Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2012

Fimmtudaginn 9. október 2012

 A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. mars 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá B hdl., f.h. A, dags. 21. desember 2011. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 21. desember 2011, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni í fullu námi.

Með bréfi, dags. 14. mars 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 24. mars 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. mars 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda í bréfi, dags. 17. apríl 2012.

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi stundað fullt nám á háskólastigi undanfarin fjögur ár við viðurkennda menntastofnun, C-skóla. Barn kæranda hafi fæðst Y. desember 2011 en þá hafi verið liðnir sjö mánuðir frá því að hún lauk námi og útskrifaðist. Af þeim sökum hafi hún því ekki getað stundað hefðbundið nám þá önn sem barn hennar fæddist enda hafi hún þá lokið námi. Í stað hefðbundins náms hafi hún hins vegar stundað verknám við sama skóla undanfarna mánuði, bæði áður en barn hennar fæddist en einnig að einhverju marki eftir fæðinguna.

Þar sem ekki sé hægt að sýna fram á námsárangur í umræddu starfsnámi vísar kærandi til heimildar í 1. mgr. 19. gr. laga, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), en þar segi: „heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangur á þeirri skólaönn sem barn fæðist“. Kærandi vísar einnig í c-lið 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1218/2008, þar sem fram komi að með fullu námi sé jafnframt átt við verklegt nám við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Kærandi hafi verið í fullu námi við skólann undanfarin fjögur ár. Eftir útskrift hafi hún jafnframt verið í verknámi við sömu stofnun allt fram til dagsins í dag. Í ljósi framangreinds óskar kærandi eftir að tillit sé tekið til þess verklega náms sem hún hafi stundað undanfarna mánuði við mat á því hvort hún uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem námsmaður.

Kærandi bendir á að tilgangur ffl. sé meðal annars að tryggja samvistir barns við föður og móður. Sú stranga túlkun Fæðingarorlofssjóðs að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslu úr sjóðnum fari gegn þessu meginmarkmiði laganna.

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 20. nóvember 2011, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 30. desember 2011. Með umsókninni hafi fylgt staðfesting frá C-skóla, dags. 8. nóvember 2011, og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 18. nóvember 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.

Með bréfi, dags. 21. desember 2011, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi þar sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að tölvupóstur hafi borist frá kæranda, dags. 9. janúar 2012, sem ekki hafi gefið tilefni til að breyta fyrri ákvörðun.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 1. gr. laga nr. 136/2011, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75‒100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 komi fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 19. gr. ffl., með síðari breytingum, og 15. gr. reglugerðarinnar þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr., þegar foreldri eigi eftir minna en sem nemi 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst sé að viðkomandi er að ljúka tiltekinni prófgráðu. Foreldri skuli jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl., með síðari breytingum.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að barn kæranda sé fætt Y. desember 2011 og því verði, við mat á því hvort hún hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá . desember 2010 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt staðfestingu frá New York School of Interior DesignC-skóla, dags. 8. nóvember 2011, hafi kærandi lokið síðustu 22 ECTS einingunum á tímabilinu frá 7. september 2010 til 6. maí 2011. Jafnframt komi fram að útskriftin hafi verið 20. maí 2011.

Í tölvupósti kæranda, dags. 9. janúar 2012, staðfesti hún að hafa útskrifast úr skólanum 20. maí 2011. Í bréfinu komi einnig fram að þar sem hún hafi ekki átt kost á að vera lengur í námi fram að fæðingu, þar sem hún hafi lokið prófgráðu sinni, hafi hún átt von á að fá undanþágu. Annars hefði hún frestað útskrift og tekið svo sem einn teikniáfanga eða eitthvað annað smálegt og þannig uppfyllt skilyrðin. Einnig veki hún athygli á að einungis muni um einum mánuði og tíu dögum upp á að hún uppfylli skilyrðin um fullt nám í a.m.k. sex mánuði. Að lokum komi fram að hún sé núna á svokölluðu OPT eða Optional Practical Training, sem myndi þýðast sem „sjálfviljugt starfsnám“. Það fái allir þeir sem ekki séu erlendir ríkisborgarar árið eftir að þeir útskrifast úr námi.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22-30 ECTS einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af framangreindu verði ekki séð að kærandi uppfylli almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt bréfi, dags. 8. nóvember 2011, hafi hún lokið námi við skólann þann 6. maí 2011 og hafi því einungis verið í fullu námi frá Y. desember 2010 til 6. maí 2011 á tólf mánaða tímabilinu. Engin staðfesting hafi verið lögð fram frá viðurkenndri menntastofnun um að kærandi hafi verið skráð í fullt nám eftir þann tíma.

Fæðingarorlofssjóður telur að ekki verði séð að OPT eða hið „sjálfviljuga starfsnám“ geti talist hluti af námi hennar við C-skóla enda komi skýrt fram í bréfi skólans, dags. 8. nóvember 2011, að hún hafi útskrifast með prófgráðu sína þann 20. maí 2011. Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að hið „sjálfviljuga starfsnám“ sé hluti af fullu námi í skilningi ffl. við annan viðurkenndan skóla. Undanþágur sem koma fram í næstsíðasta málslið 1. mgr. 19. gr. ffl. og í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 geti því ekki átt við um tilvik kæranda enda hafi hún lokið námi 6. maí 2011.

Með vísan til framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns.

III. Athugasemdir kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.

Í athugasemdum kæranda ítrekar hún það sem fram kemur í kæru og bendir á ákvæði 1. mgr. 19. gr. ffl. þar sem Fæðingarorlofssjóði sé veitt heimild til að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs. Þá segi enn fremur í c-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 að með fullu námi sé jafnframt átt við verklegt nám hjá viðurkenndri menntastofnun sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði.

Það liggi fyrir að C-skóla sé viðurkennd menntastofnun í skilningi ofangreinds ákvæðis. Jafnframt liggi fyrir að það verknám sem kærandi leggi stund á sé við umrædda viðurkenndu menntastofnun. Þá bendir kærandi á að ekkert í umræddu ákvæði reglugerðar nr. 1218/2008 kveði á um að umsækjandi megi ekki hafa útskrifast áður en verknám hefjist. Aðeins sé kveðið á um að verklegt nám skuli vera við viðurkennda menntastofnun og standa yfir í a.m.k. sex mánuði. Í tilviki kæranda hafi hún hafið verknám í beinu framhaldi af útskrift í maí 2011 og hún hafi því stundað „samfellt nám“ við skólann lengur en í sex mánuði.

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni vegna fæðingar barns hinn Y. desember 2011.

Af hálfu kæranda er byggt á því að á haustönn 2011 hafi hún stundað verknám við sama skóla og hún útskrifaðist úr í maí 2011. Þar sem ekki hafi verið unnt að mæla námsárangur í verknáminu skuli líta til námsástundunar hennar á haustönn 2011 í samræmi við 5. málsl. 1. mgr. 19. gr. ffl., enda hafi hún fætt barn sitt í lok þeirrar annar. Kærandi kveður verknámið vera við þann skóla sem hún útskrifaðist úr og sé beintengt námi hennar. Ekki eigi að hafa áhrif að kærandi hafi útskrifast áður en barn hennar fæddist.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008 og 8. gr. laga nr. 136/2011, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar fellur niður er barnið nær 18 mánaða aldri.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samhljóða ákvæði er í c-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt gögnum málsins er barn kæranda fætt Y. desember 2011. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. desember 2010 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt vottorði frá C-skóla, dags. 8. nóvember 2011, lauk kærandi síðustu 22 einingum í námi sínu til BA-prófs á tímabilinu 7. september 2010 til 6. maí 2011 og útskrifaðist með BA-gráðu frá skólanum hinn 20. maí 2011. Því liggur fyrir að kærandi var í fullu námi á vorönn 2011 en önnin náði yfir fjóra mánuði og tuttugu daga. Til þess að uppfylla skilyrði ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins þarf kærandi því að hafa verið í fullu námi í a.m.k. einn mánuð og tíu daga af haustönn 2011, önnina sem barn hennar fæddist. Er því nauðsynlegt að skoða hvort fyrrnefnt „Optional Practical Training“ geti talist fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðar nr. 1218/2008.

Í vottorði frá fyrrnefndum skóla, sem úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kallaði eftir og er dagsett 20. september 2012, kemur fram að kærandi hafi, eftir að hún útskrifaðist með BA-gráðu sína í maí 2011, sótt um umrætt „Optional Practical Training“, sem sé sérstök heimild sem Innflytjendaskrifstofa innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna veiti erlendum ríkisborgurum, þannig að þeir megi starfa í Bandaríkjunum í allt að tólf mánuðum á sviði sem tengist námi þeirra. Þjálfunin geti bæði verið launuð og ólaunuð. Kærandi hafi kosið að hefja sína þjálfun 1. júní 2011 og ljúka henni 31. maí 2012.

Af fyrirliggjandi gögnum í málinu verður ekki dregin sú ályktun að mati úrskurðarnefndar að sú starfsþjálfun sem kærandi var í frá 1. júní 2011 til 31. maí 2012 geti talist nám við þá menntastofnun sem kærandi útskrifaðist úr vorið 2011 eða við aðra menntastofnun. Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða sérstaka heimild sem bandaríska ríkið veitir erlendum ríkisborgurum til þess að sinna starfi á því sviði sem þeir hafa eða eru að mennta sig til, í afmarkaðan tíma. Starfsþjálfunin er eins og nafnið gefur til kynna valkvæð og virðist ekki vera hluti af umræddu námi á þann hátt að hún sé metin til eininga eða sé nauðsynlegur hluti námsins á annan hátt. Þá verður ekki séð að starfsþjálfunin sé hluti af fullu námi í skilningi ffl. við annan viðurkenndan skóla eða öðru námi kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telur nefndin óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki verið í fullu námi á haustönn 2011 í skilningi ffl. Kemur því ekki til frekari skoðunar málsástæða hennar um að beita beri 5. málsl. 1. mgr. 19. gr. ffl. um hennar tilvik, og líta til ástundunar náms í stað námsárangurs á haustönn 2011.

Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi er staðfest.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira