Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 123/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 123/2023

Föstudaginn 14. apríl 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála svar Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. febrúar 2023 vegna fyrirspurnar kæranda um greiðslur í fæðingarorlofi.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. mars 2023 og vísaði til þess að hann hefði óskað eftir að taka út hvíldardaga og sumarfrí á meðan á fæðingarorlofi stæði til að bæta greiðslugetu sína. Tók kærandi fram að þetta væri áunnin inneign sem ekkert vinnuframlag fylgdi og væri þetta víða gert á vinnustöðum þar sem greiðslubyrði fólks væri mun betri en það sem Fæðingarorlofssjóður greiði. Að mati kæranda sé það ekki óheimilt samkvæmt þeim lögum sem gilda um sjóðinn. Kærunni fylgdi tölvupóstur frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 27. febrúar 2023, þar sem fyrirspurn frá kæranda var svarað.

Með erindi úrskurðarnefndar til kæranda, dags. 20. mars 2023, var óskað eftir að hann sendi nefndinni afrit af hinni kærðu ákvörðun. Kærandi svaraði ekki erindi nefndarinnar og óskaði úrskurðarnefndin því eftir upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði um hvort til staðar væri ákvörðun í máli kæranda. Í svari Fæðingarorlofssjóðs kom fram að engin ákvörðun hefði verið tekin í máli kæranda.

II.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndarinnar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá segir í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Í málinu liggur fyrir að kærandi sendi Fæðingarorlofssjóði fyrirspurn, dags. 24. febrúar 2023, um hvort honum væri heimilt að taka út hvíldar- og sumarleyfisdaga á meðan á fæðingarorlofi hans stæði. Fæðingarorlofssjóður svaraði fyrirspurn hans 27. febrúar síðastliðinn. Af kæru og upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði er ekki að sjá að kærandi hafi lagt fram umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Þannig þykir ljóst af gögnum málsins að ekki hefur verið tekin nein stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda. Þar sem engin slík ákvörðun liggur fyrir í málinu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum