Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 375/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 375/2022

Fimmtudaginn 29. september 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. júlí 2022, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar vegna beiðni hans um afhendingu gagna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með beiðni, dags. 17. nóvember 2021, óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum gögnum er vörðuðu umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, nú Vesturmiðstöð. Kærandi ítrekaði þá beiðni 1. apríl 2022. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 22. júlí 2022 og vísaði til þess að Reykjavíkurborg hefði ekki afhent umbeðin gögn. Því legði kærandi fram kæru vegna seinkunar á afhendingu gagna.

Með erindi til Reykjavíkurborgar, dags. 23. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu vegna kærunnar. Svar barst 29. ágúst 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. ágúst 2022, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt málsgögnum. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 7. september 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. september 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Reykjavíkurborgar vegna beiðni kæranda um afhendingu gagna. Fram kemur í kæru að kærð sé seinkun á afhendingu gagna.

Um upplýsingarétt aðila máls er fjallað í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varði. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga skal ákvörðun stjórnvalds um að synja málsaðila um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti tilkynnt aðila og hún rökstudd í samræmi við V. kafla laganna. Kæra má synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þá er samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að beiðni kæranda frá 17. nóvember 2021 hafi ekki verið svarað af hálfu starfsmanns Vesturmiðstöðvar þar sem viðkomandi starfsmaður hafi látið af störfum stuttu eftir að hafa tekið við beiðninni. Kærandi hafi aftur skilað inn beiðni varðandi aðgang að gögnum hjá Vesturmiðstöð þann 1. apríl 2022. Um hafi verið að ræða viðamikla gagnaöflun en kærandi hafi óskað eftir öllum gögnum sem væru til um hann á Vesturmiðstöð frá árinu 1982, eða rúmlega 700 blaðsíður. Kærandi hafi fengið gögnin afhent 5. september 2022. Að mati Reykjavíkurborgar verði töf á málinu talin óveruleg í ljósi þess að um umfangsmikla gagnaöflun hafi verið að ræða.

Í ljósi þess að kærandi hefur þegar fengið umbeðin gögn afhent er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira