Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2009

Mál nr. 7/2009:

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Samtökunum ‘78

 

Launakjör. Uppsögn úr starfi. Málskostnaður.

 

Kærandi, sem er kona, starfaði hjá Samtökunum ‘78 sem fræðslustjóri. Kærandi taldi að launakjör hennar í starfi fræðslustjóra hafi ekki verið sambærileg við launakjör framkvæmdastjóra samtakanna, sem hafi verið karlmaður, en kærandi taldi að störfin hafi verið sambærileg eða a.m.k. jafnverðmæt. Taldi kærandi að þetta hafi farið í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá taldi kærandi að uppsögn hennar í janúar 2009 hafi einnig farið gegn ákvæðum laganna. Af hálfu Samtakanna ‘78 var því hafnað að um hafi verið að ræða sambærileg eða jafnverðmæt störf. Þá var því hafnað að uppsögnin hafi farið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Uppsögnin hafi upphaflega eingöngu verið rakin til efnahagsþrenginga í landinu en ekki tengst kynferði kæranda sérstaklega. Af hálfu kærunefndar var fallist á þau sjónarmið að starf framkvæmdastjóra og fræðslustjóra hefðu ekki talist sambærileg og ekki verið jafnverðmæt. Voru taldar málefnalegar skýringar á ástæðum þess að framkvæmdastjóri naut tiltekinna ábatagreiðslna umfram kæranda. Af hálfu kærunefndar var ekki fallist á að uppsögn kæranda hafi tengst kynferði hennar. Málskostnaður var ekki úrskurðaður.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 29. september 2009 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 30. apríl 2009 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Samtökin ‘78 hefðu brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með því að greiða henni lægri laun en framkvæmdastjóra samtakanna, sem var karl, þó svo að störfin hafi að mati kæranda verið þau sömu eða jafnverðmæt. Þá var óskað álits á því hvort ábatagreiðslur sem greiddar voru framkvæmdastjóra en ekki kæranda hafi farið gegn ákvæðum laganna. Að auki var óskað eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort uppsögn hennar úr starfi hjá samtökunum í janúar 2009 hafi farið gegn ákvæðum laganna.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Samtökunum ‘78 með bréfi dagsettu 11. maí 2009. Umsögn B lögfræðings, f.h. Samtakanna ‘78, barst með bréfi dagsettu 25. maí 2009 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi nefndarinnar dagsettu sama dag.

Hinn 8. júní 2009 óskað kærandi með símtali eftir viðbótarfresti til að gera athugasemdir og var henni veittur frestur til 15. júní 2009. Hinn 12. júní 2009 bárust athugasemdir kæranda, dagsettar 5. júní 2009, og voru sendar lögfræðingi Samtakanna ‘78, með bréfi nefndarinnar, dagsettu 12. júní 2009.

Hinn 25. júní 2009 bárust athugasemdir lögfræðings Samtakanna ‘78 dagsettar sama dag. Kæranda var gefinn kostur á að gera frekari athugasemdir við bréfi lögfræðingsins með bréfi nefndarinnar dagsettu 26. júní 2009. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi dagsettu 10. júlí 2009 og voru sendar lögfræðingi Samtakanna ‘78 til kynningar með bréfi dagsettu sama dag.

Með bréfi kærunefndar, dagsettu 16. september 2009, var núverandi framkvæmdastjóri upplýstur um að mál kæranda væri til meðferðar hjá nefndinni og að upplýsingar um launakjör hefðu verið veittar nefndinni.

Með símtali 15. september 2009 við lögmann Samtakanna ‘78 var óskað eftir frekari gögnum. Umbeðin gögn bárust með tölvupósti 16. september 2009. Hinn 18. september 2009 var með símtali við lögmann samtakanna óskað eftir enn frekari gögnum sem bárust nefndinni með tölvupósti sama dag. Framangreind gögn voru send kæranda til kynningar með bréfi nefndarinnar, dagsettu 22. september 2009.

Þá var fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtakanna ’78 upplýstur með bréfi nefndarinnar, dagsettu 22. september 2009, um að mál kæranda væri til meðferðar hjá nefndinni og að upplýsingar um launakjör hefðu verið veittar nefndinni.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í kæru til kærunefndar jafnréttismála byggir kærandi á því að framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78 sem sé karl hafi verið með hærri grunnlaun en hún og hærri símastyrk. Kærandi hafi verið með X krónur í laun á mánuði en framkvæmdastjóri hafi verið með Y krónur í laun á mánuði. Einnig hafi framkvæmdastjóra verið boðið upp á árangurstengingu launa, en hann hafi fengið þóknun fyrir öflun auglýsinga ásamt bónus, meðal annars fyrir að halda dansleiki á vegum Samtakanna ‘78. Kæranda sem fræðslustjóra hafi ekki verið boðið upp á samsvarandi kjör í hennar starfi.

Kærandi bendir á varðandi launakjör að í fyrsta lagi hafi hún byggt kæru sína á því að starf hennar, þ.e. starf fræðslustjóra og starf framkvæmdastjóra, hafi verið jafnverðmæt og sambærileg. Vísar kærandi í því sambandi sérstaklega til nýrra laga um jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, þ.e. á ákvæði 19. og 25. gr. laganna, en í núgildandi ákvæðum sé kveðið á um að konum og körlum er starfi hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Í eldra en sambærilegu ákvæði hafi verið kveðið á um að störf þyrftu að vera sambærileg og jafnverðmæt, þ.e. að fullnægja þyrfti báðum þeim skilyrðum. Með hliðsjón af skýru orðalagi núgildandi ákvæða, athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 10/2008, dómaframkvæmd og túlkun sambærilegra reglna á sviði Evrópuréttar byggir kærandi hins vegar á því að ekki sé lengur nauðsynlegt að sýnt sé fram á að störfin hafi að fullu og öllu leyti verið jafnverðmæt og sambærileg, heldur sé almennt í framkvæmd miðað við það að störf séu jafnverðmæt eða sambærileg, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar frá 20. janúar 2005 í máli nr. 258/2004, þar sem miðað hafi verið við að störf þau sem þar voru borin saman væru „sambærileg að inntaki og ytri búnaði“ án þess að nokkuð væri fjallað um það hvort þau teldust jafnverðmæt. Sama orðalag hafi einnig verið notað í Hæstaréttardómi frá árinu 2000, á bls. 2104 í dómasafni réttarins. Þar hafi verið borin saman störf vinnumálafulltrúa annars vegar og jafnréttis- og fræðslumálafulltrúa hins vegar, og þrátt fyrir að störfin hafi verið ólík að mörgu leyti, til dæmis tækju til ólíkra verkefna, þá hafi fremur verið litið til atriða er lutu að fyrirkomulagi starfanna, þ.e. sérstöðu samkvæmt skipuriti, mikilvægi þeirra beggja hjá Akureyrarbæ, auglýsinga um störfin o.fl.

Eins og fram hafi komið í greinargerð Samtakanna ‘78 hafi raunveruleg ástæða mismunar í launakjörum og öðrum starfskjörum aðila verið sú að við ráðningu núverandi framkvæmdastjóra hafi hann gert launakröfur langt umfram það sem verið hafði áður, þ.e. við ráðningu bæði fyrri framkvæmdastjóra og við ráðningu fræðslustjóra. Samtökin ‘78 hafi brugðist við þessu með því að bjóða nýjum framkvæmdastjóra hærri laun, og auk þess ýmsa möguleika á að hækka tekjur sínar, en fyrri framkvæmdastjóri hafi ekki notið sömu kjara. Ástæðurnar fyrir þessum betri kjörum núverandi framkvæmdastjóra, umfram fyrri framkvæmdastjóra og fræðslustjóra, virðast því hafa verið eindreginn vilji Samtakanna ‘78 til að ráða til sín umræddan karlmann í stöðu sem áður hafði að fullu og öllu verið metin sambærileg og jafnverðmæt stöðu fræðslustjóra, án þess að bjóða um leið fræðslustjóra einhverja sambærilega kjarabót. Þessu til viðbótar tiltekur kærandi að núverandi framkvæmdastjóri hafði ekki yfir að búa verulegri fagþekkingu á málefnum Samtakanna ‘78, enda hafði hann fram að því ekki unnið innan hreyfingarinnar. Með ráðningu hans á þeim kjörum sem um ræði, án tilboðs til fræðslustjóra um kjarabætur, telur kærandi að Samtökin ‘78 hafi mismunað sér með beinum og ólögmætum hætti, enda hafi samtökin ekki sýnt fram á neinar málefnalegar ástæður fyrir þeim mismuni á kjörum sem hafi orðið ljós við ráðningu núverandi framkvæmdastjóra.

Kærandi telur að Samtökin ‘78 hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er henni var sagt upp störfum hjá samtökunum. Kærandi telur sig þannig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. hlotið óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður. Þannig sé kært hvernig staðið hafi verið að uppsögn kæranda þann 27. janúar 2009. Henni hafi verið sagt upp störfum vegna efnahagsþrenginga en hvorki boðin önnur kjör né annað starfshlutfall. Slíkt hefði orðið mun minna íþyngjandi ef kjör og staða starfsmanna beggja hefðu verið endurskoðuð og hefði því verið unnt að taka ákvörðun um breytingar þar sem jafnræðis hefði verið gætt sem og meðalhófs. Við stöðu framkvæmdastjóra hafi ekki verið hróflað, hvorki starfshlutfalli né launakjörum. Kærandi hefði talið það eðlilegri leið og heppilegri fyrir alla aðila. Kærandi hafi spurt formann samtakanna hvort ekki hefði komið til greina að breyta starfshlutfalli hjá þeim báðum en fengið þau svör að framkvæmdastjórinn væri svo störfum hlaðinn að það kæmi ekki til greina. Í uppsagnarbréfinu til kæranda hafi engin athugasemd gerð við störf hennar fyrir Samtökin ‘78. Með því að segja kæranda upp störfum vegna efnahagsþrenginga en hrófla ekki við störfum framkvæmdastjóra, í stað þess að velja aðrar leiðir til að hagræða í rekstri samtakanna, þá telur kærandi að Samtökin ‘78 hafi brotið gegn 1. mgr. 24. og 1. mgr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Byggir kærandi kæru sína á því að aðrar ástæður en efnahagsþrengingar hafi ráðið mestu um uppsögn hennar. Þrátt fyrir að fallast megi á að eitthvert tekjufall félagsins væri fyrirsjáanlegt þá sé hins vegar ljóst að Samtökin ‘78 höfðu meðal annars fengið úthlutað styrkjum, sumum almennt til félagsins, en öðrum sérstaklega ætluðum til að greiða launakostnað fræðslustjóra, þar á meðal styrkur frá mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar að andvirði 3.000.000 króna þar sem 2.000.000 króna hafi eingöngu verið ætlaðar til greiðslu launa fræðslustjóra. Hefðu styrkir þessir í það minnsta staðið undir lægra starfshlutfalli fræðslustjóra, hefði verið leitað eftir slíku. Í ljósi þess að tryggt hafi verið að ákveðnu leyti fjármagn til að greiða laun fræðslustjóra telur kærandi ljóst að einhver önnur sjónarmið en efnahagsleg hafi haft veruleg áhrif á ákvörðun Samtakanna ‘78 um uppsögn hennar, og telur kærandi rétt í því sambandi að líta þar einnig til þeirrar mismununar sem hún hafði þegar orðið fyrir af hálfu samtakanna, þá hvað varði launakjör. Með vísan til þeirrar mismununar telur kærandi veruleg líkindi fyrir því að ómálefnalegar ástæður, svo sem kyn hennar, hafi einnig ráðið úrslitum um uppsögn hennar.

Byggir kærandi kæru sína jafnframt á því að þrátt fyrir ákveðinn mun á störfum fræðslustjóra og framkvæmdastjóra hjá Samtökunum ‘78 þá séu störfin engu að síður bæði sambærileg og jafnverðmæt. Margir dómar Evrópudómstólsins hafi slegið því föstu að ólík störf geti verið jafnverðmæt. Hvort störf skuli teljast jafnverðmæt verði að byggjast á heildstæðu mati og ráða þar margir þættir, aðrir en þeir einir hvort báðir starfsmenn skuli leysa úr sömu verkefnum. Jafnlaunaákvæði laganna sé ætlað að tryggja að konur og karlar njóti sömu launa og sömu kjara fyrir sömu störf og einnig fyrir ólík störf sem metin séu jafnverðmæt og jafngild. Þá óskar kærandi eftir að kærunefndin afli hjá Samtökunum ‘78 með vísan til 4. gr. laga nr. 10/2008, gagna um starfskjör fyrri framkvæmdastjóra þeirra, að viðlögðum dagsektum, en miðað við upplýsingar kæranda hafi þau að fullu og öllu haft sömu laun í störfum sínum. Byggir kærandi á því að með hliðsjón af því verði að telja sannað að störf fræðslustjóra og framkvæmdastjóra hafi verið metin sem jafnverðmæt af Samtökunum ‘78 og þá jafnframt sambærileg í öllum meginatriðum. Með því að verðleggja störfin að öllu leyti að jöfnu í upphafi sé sannað að um jafnverðmæt störf sé að ræða, og með síðari breytingum, þar sem kjör framkvæmdastjóra hafi verið bætt án sambærilegra breytinga á kjörum fræðslustjóra hafi verið brotið gegn kæranda.

Í rökstuðningi kæranda kemur fram að hún hafi verið fræðslustjóri Samtakanna ‘78 og karlinn sem hún beri sig saman við hafi verið framkvæmdastjóri samtakanna. Þau tvö hafi verið einu starfsmenn samtakanna og hafi því sinnt öllum fyrirspurnum og öllum verkefnum sem samtökunum bárust til jafns nema erindi hafi tengst starfssviði þeirra hvors um sig sérstaklega. Þau hafi starfað hlið við hlið, hvorugt undir hitt sett.

Kærandi hafi átt í umfangsmiklu samstarfi við Menntasvið Reykjavíkurborgar, starfshópa á vegum félagsmálaráðuneytisins og undirhópa á vegum Samtakanna ‘78. Kærandi hafi skipulagt og haldið opinber málþing með fjölmörgum aðilum. Hún hafi haldið opinber erindi á margvíslegum vettvangi. Kærandi hafi samið fræðsluerindi og fræðsluefni og haldið fræðslu- og umræðufundi, til dæmis fyrir kennara í grunnskólum Reykjavíkur. Kærandi hafi nýtt menntun sína sem hjúkrunarfræðingur og mannfræðingur í starfi og ábyrgð hennar sem fræðsluaðili um málefni hinsegin fólks á mjög svo fjölbreyttum vettvangi hafi verið mjög mikil. Það starf sem kærandi hafði sinnt fyrir Samtökin ‘78 skipti því síst minna máli en starf framkvæmdastjórans sem hafi starfað henni við hlið.

Kærandi mótmælir orðalagi í greinargerð Samtakanna ‘78 þar sem segir meðal annars: „Við mat á því hvort störf séu jafnverðmæt og sambærilega“ því í núgildandi lögum segi í 19. og 25. gr. að konum og körlum er starfi hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Ekki þurfi að uppfylla bæði skilyrðin, þ.e. að störf séu sambærileg/þau sömu og að þau séu jafnverðmæt, heldur sé nægilegt að sýnt sé fram á að öðru skilyrðinu sé fullnægt. Sé þó byggt á því að í máli kæranda séu bæði skilyrðin uppfyllt, en til vara að starf kæranda og starf framkvæmdastjóra hafi í það minnsta verið jafnverðmæt hafi þau ekki þótt að fullu sambærileg.

Kærandi bendir á að í 3. gr. í ráðningarsamningi þeirra beggja sé störfum þeirra og ábyrgð ásamt tengslum við yfirmann lýst eins. Þá sé vinnutíma þeirra eins lýst í 4. gr. samninganna. Í 2. gr. í ráðningarsamningi þeirra beggja sé tekið fram að þau skyldu vinna saman, þ.e. framkvæmdastjóri eigi að vinna með fræðslustjóra að eflingu fræðslu. Fræðslustjóri hafi sömuleiðis átt að vinna með framkvæmdastjóra að leita leiða til að fjármagna fræðslustarf.

Því mótmælir kærandi að 3. gr. ráðningarsamninga fræðslustjóra og framkvæmdastjóra hafi lítið eða ekkert gildi til sönnunar um það hvort störfin séu sambærileg, því eins og fram hafi komið í greinargerð kærða sé þar meðal annars lýst stöðu starfanna í skipuriti og ábyrgðarlínum, en rétt og eðlilegt sé meðal annars að líta til þeirra atriða við mat á því hvort störf séu sambærileg. Eins og ráða megi af 3. gr. ráðningarsamninga beggja aðila sé stöðu þeirra í skipuriti og ábyrgðarlínum lýst með nákvæmlega sama hætti sem sýni og sanni að störfin hafi, meðal annars hvað ytri búnað varði, verið hliðsett og sambærileg.

Hvað varði vinnutíma og lýsingu hans í 4. gr. ráðningarsamninga, þá mótmælir kærandi því að byggt sé á svari stjórnar Samtakanna ‘78, meðal annars í því ljósi að skjal það hafi verið samið eftir að kæran barst nefndinni, og sé umræddu svari augljóslega ætlað það hlutverk eitt að styrkja málstað samtakanna og hafi það því mjög takmarkað sönnunargildi. Í starfi sínu varð kærandi þvert á móti ekki vör við að vinnutími framkvæmdastjóra væri með þeim hætti sem þar greini, hvað þá að hann hafi verið lengri en kæranda. Þá telur kærandi nauðsynlegt að líta meðal annars til vinnutíma við mat á því hvort störf geti verið jafnverðmæt og/eða sambærileg, sérstaklega í ljósi þess að takmarkaðar skjalfestar upplýsingar séu almennt til um þau störf sem hér séu til umfjöllunar, enda hafi aldrei verið um starfsmat af nokkru tagi eða annars konar úttekt á störfunum að ræða. Hvað varði vinnutíma kæranda skal þess getið sérstaklega að starf fræðslustjóra útheimti störf utan venjulegs dagvinnutíma, til að mynda vegna fræðslustarfs í skólum, jafningafræðsluhóps auk þess sem skipulagning og utanumhald vegna sjálfboðaliðastarfa hafi venjulega verið unnið utan dagvinnutíma. Þá hafi kærandi einnig sinnt vinnu við dansleikjahald og þess háttar án þess að fá sérstakar greiðslur fyrir.

Hvað varði 2. gr. starfssamninganna þá sé það ekki staðhæfing af hálfu kæranda að störf þeirra hafi verið þau sömu. Hins vegar verði séð af báðum starfslýsingum þessum að hvorum starfsmanni fyrir sig hafi verið ætluð mikilvæg og áríðandi verkefni, að báðum hafi verið falið að starfa sjálfstætt en þó að einhverju leyti saman og að báðir aðilar hafi borið mikla ábyrgð þótt verkefni þeirra væru ólík. Verði ekki fallist á það að sú staðreynd að starfsmönnum þessum hafi verið falið að vinna að ólíkum verkefnum sé á nokkurn hátt sönnun um það að störfin hafi á engan hátt verið þau sömu eða jafnverðmæt, enda sé það fullljóst að sambærileg störf þurfi alls ekki endilega að varða úrlausn sömu verkefna, né heldur að störf geti aldrei verið jafnverðmæt felist í þeim úrlausn ólíkra verkefna. Vísast í þessu efni meðal annars til þess sem áður segi um það að ólík störf geti talist jafnverðmæt og sambærileg. Sú staðreynd að ákveðinn hluti starfslýsinga vegna beggja starfanna falli að öllu leyti saman bendi enn fremur til þess að viss líkindi hafi verið með störfunum.

Þá mótmælir kærandi því alfarið sem fram kom í áðurgreindu fylgiskjali með greinargerð kærða, þ.e. að fyrrum framkvæmdastjóri hafi áður sinnt þeim fræðslustörfum sem fræðslustjóri hafi annast. Þetta sé ekki rétt heldur hafi sjálfboðaliðar sinnt takmörkuðum fræðslustörfum. Sem fræðslustjóri hafi kærandi hafið upp starf sem ekki hafði verið sinnt á skrifstofunni áður og hafi umfang þeirra starfa verið langt umfram það sem fræðsluhópar sjálfboðaliða höfðu áður sinnt. Þá bendir kærandi sérstaklega á það að þörfin fyrir fræðslustarf hafi vaxið verulega á þeim tíma sem kærandi var við störf, í það minnsta með sambærilegum hætti og þörfin fyrir störf framkvæmdastjóra óx.

Að lokum varðandi beiðni í greinargerð um greiðslu málskostnaðar þá mótmælir kærandi því harðlega að kæran sé bersýnilega tilefnislaus, enda beri gögn málsins það með sér að um nátengd störf karls og konu sé að ræða, sem mismunandi laun hafi verið greidd fyrir, auk þess sem ljóst sé að skýringar Samtakanna ‘78 um efnahagslegar forsendur uppsagnar kæranda geti ekki að öllu leyti staðist. Byggir kærandi á því að það sé ótvíræður réttur hennar að bera mál sitt undir nefndina vegna þessara atriða og að þau gefi fullt tilefni til að kærunefndin fjalli um málið, án þess að kærandi verði látin bera af því kostnað samtakanna.

Með vísan til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 óskar kærandi hins vegar eftir því að henni verði greiddur kærumálskostnaður að mati nefndarinnar.

Kærandi hefur aldrei haldið því fram að ekki hafi verið um fræðslustarf hjá samtökunum að ræða áður en hún hóf þar störf eins og haldið sé fram af samtökunum, aðeins að hún hafi byggt upp starf sitt og einnig við það fræðslustarf sem hafi verið til staðar fyrir. Enda komi það skýrt fram í starfslýsingu hver verkefni hennar hafi verið. Þá hafi legið fyrir við uppsögn kæranda sérmerktir styrkir til samtakanna til launa fræðslustjóra vegna þessa fræðslustarfs, svo sem þjónustusamningur við Reykjavíkurborg geri ráð fyrir. Það eitt gefi enn fremur til kynna að starf fræðslustjóra hafi verið sérstaklega verðmætt þar sem tekjuöflun Samtakanna ‘78 sé með þessum hætti tengd því starfi sem kærandi hafi annast. Þá bendir kærandi á að í bréfi samtakanna sé um hártogun að ræða þegar því hafi verið haldið fram að styrkur til fræðslu hafi átt að renna til greiðslu á kostnaði vegna þess, en ekki aðeins til greiðslu launa fræðslustjóra. Staðreyndin sé sú að kostnaðurinn við fræðslustarfið sé laun fræðslustjóra og launatengd gjöld, annað ekki.

 

III.

Sjónarmið Samtakanna ‘78

Samtökin ‘78 benda á að það sé meginregla vinnuréttar að atvinnurekanda sé játað visst frjálsræði til að ákvarða launakjör launamanna umfram þau lágmarkskjör sem kveðið sé á um í kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, og 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Það sé og meginregla vinnuréttar að atvinnurekandi hafi um það frjálsar hendur hvern hann velji til starfa í sína þágu. Samningsfrelsi þessu séu þó settar þær skorður sem meðal annars verði leiddar af ákvæðum jafnréttislaganna. Markmið jafnréttislaganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Ætla megi að hinn endanlegi tilgangur jafnréttislaganna sé að kynferði verði með öllu ótækt sjónarmið gagnvart lögunum. Að öllum borgurum verði tryggður sami réttur fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og muni kynferði engu skipta þar um.

Kæranda hafi borið að sanna að störf framkvæmdastjóra og fræðslustjóra séu jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaganna. Takist kæranda slík sönnun sé það Samtakanna ‘78 að sanna að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi ráðið kjaramuninum en ekki kynferði. Hvað uppsögn kæranda varði sé ekki að finna í jafnréttislögunum ákvæði sem skyldi Samtökin ‘78 til að bregðast við líkt og kærandi haldi fram. Engu að síður taki samtökin afstöðu til þess hvort kæranda hafi verið mismunað beint eða óbeint með uppsögninni.

Varðandi launakjör benda Samtökin ‘78 á að eins og áður sagði sé það kæranda að sýna fram að störf fræðslustjóra og framkvæmdastjóra samtakanna hafi verið sambærileg í skilningi ákvæða 19. og 25. gr. jafnréttislaganna. Kærandi hafi haldið því fram að störf framkvæmdastjóra og fræðslustjóra væru sambærileg og hliðsett í skipuriti. Aftur á móti hafi kærandi dregið úr þeirri fullyrðingu og viðurkennt að störfin séu ekki sambærilega að öllu leyti.

Við mat á því hvort störf séu jafnverðmæt og sambærileg hafi verið litið til þess hvort þau séu sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði, og því hvort störfunum hafi verið ætlað nokkuð jafnræði í ytri ásýnd. Kærandi hafi bent á eftirfarandi til að sýna fram á þetta:

i. „Í 3. grein í ráðningasamninga okkar beggja [...] er störfum okkar og ábyrgð ásamt tengslum við yfirmann lýst eins.“

ii. „Í 4. grein samninganna er vinnutíma okkar lýst eins.“

iii. „Í 2. grein í ráðningarsamningi okkar beggja er tekið fram að við skulum vinna saman. Þ.e. framkvæmdastjóri á að vinna með fræðslustjóra að eflingu fræðslu. [...] Fræðslustjóri á sömuleiðis að vinna með framkvæmdastjóra til að leita leiða til að fjármagna fræðslustarf.“

Á grundvelli þessa hafi kærandi talið að hún hafi átt að njóta sambærilegra kjara líkt og framkvæmdastjóri samtakanna.

Kærandi hafi vísað til 3. gr. starfssamninganna til að sýna fram á að störf og ábyrgð framkvæmdastjóra og fræðslustjóra væru sambærileg. Því mótmæla Samtökin ‘78. Í 3. gr. sé hvergi að finna starfslýsingu á störfunum. Það sé hins vegar rétt hjá kæranda að tengslum við yfirboðara þeirra, formanns félagsins, sé þar lýst á sambærilegan hátt. Staða í skipurit hafi ekki endilega áhrif á ákvörðun um laun enda sé skipuritið lýsing á ábyrgðarlínum en ekki launaviðmið og segi ekki til um inntak eða eðli starfanna.

Það sé rétt að vinnutíma fræðslustjóra og framkvæmdastjóra sé eins lýst í 4. gr. í starfssamningunum. En í greininni komi fram að þetta sé vinnutími þeirra að öllu jöfnu sem bendi til þess að vinnutími þeirra geti verið umfangsmeiri en fram komi í samningunum. Samkvæmt svari stjórnar Samtakanna ‘78 sé framkvæmdastjóri á bakvakt alla daga vikunnar utan venjulegs skrifstofutíma en ekki fræðslustjóri. Við þetta sé svo að bæta að vinnutími einn og sér veiti ekki vísbendingu um inntak og eðli starfanna.

Loks hafi kærandi bent á 5. lið 2. gr. starfssamnings framkvæmdastjórans og 6. lið 2. gr. starfssamnings kæranda til að sýna fram á að störf þeirra séu jafnverðmæt. Það að fræðslustjóra og framkvæmdastjóra sé gert að starfa saman að takmörkuðum þætti í starfsemi Samtakanna ‘78 leiði ekki til þess að störfin séu sambærileg að inntaki og eðli.

Með framangreindum rökstuðningi sé það mat Samtakanna ‘78 að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að störfin séu þau sömu eða jafnverðmæt í skilning jafnréttislaga.

Í 1. og 2. gr. starfssamnings framkvæmdastjórans komi fram að hann hafi umsjón með daglegum rekstri þjónustu- og menningarmiðstöðvar Samtakanna ‘78 og starfi í umboði stjórnar þeirra. Verkefnum framkvæmdarstjóra sé meðal annars skipt í:

  1. Fjármál (svo sem bókhald, uppgjör, fjáröflun, innheimtu).
  2. Þjónusta við félaga, skjólstæðinga og gesti.
  3. Fjölmiðlun, útgáfumál (vefur, fréttabréf, bæklingar).
  4. Viðburðir, uppákomur menning.
  5. Fræðsla í samvinnu við fræðslustjóra félagsins.
  6. Annað.

Í starfslýsingu sé vísað til viðauka samningsins og í viðauka 1 séu störf hans nánar útlistuð. Í 2. gr. starfssamnings kæranda komi fram að starfi fræðslustjóra fari fram á almennum og sérhæfðum vettvangi og felist í fyrsta lagi í mótun, skipulagningu og framkvæmd fræðslu innan menntakerfisins í samstarfi við yfirvöld skóla og menntamála á vettvangi ríkis og sveitarfélaga. Í öðru lagi mótun, skipulagningu og framkvæmd fræðslu fyrir fagfólk á sviði heilbrigðismála, félagsþjónustu og annarra faghópa. Í þriðja lagi í mótun skipulagningar og framkvæmd fræðslu til aðila vinnumarkaðarins, svo sem stéttarfélaga, stofnana og fyrirtækja.

Af þessu megi sjá að störf fræðslustjóra og framkvæmdastjóra hafi á engan hátt verið þau sömu og ekki jafnverðmæt. Einungis takmarkaður hluti af starfslýsingu fræðslustjórans falli að starfslýsingu framkvæmdastjórans enda hafi þeim verið ætlað að vinna saman að fræðslumálum. Starfi fræðslustjóra hafi verið komið á til að minnka verkefni framkvæmdastjóra svo hann gæti sinnt betur öðrum verkefnum.

Í ljósi þeirrar ábyrgðar sem hvíli á herðum framkvæmdastjóra Samtakanna ‘78 megi réttlæta launamun starfanna. Samtökin hafi ekki getað mætt launakröfum framkvæmdastjórans á sínum tíma og því hafi verið farin sú leið að veita honum svigrúm til að auka tekjur sínar með því að fá greidda þóknun fyrir öflun auglýsinga. Þá sé framkvæmdastjóranum greitt sérstaklega fyrir framkvæmd og umsjón dansleikja, enda falli slíkt utan dagvinnutíma og ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Ekki sé hægt að halda því fram að þar sem framkvæmdastjóra hafi verið boðin þessi kjör eigi hið sama að gilda um kæranda, enda störf þeirra ósambærileg. Ástæða þess að kærandi hafi ekki fengið sambærilegar greiðslur sé sú að inntak og eðli starfs kæranda hafi verið annað en framkvæmdastjórans og eigi ekki rót sína að rekja til mismunandi kynferðis.

Varðandi uppsögn kæranda benda Samtökin ‘78 á að kærandi telji að sér hafi verið mismunað á grundvelli kyns við uppsögn sína skv. 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. jafnréttislaganna. Kærandi telji að á grundvelli jafnréttislaganna hvíli sú skylda á samtökunum að bjóða henni annað starfshlutfall þar sem slíkt hefði verið minna íþyngjandi aðgerð. Erfitt sé að átta sig á þessum lið kæranda enda rökstuðningur lítill og einungis vísað almennt til ákvæða jafnréttislaganna.

Ekki sé með nokkru móti unnt að lesa framangreinda túlkun kæranda úr jafnréttislögunum. Helsta markmið jafnréttislaganna sé að gera kynferði ótækt sjónarmið en eigi skilningur kæranda við rök að styðjast væri með fyrrgreindri túlkun gengið gegn sjálfsákvörðunarrétti atvinnurekenda.

Ástæða Samtakanna ‘78 fyrir uppsögn kæranda hafi verið þær efnahagsþrengingar sem nú dynji yfir landið. Fyrirsjáanlegt hafi verið að tekjufall félagsins yrði umtalsvert og því hafi verið talið nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að mæta breyttum aðstæðum. Staða fræðslustjóra nái aðeins til afmarkaðra þátta í starfsemi samtakanna og ljóst að verði hróflað við stöðu framkvæmdastjórans þá raskist starf þeirra töluvert, enda starf hans mun víðfeðmara en fræðslustjóra.

Benda Samtökin ‘78 á að atvinnurekendum sé játað frelsi til að taka ákvarðanir á eigin forsendum varðandi uppsagnir starfsmanna, slíkar ákvarðanir lúti þó takmörkun sem meðal annars verði leiddar af jafnréttislögum. Kærandi hafi ekki leitt að því líkur að brotið hafi verið gegn henni í skilningi 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. jafnréttislaganna. Þvert á móti hafi uppsögnin verið nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi rekstur samtakanna í ljósi efnahagsþrenginganna sem nú dynji yfir landið.

Að mati Samtakanna ‘78 byggist kæra kæranda ekki á málefnalegum sjónarmiðum og málatilbúnaði kæranda sé hafnað með framangreindum rökstuðningi. Í ljósi þess hve starfsskyldur framkvæmdastjóra og fræðslustjóra séu ólíkar sé það mat samtakanna að kæran sé bersýnilega tilefnislaus. Þess sé farið á leit við nefndina að hún beiti þeirri heimild sem hún hafi skv. 7. mgr. 5. gr. jafnréttislaganna og úrskurði kæranda til að greiða Samtökunum ‘78 málskostnað.

Samtökin ‘78 gera athugasemd við þá fullyrðingu kæranda að ástæður fyrir kjörum framkvæmdastjóra hafi verið eindreginn vilji þeirra til að ráða til sín umræddan karlmann í stöðuna og þar sem störfin hafi verið sambærileg eða jafnverðmæt hafi samtökunum borið að bjóða fræðslustjóra sambærileg kjör. Þessu mótmæla Samtökin ‘78 alfarið.

Fram hafi komið af hálfu kæranda að hún hafi sem fræðslustjóri byggt upp starf sem ekki hafi verið sinnt á skrifstofunni áður og því mótmælt að fyrrum framkvæmdastjóri hafi áður sinnt fræðslustörfum. Þessum ummælum mótmæla Samtökin ‘78. Í ársreikningi samtakanna frá 2005 komi fram að annar starfsmaður hafi gegnt starfi fræðslustjóra frá árinu 2001 undir yfirumsjón meðal annars fyrrverandi framkvæmdastjóra samtakanna. Þá komi fram í ársreikningi samtakanna frá árinu 2006 að fyrrverandi framkvæmdastjórinn, ásamt öðrum, hafi haft yfirumsjón með jafningjafræðslu í skólum. Sami háttur hafi verið hafður á fræðslustarfi samtakanna fyrri hluta ársins 2007 eins og sjá megi í starfsskýrslu samtakanna fyrir árin 2007–2008. Þar komi einnig fram að frá haustinu 2007 hafi skipulagning fundanna verið í höndum fræðslustjóra, en kærandi hafi verið ráðin til þeirra starfa haustið 2007.

Kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji fullyrðingu hennar um að störf framkvæmdastjóra og fræðslustjóra hafi verið sambærileg eða jafnverðmæt í skilningi 19. og 25. gr. jafnréttislaganna. Kæran byggi eingöngu á huglægu mati kæranda. Einu viðmiðin sem séu til vegna þessara starfa séu starfslýsingar starfanna í 2. gr. ráðningasamninganna og þar megi sjá að störfin séu ekki sambærileg eða jafnverðmæt. Kærandi hafi ekki leitt að því verulegar líkur að starf framkvæmdastjóra annars vegar og starf fræðslustjóra hins vegar hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði að kæranda hafi verið mismunað í kjörum af hálfu samtakanna.

Meðal mikilvægustu starfa framkvæmdastjórans sé að tryggja rekstrargrundvöll Samtakanna ‘78. Sé hann ekki tryggur sé ljóst að samtökin geti ekki sinnt fræðslustarfi sínu. Til að auka tekjur samtakanna hafi verið ákveðið að árangurstengja laun framkvæmdastjóra við tiltekna þætti. Af þessu megi vera ljóst að munur launakjaranna eigi ekki rót sína að rekja til kynferðis aðila heldur vegna mismunar á eðli og inntaki starfanna.

Kærandi hafi haldið því fram að tiltekin fjárhæð styrks frá Reykjavíkurborg hafi eingöngu verið ætluð til greiðslu launa fræðslustjóra. Þeim ummælum mótmæla Samtökin ‘78. Hið rétta sé að styrkur Reykjavíkurborgar til samtakanna hafi verið veittur til að mæta kostnaði við störf fræðslustjóra, eins og fram komi í starfsskýrslu samtakanna frá árinu 2008–2009. Hluti af öllum tekjum þurfi meðal annars að standa undir rekstrarkostnaði og því sé ekki unnt nota allan styrkinn til að greiða laun kæranda. Ljóst sé að rekstrargrundvöllur samtakanna hafi breyst verulega á undanförnum misserum vegna þess ástands sem nú sé í þjóðfélaginu. Fyrirsjáanlegt sé að opinberir styrkir til samtakanna muni minnka verulega á næstu misserum og stefni í að samtökin verði rekin með tapi á þessu ári. Af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt að hagræða í rekstri samtakanna og hluti af því hafi verið að fækka starfsmönnum á skrifstofu samtakanna. Með hagsmuni samtakanna að leiðarljósi hafi sú ákvörðun verið tekin að segja kæranda upp störfum. Því hafna Samtökin ‘78 alfarið að ómálefnalegar ástæður hafi ráðið einhverju þar um, líkt og kærandi haldi fram. Þessu til stuðnings fylgi með rekstraráætlun ársins 2009. Kröfu kæranda um að Samtökunum ‘78 hafi borið að bjóða henni lægra starfshlutfall á grundvelli jafnréttislaganna sé hafnað. Atvinnurekendum sé játað frelsi til að taka ákvarðanir á eigin forsendum, þar á meðal ákvarðanir varðandi rekstur og uppsagnir starfsmanna.

Kærandi hafi fullyrt að hún hafi sinnt vinnu við dansleikjahald. Engin gögn styðji þessa fullyrðingu og mótmæla Samtökin ‘78 henni. Þá hafi kærandi einnig haldið því fram að störfin hafi verið nátengd. Þessu mótmæla samtökin einnig og vísa til 2. gr. ráðningasamninganna vegna þess.

Að beiðni kærunefndar jafnréttismála lögðu Samtökin ’78 fram launaseðla fyrrverandi framkvæmdastjóra samtakanna í maí og júní 2008 svo og sambærilega launaseðla kæranda. Samkvæmt þeim voru föst mánaðarlaun framkvæmdastjórans ekki þau sömu og kæranda á tímabilinu. Voru þau lítillega hærri en laun kæranda.

 

IV.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna skal konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Sama gildir um stöðuhækkanir, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis, meðal annars við uppsögn, skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. laganna. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr.

Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi, sem er kona, þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn 25. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launa og annarra kjara kæranda annars vegar og framkvæmdastjóra hjá Samtökunum ´78 hins vegar, en sá sé karlmaður. Kærandi hafi notið lægri grunnlauna en framkvæmdastjórinn, auk þess sem framkvæmdastjórinn hafi fengið þóknun fyrir öflun auglýsinga og bónusa fyrir að halda dansleiki á vegum samtakanna, en slíkra kjara hafi kærandi ekki notið. Þá telur kærandi sig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. hlotið óhagstæðari meðferð við ákvörðun um uppsögn en einstaklingur af gagnstæðu kyni.

Í máli þessu lýtur ágreiningurinn að því hvort telja beri starf það sem kærandi gegndi, starf fræðslustjóra, sama eða jafnverðmætt og starf framkvæmdastjóra samtakanna. Kærandi, sem tók við starfi fræðslustjóra haustið 2007, hefur í þessu sambandi vísað til ráðningarsamninga sem dagsettir eru í júní og júlí 2008, annars vegar við sig sem fræðslustjóra og hins vegar við framkvæmdastjóra, sem ráðinn var á þeim tíma. Þá hefur kærandi bent á að kjör sín hafi verið þau sömu og kjör fyrri framkvæmdastjóra, sem látið hafi af störfum á sama tíma. Að því er varðar sambærileika starfanna og verðmæti þeirra fyrir Samtökin ‘78 hefur kærandi vísað til þess að umrædd störf innan samtakanna hafi verið jafnsett, þ.e. að bæði hafi fallið undir formann fyrir hönd stjórnar samtakanna. Í samráði við stjórnina og formann taki fræðslustjóri við fyrirmælum, formaður sé hans nánasti trúnaðarmaður og með honum og stjórn samtakanna móti fræðslustjóri starf sitt. Lýsing þessi sé sambærileg við lýsingu á starfi framkvæmdastjóra. Þá hafi bæði fræðslustjóri og framkvæmdastjóri rétt til setu á stjórnarfundum, með málfrelsi og tillögurétti svo sem stjórnarliðar væru, en ekki atkvæðisrétt.

Af hálfu Samtakanna ‘78 er því mótmælt að framangreind lýsing, sem feli í sér lýsingu á ábyrgðarlínum, hafi endilega áhrif á ákvörðun launa enda segi skipuritið ekkert til um inntak eða eðli starfanna. Um lýsingu á verkefnum og starfsskyldum fræðslustjóra annars vegar og framkvæmdastjóra hins vegar vísa samtökin til 1. og 2. gr. starfssamninganna. Í 1. gr. komi fram að framkvæmdastjóri starfi í umboði stjórnar samtakanna, en að fræðslustjóri starfi með framkvæmdastjóra og stjórn að mótun fræðsluáætlunar og fræðslustarfa á vettvangi félagsins. Í 2. gr. komi fram lýsing á helstu verkefnum fræðslustjóra annars vegar og framkvæmdastjóra hins vegar, svo sem nánar sé þar rakið, svo og í viðauka við starfssamning, að því er varðar starf framkvæmdastjóra. Telja samtökin ljóst af starfslýsingum að störfin séu á engan hátt þau sömu og ekki jafnverðmæt. Í ljósi þeirrar ábyrgðar sem hvíli á herðum framkvæmdastjóra sé unnt að réttlæta þann launamun sem var á störfum viðkomandi konu og karls. Í því sambandi er meðal annars vísað til þess að meðal mikilvægustu starfa framkvæmdastjórans sé að tryggja rekstrargrundvöll samtakanna, en sé hann ekki tryggur geti samtökin ekki sinnt fræðslustarfi sínu.

Fyrir liggur að fram á haust 2007 sinnti framkvæmdastjóri samtakanna einnig umsjón með fræðslustarfi þeirra, en þá var kærandi ráðin í fullt starf fræðslustjóra. Ljóst er að við það varð nokkur breyting á starfi framkvæmdastjóra samtakanna sem þá gat betur sinnt öðrum verkefnum sem féllu undir starfssvið hans. Fræðslustörfum sinnti framkvæmdastjóri áfram í einhverjum mæli, í samvinnu við fræðslustjóra. Fræðslustjóri hafði hins vegar ekki með höndum umsjón með daglegum rekstri eða fjármálum samtakanna, og bar þá ekki ábyrgð þeim þáttum sem á herðum framkvæmdastjóra hvíldu. Með tilliti til þessa og þeirrar ábyrgðar sem framkvæmdastjórar bera almennt umfram aðra stjórnendur, verður ekki fallist á það með kæranda að störf hennar og framkvæmdastjóra, sem hún ber sig saman við, teljist sambærileg í skilningi 25. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Verður því að telja að réttlættur hafi verið sá munur sem var á launum viðkomandi aðila, en hafa ber í huga að munurinn er ekki umtalsverður. Hér ber einnig að hafa í huga að kærandi naut ekki sömu grunnlauna og fyrrverandi framkvæmdastjóri samtakanna, sem lét af störfum hinn 1. júlí 2008, þó munurinn hafi ekki verið umtalsverður.

Af hálfu kæranda er jafnframt vísað til þess að framkvæmdastjóri hafi átt rétt á árangurstengdum launum og bónusum vegna tiltekinna verkefna, þ.e. annars vegar vegna auglýsingaöflunar og hins vegar vegna dansleikjahalds, en kæranda hafi ekki verið boðin slík kjör. Fram hefur komið að tilgangur umrædds fyrirkomulags hafi verið að auka tekjur samtakanna af þessari starfsemi, en tekjuöflun hafi verið mikilvægur þáttur í starfi framkvæmdastjóra. Af hálfu kærunefndar er ekki talið að umrætt fyrirkomulag, þ.e. að gefa þeim sem gegndi starfi framkvæmdastjóra kost á árangurstengdum launum vegna tekjuöflunar, hafi verið ómálefnalegt eða að það hafi falið í sér mismunun í skilningi 25. gr. laganna. Af hálfu kærunefndar er því ekki fallist á að Samtökin ‘78 hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með samningum um launakjör umræddra starfsmanna hjá samtökunum. Hér ber einnig að hafa í huga að umrætt fyrirkomulag byggði á sérstaklega skilgreindum viðmiðum svo sem nánar er lýst í viðauka við starfssamning framkvæmdastjórans.

Af hálfu kæranda er til þess vísað að uppsögn hennar úr starfi fræðslustjóra í janúar 2009 hafi farið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem um hafi verið að ræða mismunun á grundvelli kynferðis. Þannig hafi konu verið sagt upp störfum vegna efnahagsþrenginga, en karlmaður sem gegnt hafi sambærilegu eða jafnverðmætu starfi hafi haldið starfi sínu. Vísaði kærandi meðal annars til þess að ekki hafi verið brugðist við umræddum þrengingum með því til dæmis að minnka starfshlutfall sitt og ekki hafi verið hróflað við starfi framkvæmdastjóra, hvorki starfshlutfalli né launakjörum. Upplýst er í málinu að uppsögn kæranda var að rekja til efnahagslegra ástæðna, þ.e. tekjuminnkunar hjá samtökunum á þeim tíma sem um ræddi. Viðbrögð Samtakanna ‘78, að segja upp fræðslustjóra en ekki framkvæmdastjóra, munu hafa byggst á mati stjórnar samtakanna á mönnunarþörf við þessar aðstæður. Mun kærunefnd ekki hrófla við því mati. Verður því ekki talið að uppsögn kæranda hafi tengst kynferði hennar.

Af öllu framangreindu leiðir að ekki er fallist á með kæranda að sá munur sem var launum hennar sem fræðslustjóra annars vegar og framkvæmdastjóra Samtakanna ‘78 hins vegar, svo og mismunandi réttur til ábatagreiðslna, hafi farið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá er ekki fallist á að uppsögn kæranda úr starfi fræðslustjóra í janúar 2009 hafi farið gegn ákvæðum laganna.

Með vísan til atvika máls þessa og niðurstöðu nefndarinnar verður málskostnaður ekki úrskurðaður.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist nokkuð vegna tafa við gagnaöflun og vegna sumarleyfa.

   

Ú r s k u r ð a r o r ð

Samtökin ‘78 teljast ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, í máli þessu.

Málskostnaður er ekki úrskurðaður.

 

Andri Árnason

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. Þórðardóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum