Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 51/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 51/2022

Fimmtudaginn 7. apríl 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. janúar 2022, kærði B, formaður C, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar vegna umsóknar hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. október 2018, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var samþykkt í nóvember 2018 og var hún sett á biðlista eftir húsnæði. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 21. janúar 2022 og vísaði til þess að hún væri búin að vera að bíða eftir félagslegu húsnæði frá árinu 2018 og væri að missa húsnæði sitt 31. janúar 2022.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. janúar 2022, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt málsgögnum. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 25. febrúar 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. mars 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 7. mars 2022 og voru þær kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2022. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 22. mars 2022 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. mars 2022. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda 6. apríl 2022.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að lögð sé fram kvörtun þar sem þjónustumiðstöð D hafi brugðist og brotið lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Húsnæðisnefnd velferðarsviðs hafi einnig brugðist og brotið lög nr. 40/1991. Þá hafi skrifstofa velferðarsviðs einnig brugðist og brotið sömu lög og haldi auk þess málinu hjá sér án þess að bregðast við og vísi á félagsráðgjafa þjónustumiðstöðvar. Kærandi hafi verið að bíða eftir félagslegu húsnæði frá árinu 2018 og hún verði á götunni þann 31. janúar 2022 með búslóð og þrjú börn. Velferðarsvið væri að bregðast kæranda, mál hennar væri ekki metið alvarlegt, engar upplýsingar væru gefnar um hvað taki við og ekkert áþreifanlegt væri í stöðunni næstu daga.

Kærandi vísar til þess að þjónustumiðstöð D hafi brotið a- og b-liði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga í máli hennar og 3. mgr. 1. gr. laganna. Þjónustumiðstöðin hafi brugðist kæranda þar sem húsnæðisnefndin hafi úthlutað henni íbúð í nóvember 2021 í öðru hverfi en skólahverfi barna hennar og á þriðju hæð í lyftulausu húsnæði. Ljóst sé að húsnæðisnefndin hafi ekki haft fullnægjandi upplýsingar um stöðu og ástand kæranda, sérstaklega er varði fatlaðan son hennar. Ef svo þá hafi húsnæðisnefndin ekki tekið mark á læknisvottorðum og réttri greinargerð um kæranda og börn hennar. Kærandi hafi þurft að afþakka þá íbúð sem henni hafi verið úthlutað og ekkert hafi gerst í málinu síðan. Að mati kæranda hafi þjónustumiðstöðin einnig brotið 7. og 9. mgr. 11. gr. laga nr. 40/1991, 1. mgr. 30. gr. og 46. gr. laganna. Húsnæðisnefndin og skrifstofa velferðarsviðs hafi brotið 2. mgr. 11. gr. sömu laga og til viðbótar hafi sviðsstjóri velferðarsviðs brotið sömu lagagrein með því að vísa á félagsráðgjafa og tímabundna lausn þegar nægur tími hafi verið til að tryggja varanlega lausn í málinu. Deildarstjóri húsnæðismála, skrifstofa og sviðsstjóri velferðarsviðs hafi brotið 2., 5. og 8. mgr. 11. gr. laga nr. 40/1991 í máli kæranda og húsnæðisnefndin, sem starfi fyrir Reykjavíkurborg, hafi brotið 1. mgr. 45. gr. sömu laga þar sem nefndinni hafi átt að vera kunnugt um yfirvofandi húsnæðisleysi hennar að minnsta kosti síðastliðið hálfa ár. Þá hafi skrifstofa velferðarsviðs brotið gegn 1. mgr. 45. gr. sem eftirlitsaðili nefndarinnar. Reykjavíkurborg hafi brotið gegn sömu málsgrein með því að útvega ekki nægjanlegt framboð af félagslegu húsnæði.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gömul kona sem hafi verið með gilda umsókn um félagslegt leiguhúsnæði frá nóvember 2018 en henni hafi verið úthlutað tímabundið húsnæði að H í D í byrjun febrúar 2022 á meðan beðið væri eftir að hentugra húsnæði myndi losna. Kærandi eigi X börn, þar af þrjú undir 18 ára aldri. Þrjú yngstu börnin búi hjá henni. Eitt barna hennar, X ára að aldri, sé haldið fötlun eða Cerebral palsy, einhverfu og athyglisbresti.

Með ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkur, dags. 28. nóvember 2018, hafi umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði verið samþykkt en áður hafi umsókn hennar verið hafnað á þjónustumiðstöð þar sem hún uppfyllti ekki ákvæði þágildandi b-liðar 4. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar þar sem hún hafi ekki haft lögheimili í Reykjavík samfleytt í þrjú ár áður en umsókn barst. Undanþága hafi verið veitt frá því skilyrði og umsóknin þar með samþykkt og hún hafi farið strax á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík. Hálfu ári eftir að umsókn hennar hafi verið samþykkt, eða um sumarið 2019, hafi kærandi orðið húsnæðislaus og erfiðlega hafi gengið fyrir hana að finna hentugt húsnæði en um haustið sama ár hafi hún fundið íbúð í E á almennum leigumarkaði þar sem leigan hafi verið 250.000 kr.

Þann 5. október 2021 hafi kærandi tilkynnt að hún væri að missa leiguíbúð sína þann 1. febrúar 2022 þar sem íbúðin ætti að fara á sölu. Úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis hafi sett mál hennar í forgang og hún hafi fengið úthlutaðri íbúð að F í D í lok október 2021 sem hún hafi hafnað út frá staðsetningu, auk þess sem íbúðin væri of lítil og staðsett á þriðju hæð sem hentaði illa vegna fötlunar sonar hennar. Kærandi hafi lagt áherslu á að hún fengi úthlutað fjögurra herbergja íbúð eða stærri í E. Ekkert félagslegt leiguhúsnæði hafi verið laust í E á þeim tíma og kærandi hafi ekki verið tilbúin að flytja börn sín yfir í annan skóla. Henni hafi verið boðin fjögurra herberga íbúð að G í Reykjavík sem neyðarúrræði þann 31. janúar 2022 þegar litið hafi út fyrir að hún yrði húsnæðislaus sem hún hafi einnig hafnað vegna staðsetningar. Íbúðin að G hafi á þeim tíma verið eina fjögurra herbergja íbúðin sem hafi verið laus á vegum Reykjavíkurborgar. Að lokum hafi kæranda verið úthlutað þriggja herbergja íbúð að H í D, tímabundið til sex mánaða, sem hún hafi þegið þann 3. febrúar 2022. Um sé að ræða tímabundinn samning á meðan beðið sé eftir því að stærri íbúð losni í E en kærandi hafi ítrekað lýst því yfir að hún vilji eingöngu búa í því hverfi. Málefni kæranda sé og verði áfram í vinnslu hjá úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis í Reykjavík þar til hentugra húsnæði losni.

Reykjavíkurborg hafi á biðtíma komið til móts við kæranda með greiðslum vegna sumarfrístundar fyrir dóttur hennar og leikskólagjalda. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi samþykkt að veita kæranda styrk þann 25. mars 2020, að fjárhæð 351.391 kr., til greiðslu skuldar við skóla- og frístundasvið samkvæmt 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Henni hafi einnig verið veittur styrkur vegna sumarfrístundar barns þann 15. júní 2020, að fjárhæð 40.000 kr., samkvæmt b-lið 16. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar. Að auki hafi kærandi þegið húsaleigubætur og fengið sérstakan húsnæðisstuðning.

Í nóvember 2018, þegar ákvörðun hafi fyrst verið tekin í því máli sem hér um ræði, hafi verið í gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Reglurnar, sem hafi verið samþykktar í félagsmálaráði borgarinnar 18. febrúar 2004 og í borgarráði 24. febrúar 2004, hafi tekið gildi 1. mars 2004. Um úthlutun og meðferð umsókna um félagslegt leiguhúsnæði gildi nú reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem samþykktar hafi verið á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglurnar séu settar á grundvelli XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra og 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. og reglugerð nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Umsækjandi hafi endurnýjað umsókn sína árlega í samræmi við 29. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé rammalöggjöf en í slíkri löggjöf felist að sveitarfélögum sé veitt ákveðið frelsi og sjálfræði um val á leiðum til að ná settum markmiðum samkvæmt athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/1991. Af lögunum leiði að þau tryggi rétt fólks til þjónustu og aðstoðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo sem 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar mæli fyrir um, en á hinn bóginn sé það verkefni hvers sveitarfélags að útfæra nákvæmlega hver réttur hvers einstaklings sé. Í fyrrnefndum athugasemdum segi einnig að þrátt fyrir ofangreinda ábyrgð sveitarfélaga séu skyldur þeirra þó ekki svo afdráttarlausar að einstaklingur eigi skilyrðislausan og tafarlausan rétt til tiltekinnar þjónustu eða aðstoðar. Það sé því hlutverk sveitarfélagsins að útfæra veitta þjónustu og að það sé gert á grundvelli stjórnarskrárvarins sjálfstjórnarréttar sveitarfélagsins. Sveitarfélagið ákveði hvernig best megi útfæra þá þjónustu sem skylt sé að veita, auk umfangs hennar innan marka laganna. Útfærsla þjónustunnar sé nánar skilgreind, með lögmætum og málefnalegum hætti, með setningu reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði en áður hafi gilt reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík.

Í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 19. gr. reglnanna komi fram að úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari fram á fundum úthlutunarteyma sem skipuð séu með sérstöku erindisbréfi. Í 4. mgr. 19. gr. segi síðan að úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum og að forgangsröðunin taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Úthlutunarteymið sé skipað fagfólki á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma sem forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum, sbr. 19. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar. Eitt af þeim atriðum sem skipti máli við mat umsókna sé hvort viðkomandi sé í öruggu leiguhúsnæði, sem kærandi hafi lengst framan af verið með. Þá skipti félagslegar aðstæður að öðru leyti einnig máli varðandi hvers konar húsnæði henti viðkomandi. Kærandi hafi verið með 16 stig samkvæmt þeim matsviðmiðum um almennt félagslegt leiguhúsnæði sem fylgi fyrrnefndum reglum þegar hún hafi tilkynnt þann 5. október 2021 að hún væri að missa það húsnæði sem hún hafi haft á leigu í E. Kærandi hafi sóst eftir fjögurra herbergja íbúð eða stærri en þann 1. febrúar 2022 hafi verið tvær umsóknir með fleiri stig á heildarlista umsækjenda í Reykjavík en hún hafi talist og teljist enn í brýnni þörf.

Ljóst sé að málefnalegar og eðlilegar ástæður liggi að baki töf úthlutunar. Tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun í málinu þann 28. nóvember 2018 um að samþykkja umsókn um félagslegt leiguhúsnæði. Eðlileg töf hafi orðið á að kæranda væri úthlutað leiguhúsnæði en komið hafi verið til móts við hana á meðan hún leigði á almennum markaði í formi styrkja með greiðslum vegna leikskólagjalda og sumarfrístundar, auk þess sem hún hafi fengið húsaleigubætur og sérstakan húsnæðisstuðning. Hratt hafi verið brugðist við þegar hún hafi tilkynnt að hún væri að missa íbúðina þann 1. febrúar 2022 en tilkynning um það hafi borist Reykjavíkurborg þann 5. október 2021. Þegar kærandi hafi tilkynnt að hún væri að missa leiguhúsnæði sitt í E hafi úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis brugðist strax við og rúmum tveimur vikum síðar hafi henni verið úthlutað íbúð í næsta hverfi við skóla barnanna, að F í D. Kærandi hafi hafnað þeirri úthlutun, meðal annars vegna staðsetningar og þess að íbúðin væri á þriðju hæð sem hentaði illa syni hennar. Þá hafi hún einnig hafnað fjögurra herbergja leiguíbúð í G, sem henni hafi verið boðin þann 31. janúar 2022, sem hafi þá verið eina lausa íbúðin í Reykjavík af þeirri stærðargráðu sem hún óskaði eftir þegar útlit var fyrir að hún yrði húsnæðislaus. Að endingu hafi kæranda verið úthlutað tímabundið þriggja herbergja íbúð að H í D sem fyrr segi þar til hentugra húsnæði losni í E en sú úthlutun hafi farið fram 3. febrúar 2022.

Kærandi hafi verið með gilda umsókn í þrjú ár og þrjá mánuði á meðan hún hafi leigt á almennum markaði sem fyrr segi. Þegar kærandi hafi fyrst sótt um félagslegt leiguhúsnæði árið 2018 hafi hún fengið undanþágu frá þágildandi b-lið 4. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar með ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkur þann 28. nóvember 2018 þar sem hún hafði á þeim tíma ekki haft lögheimili í Reykjavík samfleytt í þrjú ár áður en umsókn hafi borist eins og áskilið hafi verið og því farið strax inn á biðlista. Samkvæmt núgildandi reglum, sem samþykktar hafi verið á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019, hafi búsetuskilyrði verið stytt niður í eitt ár. Í þessu samhengi sé einnig vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1404/2019 þar sem bið eftir sértæku húsnæðisúrræði sem nam þremur og hálfu ári hafi ekki verið talin óhófleg bið.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi hvorki brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga né reglum um félagslegt leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi hafi verið metin til 23 stiga þann 10. febrúar 2022 og sex stiga þann 21. febrúar 2022. Ástæðan fyrir framangreindum stigamun sé sú að nýtt tölvukerfi fyrir húsnæðismál Reykjavíkurborgar hafi verið sett upp í byrjun febrúar 2022 og enn hafi leynst nokkrir gallar í kerfinu þegar matið þann 10. febrúar 2022 hafi verið framkvæmt. Vegna galla í kerfinu hafi kærandi fengið fullt hús stiga, eða 23 stig, líkt og um væri að ræða nýja umsókn um félagslegt leiguhúsnæði sem og umsókn um milliflutning. Þann 21. febrúar 2022 hafi verið framkvæmt annað mat og framangreindur misskilningur lagfærður þar sem kærandi hafi verið metin til sex stiga, sem sé hæsta stigagjöf sem umsækjendur um milliflutning geti fengið. Vert sé að taka fram að framangreindur misbrestur hafi ekki haft áhrif á umsókn kæranda um milliflutning og henni hafi verið úthlutað þeirri íbúð sem hún hafi óskað eftir, að I, þann 8. mars 2022.

Eftir rannsókn málsins að nýju þyki ekki ástæða til að bæta efnislega við þá greinargerð sem þegar hafi verið lögð fram og því sé hún ítrekuð. Kærandi hafi verið með gilda umsókn og fylgt hafi verið eftir við þjónustumiðstöð að umsókn hennar yrði uppfærð og haldið yrði þétt um málefni kæranda.

IV. Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Reykjavíkurborgar vegna umsóknar kæranda frá 29. október 2018 um félagslegt leiguhúsnæði. Fram kemur í kæru að lögð sé fram kvörtun þar sem þjónustumiðstöð D hafi brugðist og brotið lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Húsnæðisnefnd velferðarsviðs hafi einnig brugðist og brotið lög nr. 40/1991. Þá hafi skrifstofa velferðarsviðs einnig brugðist og brotið sömu lög og haldi auk þess málinu hjá sér án þess að bregðast við og vísi á félagsráðgjafa þjónustumiðstöðvar.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í sömu málsgrein segir að nefndin meti að nýju alla þætti kærumáls og að nefndin geti fellt úr gildi ógildanlegar ákvarðanir í heild eða að hluta en ekki tekið nýja ákvörðun í máli fyrir hönd sveitarfélags. Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar eða ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 40/1991. Undantekning frá þeirri meginreglu er að finna í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem mælt er fyrir um að heimilt sé að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Úrskurðarnefndin telur að framkomin kæra hafi verið lögð fram á grundvelli framangreinds ákvæðis, enda ljóst að Reykjavíkurborg hafði þann 28. nóvember 2018 samþykkt umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði og var hún á biðlista eftir húsnæði samhliða leigu á almennum leigumarkaði. Í lok október 2021 var kæranda úthlutað íbúð þar sem fyrir lá að hún væri að missa leiguíbúð sína þann 1. febrúar 2022. Kærandi hafnaði þeirri íbúð á þeim forsendum að hún hentaði ekki fjölskyldunni. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni, eða í lok janúar 2022, var kæranda boðin íbúð sem neyðarúrræði sem hún hafnaði einnig. Þann 3. febrúar 2022 var kæranda úthlutað íbúð tímabundið til sex mánaða á meðan beðið væri eftir að stærri íbúð myndi losna í því hverfi sem hún vildi eingöngu búa í, sem kærandi þáði. Þá var kæranda þann 8. mars 2022 úthlutað þeirri íbúð sem hún hafði óskað eftir. Í ljósi þessa og framangreinds hlutverks úrskurðarnefndarinnar er það mat nefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira