Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 58/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 58/2024

Fimmtudaginn 18. apríl 2024

A og B

gegn

C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2024, kærðu A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs C frá 4. janúar 2024 um umgengni fósturbarna þeirra, D, og E, við móður þeirra F.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul og drengurinn E er X ára gamall. Móðir þeirra afsalaði sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi C þann 6. febrúar 2018. Kynfaðir barnanna fór aldrei með forsjá þeirra. Börnin lúta forsjá C og hafa verið í fóstri hjá kærendum frá því árið 2017. Kærendur eru fósturforeldrar barnanna.

Á grundvelli úrskurðar Barnaverndarnefndar C frá 13. október 2021 hafa börnin haft umgengni við móður sína, fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti. Þann 28. apríl 2023 gerði lögmaður kæranda kröfu fyrir hönd kæranda um breytingu á umgengni við börnin. Mál barnanna var tekið fyrir á fundi umdæmisráðs C þann 4. janúar 2024. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna C, dags. 21. nóvember 2023 þar sem fram kom að ekki væri tímabært að auka umgengni að svo stöddu. Starfsmenn lögðu til að umgengni yrði þrisvar á ári, í þrjár klukkustundir í senn og undir eftirliti. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„D og E, skulu eiga umgengni við móður sína, F , fjórum sinnum á ári, í þrjár klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti og fari fram á G í ágúst, febrúar og maí og í U í nóvember ár hvert. Skilyrði umgengni er að móðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila.“

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð C ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. 21. febrúar 2024, og var hún send kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. febrúar 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru fósturforeldra kemur fram að bæði börnin séu mjög ósátt við að ekki hafi verið hlustað á þau við ákvörðun um umgengni þeirra við kynmóður. Börnin hafi óskað eftir að umgengni færi fram þrisvar á ári en umdæmisráð barnaverndar C úrskurðaði að umgengnin yrði fjórum sinnum á ári. Þeim finnist of stutt á milli þess sem umgegnin á sér stað og finnst þriggja klukkustunda umgengni langur tími. Þau séu orðin neikvæð fyrir því að fara í umgengni, hvort sem það er við kynmóður, kynföður eða langömmur. Þeirra kröfur séu að á þau sé hlustað og umgengi við kynmóður verði styttri og sjaldnar.

III.  Sjónarmið C

Í greinargerð C kemur fram að hinn kærði úrskurður varði umgengni móður við börnin sín sem séu í varanlegu fóstri hjá kærendum og hafa verið í umsjá þeirra frá því í mars 2017. Börnin lúta forsjá C eftir að móðir afsalaði sér forsjá þeirra þann 6. febrúar 2018 með dómsátt í Héraðsdómi C.

Varðandi forsögu málsins sé vísað í hinn kærða úrskurð umdæmisráðs frá 4. janúar 2024, greinargerð starfsmanna, dags. 6. nóvember 2023 og önnur gögn málsins.

Þann 12. október 2021 úrskurðaði aC um umgengni barnanna við móður fjórum sinnum á ári, þrjár klukkustundir í senn. Umgengni skyldi vera undir eftirliti og færi fram á G í ágúst, febrúar og maí og í U í nóvember ár hvert. Skilyrði umgengni væri að móðir yrði edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila. Bæði fósturforeldrar og móðir kærðu úrskurðinn til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti úrskurð barnaverndarnefndar þann 26. janúar 2022 í málum nr. 594/2021 og 572/2021. Þann 28. apríl 2023 barst erindi frá lögmanni móður um beiðni á endurskoðun á umgengni. Málið hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna þann 20. júní 2023. Í bókun sé umgengni frá úrskurði nefndarinnar þann 12. október 2021 rakin. Þá komi fram að þann 27. apríl 2023 hafi starfsmenn farið á fósturheimilið og rætt við börnin um umgengni. Börnin svöruðu því að vilja umgengni tvisvar til þrisvar á ári og sögðu að lokum vera sátt með þrjú skipti á ári við móður og óskuðu eftir því að eftirlitsaðili yrði viðstaddur umgengni. í talsmannskýrslum, dags. 10. maí 2023 kom fram hjá stúlkunni að hún vildi hitta móður sína þrisvar á ári í stað fjórum sinnum. Fram kom hjá drengnum að hann vildi hafa umgengni óbreytta eða fjórum sinnum á ári. Móðir átti umgengni við börnin þann 31. maí 2023 og var óskað eftir nýrri talsmannskýrslu í kjölfar þess sem barst þann 20. júní 2023. Kom fram að rætt hafi verið við börnin í sitt hvoru lagi og börnin ræddu ekki saman á milli samtala við talsmann. Afstaða stúlkunnar til umgengni við móður hafði ekki breyst og vildi hún fækka skiptum úr fjórum í þrjú skipti á ári. Farið hafi verið yfir kröfur móður um umgengni með stúlkunni og sagði stúlkan vilja vera heima hjá fósturforeldrum yfir hátíðar og önnur hver helgi ásamt tveimur vikum að sumri væri of mikil umgengni. Drengurinn sagði við talsmann vilja hafa umgengni þrisvar á ári og allt annað óbreytt frá því sem hafi verið þá. Drengurinn taldi sig einnig hafa sagst vilja fækka skiptum þegar talsmaður ræddi við hann í maí 2023 en það hafi ekki verið leiðrétt við drenginn. Bæði börnin hafi því viljað fækka fjölda skipta á umgengni úr fjórum í þrjú skipti á ári.

Afstöðu fósturforeldra hafi verið aflað áður en málið var bókað í júní 2023. Töldu fósturforeldrar að afstaða barnanna væri skýr og að búið væri að raska ró barnanna með reglulegum heimsóknum vegna endurskoðun ráðstafanna sem hafði farið illa í börnin fyrr árið 2023. Fram hafi komið hjá fósturforeldrum að eftir að beiðni um aukna umgengni barst frá móður höfðu börnin upplifað mikið óöryggi og verið viðkvæm.

í bókun meðferðarfundar þann 20. júní 2023 hafi það verið mat starfsmanna að mikilvægt væri að viðhalda þeirri ró, stöðugleika og öryggi sem náðst hafði að skapa í aðstæðum barnanna. Starfsmenn töldu ekki tímabært að auka umgengni að svo stöddu og lögðu starfsmenn til að umgengni yrði fækkað úr fjórum skiptum í þrjú skipti á ári. Hafi það verið mat starfsmanna að það samræmdist ekki hagsmunum barnanna að gengið yrði gegn vilja þeirra þar sem afstaða barnanna lá skýrt fyrir.

í greinargerð starfsmanna, dags. 6. nóvember 2023 sem lögð hafi verið fyrir fund umdæmisráðs C kom fram að í upphafi árs 2023 lagði móðir fram beiðni um að fá forsjá barnanna að nýju og hafi sú beiðni ollið töluverðu raski á ró þeirra. Talsmaður hafði tvívegis rætt við börnin vegna beiðni móður um aukna umgengni. Börnin hafi verið skýr í afstöðu sinni við talsmann og óskuðu eftir umgengni mun sjaldnar en móðir hafði óskað eftir. Ítrekað hafi verið það mat starfsmanna að það samræmdist ekki hagsmunum barnanna að gengið yrði gegn vilja þeirra vegna umgengni. Ein meginregla í barnaverndarstarfi skv. 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga sé að tryggja skal barni sem getur myndað sér eigin skoðanir rétt til að láta þær í ljós við meðferð máls. Þá skuli taka réttmætt tilliti til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska, sbr. sama lagaákvæði. Það sé mat C að börnin séu komin á þann aldur að þau geti myndað eigin skoðanir og mikilvægt sé að taka tillit til þess.

Þegar málið hafi farið fyrir fund umdæmisráð lagði C fram þá tillögu í greinargerð sinni, dags. 6. nóvember 2023 að umdæmisráð myndi úrskurða um að móðir ætti umgengni við börnin þrisvar sinnum á ári, í þrjár klst. í senn. Umgengin færi fram á G í ágúst og mars en í U í nóvember ár hvert. Skilyrði fyrir umgengni væri að móðir væri edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila. Þá yrði umgengni undir eftirliti.

Í hinum kærða úrskurði komi fram í niðurstöðukafla að umdæmisráð hafi talið mikilvægt fyrir hagsmuni barnanna að þau tengsl sem fyrir séu á milli þeirra og móður verði ekki skert með því að dregið sé úr umgengni. Fellst umdæmisráð því ekki á tillögu C í málinu og úrskurðaði ráðið að umgengni yrði óbreytt frá því sem áður var eða fjögur skipti á ári.

Að öðru leyti sé vísað til bókunar meðferðarfundar þann 20. júní 2023, greinargerð starfsmanna, dags. 6. nóvember og talsmannskýrslur barnanna.

Afstaða C vegna umgengni móður við börnin hafi ekki breyst frá því að málið var lagt fyrir fund umdæmisráð C með tillögu um að fækka umgengni úr fjórum í þrjú skipti á ári, sbr. bókun meðferðarfundar þann 20. júní 2023. Starfsmenn telja mikilvægt, með hagsmuni barnanna í huga að tekið sé tillit til afstöðu barnanna en í málinu liggja tvær talsmannskýrslur frá 2023 þar sem börnin hafa verið skýr í sinni afstöðu. C telur að taka skuli réttmæt tillit til skoðanir þeirra en vilji barnanna hafi ítrekað komið fram til lengri tíma í gögnum málsins.

IV. Afstaða móður

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu móður til kæru fósturforeldra með tölvupósti til lögmanns hennar þann 28. febrúar 2024. Afstaða hennar barst með bréfi, dags. 1. mars 2024.

Í bréfi lögmanns kemur fram að móðir mótmæli staðhæfingum sem fósturforeldrar hafa uppi sem röngum og ósönnuðum. Þá sé bent á að kæra fósturforeldra hafi verið send inn eftir að fjögurra vikna kærufrestur hafi verið liðinn.

Reynist það hins vegar vera rétt sem í kæru fósturforeldra komi fram, sýni það og sanni endanlega að barnaverndaryfirvöld hafi í reynd framið tengslarof gegn móður og börnum og þar að auki tekist að snúa þessum börnum gegn sinni eigin fjölskyldu. Enginn geti vitað hvílíkt kvalræði slíkt veldur ungum börnum og hvaða skaða slíkt getur valdið þeim út ævina.

Staðreyndir um hörmuleg örlög íslenskra fósturbarna megi hins vegar lesa um í rannsókn Birgittu Rósar Laxdal, „Fósturbörn og hvað svo?“ sem sýni að heilsa, líðan og velferð fullorðinna fósturbarna á Íslandi sé hræðileg. [Samkvæmt rannsókninni hafi um] 81% fósturbarna þurft að leita sér aðstoðar vegna andlegra eða geðrænna erfiðleika eftir að fóstri lauk, 90% höfðu upplifað kvíða og 89% þunglyndi, 2/3 hlutar glíma við áfallastreituröskun og fjórðungur við átröskun. [Um] 40% höfðu verið háð vímuefnum einhvern tímann á lífsleiðinni og þannig séu margfalt meiri líkur á að fyrrum fósturbörn þurfi að leita sér vímuefnameðferðar en almennt gengur og gerist. Þá séu einnig mun margfalt hærri líkur á að fyrrum fósturbörn fari í fangelsi eða verði öryrkjar. Samkvæmt rannsókninni höfðu 84% fyrrum fósturbarna á Íslandi annað hvort reynt að fremja sjálfsvíg eða hugsað um að gera það. Sérstaklega kom fram í rannsókninni hversu þungbært það reyndist flestum fósturbörnunum að standa uppi 18 ára, vera þá algerlega á eigin fótum og hafa lítið sem ekkert stuðningsnet í kringum sig og fáa eða enga til að styðja sig fjárhagslega eða félagslega. Þá sögðust 2/3 fósturbarna ekki hafa fengið neinn stuðning er fóstrinu lauk. Á því sé byggt að þetta sé bein afleiðing af tengslarofi fósturbarna við blóðfjölskyldu sem myndi annars standa við bak þessara barna ef ekki hefði komið til tengslarofsins. Blóð sé þykkara en vatn og samkvæmt rannsókninni virðast fósturforeldrar almennt ljúka sínum stuðningi við þessi börn þegar þau verði 18 ára og fósturforeldrar fá ekki lengur borgað fyrir að „passa þau“.

Þegar þessi rannsókn sé borin saman við mýmargar rannsóknir á fullorðnum börnum alkóhólista megi sjá að fósturbörnin séu mun verr stödd. Rannsóknir á fullorðnum börnum alkóhólista sýni enn fremur að þau börn sem alast upp við slíkar aðstæður en nái samt sem áður framúrskarandi árangri í lífinu, séu einmitt þau börn sem höfðu þétt og sterkt félagslegt net í kringum sig. Ömmur og afa, frænkur og frænda, til að leita skjóls hjá og reiða sig á. Þetta sé hrifsað frá fósturbörnum og þau einangruð hjá ókunnugu fólki sem oft á tíðum sé brotið vegna áralangra misheppnaðra tilrauna til að eignast eigin börn. Slíkur sársauki gerir fósturforeldra oft á tíðum ófæra um að setja hagsmuni barnanna til að tengjast blóðfjölskyldu framar eigin hagsmunum um að „eiga börnin sjálf‘. Fara slíkir fósturforeldrar, oft ómeðvitað, að vinna gegn hagsmunum barnanna við að tengjast eða sameinast blóðfjölskyldu sinni á ný eða umgangast hana, vegna þess að blóðfjölskyldan sé „ógn“ við hagsmuni fósturforeldra að fá sitt „eigið barn“. Slíkt vinni gegn hagsmunum fósturbarna og búi til áralangt stríð oft á tíðum milli þeirra sem þessi börn elska mest. Rannsóknir á skilnaðarbörnum hafi sýnt að ósætti og ágreiningur milli aðalumönnunaraðila barnanna eftir skilnað hefur langvarandi skaðleg áhrif á velferð, líðan og heilsu þessara barna. Samt sem áður [sé] verið að skapa slíkar aðstæður í lífi fósturbarna, án nauðsynjar, af hálfu barnaverndarkerfis Íslendinga. Í reynd virki kerfið eins ranglega og skaðlega gagnvart þessum börnum og hugsast getur. Þá komi rannsóknarniðurstöður Birgittu ekkert á óvart og ríma vel við afleiðingar tengslarofs, fjölskyldusundrunar og fjölskylduútilokunar.

Ábyrgð barnaverndar og úrskurðarnefndar í þessu máli líkt og öðrum sé rík og algjör. Miðað við allt sem bent hafi verið á, niðurstöður rannsóknar Birgittu sem og nýlega rannsóknarskýrslu rannsóknarnefndar Vöggustofu þar sem staðfest hafi verið að tengslarof fæli í sér illa meðferð og brot gegn 3. gr. MSE, hefði lögmaður haldið að þeir embættismenn, sem hafi valdið til að taka ákvarðanir og sem hafa mótað barnaverndarkerfi Íslendinga í áraraðir, myndu setjast niður og ræða saman og hugsa sinn gang og íhuga, hvort breytinga sé þörf. Um slíkt finni sá lögmaður sem þetta skrifar engar vísbendingar né merki. Bendir það til þess að farið sé langt fram yfir mörk þess sem getur talist vera gáleysi, að mati lögmanns.

Barnaverndarkerfið og fórnarlömb þess séu í algjörum molum. Sviðin jörð, sundraðar fjölskyldur í sárum sem aldrei gróa og gjörónýtir einstaklingar sem gríðarlega sterkar líkur séu á, að þessi fósturbörn verði á sínum fullorðinsárum. Úrskurðanefndin verði að átta sig á þessu og breyta sinni framkvæmd. Mun sterkara sé að slík breyting komi frá kerfinu að eigin frumkvæði, heldur en að þurfa dóm til.

Tengsl barnanna við móður sína eyðilögð

Líkt og úrskurðarnefnd sé þegar kunnugt um, sbr. miskabótakröfu móður sem send hafi verið úrskurðarnefnd í nóvember 2023, að þá hafi verið gríðarlega sterk, náin og heilbrigð tengsl á milli þessara barna og móður annars vegar og hins vegar barnanna og nátengdra fjölskyldumeðlima eins og ömmu og afa, langömmu og frænkna og frænda hins vegar.

Þegar gögn málsins frá þeim tíma áður en börnin voru sett í fóstur séu skoðuð, t.d. forsjárhæfnimat og vistheimilaskýrslan, skýrslur um umgengni, sé þetta óyggjandi staðreynd. Við skoðun þeirra gagna sést sjá hversu innilega náin og tengd þessi börn hafi verið móður sinni. Hversu hænd að henni og háð henni þau hafi verið og hversu sterk tengslin á milli þeirra hafi verið. Hversu mikið og ríkt þessi börn þráðu að hitta móður sína alla daga og vera hjá henni og heima hjá sér. Í millitíðinni hafi ekkert annað gerst en að barnavernd og úrskurðarnefnd hafi framið tengslarof gegn þessum börnum og móður, vanrækt skyldur sínar til að veita þessum börnum útskýringu á hvað væri að gerast og hvers vegna þau fengu ekki lengur að hitta mömmu sína og síðan hafi þeim verið skipaður talsmaður sem hafi verið meðferðaraðili fósturforeldra barnanna. Eftir síðasta samtal, þáverandi starfsmanns barnaverndar sem hafi farið með málið frá upphafí, kúventist afstaða barnanna sem að sögn starfsmannsins hafi allt í einu verið orðin hrædd, grátandi og hafi hafnað frekari samskiptum við móður sína. Þannig hafi barnavernd nú tekist að snúa þessum börnum gegn móður sinni og hafi síðan notað það til að réttlæta áframhaldandi umgengnistálmanir sínar (nú vísar barnavernd í „vilja barnanna“ í stað þess að taka ábyrgð á eigin gjörðum). Þessi kæra fósturforeldra sé lokanaglinn í þá líkkistu sem tengsl þessara barna við fjölskylduna sína sé orðin fyrir tilstuðlan barnaverndar og úrskurðanefndar og þessari skaðlegu þróun þarf að snúa við án tafar.

Mannréttindabrot og ill meðferð barnaverndar

Tengsl barna við foreldra sína séu varin af stjórnarskrá, MSE og barnasáttmála SÞ, sbr. friðhelgi fjölskyldunnar. Með því að rjúfa þessi tengsl og banna nánast alla umgengni, hafi barnavernd, sem og úrskurðarnefnd velferðarmála brotið gegn stjórnarskrár vörðum rétti þessarar móður og barna hennar. Á því sé byggt að um kerfisbundið tengslarof nefndarinnar gegn fósturbörnum í landinu sé að ræða og að Elísabet og börn hennar séu fórnarlömb þessa kerfisbundna ofbeldis.

Á því sé byggt að hvorki sé til staðar nokkur vísindalegur, né lagalegur grunnur, fyrir því að rjúfa með þessum hætti markvisst tengsl á milli móður og barna hennar. Sérstaklega í ljósi þess að móðir þessi hafi aldrei verið metin vanhæf sem foreldri né stafað af henni nokkur ógn gagnvart börnum sínum. Þvert á móti hafi hún verið metin vel forsjárhæf í eina forsjárhæfnimatinu sem gert hafi verið. Hvar sem athugað var hafi Elísabet verið dásömuð sem góð, hlý og umhyggjusöm móðir.

Í gögnum málsin séu gríðarlega sterk og náin og heilbrigð tengsl barnanna við móður sína ítrekað staðfest. Þá sé einnig þyngra en tárum taki að bera saman líðan barnanna fyrir tengslarofið við móður sína, og svo eftir. Sýni það svart á hvítu hvílíkt kvalræði það reyndist þessum börnum, að tengsl þeirra við móður voru rofin, svo mánuðum skipti.

Örvæntingarfulla leit D að svörum við þessu megi glitta í hér og þar í gögnum málsins, þegar fósturforeldrar nefna það við barnaverndarstarfsmenn Natalía sé pirruð í tengslum við umgengni og sé að krefjast svara við því „hver það sé sem ræður því hvenær hún hitti mömmu sína“ (Greinargerð barnaverndar, dags. 11. júlí 2017, bls. 26). Síðar hafi komið í ljós að árið 2023, sex árum eftir að þau voru fyrst sett í fóstur, höfðu þessi börn enn ekki fengið úrskýringu eða samtal um ástæður þess að þau voru tekin og sett á nýtt heimili, af hverju mamma þeirra hvarf skyndilega út úr lífi þeirra fyrir fullt og allt, sbr. bókun um endurskoðun ráðstafana, dags. 22. febrúar 2023:

,.Starfsmaður opnaði á umræðuna við börnin um beiðni móður með því að ræða við þau um þann tíma sem farið var með þau á vistheimili barna, I. Börnin sögðust bæði muna eftir því að hafa verið þar en ekki vita ástæðu þess að hafa þurft að dvelja þar. E sagði að hann myndi eftir því þegar þau D voru keyrð í leikskólann á þeim tíma sem þau dvöldu þar. Börnin sögðust einnig muna eftir því þegar fósturforeldrar þeirra komu að sækja þau þangað. Aðspurð sögðust þau ekki vita af hverju þau þurfti að flytja til Í. Börnin rifjuðu upp skemmtilegar minningar frá vistheimilinu sem þau kalla ,,bláa húsið“ og ræddu um hversu gömul þau voru þegar þau fluttu til Í...“

Á því sé byggt að börn þessi hafi sýnt öll einkenni tengslarofs og áfallastreituröskunar og sjúklegrar og grafalvarlegrar vanlíðanar, sem ekki hafi verið fyrir hendi áður, eftir að þau fóru í fóstur (bent sé á að við þessu hafi sérstaklega verið varað af sérfræðingi í forsjárhæfnimati móður - samt hafi barnavernd framið þetta gegn börnunum):

Tengsl barnanna við móður fyrir tengslarofið

Líðan barnanna fyrir tengslarofið við móður

Tengsl og líðan barnanna fyrir tengslarofið og vikurnar fyrir fóstrið (Þau voru enn í umsjá móður eða á vistheimilinu vikurnar fyrir fóstrið þar sem móðir sinnti þeim daglega):

Í forsjárhæfnimati sem sálfræðingurinn J vann árið 2015 kom eftirfarandi fram um tengsl barnanna við móður og líðan:

-Að endurtekið komi fram í gögnum máls upplýsingar sem benda til sterkra geðtengsla móður við börnin (forsjárhæfnimat, bls. 21)

„frá því að F varð þunguð af dóttur sinni hefur hún sýnt mikinn vilja til að standa sig í móðurhlutverkinu. Það er henni eðlislægt að finna sterka ást til barna sinna og hún hefur mikla þörf fyrir að hlúa vel að börnunum sínum og vernda þau... Börnunum sýnir hún mikla hlýju og nánd og leitast eftir fremsta megni að hafa á þeim rútínu. Börnin virðast dafna vel í hennar umsjá.“

„Geðtengsl hennar við börnin virðast afar sterk og ber aðilum saman um að hún lifi fyrir börnin sín. Hún nýtur samvista við þau, ver miklum tíma með þeim og er meðvituð um ólíkan persónuleika þeirra og ólíkar þarfir þeirra. Hún leggur mikla áherslu á að sýna börnunum sínum blíðu og þolinmæði en jafnframt um að skapa þeim skilyrði sem einkennast af festu og stöðugleika. Er afar mikilvægt fyrir börnin að halda tengslunum við móður. Auk þessa nýtur F mikils stuðnings frá ömmu sinni við umönnum barna sinna... Ekki verður betur séð en að það sé börnunum fyrir bestu að vera áfram í umsjá móður...“ (forsjárhæfnimat, bls. 22)

Í skýrslu leikskóla E komi fram að E líði „alla jafna vel“. (skýrsla K, dags. febrúar 2017).

Í skýrslu vistheimilis þar sem börnin dvöldu frá 1. febrúar 2017 til 2. apríl 2017 (tímabilið fram að fóstri en fram að því hafi þau verið í umsjá móður daglega á vistheimilinu)

-D:

„Við komuna á vistheimilið virkaði D örugg og brosandi... D var dugleg að leika sér við aðra krakka og hafði hún gaman af að lita og átti gott með að leika sér ein... Hún virtist að öllu jöfnu glöð og kát stelpa og var dugleg að vera í samskiptum við börn og fullorðna... Tengsl D við móður sína virtust sterk, hún var hænd að móður sinni og var glöð að sjá hana þegar hún kom... Á tímabili þegar móðir hennar kom minna þá sýndi hún merki vanlíðunar og var daufari og sótti í einveru.“ (grg vistheimilis, bls. 2)

E:

„Við komuna á vistheimili barna virkaði E öruggur og var brosandi. E var rólegur og ljúfur í skapi. Honum fannst gott að leika sér með bíla í námunda við fullorðna... E gat líka unað sér í leik með öðrum krökkum og gat þá verið líflegur og hávaðasamur. Hann var skýr í tali og með góðan orðaforða. E var hændur að móður sinni og var glaður að sjá hana þegar hún kom. Þegar móðir hans kom ekki reyndi hann að sannfæra sjálfan sig með að hún kæmi bráðum og lét starfsmann vita af því „mamma mín kemur á eftir“. A tímabili þegar móðir hans kom minna sagði hann oft við starfsmenn „þetta er mamma mín“ eða „þetta er M mamma mín“. Hann var mikill mömmustrákur og sótti mikið í hana. E var hraustur og mætti vel í leikskóla...“

Í skýrslu eftirlitsaðila með umgengni móður við börnin, dags. 21. maí 2017 hafi m.a. komið fram:

„Börnin virtust glöð að sjá móður sína... Börnin sóttu mikið í að leiða móður sína og vera hjá henni og sögðu henni að hún væri best og hún þeim tilbaka að þau væru best.

Kært samband virtist vera á milli móður og barna hennar og þau tengd henni.“

Tengsl barnanna við móður eftir tengslarofið

Líðan barnanna eftir tengslarofið við móður

Líðan barnanna eftir tengslarofíð og í upphafi fósturs:

Þann 2 apríl 2017 hafi börnin verið sótt á vistheimilið af fósturforeldrum og þau flutt til Í. Samtímis hafi verið lokað á umgengni við móður og móðurfjölskyldu.

-Fósturmóðir hefur áhyggjur af hegðun D og þráhyggju (sjá dagál, dags. 14.7.17 (þremur og hálfum mánuði eftir að börnin fóru í fóstur))

„A (fósturmóðir) kveðst hafa áhyggjur af hegðun D og þráhyggju. Veltir hún því fyrir sér hvort hún sé með einkenni einhverfu.“ Dæmi um líðan D í fóstrinu:

o D sé stöðugt að þrífa sig kringum munninn með blautþurrku og svo sé hún að brenna fyrir ofan vörina. Þetta hafi ítrekað komið fyrir (sjálfs skaðandi hegðun)

o D þrífi sig um munninn á milli bita - stöðugt þurfi að bera á hana krem

o D sé með mikla þráhyggju fyrir mat, hversu mikið hver og einn fær og hvað sé í boði. Mjög fókuseruð á matinn.

o Þegar hún klæðir sig verður hún að byrja á sokkunum. Hún geti ekki klætt sig í buxurnar fyrr en hún hafi lagt þær alveg sléttar á gólfíð.

o D tengist ekki fósturforeldrum eins og E. Virðist ekki kunna félagsleg samskipti.

o Virðist ekki kunna að lesa í líðan fólks eða orsök og afleiðingu.

o Áhyggjur hafa vaknað á leikskóla vegna hegðunar D.

o Mjög ýkt tilfinningaleg viðbrögð hjá henni - gólar af öllum mögulegum ástæðum.

o Mikil yfirborðsgleði hjá henni.

- Tengslaröskun hjá báðum börnunum (grg. barnaverndar dags. 1.6.21, bls. 2-4)

- Í gögnum málsins komi fram að 2 og 1/5 ári eftir að fóstur hófst, hafi enn verið miklir erfiðleikar við tengslamyndum barnanna við fósturforeldra, sérstaklega D (sjá símtal fósturmóður við barnavernd, dags. 10.6.19).

-Í gögnum málsins komi fram að fósturforeldrar væru enn í „mikilli tengslavinnu“ með börnunum í mars 2021, fjórum árum eftir að fóstur hófst! (bókun meðferðarfundar 18.3.21)

-Eftir því sem leið á fóstrið hafi D orðið flöt tilfinningalega og átt erfitt með að setja sig í spor annarra.

- D hafi átt í miklum tilfinningalegum erfiðleikum í upphafi fósturs þar sem hún átti erfitt með að ræða hlutina og tengjast. Hún hafi glímt við mikil streitueinkenni og óöryggi.

-Bæði börnin glími við erfiðleika við að treysta.

-E virðist mjög viðkvæmur og þolir illa breytingar. Reiðiköst.

-Í upphafi fósturs hafi E sýnt mikla innri streitu, glímt við hegðunarerfiðleika og hafi verið í miklu tilfinningalegu ójafnvægi. (grg bamaverndar dags. 1.6.21, bls. 8).

-Fyrstu árin á fósturheimilinu hafi verið þeim erfið, sérstaklega D sem glímdi við mikið öryggisleysi, vantraust, ótta við höfnun og erfiðleika með náin samskipti.

-Þá glímdu bæði börnin við mikla innri streitu vegna vanrækslu og áfalla sem birtist í hegðun þeirra, tilfinningalegum óstöðugleika, slakri félagsfærni og vanda í að mynda og viðhalda tengslum...“ (grg. barnaverndar dags. 1.6.21, bls. 14)

-Í grg. starfsmanna sé svo viðurkennt að það geti tekið mörg ár fyrir börn að aðlagast og jafna sig þegar þau séu sett á nýtt fósturheimili líkt og gert hafi verið hér. Þá taki það mikla sálfræðivinnu og aðstoð við þessi börn.

Á því sé byggt að ofangreind vanlíðan og tengslavandi barnanna sé bein og fyrirsjáanleg afleiðing af því tengslarofi sem varð við móður, en einnig stórfjölskyldumeðlimi og annað umhverfi. Þar að auki hafði sérfræðingur varað við þessu í forsjárhæfnimati svo barnavernd vissi að þetta gæti gerst. Hvernig í ósköpunum eigi lítil börn að geta myndað heilbrigð tengsl við fósturforeldra þegar þau séu í miðju tengslarofi og áfalli yfir því? Hvernig sé hægt að koma svona fram við lítil börn?

Þá hafi aldrei verið til staðar þvílík kvöl og hryllileg vanlíðan hjá þessum börnum áður en þau voru tekin frá móður sinni, eins og þessi börn þurftu að upplifa eftir afskipti barnaverndar og í kjölfar tengslarofsins. Getur maður enga ályktun aðra dregið af þeim grafalvarlegu lýsingum á vanlíðan barnanna eftir að þau komu í fóstur, en að tenglarofið hafi falið í sér illa meðferð og pyntingar. Sýni þetta svart á hvítu, og staðfesti í reynd rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði, þvílíkt ofbeldi það sé gegn börnum að rjúfa tengsl þeirra við móður og aðra nána fjölskyldumeðlimi.

Í tvö skipti hafi úrskurðanefnd velferðarmála úrskurðað um umgengni móður við börn sín í þessu máli. Annars vegar 13. september 2021 og hins vegar 26. janúar 2022. í fyrra skiptið var úrskurður barnaverndarnefndar verið felldur úr gildi. Í síðara skipti hafi verið úrskurðað um umgengni móður við börnin í fjögur skipti á ári, undir eftirliti, í húsnæði barnaverndar.

Á því sé byggt að engin lagaleg né vísindaleg rök standi til þess að rjúfa markvisst tengsl milli barna og foreldris líkt og barnavernd og úrskurðanefnd velferðarmála hafi gert í þessu máli og gerir almennt þegar um sé að ræða fósturbörn. Í því máli sér hér um ræðir hafi það verið sérstaklega hættulegt fyrir börnin líkt og gögn málsins beri með sér. Þvert á móti sýni allar rannsóknir sem við eiga að tengslarof barns við foreldri og harðar umgengnistálmanir líkt og fjölskyldan sem hér á í hlut hafi verið látin sæta, sé til þess fallið að valda tengslavanda/röskun, sársauka, áfallastreitu, vanheilsu, streitu, vantrausti og höfnunarótta og stórkostlegri vanlíðan. Það þurfi ekki sérfræðing til að setja sig í spor þessara barna sem sé meinað af hálfu yfirvalda að hitta fjölskylduna sína. Sem verða fyrir kerfisbundnu tengslarofi og séu útilokuð með öllu frá fjölskyldunni sinni, frá fólkinu sínu sem sé það sem skiptir þau mestu máli í lífinu. Börn sem fá ekki einu sinni útskýringu á því hvers vegna mamma hvarf, hvers vegna þau fá ekki lengur að hitta ömmu og afa, eða langömmu sína sem þau voru svo náin, hvers vegna þau fá ekki lengur að fara á sinn leikskóla, hitta vini sína, heldur en komið nýtt heimili, nýir foreldrar, nýr leikskóli, nýtt bæjarfélag, allt á einum vettfangi. Á því sé byggt að aðgerðir barnaverndar og úrskurðarnefndar í þessu máli sem öðrum lýsti stórkostlegum skorti á innsæi inn í þarfir barnanna og það skaðlega tjón sem svona tengslarof veldur.

Í nýlegri rannsókn vöggustofunefndar hafi einmitt verið fjallað um skaðsemi slíks tengslarofs og samtímarannsóknir skoðaðar varðandi slíkt. Vísað sé í rannsókn L þar, þegar rætt sé um mikilvægi á samneyti foreldra við börn sem séu vistuð utan heimilis:

,,Þá hefur komið fram að þegar vista verður barn utan heimilis að afar áríðandi er að það hafi sem allra nánast samband við foreldra sína eða ættmenni og þau heimsæki það eins oft og við verður komið, jafnvel þótt að um mjög gallaða foreldra sé að ræða. Flest bendir til þess að það sé alröng og hættuleg stefna sem víðast er tíðkuð að banna annað hvort foreldrum alveg að heimsækja börnin eða þá leyfa heimsóknir mjög sjaldan eða stutt í einu. Engin veit hvílíkt tjón og þjáningar slíkir hættir hafa bakað börnum“ (sjá skýrslu vöggustofunefndar, bls. 52).

Hinum nánu og ríku tengslum sem augljóslega hafi verið til staðar milli barnanna og móður þeirra hafi verið rústað af hálfu barnaverndar og úrskurðarnefndarinnar án nokkurrar ástæðu. Afleiðingamar fyrir þeirra samband og fyrir heilsu og líðan móður hafa verið gríðarlega alvarlegar. Móðirin, sem svipt hafi verið börnum sínum af þeirri ástæðu einni að hún sýndi einkenni alvarlegs sjúkdóms sem hún glímdi við, en fall sé einkenni sjúkdómsins alkóhólisma, hefur þrátt fyrir þetta svívirðilega ofbeldi sem hún hefur verið látin sæta, tekist að vera edrú og byggt upp eðlilegt líf og stundi nú háskólanám við Háskóla Íslands og hjálpar öðrum alkóhólistum að verða edrú.

Þá hafi sú litla umgengni sem fram hafi farið verið undir eftirliti og í sérstöku húsnæði á vegum U eða G, án nokkurrar ástæðu til. Um afar þrúgandi, kæfandi og niðurlægjandi aðstæður fyrir umgengni sé að ræða sem valdi þjáningu og erfiðleikum í samskiptum móður við börnin sín. C meini henni að ræða málið við börnin sín eða neitt annað sem máli skiptir og sé móðir þvinguð til að setja upp leikrit í umgengni, brosa og leika og „hafa gaman“ þar til umgengninni sé lokið. Komið sé fram við móður eins og hún sé hættulegur glæpamaður sem geti skaðað börnin sín eða meitt þau ef það sé ekki eftirlit og þau innilokuð í sérstöku húsnæði sem líkt sé við fangelsi. Nánast sé útilokað að skapa þægilega og jákvæða upplifun af umgengni við slíkar aðstæður. Þetta sé hluti af trengslarofsstefnu barnavemdaryfirvalda.

Þannig sé á því byggt að allar aðgerðir barnaverndar, sem og úrskurðarnefndar í þessu máli, hafi í reynd stuðlað markvisst að tengslarofi þessara barna við móður sína og aðra nákomna ættingja og að það hafi verið framið. Slíkt feli í sér illa meðferð og pyntingar sem feri gegn banni 68. gr. stjskr. auk 3. gr. MSE. Enn fremur sé um brot gegn friðhelgi einkalífs, barnasáttmála SÞ og skýrum rétti þessara barna til að viðhalda tengslum við fjölskyldu sína.

Á því sé byggt að rökstuðningur úrskurðarnefndar og umdæmisráðs, um meinta hagsmuni barnanna af „ró og stöðugleika í fóstri“, sem eigi að réttlæta kerfisbundið tengslarof og umgengnistálmanir, eigi sér hvorki vísindalegan né lagalegan grunn og sé því brot gegn lögmætisreglunni og þar að auki mannréttindabrot og telist ill meðferð í skilningi laga. Þar að auki sé ekkert í lífi þessara barna sem hafi haft meiri röskun á friði, stöðugleika og ró þessara barna heldur en tengslarofíð sem framið hafi verið gegn þeim með vofveiflegum afleiðingum fyrir líðan þeirra og heilsu til margra ára.

Engin önnur leið sé fær í þessu máli, úr því sem komið sé, en að stöðva hið ólögmæta og skaðlega tengslarof án tafar, og kveða á um reglulega umgengni, þó með aðlögun, þessara barna við móður sína, sem sé til þess fallin að tryggja, styrkja og þróa tengsl þeirra á milli og lagfæra það rof sem orðið hafi á þeirra tengslum (sjá dóm MDE í máli Abdi Ibrahim gegn Noregi (mál nr. 15379/16). mgr. 87.

Ljóst sé að afar brýnt sé að fá fósturforeldra til samstarfs um að vinna að hagsmunum barnanna í stað þess að fara gegn þeim. Miðað við síbreytilegan „vilja“ barnanna í gegn um misserin - sér í lagi meintan nýfundinn „vilja“ þeirra til að hafna elskandi fjölskyldu sinni með þeim hætti sem fósturforeldrar haldi fram - séu fram komnar vísbendingar um alvarlega innrætingu í þessi börn. Afar illa þarf að vera komið fyrir litlu barni sem hafnar mömmu sinni og langömmu sem það áður dýrkaði og dáði og elskaði meira en allt. Enginn veit, hversu mikið kvalræði slíkt sé fyrir ung börn.

í ljósi framangreinds sé þess krafist að kröfu fósturforeldra verði hafnað. Þá sé á það bent að úrskurðarnefnd velferðarmála sé æðra stjórnvald og hefur valdheimildir að framkominni kæru, óháð kröfugerð hennar, til að mæla fyrir um breytingar á niðurstöðu umdæmisráðs, enda eingöngu bundin af því sem sé börnunum fyrir bestu, lögum, mannréttindum og stjórnarskrá í sínum niðurstöðum og þar að auki skyldug til að komast að niðurstöðu sem er þessum börnum fyrir bestu. Gögnin sem styðji við athugasemdir þessar hafa þegar verið senda nefndinni með miskabótakröfunni frá því í nóvember s.l. Vísað sé til þeirra.

V. Afstaða barna

Börnunum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við þau 9. maí 2023 og 18. júní 2023. Í skýrslu talsmanns 18. júní 2023 kemur fram í samantekt talsmanns að börnunum líð báðum vel á fósturheimilinu. Þá virðist þau vera sátt við að hafa umgengina með svipuðu sniði og verið hefur. Þau vilji þó bæði fækka umgengni úr fjórum skiptum í þrjú skipti á ári. D sé sama um hvort það sé eftirlitsaðili eða ekki en E vilji hafa eftirlitsaðila. Börnin lýstu því bæði að þeim liði ágætlega í umgengni og einnig eftir hana. Þau séu sátt við að umgengin fari stundum fram á G og stundum í U og vilja hafa hana áfram á sömu stöðum og verið hefur. Börnin voru bæði sammála um að tillögur móður hugnuðust þeim ekki og kom skýrt fram hjá þeim að þau hefði ekki breytt um skoðun á því frá síðasta samtali.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul og drengurinn E er X ára gamall. Móðir afsalaði sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi B þann 6. febrúar 2018 og lúta börnin því forsjá C. Kærendur eru fósturforeldrar barnanna.

Kærður er úrskurður umdæmisráðs C um umgengni fósturbarna kærenda við móður sína. Með úrskurðinum var ákveðið að umgengni yrði fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti og fari fram á G í ágúst, febrúar og maí og í U í nóvember ár hvert. Skilyrði umgengni er að móðir sé edrú og í andlegu jafnvægi, að mati eftirlitsaðila.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við dóttur sína á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í 74. gr. a. barnaverndarlaga er kveðið á um réttarstöðu fósturforeldra við ákvörðun um umgengni. Þar segir í 1. mgr. að ávallt skuli kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Liggur fyrir að það var gert áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp og lýstu fósturforeldrar því yfir að virða ætti óskir barnanna um umgengni þrisvar á ári. Þá bentu þau á að beiðni móður um aukna umgengni hefðu börnin upplifað mikið óöryggi og verið viðkvæm.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvaða hagsmuni börnin hafa af umgengni við móður.

Í greinargerð starfsmanna C, dags. 21. nóvember 2023, sem lögð var fyrir umdæmisráð C, kemur fram það mat starfsmanna barnaverndar að mikilvægt væri að viðhalda þeirri ró, þeim stöðugleika og öryggi sem hafi náðst að skapa í aðstæðum barnanna. Ekki sé tímabært að auka umgengni að svo stöddu en ró barnanna hafi verið raskað verulega með reglulegum heimsóknum ráðgjafa  C og talsmanns þar sem óskað sé afstöðu þeirra til beiðni móður um endurskoðun ráðstafana og aukna umgengni. Starfsmenn leggja til að umgengni verði þrisvar sinnum á ári, í þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti og fari fram á G í ágúst og mars og í U í nóvember ár hvert. Skilyrði umgengni er að móðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila. Þá sé það mat starfsmanna að það samræmist ekki hagsmunum barnanna að gengið sé gegn vilja þeirra um umgengni við móður. Vísað sé til meginregla í barnaverndarstarfi 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga um að tryggja skuli að barn sem getur myndað sér eigin skoðanir eigi rétt til að láta þær í ljós við meðferð máls. Þá skuli taka réttmætt tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska sbr. sama lagaákvæði. Starfsmenn telja að börnin séu komin á þann aldur að þau geti myndað eigin skoðanir og er mikilvægt að tekið sé tillit til þess. Fram hefur komið að vilji barnanna hefur ítrekað komið fram til lengri tíma í talsmannskýrslum og telja starfsmenn það samrýmast hagsmunum barnanna að svo stöddu að tekið sé tillit til þess.

Í hinum kærða úrskurði umdæmisráðs C kemur m.a. fram að samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu um stöðu barnanna verði það ekki talið að það sé þeim til hagsbóta að auka eða breyta tilhögun umgengni við móður. Börnin séu sátt á fósturheimili sínu og njóta þar þess stöðugleika og öryggis sem þeim er nauðsynlegt og þau eiga rétt á. Mikilvægt sé, að mati umdæmisráðs, að þeim stöðugleika og lífsgæðum sem börnin njóta nú verði ekki raskað. Við það mat vegur sérstaklega þungt vilji og afstaða barnanna, sem orðin eru tíu og ellefu ára gömul og séu skýr í afstöðu sinni. Lögbundinn réttur barnanna til umgengni við móður hafi verið virtur með núverandi tilhögun og umgengni hagað þannig að sem best samræmist þeirra hagsmunum, sem fyrst og fremst felast í því að fá að búa við stöðugleika og verða fyrir sem minnstri röskun í daglegu lífi, að teknu tilliti til réttar þeirra til að þekkja uppruna sinn og viðhalda tengslum við móður, ásamt umgengi við föður og aðra nákomna fjölskyldumeðlimi. Umgengni hafi gengið vel og ljóst að móðir hafi lagt sig fram um að nálgast börnin á þeirra forsendum með það að leiðarljósi að umgengnin verði sem ánægjulegust fyrir þau. Samkvæmt talsmannsskýrslum séu börnin ánægð með umgengnina við móður og vilja halda henni áfram. Jafnframt komi þar fram að þau vilji minnka hana í þrjú skipti á ári og er tillaga C í samcræmi við það. Engu að síður telur umdæmisráð mikilvægt fyrir hagsmuni barnanna að þau tengsl sem fyrir séu á milli þeirra og móður verði ekki skert með því að dregið sé úr umgengni. Fellst umdæmisráð því ekki á tillögu C í málinu og skal umgengni haldið óbreyttri frá því sem nú er.

Eins og vikið er að hér að framan ber að mati úrskurðarnefndarinnar við úrlausn málsins að líta til þess hvaða hagsmuni börnin hafa af umgengni við móður. Nefndin telur að það séu lögvarðir hagsmunir þeirra að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og að þannig séu þroskamöguleikar þeirra best tryggðir til frambúðar. Við mat á hagsmunum þeirra af umgengni verður einnig að líta til réttar þeirra til að viðhalda þekkingu á uppruna sínum, bæði við foreldra og stórfjölskyldu, þegar til lengri tíma er litið. Af gögnum málsins má ráða að umgengni við móður hafi gengið vel og hún lagt sig um að umgengni verði sem ánægulegust fyrir börnin. Þá verður einnig ráðið að börnin séu sátt við umgengni og hún hafi ekki neikvæð áhrif á líðan þeirra hvorki fyrir hana né eftir. Þrátt fyrir að mikilvægt sé að horfa til afstöðu barnanna til umgengni þarf einnig að líta til annarra þátta við mat á heildarhagsmunum þeirra til lengri tíma litið.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með hliðsjón af gögnum málsins að ekki sé tilefni til að gera breytingar á umgengni barnanna við móður frá því sem nú er.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í varanlegu fóstri við foreldri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð umdæmisráðs C.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs C frá 4. janúar 2024 um umgengni D og E, við F, er staðfest.

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum