda er dagsett 24. ágúst 2011. Heildarniðurstaða matsins er sú að foreldrahæfni kæranda sé skert vegna mikillar vangetu til að annast barnið á sjálfstæðan hátt, sinna grundvallarþörfum þess, mynda við það geðtengsl og gera raunhæfar framtíðaráætlanir. Orsakirnar megi helst rekja til alvarlegs geðsjúkdóms sem kærandi sé haldin. Hún hafi tekið illa við þeim leiðbeiningum sem hafi kerfisbundið verið haldið að henni í greiningar- og leiðbeiningarvistun og hafi oft sýnt mjög óviðunandi og fjandsamlega hegðun gagnvart starfsfólkinu á Vistheimilinu. Engar framfarir virtust hafa orðið og samband kæranda við barnið einkenndist af óöryggi og klaufaskap. Niðurstöður viðtala og sálfræðilegra prófa endurspegli mikla tortryggni og varnir, sjálfsfegrun og innsæisleysi. Greind kæranda mælist á mörkum lágrar greindar og neðri meðalgreindar og snerti margir færniþættirnir erfiðleika við að lesa í samhengi og átta sig á tengslum. Mat kæranda á stöðu barnsins og tengslum þeirra mæðgna sé yfirborðsleg, einkennist af óskhyggju og því að kærandi geri lítinn sem engan greinarmun á eigin tilfinningalífi og dóttur sinnar.

Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 6. september 2011 kom fram það mat nefndarinnar að kærandi væri ekki fær um að sinna forsjárskyldum sínum gagnvart stúlkunni og var ákveðið að fela embætti borgarlögmanns að krefjast þess fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá dóttur sinnar.

Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 8. september 2011 kom fram að umgengni tvisvar sinnum í viku allt að einni klukkustund í senn þætti við hæfi og nægjanleg til að viðhalda þeim tengslum sem væru þegar til staðar milli móður og barns. Var ákveðið að umgengnin færi fram undir eftirliti Barnaverndar Reykjavíkur og starfsmanns frá samfélagsgeðteymi á heimili móður. Fyrsta umgengnin samkvæmt framangreindri ákvörðun fór fram á Vistheimili barna 9. september 2011 og gekk ágætlega. Önnur umgengni var 12. september 2011 og gekk hún miður vel. Umgengni 15. september 2011 gekk ágætlega og var kærandi í góðu jafnvægi. Í umgengni 19. september 2011 var kærandi ekki í jafnvægi og varð að kalla til lögreglu til þess að taka barnið af kæranda.

Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 10. nóvember 2011, kemur fram að rætt hafi verið við fósturforeldra stúlkunnar og hafi komið fram hjá fósturmóður að stúlkan væri oftar en ekki mjög dauf eftir umgengni. Í tvígang hefði hún verið eins og í áfalli eftir umgengni. Þá væri hún mjög háð fósturmóður eftir umgengni. Fósturforeldrar hafi greint frá betri líðan og svefni stúlkunnar eftir að umgengni hafi verið minnkuð.

Á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur þann 22. september 2011 var bókað að kærandi óskaði eftir að fá að hitta barnið daglega á heimili sínu. Starfsmennirnir hafi talið að það gengi ekki og lögðu til að umgengni yrði í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í Þorraseli. Umgengnin skyldi vera einu sinni í viku í eina og hálfa klukkustund í senn, undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur. Kærandi samþykkti ekki þessar tillögur og var málið því tekið til úrskurðar hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur 4. október 2011. Ákveðið var að umgengnin yrði einu sinni í viku, á föstudögum frá kl. 16.00 til 18.00. Umgengni var ákveðin undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í Þorraseli. Umgengnin skyldi vera með þessum hætti þar til niðurstaða í forsjársviptingarmáli lægi fyrir.

Umgengni var í Þorraseli 30. september 2011 og gekk ágætlega.

Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 18. nóvember 2011, kemur fram að kærandi hafi farið fyrirvaralítið til D og síðan til E. Hún kom á framfæri óskum um að fá umgengni við dóttur sína í gegnum Skype og var það samþykkt. Kærandi sneri aftur til landsins skömmu fyrir jólin. Hún naut umgengni við stúlkuna í kjölfarið og í gögnum málsins kemur fram að þær umgengnir hafi gengið vel.

Í tölvupósti frá H, fósturmóður B, til kærunefndar barnaverndarmála, 9. janúar 2012, kemur fram að H telji að stúlkan hafi ekki gott af að umgangast móður sína meira en ákveðið hafi verið vegna þess að móðirin sé veik. Hún valdi því ekki að vera ein með barn. B sé yfirleitt frekar döpur eftir veru sína hjá móður sinni og virðist ekki njóta umgengninnar. Fósturfaðir stúlkunnar hafi farið með hana til móður sinnar síðastliðinn föstudag og hafi móðirin verið frekar spennt og stressuð. Honum hafi sýnst að móðurinni liði ekki vel andlega.

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 4. október 2011, verði breytt þannig að umgengni verði meiri en hinn kærði úrskurður segir til um og jafnframt að umgengnin fari fram á heimili kæranda.

Því er mótmælt sem kemur fram í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur varðandi tilhögun greiningar- og kennsluvistunar. Lítið sé gert úr því sem fram komi meðal annars í greinargerð starfsmanna Vistheimilisins þess efnis að náðst hafi ágætur árangur varðandi ýmsa þætti umönnunarinnar. Fram hjá því hafi verið litið af hálfu barnaverndarnefndar.

Kærandi bendir á að barnaverndarnefnd Reykjavíkur rökstyðji niðurstöðu sínu um umgengnina með vísan til aldurs stúlkunnar, veikinda móður hennar og forsögu málsins. Kærandi byggir hins vegar kröfu sína á því að inntak þeirrar umgengni sem úrskurðuð hafi verið geti ekki þjónað þeim markmiðum sem nefndin tiltaki. Til þess sé umgengnin of lítil. Stúlkan sé í tímabundinni vistun og ekki sé víst að krafa um sviptingu forsjá nái fram að ganga fyrir dómstólum. Barnaverndaryfirvöldum sé því skylt að vinna málið á þeim forsendum að mæðgurnar verði mögulega sameinaðar að nýju. Til að það geti gengið eftir verði ekki einungis að huga að því að viðhalda tengslum þeirra á milli, heldur þurfi að styrkja þau. Umgengni einu sinni í viku þjóni ekki því markmiði. Kærandi fari því fram á að tíðni umgengninnar verði aukin. Taka verði sérstakt tillit til ungs aldurs stúlkunnar en tengslamyndun foreldris og barns á fyrsta aldursári þess sé því gríðarlega mikilvæg. Bent er á að það séu grundvallarréttindi hvers barns að þekkja uppruna sinn og njóta beinna samskipta og tengsla við líffræðilega foreldra sína.

Því er harðlega mótmælt að byggja skuli á niðurstöðum forsjárhæfnimats varðandi tíðni eða inntak umgengni. Forsjárhæfnimat þetta hafi farið fram fyrir tæpum þremur mánuðum og óumdeilt sé að staða kæranda sé önnur nú en þá. Slíkt hið sama eigi ekki við í dag.

Kærandi krefst þess að umgengnin fari fram á heimili hennar, en ekki í húsnæði á vegum barnaverndaryfirvalda. Stúlkunni stafi engin hætta af umgengninni eða af kæranda á heimilinu eins og virðist gefið í skyn í forsendum hins kærða úrskurðar og er því harðlega mótmælt.

IV.

Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram að starfsmenn nefndarinnar hafi verið sammála um að umgengni þyrfti að vera á stað þar sem barnið og móðir þekktu til. Hafi því upphaflega verið ákveðið að hafa umgengnina á Vistheimili barna. Umgengni þar hafi ekki gengið upp þar sem kærandi hafi talið að sér væri ekki sýnd virðing þar. Til þess að koma til móts við óskir hennar hafi umgengnin verið flutt heim til hennar. Það hafi ekki gengið heldur þar sem mikill órói hafi verið á heimilinu, svo sem vegna gestkomandi fólks. Barnið hafi grátið mikið og umgengni ekki gengið vel þar. Reynt hafi verið að finna stað sem væri laus við togstreitu og því hafi Þorrasel orðið fyrir valinu. Fram hafi komið hjá starfsmönnum nefndarinnar að umgengni hefði gengið ágætlega í Þorraseli og þeir hafi því lagt til að hún yrði þar áfram. Reynt hafi verið að hafa umgengni oftar en þar sem illa hafi gengið hafi verið nauðsynlegt að draga úr umgengninni. Mikið álag hafi fylgt umgengninni fyrir barnið. Verið væri að halda tengslum milli mæðgnanna en einnig að skapa ró fyrir barnið. Umgengnin hafi verið minnkuð til þess að það gæti skapast ró og friður í kringum barnið.

Á fundi sínum 4. október 2011 hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt væri að skapa stöðugleika og öryggi í kringum stúlkuna. Slíkt sé nauðsynlegt til þess að hún fái að dafna og þroskast sem best á viðkvæmu æviskeiði. Hafi það verið mat nefndarinnar að gögn málsins sýni að stúlkan hafi sýnt einkenni vanlíðunar og jafnvel áfalls eftir umgengni. Á meðan dómstólar hafi ekki fjallað um kröfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að kærandi verði svipt forsjá dóttur sinnar og ákveðin óvissa sé ríkjandi um framtíð hennar, hafi nefndin talið rétt að ekki verði skorið á tengsl þeirra mæðgna og að umgengni verði regluleg á tímabilinu. Til þess að ná því markmiði og með tilliti til aldurs stúlkunnar, veikinda kæranda og forsögu málsins hafi nefndin talið rétt að miða við að umgengni verði vikulega tvo tíma í senn. Hafi það einnig verið niðurstaða nefndarinnar að nauðsynlegt væri að umgengni færi fram í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur til þess að unnt sé að tryggja öryggi stúlkunnar á meðan umgengni standi.

Þar sem ekki hafi náðst samkomulag um umgengni hafi málið verið tekið til úrskurðar. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

V.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfu umgengni móður við tíu mánaða gamalt barn sitt, en móðirin á við mikla geðræna örðugleika að etja. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók barnið úr umsjá móður sinnar þriggja mánaða gamalt og er það nú vistað hjá föðurforeldrum sínum. Þá hefur verið lögð fram krafa við Héraðsdóm Reykjavíkur um sviptingu forsjár barnsins.

Kærandi hefur hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort hinn kærði úrskurður sé haldinn þeim annmörkum að ógilda beri hann og verður því kröfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur, um að vísa beri kröfu kæranda frá, hafnað.

Kærandi gerir kröfu um rýmri umgengni við barn sitt en hinn kærði úrskurður kveður á um. Hinn kærði úrskurður er tímabundinn og er ætlað að gilda þar til forsjársviptingarmál á hendur kæranda hefur verið til lykta leitt.

Nú ríkir óvissa um framtíðardvalarstað barnsins, og við ákvörðun um umgengni verður að taka mið af því og hafa að leiðarljósi hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Stúlkan sem mál þetta snýst um hefur þá stöðu að hafa ekki myndað stöðug og varanleg tengsl við móður sína. Hún hefur verið vistuð utan heimilis frá þriggja mánaða aldri og umgengni hennar hefur verið óstöðug við kæranda. Nokkurra mánaða gamalt barn hefur það lítt þróað minni að það getur ekki haft stöðuga innri mynd af foreldrum sínum sem mikilvægum persónum í lífi sínu nema þegar umönnun er stöðug og dagleg. Þegar litið er til þessa og jafnframt horft til mikilla geðrænna örðugleika móður, sem meðal annars birtast í því að hún á erfitt með að gera sér grein fyrir grunnþörfum barns síns, verður ekki talið að það þjóni hagsmunum barnsins að hrófla við því fyrirkomulagi sem nú þegar hefur verið ákveðið um umgengni.

Með hliðsjón af framangreindu, gögnum málsins og með vísan til 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, telur kærunefnd barnaverndarmála að sú umgengni kæranda við stúlkuna sem ákveðin er í hinum kærða úrskurði, þjóni hagsmunum hennar best. Því er hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 4. október 2011 staðfestur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 4. október 2011, varðandi umgengni A við dóttur sína, B, er staðfestur.

Ingveldur Einarsdóttir,

formaður

Guðfinna Eydal Jón R. Kristinsson
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum