Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 777/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 19. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 777/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110019

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 2. nóvember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október, um að synja honum um framlengingu vegabréfsáritunar.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hans um framlengingu vegabréfsáritunar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 2. ágúst 2023 gáfu norsk stjórnvöld út vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið til handa kæranda. Áritunin heimilaði eina komu (e. single entry visa) og heimild til 29 daga dvalar á tímabilinu 12. ágúst til 24. september 2023. Samkvæmt stimpli í vegabréfi kæranda kom hann inn á Schengen-svæðið í gegnum alþjóðaflugvöllinn í Frankfurt, Þýskalandi 19. ágúst 2023. Kærandi sótti um framlengingu vegabréfsáritunar hjá Útlendingastofnun 26. september 2023. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2023. Hinn 2. nóvember 2023 barst kærunefnd kæra frá kæranda og barst greinargerð vegna málsins 16. nóvember 2023. Kærunefnd óskaði eftir frekari skýringum frá Útlendingastofnun með tölvubréfi 27. nóvember 2023 og bárust frekari upplýsingar með tölvubréfi stofnunarinnar 29. nóvember s.á. Með tölvubréfi 29. nóvember 2023 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá kæranda um hvort kærandi væri staddur á landinu. Beiðnin var ítrekuð með tölvubréfi 5. desember 2023. Með tölvubréfi frá kæranda 14. desember 2023, kom fram að hann væri staddur á landinu en hann væri óferðafær vegna veikinda.

III.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til málavaxta og hinnar kærðu ákvörðunar Útlendingastofnunar. Vísað er til hinnar útgefnu vegabréfsáritunar og þeirrar dvalarheimildar sem hún veitti kæranda. Kærandi kveði tungumálaörðugleika og almennan misskilning hafa valdið því að umsókn hans um framlengingu vegabréfsáritunar hafi ekki mætt kröfum Útlendingastofnunar. Vísað er til þess að kærandi eigi tvo bræður á Íslandi sem hafi aðstoðað hann við umsóknina. Með aðstoð lögmanns telji kærandi sig geta bætt úr ágöllum umsóknar sinnar.

Kærandi vísi til þess að vegabréfsáritun sín hafi eingöngu heimilað fjögurra vikna dvöl þegar meginreglan væri að veita áritun í allt að 90 daga. Ferðalag kæranda hafi verið kostnaðarsamt og hann hafði væntingar um lengri dvalartíma á grundvelli vegabréfsáritunar. Kærandi vísi einnig til heilsufarsástæðna og kveðst ekki vera ferðafær og þarfnist læknisaðstoðar sem krefjist viðeigandi eftirfylgni. Kærandi kveðst geta aflað frekari gagna til þess að varpa ljósi á það fengi hann til þess tækifæri.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 5. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun gilda fyrir eina eða fleiri komur til landsins í allt að 90 daga á nánar tilgreindu tímabili.

Samkvæmt 8. mgr. 20. gr. laga um útlendinga ber ráðherra að setja almenn stjórnvaldsfyrirmæli um vegabréfsáritanir, þ.m.t. um skilyrði fyrir veitingu þeirra. Fjallað er um framlengingu vegabréfsáritana í 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. reglugerðarinnar skal framlengja gildistíma útgefinnar vegabréfsáritunar og/eða lengd dvalartíma sem hún heimilar hafi handhafi hennar fært sönnur á óviðráðanlegar aðstæður eða mannúðarástæður sem koma í veg fyrir að hann geti farið af yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en gildistími vegabréfsáritunarinnar eða dvalartíminn sem hún heimilar rennur út.

Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. reglugerðarinnar er heimilt að framlengja gildistíma útgefinnar vegabréfsáritunar og/eða lengd dvalartíma sem hún heimilar hafi handhafi hennar fært sönnur á mikilvægar persónulegar aðstæður sem réttlæta framlengingu á gildistíma eða dvalartíma. Samkvæmt 3. mgr. 34. gr. reglugerðarinnar er Útlendingastofnun, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, heimilt að fara með umsókn um framlengingu vegabréfsáritunar ef umsækjandi er staddur hér á landi þegar umsóknin er lögð fram.

Reglugerð um vegabréfsáritanir fól í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 810/2009 um Bandalagsreglur um vegabréfsáritanir. Samhliða reglugerðinni gaf bandalagið út handbók (e. visa code handbook) sem greinir frá frekari útskýringum og framkvæmd á beitingu reglugerðarinnar. V. hluti handbókarinnar fjallar um breytingar á útgefnum vegabréfsáritunum, þ.m.t. um framlengingu áritana. Þar er m.a. greint frá dæmum sem sem falla undir hugtökin óviðráðanlegar aðstæður (f. force majeure), mannúðarástæður (e. humanitarian reasons), og mikilvægar persónulegar aðstæður (e. serious personal reasons).

Meðal þeirra atriða sem falla undir óviðráðanlegar aðstæður eru breytingar á flugi á síðustu stundu, t.d. vegna veðurfars eða verkfalls. Meðal þeirra atriða sem falla undir mannúðarástæður eru skyndileg alvarleg veikindi sem veldur því að aðili sé ekki ferðafær, eða alvarleg veikindi eða andlát náins ættingja í gistiríki. Meðal atriða sem falla undir mikilvægar persónulegar ástæður, sbr. 2. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir eru t.d. tilvik þar sem aðili er að sækja nákominn einstakling sem hefur lokið læknisaðgerð en skömmu fyrir brottför slær sjúklingnum niður og verður ekki útskrifaður af spítala fyrr en tveimur vikum síðar. Annað dæmi er einstaklingur sem er í viðskiptalegum erindagjörðum þar sem samningsviðræður taka lengri tíma en áætlað var og þarf viðkomandi að dveljast einni viku lengur en áætlað var. Dæmi sem myndi falla utan mikilvægra persónulegra ástæðna er einstaklingur sem ferðast til þess að hitta fjölskyldu. Þar hittir hann fyrir gamlan vin og vill framlengja dvöl sína um tvær vikur til þess að verja tíma með honum. Hvað lengd dvalar innan framlengdrar vegabréfsáritunar tilgreinir handbókin að heildardvöl skuli almennt ekki verða lengri en 90 dagar á hverju 180 daga tímabili.

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi var staddur hér á landi þegar hann sótti um framlengingu vegabréfsáritunar. Þrátt fyrir að fyrirliggjandi vegabréfsáritun hafi verið gefin út af norskum stjórnvöldum er Útlendingastofnun, samkvæmt 3. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir, valdbær til þess að taka ákvörðun um framlengingu vegabréfsáritunar til handa kæranda. Kærandi byggir umsókn sína um framlengingu einkum á heilsufari sínu, en einnig á stuttri dvalarheimild vegna hinnar útgefnu vegabréfsáritunar.

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann sé ekki ferðafær, þarfnist læknisaðstoðar og viðeigandi eftirfylgni og kveðst geta aflað frekari gagna til þess að varpa ljósi á það. Í málinu liggja fyrir fjögur mismunandi málsgögn um heilsufar kæranda og telur kærunefnd málið nægjanlega upplýst hvað þann hluta málsins varðar. Í fyrsta lagi er læknisvottorð, dags. 15. september 2023, þar sem fram kemur að kærandi hafi staðist skoðun vegna dvalarleyfis án athugasemda. Í öðru lagi niðurstöður rannsóknarstofu Sameindar, dags. 15. september 2023, þar sem fram kemur að kærandi hafi greinst neikvæður við lifrarbólgu B og C, HIV og sýfilis og staðist skoðun vegna dvalarleyfis án athugasemda. Í þriðja lagi liggur fyrir vottorð háskólasjúkrahúss í Nígeríu, dags. 11. september 2023, þess efnis að kærandi hafi komið á bráðamóttöku 2. mars 2023. Hann hafi útskrifast 5. mars 2023 með lyfseðlum vegna hás blóðþrýstings og sykursýki. Loks kemur fram í vottorði bráðamóttöku, dags. 6. október 2023, að kærandi sé með sykursýki og háan blóðþrýsting. Tekið er fram að bræður kæranda hafi boðið honum að dveljast í um mánuð til þess að aðstoða hann vegna veikinda. Læknir er óviss um dvalarheimild kæranda en hann hyggst hefja búsetu á Íslandi. Kærandi virðist ekki glíma við bráðan sjúkdóm (e. acute pathological process). Kærandi hafi þörf fyrir meðferð og eftirfylgni vegna sykursýki og hás blóðþrýstings en læknirinn er óviss hvaða möguleikar séu fyrir hendi þar sem kærandi sé á landinu í heimsókn. Kærandi hafði ekki tekið lyf í um einn mánuð en honum var ráðlagt að taka lyf við framangreindum sjúkdómum. Því voru gefnir út lyfseðlar til handa kæranda, dags. 7. október 2023, sem eru meðal fylgigagna málsins. Þá er kæranda ráðlagt að sækja frekari aðstoð heimilislæknis.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að kærandi sé ófær um að fljúga og kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki fært sönnur á að til staðar séu óviðráðanlegar aðstæður, mannúðarástæður eða mikilvægar persónulegar ástæður sem réttlæti framlengingu á vegabréfsáritun hans, sbr. 1. og 2. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir og var umsókn hans því synjað.

Kærunefnd hefur yfirfarið fyrrgreind læknisfræðileg gögn og metið þau með hliðsjón af þeim réttarheimildum og leiðbeiningum sem um tilvik kæranda gilda. Gögn málsins sýna fram á að kærandi glími við tiltekna sjúkdóma en ekkert í gögnum málsins bendir til þess að veikindi kæranda hafi verið skyndileg eða af því alvarleikastigi að kærandi sé óferðafær. Samkvæmt vottorði bráðamóttöku, dags. 6. október 2023, hafði kærandi ekki tekið lyf í um mánuð og eðli málsins samkvæmt hafði heilsu hans hrakað á því tímabili. Um einum og hálfum mánuði áður, eða 19. ágúst 2023, hafi kærandi komið inn á Schengen-svæðið og má af framangreindu ætla að í aðdraganda ferðar til Íslands hafi hann tekið inn nauðsynleg lyf og verið ferðafær. Verður því ekki fallist á með kæranda að mannúðarástæður í skilningi 1. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir mæli með framlengingu vegabréfsáritunar. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að tilvik kæranda falli undir óviðráðanlegar aðstæður (f. force majeure).

Líkt og þegar hefur komið fram hefur kærandi þörf fyrir eftirfylgni og áframhaldandi læknismeðferð vegna veikinda sinna og er honum ráðlagt að taka lyf og sækja aðstoð hjá heimilislækni. Af þeim leiðbeiningum sem koma fram í handbók um vegabréfsáritanir er ljóst að sérstökum persónulegum aðstæðum, í skilningi 2. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir, er ætlað að bregðast við aðstæðum sem voru ófyrirsjáanlegar og krefjast lengri dvalar. Aðstæðurnar taki einnig mið af áætlaðri dvöl og þeim er markað tiltekið umfang, t.d. ein eða tvær vikur. Er það mat kærunefndar að tilvik kæranda falli ekki undir síðastnefnd ákvæði enda þarf hann á áframhaldandi meðferð að halda til langs ótilgreinds tíma.

Í öllu falli er ljóst að dvöl kæranda hefði almennt ekki geta orðið lengri en 90 dagar á grundvelli vegabréfsáritunar, sbr. 5. mgr. 20. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 1. gr. og a-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir og með hliðsjón af ummælum í handbók um vegabréfsáritanir. Sama dag og lögmaður kæranda lagði fram greinargerð til kærunefndar hafði dvöl kæranda náð lögbundnu hámarki samkvæmt framangreindum réttarheimildum. Samkvæmt framangreindu myndi ný málsmeðferð hjá Útlendingastofnun ekki leiða til annars en synjunar á framlengingu vegna lögbundinnar hámarksdvalar. Yrði úrskurður kærunefndar sem myndi fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi því marklaus að efninu til.

Hvað tilvísun kæranda til skammrar dvalarheimildar og að dvöl í allt að 90 daga sé meginregla tekur kærunefnd fram að vegabréfsáritanir geta verið gefnar út fyrir fyrir eina eða fleiri komu og dvöl í allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili, sbr. 5. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Tilvísun kæranda um 90 daga dvöl sem meginreglu er ekki studd neinum haldbærum rökum eða gögnum. Þvert á móti skulu gildistími áritunar og lengd dvalarheimildar byggjast á meðferð umsóknar og þeim fylgigögnum sem umsókn styðst við, sbr. 1. mgr. 24. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Telji kærandi hina útgefnu áritun vera efnislega ranga og ekki í samræmi við umsókn sína hefði hann geta kært þá ákvörðun til lögbærra stjórnvalda á kærustigi í Noregi.

Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á framlengingu vegabréfsáritunar.

Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um framlengingu vegabréfsáritunar. Afleiðingar ákvörðunar Útlendingastofnunar eru þær að kærandi dvelst á Íslandi án gildrar vegabréfsáritunar eða annarrar dvalarheimildar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er athygli kæranda vakin á því að ólögmæt dvöl geti leitt til brottvísunar og endurkomubanns til Íslands og Schengen-svæðisins, tímabundið eða að fullu og öllu, sbr. 98. og 101. gr. laga um útlendinga. Hefði stofnunin með réttu átt að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda í samræmi við áðurnefndar lagabreytingar nr. 136/2022. Kæranda er því veittur 15 daga frestur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hans frá landinu og ákveða honum endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðið.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum