Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 444/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 444/2016

Fimmtudaginn 23. febrúar 2017

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. nóvember 2016, kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 2. nóvember 2016, um synjun á umsókn hennar um akstursþjónustu eldri borgara.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 19. október 2016, sótti kærandi um akstursþjónustu eldri borgara hjá Reykjavíkurborg, 30 ferðir á mánuði í 12 mánuði, sem hún myndi nýta til og frá dagdvöl. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 19. október 2016, var umsókn kæranda synjað með vísan til 2., 7. og 8. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi 2. nóvember 2016 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 14. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 28. nóvember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún geti ekki nýtt sér akstursþjónustu dagdvalarinnar þar sem þeir bílar henti ekki hennar líkamlega ástandi. Hún geti ekki stigið upp í bílana þrátt fyrir auka tröppu og mikla aðstoð frá bílstjóra. Kærandi hafi því sótt um að fá akstur til og frá dagdvöl með leigubíl en það sé mikilvægt fyrir andlega og líkamlega heilsu hennar að komast í dagdvöl. Kærandi bendir á að hún hafi mikla þörf fyrir að taka þátt í samfélaginu og hafa sína eigin dagskrá á hverjum degi og hluti af þeirri dagskrá sé þjónustan í dagdvölinni.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi fari í dagvistun tvisvar sinnum í viku til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og til að stuðla að því að hún geti dvalið í heimahúsi sem lengst. Kærandi hafi sótt um aksturþjónustu til og frá dagdvöl en hún sé nú þegar með samþykktar 18 ferðir á mánuði vegna annarra þátta. Í X. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé að finna ákvæði er lúti að þjónustu við aldraða sem sveitarfélögum beri að veita. Löggjöfin tilgreini þá lágmarksþjónustu sem sveitarfélögum beri að veita en þeim sé í sjálfsvald sett hvort þau veiti meiri þjónustu en lög kveði á um. Akstursþjónusta aldraðra sé ekki lögbundin þjónusta ólíkt því sem gildi um ýmsa aðra þjónustu, svo sem fjárhagsaðstoð og félagslega heimaþjónustu, sbr. lög nr. 40/1991.

Tekið er fram að akstursþjónusta aldraðra sé þjónusta sem Reykjavíkurborg hafi ákveðið að veita og í því skyni hafi sveitarfélagið sett reglur um akstursþjónustu eldri borgara. Í 7. gr. reglnanna komi fram að um akstur í dagvist fyrir aldraða fari samkvæmt 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra og reglugerð nr. 45/1990 um dagvist aldraðra. Þar sé kveðið á um skyldu rekstraraðila til að annast um og bera kostnað af flutningsþjónustu fyrir þá sem dagvistina sæki, til og frá heimili sínu. Í 3. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 komi fram að dagdvöl skuli bjóða upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklings og samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 45/1990 teljist dagvist aldraðra sú starfsemi sem bjóði að minnsta kosti upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklings, tómstundaiðju, aðstöðu til léttra líkamsæfinga, fæði, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun. Samkvæmt framangreindu sé því ljóst að það hvíli skylda á dagvistinni að bjóða upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklings og af þeirri ástæðu hafi umsókn kæranda verið synjað.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um akstursþjónustu eldri borgara til og frá dagdvöl.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Samkvæmt 38. gr. laganna skal sveitarstjórn stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf í umgengni við aðra svo lengi sem verða má. Jafnframt verði tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar sé þörf. Sveitarstjórn skal sjá um að félagsþjónusta aldraðra sé fyrir hendi í sveitarfélaginu eftir þörfum, meðal annars heimaþjónusta, félagsráðgjöf og heimsending matar. Jafnframt skal tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi, sbr. 40. gr. laganna. Þá kemur fram í 41. gr. laga nr. 40/1991 að aldraðir eigi rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum, en að öðru leyti fari um málefni þeirra eftir sérlögum um málefni aldraðra.

Markmið laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast, miðað við þörf og ástand hins aldraða. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur. Um öldrunarþjónustu er síðan fjallað í IV. kafla laga nr. 125/1999. Dagdvöl aldraðra fellur undir opna öldrunarþjónustu, sbr. 13. gr. laganna, en þar segir í 3. tölul. 1. mgr. að dagdvöl aldraðra sé stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfi eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Í dagdvöl aldraðra skuli veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Bjóða skuli upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins, mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs.

Akstursþjónusta aldraðra er þjónusta sem Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita og í því skyni hefur Reykjavíkurborg sett reglur um akstursþjónustu fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu. Markmið með þeirri þjónustu er að gera eldri borgurum í Reykjavík kleift að búa lengur heima, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglnanna. Þá kemur fram í 1. mgr. 2. gr. reglnanna að akstursþjónusta eldri borgara sé fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem eru 67 ára eða eldri, búa sjálfstætt og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar og hafa ekki aðgang að eigin farartæki.

Í 7. gr. reglnanna er kveðið á um akstur í dagvist fyrir aldraða. Þar segir meðal annars að um slíkan akstur fari samkvæmt 13. gr. laga nr. 125/1999 er kveði á um skyldu rekstraraðila til að annast um og bera kostnað af flutningsþjónustu fyrir þá sem dagvistina sækja, til og frá heimili sínu. Samkvæmt gögnum málsins stendur kæranda til boða akstursþjónusta frá rekstraraðila dagvistarinnar, en af hálfu kæranda hefur komið fram að hún geti ekki nýtt sér þá þjónustu þar sem bílarnir þaðan henti ekki hennar líkamlega ástandi. Úrskurðarnefndin tekur fram að í 13. gr. laga nr. 125/1999 er kveðið skýrt á um skyldu rekstraraðila dagvistar aldraðra til að bjóða upp á flutningsþjónustu. Vegna þess gera reglur Reykjavíkurborgar ekki ráð fyrir því að akstursþjónustu Reykjavíkurborgar sé ætlað að aka eldri borgurum í dagvist. Samkvæmt framangreindu ber rekstraraðila þeirrar dagsvistar sem kærandi sækir því að annast um akstur í dagvist til og frá heimili hennar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki séð að synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um akstursþjónustu hafi verið andstæð þeim reglum sem um hana gilda og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 2. nóvember 2016, um synjun á umsókn A, um akstursþjónustu eldri borgara er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira