Matsmál nr. 2/2024, úrskurður 25. nóvember 2024
Landsnet hf.
gegn
Reykjaprenti ehf.
Sigríði Jónsdóttur
og Ólafi Þór Jónssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I
Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II
Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:
Með matsbeiðni 1. júlí 2024 fór Landsnet hf., kt. 580804-2410, Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu í landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða í Sveitarfélaginu Vogum, landnúmer 206748, í þágu lagningar Suðurnesjalínu 2 á Reykjanesi samkvæmt eignarnámsákvörðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra 21. júní 2024. Með matsbeiðninni var þess einnig farið á leit við matsnefndina að nefndin heimilaði eignarnema að taka umráð þess verðmætis sem taka ætti eignarnámi, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973.
Eignarnámsheimild er í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003.
Eignarnámsþolar eru Reykjaprent ehf., kt. 700366-0149, […], fyrirsvarsmaður Hörður Einarsson stjórnarformaður, […], en félagið á 23,75% eignarhluta í Heiðarlandi Vogajarða, Sigríður Jónsdóttir, […], sem á 5% eignarhluta í landinu, og Ólafur Þór Jónsson, […], sem á 5% eignarhluta í landinu.
Matsandlagið samkvæmt kröfugerð eignarnema í greinargerð hans 26. september 2024 er svofellt:
„Með ákvörðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, dags. 21. júní 2024, var Landsneti hf. heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám í landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarðar vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) á landi undir 4.504 metra langt og 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 551 metra langa og 6 metra breiða vegslóða, 13 burðarmöstur og 1 hornmastur, sbr. yfirlitskort af jörðinni Heiðarland Vogajarða, dags. 25. febrúar 2021 [...]. Eignarnámsákvörðun ráðuneytisins var meðfylgjandi matsbeiðni eignarnema til nefndarinnar, sbr. 4. gr. laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973, en málsmeðferð um ákvörðun bóta fer eftir þeim lögum. Eignarnámið er heimilað og felur í sér ótímabundna kvöð um afnot fyrir Landsnet hf. Í samræmi við þetta hefur eftirfarandi kvöð nú verið þinglýst á jörðina Heiðarland Vogajarða (landnr. 206748):
- Landneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um land jarðarinnar Heiðarland Vogajarða, landnr. 206748, samtals 4.504 metra langa 220 kV rafmagnslínu, svokallaða Suðurnesjalínu 2, ásamt því að reisa 14 stauravirki í landinu, nánar tiltekið 13 burðarmöstur og eitt hornmastur, til að bera línurnar uppi. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til. Er heimild vegna háspennulínunnar og annarra réttinda ótímabundin og sú kvöð sem lega mannvirkja þessara setur á jörðina óuppsegjanleg af hálfu landeigenda eða rétttaka þeirra.
- Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, sbr. og 13. gr. laga um öryggi raforkuvirkja o.fl., nr. 146/1996, bæði með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, helgunarsvæði, sem er að jafnaði 46 metra breitt undir og við línurnar, auk þess sem landnot sem kunna að hafa áhrif á rekstraröryggi háspennulínunnar, s.s. skógrækt, eru óheimil innan helgunarsvæðisins.
- Landsneti hf. er heimilt en ekki skylt í þessu skyni, að leggja samtals 551 metra langa vegslóð að línunum og meðfram þeim og halda slóðunum við eftir því sem þörf krefur.
- Landsnet hf. eða þeir, sem fyrirtækið felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að helgunarsvæði rafmagnslínunnar og ljósleiðara í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda, sem og vegna viðhalds, eftirlits og endurnýjunar síðar.“
Í málatilbúnaði eignarnema kemur einnig fram að eignarnámið nái aðeins til áðurgreindra þriggja þinglýstra eigenda jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða sem taki til samtals 33,75% hluta þeirra réttinda sem eignarnemi þurfi í landi jarðarinnar vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Samningar hafi náðst við aðra eigendur jarðarinnar, sem fari með 66,25% réttinda yfir henni. Þá er í matsbeiðni eignarnema áréttað að eignarnámið felist í „ótímabundnum afnotarétti og hafa eignarnámsþolar full umráðaréttindi yfir landi sínum, að teknu tilliti til þeirra kvaða sem gilda vegna helgunarsvæðis háspennulínanna.“
III
Málsmeðferð:
Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 12. júlí 2024. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 2 fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfs, tölvubréf matsnefndar til aðila 3. júlí 2024, þar sem lögmenn voru inntir eftir því hvort aðilar kæmust í vettvangsathugun í júlí, og tölvubréf matsnefndar til aðila 4. júlí 2024 þar sem upplýst var að vegna sumarleyfa yrði ekki unnt að fara á vettvang fyrr en að morgni 29. ágúst 2024. Fært var til bókar að matsnefnd féllist á að lagaheimild væri til eignarnámsins í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973, svo og að árangurslaust hefði verið leitað sátta með aðilum um eignarnámsbætur, sbr. 1. málslið 7. gr. sömu laga. Eftir lögmanni eignarnema var bókað að mikill þungi væri í framkvæmdum auk þess sem í fréttum hefði verið upplýst um ráðgerða sölu Hvassahrauns. Eignarnemi lýsti sig reiðubúinn til viðræðna við eignarnámsþola um sættir. Eftir lögmanni eignarnámsþola var bókað að hann væri reiðubúinn að funda með eignarnema, svo og að eignarnámsþolar hefðu falið honum að höfða dómsmál um gildi eignarnámsins. Eftir lögmanni var þá bókað að yrði af málshöfðun væri skorað á eignarnámsþola að flýta málsmeðferð eftir föngum, eftir atvikum með því að fara fram á flýtimeðferð í slíku dómsmáli. Þá var þess farið á leit við málsaðila að þeir skiluðu til matsnefndarinnar athugasemdum vegna kröfu eignarnema um umráð á grundvelli. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.
Fimmtudaginn 29. ágúst 2024 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Fært var til bókar að lögmaður eignarnámsþola færi þess á leit við eignarnema að lögð yrði fram framkvæmdaráætlun í málinu og formaður matsnefndar tók undir þá beiðni. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð. Umbeðin framkvæmdaráætlun barst matsnefnd með tölvubréfi 13. september 2024 ásamt upplýsingum um framvindu verksins þess efnis að jarðverktaki ynni að því að laga slóð meðfram Suðurnesjalínu 1 og miðaði hratt áfram.
Þriðjudaginn 17. september 2024 var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 12. júlí 2024 og vettvangsgöngu 29. ágúst sama ár. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar athugasemdir eignarnámsþola 22. ágúst 2024 ásamt 21 fylgiskjali og athugasemdir þeirra 2. september það ár, athugasemdir eignarnema 27. ágúst sama ár ásamt sjö fylgiskjölum, svo og tölvubréf eignarnema 13. september 2024 ásamt einu fylgiskjali. Voru skjöl þessi lögð fram. Þá var kveðinn upp úrskurður að því er varðar kröfu eignarnema um undanfarandi umráðatöku, þar sem í úrskurðarorði greinir:
„Hafnað er kröfu eignarnema, Landsnets hf., um að heimiluð verði umráðataka í landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða, landnúmer 206748, sem er að 33,75% hluta í eigu eignarnámsþola, Reykjaprents ehf., Sigríðar Jónsdóttur og Ólafs Þórs Jónssonar, undir 4.504 metra langt og 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 551 metra langa og 6 metra breiða vegslóða, 13 burðarmöstur og 1 hornmastur, vegna framkvæmdar við 220 kV háspennulínuna Suðurnesjalínu 2 á Reykjanesi.“
Með tölvubréfi matsnefndar 17. september 2024 til eignarnema var þess farið á leit við hann að athugað væri hvort hægt væri að útbúa kort í málinu þar sem færð yrðu inn landamerki jarðarinnar, stærðir hennar fyrir og eftir eignarnám, ásamt fermetrastæðrum vegna matsandlagsins í heild sinni, svo og sundurliðað eftir línulögn, vegslóðum, möstrum og helgunarsvæðum eftir því sem við ætti. Með greinargerð eignarnema 26. sama mánaðar bárust umbeðnar upplýsingar.
Fimmtudaginn 17. október 2024 var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 17. september 2024 og tölvubréf hennar sama dag til eignarnema. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar frá eignarnema greinargerð 26. september 2024 ásamt tíu tölusettum fylgiskjölum og frá eignarnámsþolum greinargerð 1. október 2024 ásamt níu tölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnema voru lögð fram þrjú skjöl og af hálfu eignarnámsþola var lögð fram tímaskýrsla vegna vinnu lögmanna þeirra sem er sameiginleg í matsmálum nr. 2/2024, 3/2024 og 4/2024. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmönnum bókað að þeir teldu sig ekki þurfa að tjá sig frekar um málið en í munnlegum málflutningi. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.
Með tölubréfum matsnefndar til aðila 17. október 2024 og 5. nóvember sama ár var þess farið á leit við þá að upplýst yrði um hvort það væri hluti af framkvæmdum eignarnema við Suðurnesjalínu 2 að lagður yrði ljósleiðar og ef svo væri hver lengd hans yrði. Með tölvubréfi eignarnema 5. nóvember 2024 barst svar við fyrirspurninni.
IV
Sjónarmið eignarnema:
Eignarnemi fer þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún meti hæfilegar bætur sem eignarnema beri að greiða eignarnámsþolum í máli þessu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, og hæfilegt endurgjald vegna kostnaðar þeirra, sbr. niðurlag 11. gr. sömu laga. Er í því samhengi áréttað af hálfu eignarnema að það sé matsnefndar að leggja sjálfstætt mat á hvað teljist hæfilegur kostnaður í merkingu lagaákvæðisins.
Eignarnemi kveður eðli og umfang eignarnámsins og einstaka bótaþætti liggja glöggt fyrir en til enn frekari glöggvunar fylgi nú uppfært kort af áhrifum eignarnámsins, þar sem einnig hafi verið mælt svæði sem eignarnámið nái ekki til en matsnefndin taldi í úrskurði sem kveðinn hafi verið upp árið 2015 að hefði áhrif til verðlækkunar. Til að taka af allan vafa væri þeim sérstöku áhrifum mótmælt sem andlagi bóta. Stærð jarðarinnar sé þannig talin vera 2.766,36 hektarar. Mastrastæði séu 0,551 hektari miðað við 13 burðarmöstur og eitt hornmastur. Helgunarsvæði háspennulínunnar 20,72 hektarar miðað við 4.504 metra langt og 46 metra breitt helgunarsvæði. Vegslóðar séu 0,3306 hektarar að stærð miðað við að þeir séu 551 metri að lengd og 6 metra breiðir. Samanlögð heildarstærð hins kvaðasetta svæðis sé 21,6016 hektarar og sé þá átt við kvaðir vegna helgunarsvæðis, mastrastæða og helgunarsvæðis háspennulínu. Hér tiltekur eignarnemi að hann sjái ekki ástæðu til að draga frá stærð mastursstæða eða vegslóða sem liggi undir helgunarsvæðið þótt honum sé það heimilt. Þá heldur eignarnemi því fram að eignarnámið hafi ekki áhrif á stærð jarðarinnar þar sem um óbein eignarréttindi sé að ræða, en sá hluti jarðarinnar sem eignarnámið hafi ekki áhrif á sé um 2.744,76 hektarar. Loks tiltekur eignarnemi að svæði þar sem talið hafi verið að sérstök verðrýrnun yrði samkvæmt eldri úrskurði nemi 159,44 hekturum en ítrekað sé að afmörkun þessa svæðis sé einungis sett fram til upplýsingar og byggt sé á því að slíkum áhrifum sé ekki fyrir að fara.
Eignarnemi byggir á almennum eignarréttarreglum og þeim sjónarmiðum sem gilda um framkvæmd eignarnáms við mat á eignarnámsbótum til handa eignarnámsþola í þágu Suðurnesjalínu 2. Við ákvörðun eignarnámsbóta hafi einkum þrenns konar sjónarmið komið til álita, þ.e. söluverð, notagildi og í tilteknum tilvikum enduröflunarkostnaður sem sé kostnaður við að útvega sambærilega eign. Að mati eignarnema eiga sjónarmið um enduröflunarkostnað ekki við í málinu. Hann kveður það meginreglu við bótaákvörðun að eignarnámsþoli geti krafist þess verðs sem ætla megi að fengist fyrir eign við frjálsa sölu á markaði og ráðist markaðsvirði jafnan af þeim notum eða arði sem hafa megi af viðkomandi eign. Þegar markaðsvirði endurspegli ekki þau not eða arð sem hafa megi af eign eða eign gangi hreinlega ekki kaupum eða sölum sé eignarnámsþoli talinn eiga rétt á bótum á grundvelli þeirra nota eða arðs sem hafa megi af eigninni. Hann kveður orðalag 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullt verð vísa til réttarstöðu eignarnámsþola en ekki eignarnema. Þannig eigi bætur til matsþola að miðast við sannanlega og eðlilega notakun af eign nú í dag. Í ákveðnum tilvikum megi líta til nýtingar sem sé fyrirsjáanleg og eignarnámsþola bæði heimil og möguleg, að því gefnu að slík nýting komi til framkæmkvæmda í nánustu framtíð. Þegar metin séu verðmæti hinna eignarnumdu réttinda verði þannig að hafa hliðstjón af þeim notum sem matsþolar hafi af eigninni og meta raunverulegt fjárhagslegt tjón eignarnámsþola út frá almennum skaðabótareglum á hlutlægum grundvelli. Hvorki beri að taka mið af hagnaði sem eignarnemi kunni að öðlast né röksemdum eignarnámsþola sem varði huglæga þýðingu eignarnámsins fyrir hann, óháð raunverulegu og hlutlægu verðmæti eignarinnar. Ófjárhagslegt, tjón eins og miskabætur eða bætur vegna almennrar andstöðu gegn tilteknum framkvæmdum, séu ekki andlag mats.
Eignarnemi tiltekur að í úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 í máli nr. 8/2014 hafi verið framkvæmt mat á eignarnámsbótum vegna hins eignarnumda lands í þágu Suðurnesjalínu 2 og hafi nefndin litið til líklegs söluverðmætis landsins á grundvelli tiltækra gagna og fyrri úrskurða nefndarinnar. Hafi matsverð fyrir hvern hektara lands sem færi undir möstur og vegslóða verið metið á 1.500.000 krónur á hektara að grunnverði og bætur vegna svæðis sem sætti byggingarbanni ákveðnar 2/3 af grunnverðinu. Eignarnemi kveður það hafa haft áhrif á mat nefndarinnar á grunnhektaraverði að á þessum tíma hafi verið uppi áform um byggingu flugvallar við Hvassahraun sem talið hafi verið getað haft áhrif á markaðsverð á svæðinu. Eignarnemi kveður sdlíkar væntingar ekki lengur raunhæfar vegna náttúruvár og yfirlýsingar ráðamanna. Litlar væntingar eða möguleikar séu til annarrar raunhæfrar nýtingar landsins á næstu árum eða áratugum og ekki verði litið framhjá því að á þeim tíu árum sem liðin séu frá því það var síðast til umfjöllunar matsnefndar hafi engin sjónarmiðanna sem landeigendur hafi þá byggt á, svo sem um framtíðaruppbyggingu svæðisins, ræst að neinu leyti. Það sama gildi um röksemdir matsnefndar fyrir niðurstöðu sinni. Eignarnemi telur að rök standi til þess að bætur hafi verið ofmetnar í úrskurðinum og í öllu falli sé ljóst að breytingar hafi roðið á verðmæti landsins frá þeim sem leiði til breyttrar niðurstöðu og lækkunar bóta. Þá kveður eiganrnemi að mat nefndarinnar á sjónrænum áhrifum hafi verið ofmetið á sínum tíma þarfnist endurskoðunar með hliðsjón af aðstæðum á svæðinu í dag. Hafi nefndin talið að lagning Suðurnesjalínu 2 hafi verið til þess fallin að rýra verðmæti stærra svæðis en eignarnám og byggingarbann hafi náð til vegna sjónrænna áhrifa af línunni og sökum þess að fólk forðist að vera nærri slíkum mannvirkjum, nánar tiltekið á svæði í allt að 200 metra fjarlægð frá miðju til hvorrar handar frá línunni eða á 400 metra breiðu bili að frádregnu 46 metra breiðu helgunarsvæði sem byggingarbann næði yfir og voru bætur vegna þessa svæðis ákveðnar 10% af grunnhektaraverði. Telur eignarnemi að hvað sem þessari nálgun nefndarinnar líði hafi þetta svæði verið of stór og hér eigi þessi regla ekki við.
Eignarnemi tiltekur að úrskurðir matsnefndar 30. júlí 2015 hafi á árunum 2015-2024 verið lagðir óbreyttir til grundvallar samningum við landeigendur vegna Suðurnesjalínu 2. Þá hafi bætur verið hækkaðar til allra landeigenda sem samið höfðu við eignarnema fyrir uppkvaðningu úrskurðarins. Hafi eignarnámsþolum verið boðin greiðsla til samræmis við þetta sem þeir hafi ekki gengið að. Það sé því matsnefndar að úrskurða um fullar bætur eins og staðan sé í dag og í nálægri fyrirsjáanlegri framtíð með hlutlægum hætti í samræmi við áskilnað 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í hlutlægu mati felist að nefndin leggi ekki til grundvallar niðurstöðu sinni eldri fordæmi nefndarinnar sem ekki eigi við eins og aðstæður séu í dag eða þær fjárhæðir sem eiganarnemi hafi greitt til þeirra sem heimilað hafi kvaðir í almannaþágu á landi með samkomulagi þar um. Varðandi breyttar aðstæður telur eignarnemi nægja að nefna jarðhræringar og eldsumbrot sem beinlínis eigi sér stað í landi eignarnámsþola en hafi einnig áhrif á landverð Landakots og Stóra Knarraness I til verulegrar lækkunar.
Varðandi grunnhektaraverð vegna ákvörðunar eignarnámsbóta vísar eignarnemi til þess að jörðin Heiðarland Vogajarða sé staðsett innan sveitarfélagsins Voga og samkvæmt fasteignaskrá sé fasteignamat jarðarinnar 2024 212.950.000 krónur. Áætluð heildarstærð hins óskipta lands sé 2.720 hektarar samkvæmt stofnskjali lóðarinnar. Fasteignamat hvers hektara sé því um 78.290 krónur. Eignarnemi telur allt matsandlagið vera jafnverðmætt en hann áskilur sér frekari umfjöllun um mismunandi verðmæti lands innan þess. Eignarnemi telur að markaðsverð þess lands sem hér sé um að ræða sé ekki hátt og að fasteignamat endurspegli rétt verðmat. Fasteignamarkaðurinn sé ekki mjög virkur þegar komi að sölu á sambærilegum jörðum á svæðinu þótt finna megi nýlega kaupsamninga sem gefi vísbendingu um markaðsverðmæti sambærilegs landsvæðis. Þannig megi finna dæmi um kaupsamninga vegna lands sem sé að öllu leyti sambærilegt við land eignarnámsþola og jafnvel sama landið, þar sem markaðsvirði hafi verið á bilinu 80.000-500.000 krónur á hektara en ekki hærra en það og verði að telja það fullt verði í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Þannig hafi 18,32% af óskiptu landi Heiðarlands Vogajarða verið selt á 240.817 krónur á hektara 27. apríl 2023, hluti jarðarinnar Hvassahrauns verið seldur á 500.000 krónur á hektara 10. febrúar 2022 og eigendur jarðarinnar Hvassahrauns hafi lýst sig reiðubúna til að selja jörðina fyrir 909.091 krónur á hektara en þeim á hinn bóginn aðeins borist tilboð upp á 454.545 krónur á hektara.
Sé markaðsverði ekki til að dreifa eða það talið ótækt sem grundvöllur við mat á eiganrnámsbótum bendir eignarnemi á að telja verði að notagildi matsandlagsins sé mjög lítið fyrir eignarnámsþola. Landnot hafi verið afar takmörkuð og eiganrnemi telur takmarkaða kosti til staðar á mögulegri framtíðarnýtingu þess. Þannig telur eignarnemi að hvort sem notaður yrði mælikvarði um markaðsvirði eða not eignarnámsþola af eigninni þá yrði niðurstaðan ávallt sú að eiganrnámsþolum bæru hóflegar eignarnámsbætur. Eignarnámsþolar hafi engar raunhæfar áætlanir um nýtingu landsins og engar breytingar hafi orðið á landnotkun þess á þeim 15 árum sem fjallað hafi verið um framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2. Eignarnámsþolar hafi hvorki nú né fyrr lagt fram gögn sem stutt geti fullyrðingar þeirra um að eignarskerðing sem þeir sæti af völdum kvaðar á landnýtingu í þágu Suðurnesjalínu 2 hafi meiri áhrif í för með sér á réttindi þeirra en réttindi annarra landeigenda á svæðinu sem hafi sætt sig við framkvæmdina og þegið greiðslur af þeim sölum. Hér sé og til þess að líta að eins og sést hafi við vettvangsgöngu sé matsandlagið þakið hrauni og landið almennt erfitt yfirferðar. Það sé þakið mosa en sé að öðru leyti ekki gróið eða nytjað sem slíkt. Aðstæður innan jarðar eignarnámsþola séu þess eðlis að ræktun eða sambærileg nyt geti vart talist raunhæfur kostur án mikillar fyrirhafnar, vinnu og kostnaðar.
Eignarnemi horfir einnig til þess að framkvæmdin og þar af leiðandi matsandlagið séu á svæði sem þegar hafi verið valið sem mannvirkjabelti um Reykjanes á svæðisskipulagi. Sé matsandlagið þegar þverað af upplýstri Reykjanesbraut með þeim umferðarþunga sem henni fylgi, auk þess sem Suðurnesjalína 1 liggi sunnar vegarins og verði Suðurnesjalína 2 staðsett samhliða þeirri háspennulínu. Staðsetning mannvirkjabeltis innan matsandlagsins sé í samræmi við skipulag sveitarfélagsins Voga og svæðisskipulag allra sveitarfélaga á Reykjanesi. Áhrif framkvæmdarinnar á skipulag og áætlanir um landnýtingu séu því verulega takmörkuð. Hér bendir eignarnemi á að sú framtíðarnýting sem byggt hafi verið á að kynni að vera tæk í úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 hafi ekki gengið eftir. Þá er af hans hálfu áréttað að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ótækt að miða við það að land eignarnámsþola skuli verðlagt eins og íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ eða Vogum og af hans hálfu er áréttað að staða skipulagsmála á svæðinu sé sú að ráðgert sé að nýta vaxtatækifæri í Grænubyggð sem sé skipulagt svæði við byggð í Vogum nyrst við Vatnsleysuströnd sem sé fjarri matsandlaginu í máli þessu.
Þá telur eignarnemi ekki hægt að líta framhjá þeirri óvissu sem sé uppi vegna nýs tímabils jarðhræringa og eldsumbrota sem hafið sé á svæðinu og hafi sögulega staðið yfir um langt skeið. Fullkomin óvissa sé því um hvort og með hvaða hætti eignarnámsþolar geti hagnýtt matsandlagið. Einnig verði að minna á að kvöðin sem sé eignarnema nauðsynleg sé bæði mjög takmörkuð miðað við heildarstærð jarðar eignarnámsþola og feli ekki í sér yfirfærslu á grunneignarrétti þeirra. Þá liggi fyrir að eignarnemi hafi verulega ríka og brýna þörf á notum matsandlagsins þrátt fyrir náttúruvá á svæðinu enda sé uppbygging raforkumannvirkja háð öðrum forsendum, útfærslum og takmörkunum en þegar komi að annarri hugsanlegri uppbyggingu mannvirkja til einstaklingsnotkunar. Eignarnemi kveður hagsmuni eignarnema og samfélagsins alls af landnotum vera mikla en hugsanleg not eignarnámsþola af matsandlaginu vera afar takmörkuð. Eignarnemi leggur áherslu á að hann geti ekki hætt við framkvæmd sína þrátt fyrir náttúruvá á svæðinu.
Til öryggis tiltekur eignarnemi að hann telji engin rök standa til þess að verðbæta áður metnar bætur samkvæmt fyrri úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 og hann telur slíka aðferðafræði beinlínis ganga gegn ákvæðum laga nr. 11/1973. Í öllu falli sé það ekki tækur möguleiki án þess að tekið sé tillit til forsendna og aðstæðna sem legið hafi fyrir á þeim tíma samanborið við aðstæður og mögulega nýtingu jarðarinnar í dag. Þess vegi gerir eiganrnemi kröfu um að eignarnámsbætur nemi lægri fjárhæð en ákveðið hafi verið í eldri úrskurðinum og að bætur geti í öllu falli aldrei numið hærri fjárhæð í krónum talið en ákveðin hafi verið þá.
Eignarnemi kveður meginkvöðina vegna háspennulínu vera vegna byggingarbanns sem nái til svæðis undir þremur háspennuleiðurum á milli þeirra tveggja mastra sem beri þá uppi. Hafi matsnefnd fylgt þeirri reglu við ákvörðun eignarnámsbóta vegna háspennulína að meta til fulls það landsvæði sem fari undir möstur og slóða miðað við metið hektaraverð en kvöð vegna byggingarbanns ákveðist sem hlutfall af því. Algengast sé að miða við 2/3 hluta fullrar fjárhæðar bóta á hektara vegna byggingarbanns en einnig hafi verið miðað við helming fullrar bótafjárhæðar á hektara þegar aðstæður hafi gefið tilefni til þess. Við ákvörðun bóta vegna Fljótsdalslínu 3 og 4, þar sem línurnar hafi á löngum köflum farið um fjalllendi og óbyggð svæði, hafi matsnefnd miðað bætur á slíkum svæðum við helming hektaraverðs. Eignarnemi telur að matsnefnd beri að taka til skoðunar hvort miða skuli við lægri hlutfallsreglu þegar bætur vegna byggingarbanns séu metnar í landi eignarnámsþola. Líta verði til legu lands eignarnámsþola, lítilla mögulegra landnota, fyrirliggjandi kvaðasetningar vegna Suðurnesjalínu 1 og takmarkaðra gæða landsins til frekari nýtingar.
Eignarnemi telur síðan að matsnefnd þurfi að meta sérstaklega hvort og þá að hvaða marki eignarnámsþolum beri sérstakar bætur vegna rýrnunar verðmætis stærra landsvæðis en eignarnámið nái til, fyrst og fremst vegna sjónrænna áhrifa háspennulínunnar. Við það mat kveður telur eignarnemi að líta beri til allra aðstæðna á svæðinu og þeirra breytinga sem hafi orðið frá því úrskurður matsnefndar 30. júlí 2015 hafi verið kveðinn upp. Bætur umfram þau áhrif sem eignarnám valdi á landi eignarnámsþola heyri til algjörra undantekninga og mikilvægt sé að leggja áherslu á að almenn áhrif framkvæmdar séu ekki andlag eignarnámsbótaákvörðunar. Sem dæmi megi nefna að í vettvangsferð í málinu hafi verið farið um Vatnsleysustrandarveg og numið staðar við heimreiðir Stóra-Knarraness og Landakots. Þegar litið sé til suðurs sjáist Reykjanesbraut í fjarska og Suðurnesjalína 1 enn fjær. Um sé að ræða almenna sýn sem sé á engan hátt frábrugðin þeirri sýn sem beri fyrir augu annarra íbúa á svæðinu. Ekki sé heldur unnt að greina milli masturs í landi eignarnámsþola eða annarra. Ólögmætt sé að telja slík almenn áhrif andlag eignarnámsbóta. Eignarnemi telur að leggja verði áherslu á þá staðreynd að framkvæmdin sé á svæði sem þegar hafi verið valið sem mannvirkjabelti um Reykjanes. Jörð eignarnámsþola sé þannig nú þegar þveruð af mannvirkjabelti þar sem staðsett sé tvöföld og upplýst Reykjanesbraut sem sé einn umferðarþyngsti og fjölsóttasti vegakafi landsins. Þá sé Suðurnesjalína 1 þegar staðsett á sömu línuleið og landsvæðinu sem sé andlag eignarnáms í málinu. Matsnefnd þurfi að meta hugsanlega sérstaka verðrýrnun vegna sjónrænna áhrifa með sérstökum hætti þegar lína sé nú þegar staðsett samhliða fyrirhuguðu framkvæmdasvæði enda hafi slík framkvæmd allt önnur sjónræn áhrif í för með sér en þegar nýtt óraskað landsvæði fari undir háspennulínu. Suðurnesjalína 2 verði að öllu leyti samhliða Suðurnesjalínu 1 innan jarðar eignarnámsþola sem hafi í för með sér minni áhrif en ef um nýtt línustæði væri að ræða. Taka verði mið af því að öll áhrif vegna Suðurnesjalínu 2 komi einungis til viðbótar við sjónræn áhrif sem þegar séu til staðar vegna annarra mannvirkja sem einnig séu í augsýn, þ. á m. Reykjanesbraut og Suðurnesjalína 1. Áréttað sé að almenn áhrif framkvæmdar geti ekki talist andlag bóta fyrir sérstaka verðrýrnun. Þá áréttar eignarnemi að vegna fjarlægðar sem sé frá bæjarhúsum að fyrirhugaðri línuleið sé ljóst að ásýnd línunnar norðan Reykjanesbrautar hafi lítil áhrif til viðbótar við áhrifa sem þegar gæti. Þá séu hugsanleg sjónræn áhrif alfarið almenn en ekki sérstök fyrir eignarnámsþola enda þau jöfn fyrir alla sem búi eða eigi eignir í nálægð við jörð eignarnámsþola. Hugsanleg sjónræn áhrif hafi þannig sömu áhrif á landeigendur aðliggjandi jarða og á eignarnámsþola. Ekki liggi fyrir að neitt sérstakt tjón skapist fyrir eignarnámsþola af völdum sjónrænna áhrifa og hugsanleg viðbótaráhrif séu í öllu falli takmörkuð.
Loks telur eignarnemi óhjákvæmilegt að benda á áhrif jarðhræringa og eldsumbrota í nálægð. Geri þau það að verkum að öll sjónarmið um frekari áhrif á hið eignarnumda svæði, önnur en bein áhrif vegna kvaðar, eigi ekki við og því engin rök til að ákveða bætur vegna sérstakrar verðrýrnunar á jörð eignarnámsþola.
Að síðustu er af hálfu eignarnema bent á að matsnefnd taki ekki til endurskoðunar lögmæti þeirrar eignarnámsákvörðun sem liggur til grundvalalr beiðni eignarnema um mat á eignarnámsbótum enda sé það ekki hlutverk nefndarinnar. Þar af leiðandi telur eignarnemi ekki þörf á að svara athugasemdum eignarnámsþola þar að lútandi á þessum vettvangi. Þá áréttar eignarnemi ósk sína um málshraða.
V
Sjónarmið eignarnámsþola:
Eignarnámsþolar krefjast þess að matsnefnd eignarnámsbóta meti hæfilegar bætur þeim til handa vegna matsandlagsins í landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða. Þá krefjast þeir fullra bóta fyrir hið eignarnumda land, bóta vegna verðfalls lands sem ekki er tekið eignarnámi, bóta fyrir land sem ekki nýtist vegna eignarnámsins og bóta fyrir bæði tímabundið og framtíðarónæði, rask, óþægindi og óhagræði. Loks krefjast eignarnámsþolar þess að eignarnemi greiði þeim málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati matsnefndar. Styðst sú krafa við 11. gr. laga nr. 11/1973.
Fram er komið að mál þetta á sér langan aðdraganda og áður hefur matsnefnd með úrskurði 30. júlí 2015 úrskurðað um bætur vegna sambærilegrar framkvæmdar í máli eignarnámsþola. Var sá úrskurður þó ógiltur með dómi Hæstaréttar 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015.
Eignarnámsþolar benda á að þeir hafa höfðað dómsmál til ógildingar á eignarnámsákvörðuninni og bíða þess að málið verði tekið fyrir. Í þessum hluta málsins reyni á hinn bóginn fyrst og fremst á verðmæti matsandlagsins í landi eignarnámsþola og mat á því hvað teljist fullar bætur fyrir hið eignarnumda land, nánar tilgreint helgunarsvæði, annað land sem ekki sé tekið eignarnámi en verði fyrir tjóni vegna eignarnáms, svo og tímabundið og framtíðarónæði, rask, óþægindi og óhagræði fyrir landeigendur. Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar segi að enginn verði skyldaður til að láta eign sína af hendi nema fullt verð komi fyrir og í 1. mgr. 23. gr. raforkulaga segi að náist ekki samkomulag við landeiganda vegna framkvæmda geti ráðherra heimilað að tekið sé eignarnámi land, landgæði, mannvirki og önnur réttindi að því leyti sem nauðsyn beri til. Ráðherra geti heimilað fyrirtækinu að framkvæma eignarnámið og beri það allan kostnað af eignarnáminu.
Við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarksrárinnar sé hefðbundið að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignar, notagildi hennar eða hver sé kostnaður fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Eignarnámsþolar byggja á því að beita skuli því sjónarmiði sem teljist hagstæðast fyrir eignarnámsþola. Af hálfu þeirra er þess í fyrsta lagi krafist að grunnverð eignarnámsbóta í málinu miðist við 38.000.000 krónur á hektara. Í öðru lagi sé þess krafist að greiddar verði bætur að fullu fyrir það landsvæði sem teljist helgunarsvæði, þ.e. grunnverð eignarnámsbóta, og því til viðbótar verði greiddar bætur að hlutfalli 2/3 af grunnverði eignarnámsbóta fyrir allt annað áhrifasvæði, þ.e. vegna verðrýrnunar allrar jarðarinnar, eða á a.m.k. 200 metra breiðu svæði.
Eignarnámsþolar tiltaka að í ákvörðun um eignarnámið 21. júní 2024 segi að eignarnámið feli í sér að taka eignarnámi hluta lands undir 4.504 metra langt og að jafnaði 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 476 metra langan og að jafnaði 6 metra breiðan vegslóða, 13 burðarmöstur og eitt hornmastur, til ótímabundinna afnota fyrir eignarnámsbeiðanda, er muni hafa í för með sér að kvöð verði lögð á eignarráð landeigenda. Flatarmál þess svæðis sé samtals 21,932 hektarar lands. Masturssvæðið falli innan helgunarsvæðis og slóðar að einhverju leyti en helgunarsvæðið sé 20,72 hektarar að flatarmáli.
Víkja þá eignarnámsþolar að grunnverði eignarnámsbóta á hektara. Telja þeir ljóst að framkvæmdin muni hafa veruleg áhrif á land sitt, enda standi til að reisa nýja 220 kV loftlínu á landinu með tilheyrandi lýti, óafturkræfu raski, sjónmengun og kvöðum á notkun. Í greinargerð sinni hafi eignarnemi byggt á því að við mat á eignarnámsbótum í málinu verði ekki miðað við sjónarmið um enduröflunarkostnað án þess að frekari rökstuðning sé að finna fyrir því í kafla um mat á eignarnámsbótum í greinargerð eignarnema. Þá virðist eignarnemi ganga út frá því að bæði væri hægt að miða við markaðsvirði eða söluverð matsandlagsins og notagildi. Eignarnámsþolar byggja á því að beita skuli því sjónarmiði sem teljist hagstæðast fyrir eignarnámsþola. Í greinargerð eignarnema sé vísað til þess að í úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 hafi verið framkvæmt mat á eignarnámsbótum í hinu eignarnumda landi eiganrnámsþola vegna Suðurnesjalínu 2 og komist að þeirri niðurstöðu að matsverð fyrir hvern hektara lands, sem fari undir möstur og vegslóða, hafi verið talið hæfilega metið 1.500.000 krónur á hektara að grunnverði. Þá sé í greinargerð eignarnema rakið að náttúruvá sé á svæðinu og að litlar væntingar eða möguleikar séu til raunhæfrar nýtingar landsins á næstu árum eða áratugum og að sjónarmið landeigenda á árunum 2014-2015 um framtíðaruppbyggingu á svæðinu eigi ekki við að neinu leyti í dag vegna náttúruvár. Á þessum grunni byggi eignarnemi á því að bætur hafi verið ofmetnar í áðurgreindum úrskurði. Skjóti það skökku við að mati eignarnámsþola að eignarnemi, sem telji landsvæðið nægilega öruggt til að setja þar upp 220 kV loftlínu á gríðarlega stóru svæði, sem sé milljarða framkvæmd og fjárfesting sem byggi á rekstrarlegum forsendum, telji það ónothæft til annars.
Eignarnámsþolar hafna því alfarið að leggja skuli úrskurð matsnefndar 30. júlí 2015 til grundvallar mati á eignarnámsbótum í málinu. Þeir hafna einnig sjónarmiðum eignarnema um lægri fjárhæð en fallist hafi verið á í þeim úrskurði. Í fyrsta lagi hafi úrskurður matsnefndar verið ógiltur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 53/2015. Í öðru lagi hafi fasteignaverð margfaldast frá 2015 og mörg sjónarmið sem lögð hafi verið til grundvallar í þeim úrskurði eigi ekki lendur við, á sama tíma og ný sjónarmið hafi komið fram sem ekki hafi átt við þá, til dæmis fólksfjölgun á Suðurnesjum og þ. á m. í Sveitarfélaginu Vogum, einkum eftir eldsumbrot í Grindavík. Land eignarnámsþola verði því verðmætara með hverju árinu en ný loftlína setji þar strik í reikninginn. Landið sé í nálægð við höfuðborgarsvæðið og hröð uppbygging hafi verið á svæðinu. Í skýrslu VSÓ Ráðgjafar fyrir Sveitarfélagið Voga um húsnæðisáætlun 2021-2024 segi til að mynda að deiliskipulag geri ráð fyrir að íbúum geti fjölgað um 350 á því tímabili. Í greinargerð eignarnema sé gengið út frá því að áform um uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni séu ekki lengur raunhæf vegna náttúruvár og því hafi eignarnámsbætur verið ofmetnar í úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015. Þessu hafna eignarnámsþolar með vísan til skýrslu stýrihóps um rannsóknir á möguleikum um byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni sem kynnt hafi verið opinberlega 1. október 2025, því þar hafi verið komist að niðurstöðu um að flugvöllur í Hvassahrauni sé alls ekki úr myndinni. Frekari stoðum undir þetta renni aðalskipulag Reykjavíkurborgar þar sem miðað sé við að Reykjavíkurflugvöllur víki úr Vatnsmýri. Sjónarmið um framtíðarnýtingu í þágu flugvallar eigi því enn við að fullu.
Eignarnámsþolar vísa til þess að miðgildi fermetraverðs í Sveitarfélaginu Vogum hafi hækkað gríðarlega frá 2014 samkvæmt kaupverðsjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Sem dæmi um almenna hækkun fermetraverðs á svæðinu hafi miðgildi fermetraverðs í janúar 2014 verið 80.000 krónur, í febrúar 2015 163.736 krónur og í september 2024 604.297 krónur. Hafi miðgildi fermetraverðs því rúmlega sjöfaldast á tímabilinu. Fasteignamat Heiðarlands Vogajarða hafi 2014 verið 110.250.000 krónur en 124.050.000 krónur árið 2015, 212.950.000 krónur árið 2024 og 225.950.000 krónur árið 2025. Hækkunin 2014-2024 nemi því um 80% þrátt fyrir að Heiðarland Vogajarða sé óskipulagt land. Eignarnámsþolar óska þess að matsnefnd taki tillit til þessarar þróunar á svæðinu komi til þess að nefndin framkvæmi mat á eignarnámsbótum.
Eignarnámsþolar vísa til þess að eignarnemi bendi á það í greinargerð sinni að hagsmunir hans og samfélagsins alls af landnotkuninni séu miklir og hugsanleg landnot eignarnámsþola mjög lítil eða afar takmörkuð, þótt hann tiltaki jafnframt að nýtt tímabil jarðhræringa og eldsumbrota sé hafið á Reykjanesskaga og því fullkomin óvissa uppi um hvort og með hvaða hætti eignarnámsþolar geti hagnýtt matsandlagið í nánustu framtíð. Eignarnámsþolar kveða þversögn í þessum röksemdum eignarnema, annars vegar að fullkomin óvissa sé um landnýtingu vegna náttúruvá og hins vegar að hugsanleg landnot eignarnámsþola séu afar takmörkuð. Þeir kveða óvissu einmitt þess eðlis að ekki sé hægt að vita fyrir víst hvort og með hvaða hætti náttúruvá muni hafa á landnotkun á svæðinu og því skjóti skökku við að eignarnemi kveði væntanlega landnotkun vera afar takmarkaða. Þá hafna eignarnámsþolar því að hagsmunir eignarnema og samfélagsins alls af framkvæmdunum séu skýrir en hagsmunir eignarnámsþola ekki. Þeir benda á að hagsmunir þeirra séu ekki síður mikilvægir enda sé um að ræða eignarréttindi sem njóti verndar stjórnarskrár.
Eignarnámsþolar taka fram að matsandlagið sé allt láglendi og séu landgæði þannig að meta skuli landið sem byggingarland. Þeir benda á að í úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 hafi hæfilegt hektaraverð fyri land undir möstur og vegi verið ákveðið 1.500.000 krónur, hæfilegar bætur vegna þess svæðis sem byggingarbann tæki til hafi verið ákveðið 2/3 þeirrar fjárhæðar og hektaraverð fyrir áhrifasvæði ákveðnar 150.000 krónur eða 10% fjárhæðarinnar. Tilboð eignarnema til eignarnámsþola 29. ágúst 2023 hafi verið samhljóða áðurgreindri niðurstöðu matsnefndar auk 30.000 króna ómaksþóknunar. Eignarnámsþolar telja ótækt að miða eignarnámsbætur við þá fjárhæð og hafna því að sú fjárhæð geti talist ofmetin líkt og eignarnemi hafi byggt á. Vísa þeir í því samhengi til þróunar á húsnæðismarkaði í Sveitarfélaginu Vogum og gríðarlegrar hækkunar fasteignaverðs á síðustu árum. Þá telja eignarnámsþolar það ekki koma málinu við þótt eignarnemi hafi samið við aðra landeigendur á svæðinu og hafna því að eignarnámsbætur verði miðaðar við einkaréttarlega samninga eignarnema við aðra.
Eignarnámsþolar byggja á því að grunnverð eignarnámsbóta á hektara skuli vera að lágmarki 38.000.000 krónur. Taki sú fjárhæð mið af því að landið svari til lands sem skipulagt hafi verið sem byggingarland. Þeir tiltaka að ef bætur samkvæmt úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 yrðu framreiknaðar myndi hektaraverð nema 11.250.000 krónum. Eignarnámsþolar byggja sem áður greinir á því að þær bætur hafi verið metnar og lágar og grunnverðið skuli vera enn hærra.
Næst vísa eigarnámsþolar til þess að í málatilbúnaði eignarnema sé fjallað um bætur vegna byggingarbanns og þar rakið að byggingarbann nái til svæðis undir þremur háspennuleiðurum á milli þeirra tveggja mastra sem beri þá uppi og sé algengast að matsnefnd miði bætur á því svæði við 2/3 fullra bóta en einnig hafi verið miðað við helming þegar aðstæður hafi gefið tilefni til þess. Eignarnámsþolar benda á að í úrskurði matsnefndar 30. júlí 2025 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að bætur vegna svæðis sem byggingarbann næði til skyldu ákveðnar 2/3 hlutar af hektaraverði lands sem færi undir möstur og vegi. Hafi eignarnemi talið ástæðu til að miða við lægri hlutfallsreglu nú vegna legu matsandlagsins, lítilla mögulegra landnota, fyrirliggjandi kvaðasetningar vegna Suðurnesjalínu 1 og takmarkaðra landgæða til frekari nýtingar. Eignararnámsþolar vísa til þess að um sé að ræða kvöð samkvæmt ákvörðunum um eignarnám sem séu í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 687/2009 um raforkuvirki, sbr. 13. gr. laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja o.fl. Sé helgunarsvæðið ekki skilgreint nánar í eignarnámsákvörðunum en það sé að einhverju leyti skilgreint í greinargerðum eignarnema í máli þessu. Eignarnámsþolar telja sem fyrr ótækt að byggja á úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 nú tíu árum síðar, sérstaklega í ljósi þess að hann hafi verið ógiltur með dómi Hæstaréttar. Þá hafna þeir alfarið röksemdum eignarnema um að leggja beri annað og lægra hlutfall til grundvallar landverði, til dæmis helming þess. Eignarnámsþolar vísa til þess að í eignarnámsákvörðun sé einnig að finna heimild eignarnema til að leggja vegslóða að línunum og meðfram þeim og halda slóðunum við eftir þörfum, auk þess sem fram komi í ákvörðuninni að eignarnema, eða þeim sem hann feli slík störf, skuli veittur óhindraður aðgangur að helgunarsvæði rafmagnslínunnar á jörðinni vegna byggingarframkvæmda, viðhalds, eftirlits og endurnýjunar síðar. Þeir telja þetta talsvert ónæði, rask, óþægindi og óhagræði fyrir sig, enda bæði heimilaðar vegslóðir á landinu til framtíðar og veittur óhindraður aðgangur að helgunarsvæðinu um óákveðinn tíma. Sérstaklega þurfi því að ákveða bætur vegna þessa hluta eignarnámsákvörðunarinnar. Eignarnámsþolar krefjast sem áður greinir þess að greiða skuli fullar bætur fyrir allt landsvæði sem fellur undir helgunarsvæðið, þ.e. grunnhektaraverð eignarnámsbóta, enda verði áðurgreindri notkun á helgunarsvæðinu jafnað við eignarnám. Af hálfu eignarnámsþola er áréttað að þetta séu víðtækar kvaðir sem jafna megi til eignarnáms. Þá benda eignarnámsþolar á að þeir muni ekki aðeins bíða tjón vegna hinna ótímabundnu kvaða sem felist í eignarnámsákvörðun heldur og vegna tímabundins rasks og annarra óþæginda sem hljótist af framkvæmd eignarnema. Lagning Suðurnesjalínu 2 sé umfangsmikið verkefni sem muni taka langan tíma og krefjist framkvæmdin þess að fjöldi vinnuvéla og vinnumanna komi að henni með tilheyrandi raski og ónæði. Muni framkvæmdin valda óþægindum meðal annars vegna hávaða og sjónmengunar.
Eignarnámsþolar telja að Suðurnesjalína hafi í för með sér almenna verðrýrnun umfram hið eignarnumda land og helgunarsvæði línunnar, þ.e. á þá hluta jarðarinnar sem þeir halda eftir. Þeir byggja á því að í framkvæmd hafi verið fallist á að eignarnámsþolar geti átt rétt á bótum bæði vegna tímabundins tjóns vegna framkvæmdar sem krefjist eignarnáms og mögulegs tjóns til framtíðar, svo sem vegna verðrýrnunar á þeim hluta eignar sem eignarnámsþoli haldi eftir. Þeir telja slíka verðrýrnun eiga við um allt land jarðarinnar, ekki bara þá hluta hennar sem sæti byggingarbanni og það svæði í kringum línurnar þar sem vegslóðar verði staðsettir á til framtíðar. Allt land eignarnámsþola rýrni þannig í verði vegna framkvæmdanna enda rýri það augljóslega nærliggjandi hluta lands í verði að komið sé fyrir 220 kV rafmagnslínu um land sem eyðileggi ekki aðeins ásýnd lands heldur einnig möguleika á landnýtingu. Það gefi augaleið að það þyki ekki eftirsóknarvert eða ákjósanlegt að reisa mannvirki eða standa í gróðurrækt í svo mikilli nálægð við raflínur og raflínumöstur. Raflínur geti slitnað og burðarmöstur gefið sig, líkt og komið hafi fyrir raflínu á nærliggjandi svæði 4. júní 2024, með tilheyrandi hættu fyrir nærumhverfið. Þá benda eignarnámsþolar á að í áliti Skipulagsstofnunar hafi með afdráttarlausum hætti verið sagt að sá valkostur sem eignarnemi hafi valið, hefði í för með sér mest neikvæð áhrif allra valkosta á landslag, ásýnd, ferðaþjónustu, vistgerðir, gróður, fuglalíf og byggða- og atvinnuþróun.
Eignarnámsþolar vísa til þess að í úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 hafi verið komist að niðurstöðu um að lagning línunnar væri til þess fallin að rýra verðmæti stærra svæðis en eignarnám og byggingarbann tæki til vegna sjónrænna áhrifa frá línunni og því að fólk forðist að vera nærri slíkum mannvirkjum vegna ótta um áhrif á heilsufar sem stafa kunni frá seguláhrifum raflínanna. Eignarnámsþolar taka undir þessi sjónarmið. Þá hafi nefndin í úrskurðinum komist að niðurstöðu um að á svæði allt að 200 metra frá miðju til hvorrar handar línunnar, eða á 400 metra breiðu bili, að frádregnu 46 metra breiðu svæði sem byggingarbann tæki til, gætti áhrifa sem rýrðu verðmæti lands á svæðinu, sbr. dóm Hæstaréttar 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 þar sem reyndar hafi verið miðað við 250 fjarlægð frá miðlínu langt umfram skilgreint veghelgunarsvæði. Hér benda eignarnámsþolar á að sjónræn og önnur neikvæð áhrif af 220 kV loftlínu teygi sig margfalt lengra en sams konar áhrif af vegi enda sé um ræða gríðarlega mikið og áberandi mannvirki. Línurnar muni sjást hvaðanæva að á hinu umþrætta landsvæði og langt út fyrir það. Séu sjónræn áhrif af línunni því til þess fallin að rýra verðmæti jarðarinnar allrar. Þeir kveða loftlínur hafa veruleg neikvæð áhrif á ásýnd, landslag og upplifun á svæðinu og hér séu áhrifin sérstaklega neikvæð með hliðsjón af því að línan muni að mestu liggja um fallega og ósnortna náttúru. Línunni sé ætla að liggja um mosagróin nútímahraun sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt a. lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og séu náttúruspjöll á landi meðfram línuvegum og mastrastæðum gífurleg og flest óafturkræf. Eignarnámsþolar gera sérstaka kröfu um að litið verði til skemmda á náttúru landsins en þau spjöll hafi án efa leitt til þeirrar niðurstöðu að landið verði verðminna en ella. Loks krefjast þeir þess að eignarnemi hagi framkvæmdum á þann hátt að þær hafi ekki áhrif á vinnslu grunnvatns, jarðhita eða aðra hugsanlega starfsemi á landinu.
Að öllu þessu virtu halda eignarnámsþolar því fram að land þeirra allt muni rýrna í verði og þeir telja eðlilegt og sanngjarnt að ákveða bætur að hlutfalli 2/3 af grunnverði eignarnámsbóta á hektara fyrir jörðina alla, eða að lágmarki á a.m.k. 2.000 metra breiðu áhrifasvæði í gringum loftlínuna, að frádregnu því helgunarsvæði sem krafist sé fullra bóta fyrir.
VI
Niðurstaða matsnefndar:
Eignarnám á landspildu eignarnámsþola er til komið á grundvelli 23. gr. raforkulaga í þágu framkvæmdar eignarnema við að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 á Reykjanesi. Framkvæmd þessi á sér langan aðdraganda sem málsaðilar hafa ítarlega rakið í málatilbúnaði sínum. Ástæðulaust er að rekja þá forsögu nánar þótt rétt sé að geta þess að matsnefnd eignarnámsbóta hefur áður leyst úr kröfu eignarnema á hendur eignarnámsþolum um umráðatöku og bætur fyrir land þeirra vegna framkvæmdarinnar eins og hún var þá fyrirætluð, sbr. úrskurði matsnefndar 29. júlí 2014 í máli nr. 8/2014 og 30. júlí 2015 í máli nr. 8/2014, en fyrrgreindi úrskurðurinn var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015. Með dómum Hæstaréttar 12. maí 2015 í málum nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 541/2015 var eignarnámsákvörðun ráðherra frá árinu 2014 síðan ógilt.
Sú framkvæmd við að reisa Suðurnesjalínu 2 sem nú stendur fyrir dyrum tekur nánar tiltekið til þess að reisa nýja 220 kV háspennulínu milli tengivirkis við Hamranes í Hafnarfirði og tengivirkis á Njarðvíkurheiði. Mun línan liggja um eignarlönd tuga jarða. Línan mun liggja í nýju línubelti fjarri núverandi Suðurnesjalínu 1 frá Hamranesi og um land Hafnarfjarðar, Skógræktar ríkisins, Óttarsstaða og Lónakots að landamerkjum Hvassahrauns. Línan mun á hinn bóginn liggja sunnan núverandi Suðurnesjalínu 1 (fjær Reykjanesbraut) og fylgja línubelti hennar frá landamerkjum Lónakots og Hvassahrauns, við sveitarfélagamörk Voga og Hafnarfjarðar, að tengivirki á Njarðvíkurheiði. Framkvæmdin fer meðal annars um land jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða sem er í sameign eignarnámsþola og annarra. Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdinni sé ætlað að gera flutningskerfi raforku sveigjanlegra í rekstri og afhendingaröryggi á Suðurnesjum á höfuðborgarsvæðinu muni aukast til muna, en öryggi núverandi kerfis sé ófullnægjandi því einungis sé um að ræða ein tengingu frá Reykjanesskaga við 220 kV meginflutningskerfið í Hamranesi við Hafnarfjörð sem standi ógn af þeirri náttúruvá sem til staðar sé á Reykjanesskaga, auk þess sem sú tenging hafi takmarkaða flutningsgetu sem hamli atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Framkvæmdin sé því aðkallandi fyrir raforkuöryggi almennings, atvinnustarfsemi og samfélagið í heild.
Eignarnámið beinist að landspildu fyrir landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða, sem eignarnámsþolar eru meðal sameigenda að, og liggur á Reykjanesi frá sjávarmáli í norðvestri allt til fjalla í suðaustri. Land eignarnámsþola liggur þannig beggja vegna þjóðvegar (Reykjanesbrautar) og línubeltis Reykjaneslínu 1. Áður er fram komið að ráðgert er að Suðurnesjalínu 2 muni fyrir landi eignarnámsþola liggja í línubelti Reykjaneslínu 1, rétt sunnan hennar. Með greinargerð eignarnema fylgdi kort af landareign eignarnámsþola og upplýsingum um ráðgerðar framkvæmdir fyrir landi þeirra og af því verður ráðið að til standi að leggja 4.504 metra langa rafmagnslínu um land eignarnámsþola með helgunarsvæði sem sé 20,72 hektarar að stærð, 551 metra langar nýjar vegslóðir á samtals 0,3306 hekturum og 14 háspennumöstur, þar af eitt hornmastur og 13 burðarmöstur, á samtals 0,551 hektara. Þar kemur jafnframt fram að fyrir eignarnám hafi stærð jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða verið 2.766,36 hektarar en að afnotanámi frágengnu standi eftir kvaðarlausir 2.744,76 hektarar.
Í þessum þætti málsins kemur til úrlausnar matsnefndar ákvörðun um bætur úr hendi eignarnema vegna afnotanáms á spildu í landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða í Sveitarfélaginu Vogum sem eignarnámsþolar eiga eignarrétt yfir að hluta og nemur eignarhlutdeild þeirra 33,75% eins og áður greinir. Um afnotanám er að ræða því af hálfu eignarnema er farið fram á að nánar tilgreindar kvaðir verði lagðar á eignarnámsþola sem handhafa beins eignarréttar yfir spildunni sem er matsandlag í máli þessu en ekki yfirfærslu beins eignarréttar yfir henni.
Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.
Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 29. ágúst 2024 ásamt lögmönnum aðila og fyrirsvarsmönnum eignarnámsþola og kynnti sér aðstæður. Sem fyrr greinir tekur afnotanámið til eignarréttinda í landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða. Vettvangsathugun á landi jarðarinnar leiddi í ljós að matsandlagið er að mestu mosagróið hraun, óræktað en gróið inni á milli.
Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu, að frátalinn kröfu eignarnámsþola um bætur vegna ónæðis, rasks, óþæginda og óhagræðis fyrir þau vegna kvaðar um heimild eignarnema til að nýta vegslóðir á landinu og til óhindraðs aðgangs að helgunarsvæði raflínunnar til framtíðar. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Það er álit nefndarinnar að til staðar sé virkur markaður um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.
Það er álit matsnefndar að ákveða þurfi fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir það land jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða sem háspennulínan verður lögð um og fer undir 14 möstur til að halda línunni uppi, samtals 0,551 hektari, svo og það land sem fer undir nýja vegslóða sem eignarnemi hyggst leggja að línunni og meðfram henni, samtals 0,3306 hektarar. Tilboð eignarnema, að fjárhæð 1.500.000 krónur á hektara, er meðal annars reist á úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 í máli nr. 8/2014. Matsnefndin telur að tilboð eignarnema gefi ekki fyllilega raunhæfa mynd af verðmæti landsins nú og það geri ekki heldur það verð sem krafa eignarnámsþola byggir á, 38.000.000 krónur á hektara. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti matsandlagsins nemi 377 krónum á fermetra eða 3.770.000 krónum á hektara, sbr. til dæmis til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar 19. júní 2024 varðandi varðandi eignarnám á spildu í landi Smábýlis 11 á Kjalarnesi og 2. mars 2023 í málum nr. 2/2022 og 3/2022 varðandi eignarnám á spildum í landi Óttarsstaða og Lónakots á Reykjanesi, svo og verðlagsáhrif. Eins og í tilvitnuðum málum er til þess að líta að hvorki liggur fyrir deiliskipulag vegna matsandlagsins né heldur er í aðalskipulagi gert ráð fyrir uppbyggingu þess í þágu þéttbýlis eða aðrar aðstæður sem heimila þegar önnur en núverandi not þar, en jafnframt að landsvæðið er á suðvesturhorni landsins í grennd við þéttbýliskjarna á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Vegna staðsetningar og annarra aðstæðna á matsandlaginu er ekki útilokað að land þar kunni í framtíðinni að nýtast sem byggingarland auk annars, þótt náttúruvá á Reykjanesskaga setji óneitanlega strik í reikninginn. Þá hefur það að áliti matsnefndar ekki áhrif á landverð þótt eignarnemi fari fram á afnotanám í stað eignarnáms á beinum eignarrétti eignarnámsþola yfir matsandlaginu, því um sú framkvæmd sem um er að ræða og þau mannvirki sem reist verða í tengslum við hana eru kostnaðarsöm og er ætlað að standa um langa hríð og í óákveðinn tíma. Fyrir 0,8816 hektara spildu í landi Heiðarlands Vogajarða (0,551 + 0,3306 hektarar) þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 3.323.632 krónur (0,8816 hektarar x 3.770.000 krónur).
Í öðru lagi telur matsnefndin að ákveða þurfi fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum vegna þess lands jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða sem fer undir 46 metra breitt helgunarsvæði háspennulínunnar, sem byggingarbann nær yfir, samtals 20,72 hektarar. Í málatilbúnaði eignarnema er ekki gerð krafa um að frá helgunarsvæðinu dragist frá land undir möstur auk lands undir vegslóða (0,8816 hektarar) en matsnefnd lítur svo á að hún sé, sem sjálfstæð stjórnsýslunefnd, bundin af þeirri reglu skaðabótaréttar við ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta að eignarnámsþola skuli ekki ofbæta tjón vegna eignarnáms. Eigi eignarnámsþolar þannig rétt til bóta fyrir 19,8384 hektara sem heyrir undir helgunarsvæði háspennulínunnar að frátöldu landi sem fer undir möstur og vegslóða (20,72 – 0,8816 hektarar). Samkvæmt fordæmum matsnefndar ber að meta land þetta til 2/3 hluta af verðmæti landsins, sbr. t.d. úrskurði matsnefndar 6. október 2021 í máli nr. 4/2020 og 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016. Fyrir 19,8384 hektara helgunarsvæði þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 49.860.512 krónur (19,8384x(2/3)x3.770.000).
Í þriðja lagi er það álit matsnefndarinnar að eignarnámsþolum beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem lagning háspennulínu um land jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða hefur á hagsmuni þeirra sem nefndin telur felast í öðrum áhrifum sem stafa af háspennulínum, sbr. til dæmis úrskurði matsnefndar 1. júlí 1999 í máli nr. 19/1997, 27. febrúar 2006 í málum nr. 10/2005 og 11/2005, 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016 og 6. október 2021 í máli nr. 4/2020. Geta slík áhrif verið vegna sjónrænna áhrifa af raflínu og það þótt í landinu sé önnur lína fyrir ásamt þjóðvegi, en ekki síður sökum þess að fólk forðast að vera nærri slíkum mannvirkjum, jafnvel þó skaðleg áhrif þess hafi ekki verið sönnuð. Það er álit matsnefndar að á svæði sem er í allt að 200 metra fjarlægð frá miðju til hvorrar handar frá nýrri Suðurnesjalínu 2, eða á 400 metra bili, sem samkvæmt útreikningum eignarnema eru alls 159,44 hektarar, gæti áhrifa sem rýri verðmæti lands á þessu svæði. Samkvæmt málsgögnum fer línan 4.504 metra um land jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða. Til frádráttar áhrifasvæðinu komi 0,8816 hektara landspilda og 19,8384 hektara helgunarsvæði sem bætur hafa þegar verið ákveðnar fyrir, samkvæmt því sem greinir hér á undan. Komi þannig bætur fyrir landsvæði sem er 138,72 hektarar að stærð (159,44–0,8816–19,8384), sbr. til dæmis til hliðsjónar úrskurði matsnefndar 6. október 2021 í máli nr. 4/2020 og 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016. Telur nefndin að til komi verðrýrnun, á því landi sem bæta skal eftir þessum bótalið, sem nemur 10% af fullu verði. Það er álit matsnefndar að bætur vegna þessa séu hæfilega ákveðnar 52.297.440 krónur (138,72x0,10x3.770.000). Matsnefndin hafnar á hinn bóginn kröfum eignarnámsþola um frekari bætur fyrir ætluð fjárhagsleg áhrif á það land sem þeir halda eftir, því ekki gætir að áliti matsnefndar áhrifa til verðlækkunar utan 400 metra beltisins sem bætur voru ákveðnar fyrir hér á undan. Er þess þá meðal annars að gæta að nýja línan, Suðurnesjalína 2 verður staðsett sunnan og samsíða eldri línu, Suðurnesjalínu 1, á því landsvæði sem mál þetta tekur til.
Í fjórða lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma í garð eignarnámsþola, bæði vegnu línulagningar og slóðagerðar í landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur til hvers eignarnámsþola og hefur þá verið tekið tillit til þess að rask og ónæði af framkvæmdinni er hér sýnilega minna en við á til dæmis í tilviki vegalagningar, sbr. til dæmis úrskurði matsnefndar 6. október 2021 í máli nr. 4/2020 og 26. október 2020 í máli nr. 3/2020. Að áliti matsnefndar getur ekki komið til greiðslu frekari bóta af hálfu eignarnema fyrir ætlað tjón af völdum rasks og ónæðis vegna umsvifa eignarnema í framtíðinni, svo sem eignarnámsþolar hafa krafist, og er þá meðal annars til þess að líta að nefndin hefur þegar komist að niðurstöðu um að eignarnámsþolum beri bætur vegna eignarnáms sem tekur ekki aðeins til þeirrar landspildu sem rafmagnslína verður lögð um heldur einnig lands sem fer undir sérstakt helgunarsvæði, svo og því að eignarnemi hefur að óbreyttu nokkuð greiðan aðgang að raflínunni frá eldri línuvegi vegna Suðurnesjalínu 1.
Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera samtals 105.481.584 krónur (3.323.632+49.860.512+52.297.440), auk þess sérhver eignarnámsþoli á rétt til bóta fyrir rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma að fjárhæð 500.000 krónur eins og áður greinir. Samkvæmt gögnum málsins nemur hlutfallslegur eignarréttur eignarnámsþolans Reykjaprents ehf. yfir óskiptu landi jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða 23,75% en eignarnámsþolarnir Sigríður Jóndsóttir og Ólafur Þór Jónsson eiga hvort fyrir sitt leyti 5% eignarhlutdeild í því. Nemur hlutdeild eignarnámsþolans Reykjaprents í eignarnámsbótum þannig 25.551.876 krónum (0,2375x105.481.584 + 500.000), og hlutdeild eignarnámsþolanna Sigríðar og Ólafs Þórs hvors fyrir sitt leyti 5.774.079 krónum (0,05x105.481.584 + 500.000).
Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum óskipt 2.100.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði. Hefur þá verið tekið tillit til meðferðar málsins fyrir matsnefnd, þ. á m. vettvangsathugunar í málinu 29. ágúst 2024 og munnlegs flutnings þess 17. október 2024, þess að lögmaður eignarnámsþola hefur samhliða rekið tvö önnur mál fyrir matsnefndinni, mál nr. 3/2024 og 4/2024, vegna eignarnáms á landi í þágu sömu framkvæmdar eignarnema, svo og þess að eignarnemi hafði uppi kröfu um að nefndin heimilaði honum að taka umráð matsandlagsins á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 sem leyst var úr með úrskurði matsnefndar 17. september 2024 og krafðist þess að eignarnámsþolar tæku til varnar. Lögmaður eignarnámsþola hefur gætt hagsmuna þeirra sameiginlega og er tímaskýrsla sem hann hefur lagt fram í málinu ósundurgreind að því er varðar vinnu í þágu eignarnámsþola. Verður málskostnaður þeim til handa ákveðinn í einu lagi.
Þá skal eignarnemi greiða 850.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Eignarnemi, Landsnet hf., skal greiða eignarnámsþolanum Reykjaprenti ehf. 25.551.876 krónur, eignarnámsþolanum Sigríði Jónsdóttur 5.774.079 krónur og eignarnámsþolanum Ólafi Þór Jónssyni 5.774.079 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu.
Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolunum Reykjaprenti ehf., Sigríði Jónsdóttur og Ólafi Þór Jónssyni óskipt 2.100.000 krónur í málskostnað.
Þá skal eignarnemi greiða 850.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.
Valgerður Sólnes
Gústaf Vífilsson Magnús Leópoldsson