Hoppa yfir valmynd

Nr. 233/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. júní 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 233/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22040008

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. apríl 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. mars 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Önnur varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að lokum er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 10. október 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 16. október 2020, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Ungverjalandi. Í svari frá ungverskum yfirvöldum, dags. 2. desember 2020, kom fram að honum hefði verið veitt viðbótarvernd þar í landi þann 16. apríl 2015 og að hann væri enn handhafi alþjóðlegrar verndar þar í landi. Útlendingastofnun ákvað hinn 23. febrúar 2021 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Hinn 16. júní 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans barst kærunefnd 11. október 2021. Hinn 4. nóvember 2021 féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans og var lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til efnismeðferðar.

Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. hinn 6. janúar 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 17. mars 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 5. apríl 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 22. apríl 2022. Frekari athugasemdir og gögn bárust frá kæranda 9. júní 2022.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna trúarbragða sinna, þjóðernis síns og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar sem lögð hafi verið fram til Útlendingastofnunar, dags. 4. febrúar 2022, auk annarra gagna varðandi reifun á málsatvikum og aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki hans, Írak.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar á frásögn hans en að hans mati sé óljóst af ákvörðun stofnunarinnar hvort hún telji frásögn hans í heild trúverðuga eða hvort einungis sé metið trúverðugt að fjölskylda hans hafi átt í deilum við annan ættbálk. Með vísan til óskýrleika Útlendingastofnunar um framangreint krefst kærandi þess að frásögn hans í heild verði lögð til grundvallar við mat á því hvort hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Sé fallist á framangreinda kröfu byggir kærandi á því að ekki sé forsvaranlegt að byggja á því að hann eigi ekki á hættu ofsóknir verði honum vísað aftur til Íraks, jafnvel þótt langt sé um liðið frá því hann hafi flúið landið.

Þá gerir kærandi í öðru lagi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á stöðu hans í heimaríki sem súnní múslimi og Túrkmeni. Kærandi telur að ekki hafi verið horft heildstætt á aðstæður hans heldur hafi þeir hópar sem hann tilheyri verið metnir í sitt hvoru lagi. Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á aðstæðum í Kirkuk og einstaklingsbundnum aðstæðum hans í því samhengi. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi vikið frá túlkun sinni í máli nr. 2020-00008 en hann telur að hans mál sé sambærilegt því máli þrátt fyrir að ákvörðun í því máli hafi einkum byggt á skýrslu EASO frá árinu 2019. Að mati kæranda sé ekki slíkur munur á öryggisaðstæðum í Kirkuk á milli ára að réttlætanlegt sé að hverfa frá því mati að skilyrði viðbótarverndar teljist uppfyllt. Að lokum gerir kærandi athugasemd við að honum hafi verið synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þrátt fyrir að enga umfjöllun sé að finna í ákvörðun Útlendingastofnunar um það af hverju aðstæður í Írak séu ekki taldar með þeim hætti að skilyrði slíks dvalarleyfis séu uppfyllt. Í hinni kærðu ákvörðun hafi Útlendingastofnun einungis minnst á að kærandi hefði heimild til að dvelja í Ungverjalandi og þegar liggi fyrir mat á aðstæðum hans þar í landi. Kærandi telur vafasamt að Útlendingastofnun sé yfirhöfuð heimilt að byggja ákvörðun um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á aðstæðum í Ungverjalandi. Að mati kæranda sé ekki skýrt af 1. mgr. 74. gr. hvort ákvæðinu sé ætlað að taka til landa þar sem einstaklingar hafa þegar hlotið alþjóðlega vernd í. Þá hafi Útlendingastofnun ekki fjallað um aðstæður í Ungverjalandi heldur einungis vísað með almennum hætti til mats íslenskra stjórnvalda á aðstæðum þar í landi sem framkvæmt hafi verið í fyrra máli kæranda hjá stofnuninni. Kærandi telur að upplýsingar sem komið hafi fram í ákvörðun Útlendingastofnun í því máli séu úreltar og sé því ljóst að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. og 2. mgr. 23. laga um útlendinga, hafi verið brotin. 

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna trúarbragða hans og þjóðernis og aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi. Kærandi sé súnní múslimi og Túrkmeni frá Kirkuk og af þeirri ástæðu hafi hann ástæðuríkan ótta við ofsóknir vopnaðra hópa, yfirvalda og almennings í Írak. Þá stafi kæranda hætta af hópi Araba sem tilheyri Al-Jaburi ættbálknum. Kærandi telur að íröksk stjórnvöld hafi hvorki vilja né getu til að vernda hann.

Til vara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur sig sannanlega eiga á hættu að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í Kirkuk auk þess sem líkur séu á að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að aðstæður hans falli vel að hugtaksskilyrðum ákvæðisins vegna þeirra félagslegu aðstæðna sem bíði hans í Írak. Fyrir það fyrsta tilheyri kærandi minnihlutahópi súnní Túrkmena sem hafi verið áreittur og þurft að þola mismunun af hálfu Araba, Kúrda, vopnaðra hópa og stjórnvalda á heimasvæði kæranda. Í öðru lagi þá bíði hans erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki en hann hafi ekkert bakland í heimaríki þar sem fjölskyldumeðlimir hans séu ýmist látnir eða hafi flúið Írak.

Að lokum gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem liðnir séu meira en 18 mánuðir síðan hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Fyrir liggi í málinu að skýrslur hafi verið teknar af kæranda, sbr. a-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi framvísað afriti af íröksku kennivottorði sínu og lagt fram ungverskt dvalarleyfisskírteini sitt. Þar að auki hafi kærandi framvísað ungversku ferðaskilríki sínu. Hafi öll skírteinin að geyma mynd af kæranda. Kærandi telur að samkvæmt framangreindu sé ljóst að ekki leiki vafi á því hver hann sé, sbr. b-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi að stjórnvöldum sé heimilt að beita undanþáguheimild í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vegna skilyrða 2. mgr. greinarinnar þrátt fyrir að mistök hafi orðið við lagasetningu ákvæðisins. Kærandi hafi verið samvinnuþýður við vinnslu málsins og gert allt sem í hans valdi stendur til að veita allar nauðsynlegar upplýsingar. Ljóst sé að Írak hafi ekki sendiráð hér á landi og því illmögulegt fyrir kæranda að afla nýrra kennivottorða að svo stöddu. Með vísan til framangreinds telur kærandi að b-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki að standa í vegi fyrir því að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Við úrlausn málsins lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi væri ríkisborgari Íraks, kæmi frá Kirkuk og tilheyrði þjóðarbroti Túrkmena. Þá lagði stofnunin til grundvallar að fjölskylda hans hefði átt í landadeilum við Araba-ættbálkinn Al-Jaburi árið 1989. Hins vegar taldi stofnunin að kærandi hefði ekki gert það sennilegt að hann ætti nú svo löngu síðar á hættu að sæta viðbrögðum vegna þeirrar deilu snéri hann aftur til Íraks. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga skal viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geta haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 6. Janúar 2022, kvaðst kærandi hafa skotið mann í tengslum við framangreinda landadeilu og að hann hafi verið handtekinn, pyntaður og fangelsaður af þeim sökum þegar hann hafi verið 13 ára gamall. Þá kvað kærandi frænda sinn hafa verið myrtan í tengslum við framangreinda deilu. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ekki séð hvort að stofnunin hafi metið þá frásögn trúverðuga. Þá verður ekki séð að í viðtalinu hafi kærandi verið spurður sérstaklega út í framangreinda málsástæðu og önnur veigamikil atriði í frásögn hans sem vörðuðu ástæðu flótta hans frá heimaríki og skipt geta máli fyrir niðurstöðu málsins. Það er mat kærunefndar að þrátt fyrir að langt sé um liðið frá því að atburðir gerðust sem hafi leitt til flótta kæranda frá heimasvæði hans í Írak þá hafi verið tilefni til að skoða með ítarlegri hætti hver staða kæranda væri snéri hann til baka til heimaríkis, m.a. hvort kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu framangreindra aðila og ef svo væri hvort honum standi til boða einhver úrræði og/eða vernd lögreglu. Þá gerði Útlendingastofnun enga tilraun til að kanna betur stöðu ættbálks kæranda og Al-Jaburi ættbálksins í Kirkuk héraði.

Þá er það mat kærunefndar að í ljósi heimilda um ótryggt öryggisástand í Kirkuk héraði, heimahéraði kæranda, að enn mikilvægara hafi verið fyrir Útlendingastofnun að rannsaka með fullnægjandi hætti aðstæður kæranda við endursendingu þangað.

Að lokum er það mat kærunefndar að skort hafi á rökstuðning stofnunarinnar varðandi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með tilliti til félagslegra aðstæðna í heimaríki kæranda. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, geti hann sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Það hefur verið túlkun og framkvæmd kærunefndar á ákvæðinu að fyrst og fremst skuli skoða 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með tilliti til aðstæðna umsækjanda um alþjóðlega vernd í heimaríki þeirra. Litið hefur þó verið til aðstæðna í öðru Evrópuríki hafi umsækjandi heimild til dvalar þar þegar metið er hvort að 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir endursendingu þangað, sbr. 5. mgr. 104. gr. laganna. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er engin umfjöllun um félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki hans en aðeins fjallað um aðstæður í Ungverjalandi þar sem honum hefur verið veitt alþjóðleg vernd.

Er það mat kærunefndar að með þessum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á forsendur og niðurstöðu í máli hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

 

 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira