Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2020

Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 12/2020:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmálsins nr. 15/1991:

Kristján S. Guðmundsson

gegn

Tollstjóranum í Reykjavík

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

 1. Með erindi, dags. 2. nóvember 2020, fer Kristján S. Guðmundsson þess á leit að hæstaréttarmálið nr. 15/1991, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 2. október 1992, verði endurupptekið.
 2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Hrefna Friðriksdóttir.

  II. Málsatvik

 3. Af dómi Hæstaréttar má ráða að skattstjórinn í Reykjavík hafi þann 28. maí 1990 lagt virðisaukaskatt á endurupptökubeiðanda. Endurupptökubeiðandi kærði ákvörðunina og í kæruúrskurði skattstjóra var fallist á kröfur endurupptökubeiðanda og hann felldur af skrá um virðisaukaskattskylda aðila.
 4. Þrátt fyrir framangreint leitaði Tollstjórinn í Reykjavík til fógetaréttar Reykjavíkur um lögtak í eignum endurupptökubeiðanda og þann 17. september 1990 var gert lögtak fyrir meintri skuld í fasteign endurupptökubeiðanda. Lögtaksgerðinni var skotið til Hæstaréttar.
 5. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að skuld endurupptökubeiðanda vegna virðisaukaskattsins ásamt kostnaði af lögtakinu hafi verið að fullu strikuð út í bókum embættisins 9. október 1990. Jafnframt var lögtakinu aflýst.
 6. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að fulltrúa yfirborgarfógeta hafi brostið hæfi til að fara með málið, sbr. 3. tl. 36. gr. þágildandi laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Var hið kærða lögtak því ómerkt og fékk endurupptökubeiðandi dæmdan kærumálskostnað.

  III. Grundvöllur beiðni 

 7. Þrátt fyrir að það sé ekki tekið fram berum orðum í endurupptökubeiðni má gera ráð fyrir að endurupptökubeiðandi reisi beiðni sína á 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
 8. Endurupptökubeiðandi kveður niðurstöðu Hæstaréttar hafa brotið í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar og laga landsins. Í því hafi falist alvarlegt brot á grundvallarréttindum hans.

  VII. Niðurstaða

 9. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 193. gr. getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 191. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 193. gr. gilda ákvæði 1.-3. mgr. 192. gr. um beiðni um endurupptöku. Í 1. mgr. 192. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.
 10. Skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

  a.  sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

  b.  sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

  c.  önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

 11. Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Þá segir í 2. mgr. 192. gr. laganna að ef beiðni sé bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.
 12. Að mati endurupptökunefndar hefur endurupptökubeiðandi ekki fært rök fyrir því að málsatvik hafi ekki verið nægilega skýr eða tilgreint hvaða upplýsingar um málsatvik myndu leiða til annarrar niðurstöðu.
 13. Að mati endurupptökunefndar eru því bersýnilega ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála, um að leiddar hafi verið sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós og að aðilum verði ekki um það kennt. Af þessum sökum er ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um hvort skilyrði b- og c-liða séu uppfyllt.
 14. Samkvæmt framansögðu er beiðni um endurupptöku hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 192. laga um meðferð einkamála.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni Kristjáns S. Guðmundssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 15/1991, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands þann 2. október 1992, er hafnað.

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Hrefna Friðriksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira