Mál nr. 20/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. desember 2023
í máli nr. 20/2023:
Howden Finlay Oy, útibú á Íslandi ehf.
gegn
Nýjum Landspítala ohf. og
Tryggja ehf.
Við meðferð máls nr. 20/2023 óskaði kærunefnd útboðsmála eftir að Nýr Landspítali ohf. („varnaraðili“) legði fram tiltekin gögn. Á meðal gagna sem nefndin óskaði eftir var tilboð Tryggja ehf. í almennu útboði nr. 21640, auðkennt „Contractor All Risk Insurance for NLSH – The New Landspitali University Hospital in Iceland“, og tölvupóstssamskipti milli fyrirtækisins og varnaraðila á tímabilinu 30. nóvember 2022 til 6. janúar 2023 án útstrikana. Varnaraðili hafði afhent kæranda umrædd tölvupóstssamskipti í aðdraganda þess að hann beindi kæru til nefndarinnar. Við afhendingu skjalsins, sem var á meðal fylgigagna með kæru, hafði varnaraðili strikað yfir tilteknar upplýsingar í samskiptunum á þeim grundvelli að þær vörðuðu mikilvæga og virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Tryggja ehf., sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Kærandi óskaði eftir afhendingu framangreindra gagna og fleiri með tölvupósti til nefndarinnar 30. nóvember 2023. Kærunefnd útboðsmála leitaði eftir afstöðu varnaraðila og Tryggja ehf. til afhendingu gagnanna. Svar barst frá varnaraðila 5. desember 2023 og lagðist hann ekki gegn afhendingu tilgreindra gagna en andmælti því að fyrrgreind tilboðsgögn Tryggja ehf. yrðu afhent kæranda sem og umrædd tölvupóstssamskipti án útstrikana. Varnaraðili vísaði til 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga og 1. mgr. 17. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup til stuðnings afstöðu sinni. Sama dag tilkynnti kærunefnd útboðsmála kæranda um afstöðu varnaraðila og óskaði eftir rökstuðningi frá kæranda teldi hann þörf á aðgangi að þeim gögnum sem mótmæli varnaraðila lutu að.
Með svarpósti 8. desember 2023 tók kærandi fram að það væri erfitt fyrir hann að átta sig á mikilvægi umræddra gagna þar sem hann hefði ekki séð þau. Ef ætlunin væri að fjalla um gögnin í boðuðum málflutningi yrði hann að geta kynnt sér þau. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort ekki væri unnt að afhenda tilboðsgögnin með yfirstrikunum ef þess væri þörf. Þá tók kærandi fram að ef einhverjar upplýsingar kæmu fram í umbeðnum tölvupóstssamskiptum sem vörðuðu málatilbúnað hans beint þá yrði hann að fá þær upplýsingar. Sama dag sendi kærunefnd útboðsmála tölvupóst til varnaraðila og Tryggja ehf. og upplýsti að nefndin hefði til skoðunar að taka ákvörðun um hugsanlegan rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum í heild sinni. Var aðilum boðið að koma á framfæri frekari sjónarmiðum um trúnaðargildi einstakra gagna. Svar barst frá varnaraðila með tölvupósti 11. desember 2022 og var í svarinu vísað til fyrri röksemda um að synja bæri aðgangi vegna mikilvægra fjárhags- og viðskiptahagsmuna Tryggja ehf., sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 17. gr. laga nr. 120/2016.
Niðurstaða
Umbeðin gögn teljast til málsgagna í því stjórnsýslumáli sem rekið er fyrir kærunefnd á milli málsaðila, en um meðferð kærumála fyrir nefndinni gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 108. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Ber því við úrlausn um aðgang að gögnunum að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga sem ganga framar ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 2. mgr. 4. gr. síðarnefndu laganna, sbr. einnig 4. mgr. 17. gr. laga nr. 120/2016.
Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Hefur óheftur aðgangur að gögnum máls verið talinn nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og leiðrétta fyrirliggjandi gögn nýtist að fullu. Gerðar eru undantekningar frá þessari grunnreglu í 16. og 17. gr. laganna, en að mati nefndarinnar er ljóst að einungis 17. gr. laganna getur komið til álita um þau gögn sem kærandi krefst aðgangs að. Samkvæmt þeirri grein er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Við mat á þessum skilyrðum ákvæðisins verður meðal annars að horfa til þess að ákvæði 17. gr. laganna er undantekning frá þeirri meginreglu að málsaðili eigi rétt á því að kynna sér málsgögn auk þess sem líta ber til þeirra hagsmuna sem reglum um opinber innkaup er ætlað að þjóna, þar á meðal hvort afhending upplýsinga geti raskað jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup.
Að mati nefndarinnar ber til þess að líta, hvað varðar umbeðin tilboðsgögn, að hvorki verður séð að málatilbúnaður kæranda né sá ágreiningur sem er fyrir nefndinni varði það tilboð sem barst frá Tryggja ehf. í almenna útboðinu. Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér gögnin og að undangengnu hagsmunamati samkvæmt fyrrgreindri 17. gr. stjórnsýslulaga er það mat nefndarinnar að synja skuli um aðgang að tilboðsgögnunum.
Hvað varðar umbeðin tölvupóstssamskipti hafa varnaraðili og Tryggja ehf. látið við það sitja að vísa með almennum hætti til þess að samskiptin varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni Tryggja ehf. Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér samskiptin. Að mati nefndarinnar eru einu upplýsingar sem þar koma fram og sem má telja þess eðlis að þær varði ríka einkahagsmuni Tryggja ehf. upplýsingar sem koma fram í tölvupósti 13. desember 2023. Er þar um að ræða upplýsingar sem koma fram í töflu í tölvupóstinum. Að mati nefndarinnar varða þær upplýsingar sem koma fram í umræddri töflu, undir dálkunum „MARKET“ og „LIMIT LAYER“, ekki ríka einkahagsmuni Tryggja ehf. og á hið sama við um upplýsingar sem þar koma fram um heildarfjárhæð tilboðs miðað við 100% hlutfall. Þá verður ekki annað séð en að upplýsingar í töflunni varðandi eitt nafngreint tryggingafélag liggi fyrir í öðrum gögnum málsins sem kærandi hefur fengið aðgang að. Að öðru leyti verður að telja að þær upplýsingar sem koma fram í töflunni varði mun ríkari einkahagsmuni Tryggja ehf. í skilningi 17. gr. stjórnsýslulaga og verður kæranda synjað um aðgang að þessum upplýsingum.
Samkvæmt framangreindu verður kæranda veittur aðgangur að umbeðnum tölvupóstssamskiptum þó þannig að þær upplýsingar sem eru nefndar hér að ofan skulu afmáðar.
Ákvörðunarorð:
Kæranda, Howden Finlay Oy, útibú á Íslandi ehf., er veittur aðgangur að tölvupóstssamskiptum varnaraðila, Nýs Landspítala ohf., og Tryggja ehf. á tímabilinu frá 30. nóvember 2022 til 6. janúar 2023 þó þannig að fjórir dálkar í töflu í tölvupósti 13. desember 2022 skulu afmáðir að öllu leyti nema hvað varðar eitt nafngreint tryggingafélag.
Að öðru leyti er kröfu kæranda hafnað.
Reykjavík, 13. desember 2023
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir