Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 670/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 670/2021

Fimmtudaginn 10. febrúar 2022

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. desember 2021, kærði A, ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 6. desember 2021, um að synja umsókn hans um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur á tímabilinu mars 2017 til maí 2021. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), dags. 1. október 2021, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2020 þar sem fram kom að hann hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 601.457 kr. Kærandi sótti um niðurfellingu skuldarinnar og með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. desember 2021, var þeirri beiðni synjað þar sem skilyrði 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur væri ekki uppfyllt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 13. desember 2021. Með bréfi, dags. 14. desember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 27. desember 2021 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið sent bréf vegna lokauppgjörs húsnæðisbóta vegna ársins 2020. Í því bréfi segi að hann hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur sem næmi 601.457 kr. Nokkrum dögum síðar hafi kærandi hringt og óskað eftir skýringu og fengið þær upplýsingar að hann gæti óskað eftir niðurfellingu. Kærandi hafi sent umsókn um niðurfellingu og fengið þau svör í símtali að hann gæti verið rólegur og að skuldin yrði ekki innheimt á meðan á þessu stæði. Annað hafi komið í ljós. Tveimur mánuðum síðar, eða þann 6. desember 2021, hafi kærandi fengið skilaboð um höfnun á niðurfellingu á svokallaðri skuld hans við HMS. Kærandi hafi óskað eftir skýringu sama dag og beðið um samtal sem hann hafi ekki fengið. Þann 8. desember hafi hann fengið skýringu á synjun um niðurfellingu í tölvupósti. Niðurfellingu hafi verið hafnað þar sem talið hafi verið að bætur hefðu ekki verið þáðar í góðri trú. Kærandi hafi óskað eftir niðurfellingu því að hann hafi ekki vitað að hann ætti ekki rétt á húsnæðisbótum þar sem hann hafi verið í láglaunastarfi, með langveikt barn og síðar meir hafi hann misst starf sitt. Í góðri trú hafi hann haldið að hann ætti rétt á slíkum bótum.

Kærandi tekur fram að árið 2017 hafi hann skráð sig í sambúð og ári síðar hafi hann og sambýliskona hans keypt íbúð. Þegar íbúðin hafi verið keypt hafi hann ekki sótt um áframhaldandi húsaleigubætur. Kærandi hafi haldið að þetta yrði rafrænt endurskoðað þar sem hann hefði ekkert að fela og fordæmi sjálfur öll svik og pretti á almannafé. Leigusamningi hafi verið sagt upp við upphaf íbúðarkaupaferlisins og hann hafi gengið út frá því að hann væri að gera rétt. HMS telji að kærandi hafi verið óheiðarlegur og haldið áfram að þiggja húsaleigubætur sem honum og konu hans þyki afar miður. Þau hafi ekki verið óheiðarleg heldur þegið húsnæðisbætur í góðri trú og talið að þau væru ekki að svíkja einn eða neinn sem sé ekki til í þeirra eðli.

Kærandi og sambýliskona hans spyrji og hafi spurt í þessu ferli af hverju þeim hafi ekki verið tilkynnt þegar þau hafi keypt íbúðina að þau ættu ekki rétt á einu eða neinu. Það séu liðin þrjú ár og nú sé verið að ásaka þau um óheiðarleika og í raun þjófnað á almannafé. Enn og aftur, þeim myndi ekki detta í hug að fara þá vegferð í lífinu. Þau séu venjulegt löghlýðið fjölskyldufólk sem telji þetta mjög óréttlátt í þeirra garð. Þau hefðu að sjálfsögðu ekki verið að þiggja þessar bætur ef þau hefðu vitað að þetta væri ekki þeirra réttur. Þá hefðu þau haldið að kerfið hefði brugðist við á þessum langa tíma. Þeim þyki óréttlátt að þau séu sökuð fyrir eitthvað sem í raun kerfið á 21. öldinni ætti að grípa til, ef svo megi segja. Þeim skiljist af HMS að allt sé orðið rafrænt í dag og þess vegna hafi kerfið þeirra sett athugasemd við þetta. Að láta það bitna á þeim og þeirra trú og heiðarleika sé óréttlátt. Þau vilji endilega óska eftir fundi hjá úrskurðarnefndinni, ef óskað sé eftir ítarlegri svörum. Þau voni svo innilega að nefndin geti aðstoðað og að beiðni þeirra um niðurfellingu verði endurskoðuð og samþykkt.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi þegið húsnæðisbætur frá mars 2017 til maí 2021 vegna leigu á húsnæðinu B. Í maí 2021 hafi það komið upp í reglubundnu eftirliti að kærandi hefði verið eigandi hins leigða húsnæðis frá því í nóvember 2018. Á tímabilinu nóvember 2018 til apríl 2021 hafi kærandi fengið greiddar 1,5 milljónir í húsnæðisbætur vegna umrædds húsnæðis. Á því tímabili hafi útreikningur húsnæðisbóta byggt á fyrirliggjandi upplýsingum frá Skattinum um tekjur og eignir kæranda og heimilismanna hans, auk þess sem kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við áætlanirnar, teldi hann að þær upplýsingar sem aflað hefði verið, væru rangar, sbr. þau 12 endurreikningsbréf, dags. 19. nóvember 2018 til 21. apríl 2021, sem umsækjandi hafi fengið send á tímabilinu sem um ræði. Þann 1. október 2021 hafi kæranda verið sent bréf vegna lokauppgjörs húsnæðisbóta ársins 2020. Í bréfinu komi fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur á fyrrnefndu ári að fjárhæð 601.457 kr. Þann 15. október 2021 hafi kærandi sótt um niðurfellingu á umræddri kröfu. Í framhaldi hafi umsókn kæranda verið tekin til afgreiðslu þar sem lagt hafi verið heildarmat á aðstæður hans og niðurstaðan hafi verið sú að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til niðurfellingar samkvæmt 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Af þeim sökum hafi umsókn kæranda verið hafnað með bréfi, dags. 6. desember 2021.

Í máli þessu sé deilt um höfnun HMS á umsókn kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra húsnæðisbóta ársins 2020. Í greinargerð kæranda komi fram að hann óski eftir niðurfellingu á kröfunni vegna fjárhags- og félagslegra aðstæðna og að hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. HMS greiði húsnæðisbætur á grundvelli áætlunar um tekjur og eignir á viðkomandi ári eða bótatímabili samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Við gerð slíkrar áætlunar afli HMS upplýsinga frá opinberum aðilum, þar með talið skattyfirvöldum, samkvæmt 1. mgr. 15. gr., auk þess sem umsækjandi beri ákveðna upplýsingaskyldu gagnvart HMS um að slík áætlun endurspegli raunverulegar upplýsingar um tekjur og eignir heimilismanna hans, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna. Í ákvæðinu komi fram að umsækjandi skuli upplýsa HMS ,,um allar breytingar sem verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt hans til húsnæðisbóta[…]“. Í e-lið 3. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur, um skilyrði húsnæðisbóta, komi fram að húsnæðisbætur verði ekki veittar ef einhver heimilismanna sé eigandi íbúðarhúsnæðisins.

Í 26. gr. laga um húsnæðisbætur og 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 sé kveðið skýrt á um þá meginreglu að HMS skuli innheimta ofgreiddar húsnæðisbætur. Undantekningu frá meginreglu sé að finna í 3. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar varðandi þær kröfur sem myndist vegna ofgreiddra húsnæðisbóta. Samkvæmt því ákvæði skuli fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, að teknu tilliti til greiðslugetu hans, og hins vegar á því hvort viðkomandi hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi þegið hinar ofgreiddu húsnæðisbætur. Þar sem ákvæðið sé undanþáguheimild beri samkvæmt almennri lögskýringu að skýra það þröngt og eftir orðanna hljóðan.

Eins og áður hafi komið fram sé umrædd krafa tilkomin vegna þess að kærandi hafi verið eigandi að hinu leigða húsnæði. Þegar umsókn kæranda um niðurfellingu á kröfunni hafi verið tekin til umfjöllunar hjá HMS þann 11. september 2021 hafi farið fram heildstætt mat á aðstæðum hans og hvort tilefni væri til niðurfellingar á grundvelli 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Við afgreiðslu málsins hafi verið farið yfir fyrirliggjandi gögn, svo sem ástæður ofgreiðslna, upplýsingar frá Skattinum um tekjur og eignir, upplýsingar úr tölvukerfi húsnæðisbóta um kæranda og heimilismenn hans, þinglýstum skjölum, auk þeirra upplýsinga sem kærandi hafi framvísað samhliða umsókninni.

Niðurstaða matsins hafi verið sú að kærandi hafi ekki verið talinn hafa verið í góðri trú þegar hann hafi þegið húsnæðisbætur árið 2020. Fyrir liggi að kærandi hafi verið eigandi leiguhúsnæðisins á því tímabili sem um ræði og ekki hafi verið getið um sambýliskonu kæranda á umsókn en samkvæmt fylgigögnum með kærunni hafi sambúð þeirra hafist árið 2017. Hvort kærandi hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn árétti HMS að stofnunin greiði húsnæðisbætur á grundvelli áætlunar um tekjur og eignir, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um húsnæðisbætur. Við gerð slíkrar áætlunar sé umsækjanda ávallt gefinn kostur á að koma að athugasemdum, telji hann að þær upplýsingar sem HMS afli frá opinberum aðilum séu rangar, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna og 17. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Á bótatímabili kæranda vegna ársins 2020 hafi kæranda fjórum sinnum verið birt ný tekjuáætlun og honum gefinn kostur á að andmæla fyrirliggjandi upplýsingum og í þremur af fjórum bréfum hafi verið vakin athygli á ábyrgð umsækjandans að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum, sbr. endurreikningsbréf, dags. 28. janúar, 24. apríl, 25. júlí og 23. október 2020. Samkvæmt samskiptasögu í tölvukerfi húsnæðisbóta hafi kærandi í ekkert skipti haft samband við HMS til að andmæla áætluninni og því verði ekki séð að hann hafi sinnt lögbundinni upplýsingaskyldu sinni samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu verði ekki séð að skilyrðið um góða trú sé uppfyllt í máli þessu, enda verði að meta slíkt í ljósi ábyrgðar kæranda á því að sinna upplýsingaskyldu sinni og að veita réttar upplýsingar hverju sinni, enda sé það á hans ábyrgð að vera meðvitaður um hvort hann uppfylli enn skilyrði til greiðslu húsnæðisbóta. Miðað við það hefði kærandi átt að vera vel meðvitaður um mikilvægi þess að upplýsa HMS um þær breytingar á eignastöðu hans og þá sérstaklega í ljósi þess að hann hafi ekki verið lengur leigjandi að húsnæðinu sem þá hafi verið komið í hans eigu.

HMS krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á umsókn kæranda um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta á árinu 2020.

Í 1. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að lögin gildi um húsnæðisbætur til leigjenda. Markmið laganna er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði, sbr. 2. gr. Í 9. gr. laganna er kveðið á um skilyrði húsnæðisbóta. Þar segir í 1. mgr. að hver sá sem leigi íbúðarhúsnæði eigi rétt til húsnæðisbóta að uppfylltum skilyrðum laganna. Samkvæmt e-lið 3. mgr. laga nr. 75/2016 verða húsnæðisbætur ekki veittar þegar einhver heimilismanna er eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis.

Kærandi þáði húsnæðisbætur á tímabilinu mars 2017 til maí 2021 vegna leigu á húsnæðinu B. Í nóvember 2018 gerðu kærandi og sambýliskona hans kaupsamning vegna fasteignarinnar og voru því eigendur íbúðarhúsnæðisins frá þeim tíma. Það kom ekki í ljós fyrr en í reglubundnu eftirliti í maí 2021 og hafði kærandi því frá nóvember 2018 þegið húsnæðisbætur án þess að uppfylla skilyrði til þeirra greiðslna.

Í 25. gr. laga nr. 75/2016 er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Sú skylda er áréttuð í 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur en í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um undantekningu frá þeirri meginreglu. Þar segir:

„Þrátt fyrir að endurreikningur húsnæðisbóta skv. 25. gr. laga um húsnæðisbætur leiði í ljós að húsnæðisbætur hafi verið ofgreiddar er [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] heimilt að falla frá kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem ofgreidd var að fullu eða að hluta og afskrifa hana ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi sem mæla með því. Í því sambandi skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna. Hið sama gildir um dánarbú umsækjanda, eftir því sem við á.“

Í kjölfar umsóknar kæranda um niðurfellingu skuldarinnar fór fram heildstætt mat á aðstæðum hans og hvort tilefni væri til niðurfellingar á grundvelli framangreindrar 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Niðurstaða matsins var sú að kærandi hefði ekki verið í góðri trú þegar hann þáði húsnæðisbætur á árinu 2020.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat stofnunarinnar. Á þeim sem fá greiddar húsnæðisbætur hvílir rík upplýsingaskylda um allar breytingar sem kunna að verða á högum þeirra eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta, sbr. 14. gr. laga nr. 75/2016. Ljóst er að kærandi brást þeirri skyldu, enda tilgreindi hann hvorki sambýliskonu sína sem heimilismann þegar þau hófu sambúð né greindi frá því að hann væri ekki lengur leigjandi íbúðarhúsnæðis. 

Samkvæmt 26. gr. laga nr. 75/2016 er meginreglan sú að endurgreiða ber ofgreiddar húsnæðisbætur. Undantekningu frá þeirri meginreglu ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Með vísan til þess og framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar á grundvelli 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 6. desember 2021, um að synja umsókn A, um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira