Hoppa yfir valmynd

240/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 240/2020

Miðvikudaginn 18. nóvember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. febrúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2020 á umsókn kæranda um örorkulífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 23. desember 2019 barst Tryggingastofnun ríkisins frá Noregi athugun á umsókn kæranda um örorkulífeyri á grundvelli EES-samningsins og reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (E 204). Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. febrúar 2020, var kæranda synjað um lífeyrisgreiðslur á þeim grundvelli að hann hafi aldrei verið með skráð lögheimili á Íslandi. Fram kemur að samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 þurfi kærandi að hafa verið með skráð lögheimili á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár til þess að öðlast rétt til lífeyrisgreiðslna.

Með tölvubréfi 4. maí 2020 barst úrskurðarnefnd velferðarmála áframsend kæra frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi, dags. 28. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. september 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2020. Með tölvubréfi 12. september 2020 bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. september 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi unnið í B hjá fyrirtækinu X við X. Vinnuveitandi kæranda hafi séð um flug til og frá Íslandi, bankareikning og stað til að búa á sem hafi verið í eigu vinnuveitanda hans. Kærandi hafi í upphafi verið upplýstur um að þegar hann kæmist á ellilífeyrisaldur ætti hann rétt á lífeyri frá Íslandi. Einnig hafi honum verið sagt að þó svo að hann myndi flytja myndu þeir finna út úr því.

Kærandi hafi lent í slysi þegar hann vann á Íslandi og hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús og gangast undir aðgerð. Hann hafi verið í sjúkraleyfi í sex mánuði í kjöfarið en hafi svo snúið aftur til vinnu.

Í athugasemdum kæranda frá 12. september 2020 kemur fram að hann hafi fengið upplýsingar frá skattinum á Íslandi. Eftir leiðbeiningar frá Tryggingastofnun hafi hann sent þær til Þjóðskrár en það hafi ekki breytt neinu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á örorkulífeyri, sbr. ákvörðun frá 19. febrúar 2020.

Samkvæmt 5. tölul 1. mgr. laga nr. 100 um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnist full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar eigi einstaklingar búsettir á Íslandi rétt til örorkulífeyris. Í 4. mgr. 18. gr. laganna sé síðan kveðið á um að við ákvörðun búsetutíma skuli reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.

Í lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur komi fram í 2. gr. laganna að lögheimili sé sá staður þar sem einstaklingur hafi fasta búsetu og ekki sé heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt sé einnig að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.

Málavextir séu þeir að umsókn um örorkulífeyri, E 204, hafi borist Tryggingastofnun þann 23. desember 2019 frá norsku tryggingastofnuninni NAV. Tryggingastofnun hafi svarað umsókninni á þá leið að kærandi ætti engan rétt til örorku/ellilífeyris þar sem engin búseta væri skráð á viðkomandi og þar af leiðandi enginn réttur til staðar, sbr. bréf, dags. 19. febrúar 2020. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá sé kærandi skráður „utangarðs“ og hafi aldrei skráð lögheimili sitt hingað til lands. Til að öðlast rétt til örorkulífeyris/ellilífeyris hér á landi þurfi einstaklingur að vera skráður með lögheimili hér á landi í skilningi laga um lögheimili. Í 5. tölul. 1. mgr. laga um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Í vottorði E 207, sem sé yfirlit yfir tryggingatímabil, sé gefið upp að kærandi hafi verið að vinna á Íslandi tímabilið apríl X til ágúst X, nánar tiltekið í B. Í skjalinu komi fram að kærandi hafi engin skjöl þess efnis að hann hafi verið í tryggingum á þessu tímabili á Íslandi en hafi þó gefið upp nafn C. Leiða megi líkur að því að vinnuveitandi hans, D í B, hafi keypt einkatryggingu varðandi sjúkratryggingu kæranda á meðan á vinnutímabili hafi staðið hér á landi en ekki skráð kæranda inn í almannatryggingar hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi hann lent í vinnuslysi í B á meðan á svonefndu vinnutímabili hans hafi staðið hér á landi.

Tryggingastofnun sé heldur ekki kunnugt um að erlent E 101 vottorð hafi verið gefið út fyrir vinnutímabil á Íslandi þess efnis að kærandi hafi fallið undir löggjöf annars EES lands á þeim tíma sem hann hafi verið að vinna á Íslandi. 

Þegar Tryggingastofnun úrskurði um það hvort einstaklingur eigi rétt til örorkulífeyris/ellilífeyris hér á landi verði stofnunin að afla gagna um skráningu á lögheimili hér á landi hjá Þjóðskrá. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi aldrei haft lögheimili hér á landi og þar af leiðandi hafi ekki skapast ávinnsla á réttindum er veitt gæti rétt til greiðslu á örorku- eða ellilífeyri.

Tryggingastofnun hafi einnig leitað upplýsinga frá Greiðslustofu lífeyrissjóða varðandi mál kæranda og samkvæmt yfirliti frá þeim séu engar iðgjaldagreiðslur skráðar á kæranda.

Þau gögn sem hafi legið til grundvallar í máli þessu séu synjunarbréf Tryggingastofnunar, dags. 19. febrúar 2020, E 204, E 205 og E 207, bréf frá greiðslustofu um að kærandi eigi engan rétt hér á landi, upplýsingar um lögheimili og bréf NAV frá 30. september 2019.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi aldrei búið hér á landi í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Kærandi sé skráður „utangarðs“ hjá Þjóðskrá og hafi þess vegna aldrei verið skráður í almannatryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar. Það sé á ábyrgð kæranda að skrá lögheimili sitt á réttan hátt og á ábyrgð vinnuveitanda að greiða tryggingagjöld af atvinnustarfsemi hér á landi, auk þess að standa skil á greiðslum í lífeyrissjóð. Eins og fram komi á eyðublaði E 207 hafi kærandi engin gögn um að hann hafi verið í vinnu hér á landi á árunum X til X og beri kærandi þar af leiðandi hallann af því að engin gögn séu til staðar. Engir launaseðlar séu fyrir hendi, enginn ráðningarsamningur og engin skráning á lögheimili eða undanþága um að kærandi hafi fallið undir aðra almannatryggingalöggjöf á umræddu tímabili, sbr. vottorð E 101 frá þeim tíma.   

Réttur til almannatrygginga byggist á búsetu hér á landi eins og áður hafi komið fram. Í máli þessu hafi kærandi ekki getað sýnt fram á það með neinum haldbærum gögnum að hann hafi verið með búsetu hér á landi á árunum X til X. Á E 207 eyðublaði komi hins vegar fram að kærandi hafi haft búsetu í E á þessu vinnutímabili.

Tryggingastofnun starfi eftir lögum um almannatryggingar og þar sé skýrt kveðið á um að einstaklingar ávinni sér rétt til almannatrygginga með því að eiga lögheimili hér á landi. Þjóðskrá Íslands sjái um skráningu á lögheimili og Tryggingastofnun sé bundin af þeirri skráningu í ákvörðunum sínum. 

Þegar engin skráning á lögheimili fyrirfinnst hér á landi sé ekki hægt að veita rétt til örorku/ellilífeyrisréttinda samkvæmt lögum um almannatryggingar og þar af leiðandi verði Tryggingastofnun að synja kæranda um greiðslur á örorku/ellilífeyri.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2020 á umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir svo:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, eru 18 ára eða eldri en hafa ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr. og:

    a. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

    b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að umsækjandi hafi verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert þegar hann tók búsetu hér á landi. Búseta í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins getur einnig komið til skoðunar þegar metið er hvort búsetuskilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar sé uppfyllt, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar og 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Tryggingastofnun er þó heimilt að gera kröfu um að viðkomandi hafi að minnsta kosti verið búsettur á Íslandi í eitt ár, sbr. 1. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 883/2004, sem hljóðar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 52. gr. er stofnun í aðildarríki ekki skylt að veita bætur vegna tímabila sem lokið er samkvæmt þeirri löggjöf sem hún starfar eftir og tekið er tillit til þegar áhættan kemur fram, ef:

— umrædd tímabil eru ekki lengri en eitt ár,

og

— þessi tímabil ein og sér nægja ekki til að viðkomandi eigi rétt til bóta samkvæmt þeirri löggjöf.

Í þessari grein merkir hugtakið „tímabil“ öll tryggingatímabil, starfstímabil launþega, starfstímabil sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabil sem annaðhvort eru tekin gild vegna viðkomandi bóta eða hækka þær beint.“

Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar aðstæður leiði til annars, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu.

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá er kærandi skráður á utangarðsskrá, nú kallað kerfiskennitöluskrá. Af upplýsingum, sem koma fram á heimasíðu Þjóðskrár, má ráða að tilgangurinn með kennitöluskrá sé að tryggja opinberum aðilum einkvæmt auðkenni einstaklinga sem ekki séu skráðir í Þjóðskrá. Fram kemur að skráning á kerfiskennitöluskrá sé eingöngu fyrir einstaklinga sem dvelji skemur en 3 til 6 mánuði á Íslandi eða hafi litla sem enga viðdvöl á landinu. Skráningin veiti engin réttindi á Íslandi. Af gögnunum verður því ráðið að kærandi hafi aldrei verið með skráð lögheimili á Íslandi.

Kærandi byggir ekki á því að hann hafi verið með fasta búsetu á Íslandi og fram kemur í E 207 eyðublaðinu að hann hafi verið búsettur í E á þeim tíma sem hann hafi starfað á Íslandi. Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar ávinnst réttur til örorkulífeyris með búsetu á Íslandi. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að taka tillit til starfstímabils kæranda á Íslandi við mat á því hvort hann hafi áunnið sér rétt til örorkulífeyris.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi hafi aldrei verið með lögheimili á Íslandi í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A um örorkulífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira