Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 26/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 26/2024

Miðvikudaginn 10. apríl 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. janúar 2024 þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árunum 2020, 2021 og 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2021, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 87.114 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 891.187 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi sótti um niðurfellingu framangreindrar kröfu með umsókn 22. desember 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. febrúar 2023, var samþykkt að fella niður 75% af eftirstöðvum kröfu, eða 608.812 kr., vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 102.111 kr. Kærandi sótti um niðurfellingu framangreindrar krafna 13. júlí 2023. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. janúar 2023, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta synjað á þeim forsendum að krafan væri réttmæt og að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki fyrir hendi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. janúar 2024. Með bréfi, dags. 17. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. febrúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé mjög ósátt við að hafa fengið synjun á beiðni um niðurfellingu ofgreiðslu í ljósi þess að Tryggingastofnun hafi ekki notað það skattþrep sem hún hafi óskað eftir. Það hafi komið í ljós þar sem hún hafi á svipuðum tíma fengið endurreikning tekjuskatts og útsvars og niðurstöðu álagningar 2023. Niðurstaðan hafi verið sú að hún hafi ekki greitt nóg af sköttum þar sem dregið hafi verið af henni í röngu skattþrepi. Það liggi fyrir að kærandi hafi fyrir árin 2022 og 2023 óskað þess að fullur skattur í þrepi 2 yrði tekinn af greiddum bótum Tryggingastofnunar en það hafi ekki verið gert. Í einfeldni sinni hafi kærandi haldið að miðað við hversu lágar bætur hún væri að fá þá hlyti fullur skattur í þrepi 2 að hafa verið dreginn af bótum hennar og þess vegna hafi hún ekki skoðað það.

Kærandi sé ekki talin hafa nægar „alveg sérstakar aðstæður“. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 segi: „Undanþága frá endurkröfu. Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Þarna sé fjallað um að líta eigi til fjárhags- og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Kærandi hafi ekkert að fela, staðan í dag sé einfaldlega slæm, eins og hafi komið fram í beiðni hennar um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á sínum tíma en staðan hafi ekkert skánað. Í dag sé kærandi að borga meira af lægri tekjum en hún hafi gert síðastliðið ár. Leigan hafi hækkað úr 220.000 kr. í vísitölutengingu frá 1. desember 2023 og hún sé nú þegar búin að greiða 34.568 kr. meira í húsaleigu fyrir desember 2023 og janúar 2024. Kærandi eigi einnig eftir að greiða niður álagningu tekjuskatts 2023 sem sé 186.907 kr. ofan á 254.522 kr. skuld Tryggingastofnunar. Greiðslubyrði kæranda hafi því hækkað talsvert. Mánaðarlegur kostnaður sé nú meiri en 420.000 kr. sem sé hærra en allar þær bætur sem hún sé að fá í „tekjur“ mánaðarlega. Kærandi skilji ekki hvernig hægt sé að meta það svo að aðstæður hennar séu ekki sérstakar bæði fjárhagslega og félagslega. Húsaleigan sé 237.766 kr. en hafi verið 220.000 kr., sími og net 15.980 kr., tryggingar 13.000 kr., bílakostnaður um 60.-70.000 kr., heimili og matur um 80.-100.000 kr., tekjuskattsskuld 186.907 kr. og ofgreiðsla Tryggingastofnunar 254.522 kr. Kærandi noti mest kreditkort til að greiða fyrir það sem hún versli yfir mánuðinn og sé með 300.000 kr. heimild. Undanfarna mánuði hafi kærandi þurft að skipta kreditreikningnum upp í tvær til þrjár greiðslur og hafi hún þá um leið minni heimild.

Kærandi óski eindregið eftir því að staða hennar verði endurskoðuð. Það hafi ekki verið hennar sök að það hafi ekki verið dregið af henni í réttu skattþrepi heldur Tryggingastofnunar sem hafi gert skuldastöðu hennar verri. Kærandi hafi hvorki efni á þessu né að lifa. Kærandi spyr hvert sé lágmark heildartekna bótaþega samkvæmt félags- og vinnumálaráðuneytinu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á niðurfellingu á ofgreiðslukröfum sem hafi myndast vegna greiðslna á árunum 2021 og 2022.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 1. mgr. 33. gr. laganna. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 2. mgr. 33. gr. laganna og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Í 11. gr. reglugerð nr. 598/2009 sé að finna heimild til undanþágu frá endurkröfu en þar sé kveðið á um að þrátt fyrir að endurreikningur bóta hafi leitt í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri annars vegar fyrir tímabilið 1. maí 2020 til 31. mars 2021 og hins vegar frá 1. maí 2021 til 30. nóvember 2021. Frá 1. desember 2021 hafi hún fengið greiddan örorkulífeyri.

Á þeim tíma sem kærandi hafi fengið lífeyrisgreiðslur hafi hún ítrekað breytt tekjuáætlunum sínum auk þess sem tekjuáætlanirnar hafi verið leiðréttar og greiðslum hafi verið breytt í framhaldi af reglubundnu eftirliti.

Á árinu 2020 hafi kærandi gert tekjuáætlanir 6. apríl (við upphaf greiðslna), 15. júní, 16. júlí og 14. desember. Með bréfum, dagsettum 26. júní og 17. júlí 2020, hafi kæranda verið tilkynnt um breytingar á greiðslum á grundvelli framangreindra tekjuáætlana. Síðasta tekjuáætlunin hafi ekki verið afgreidd vegna þess að eftir að greiðslur hafi átt sér stað í desember sé ekki tekið við tekjuáætlunum sem breyti tekjuforsendum ársins.

Við endurreikning og uppgjör greiðslna ársins 2020 hafi niðurstaðan verið ofgreiðsla að fjárhæð 87.118 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Krafan sé uppgreidd.

Á árinu 2021 hafi kærandi gert tekjuáætlanir 25. febrúar, 23. júní og 29. nóvember. Með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 2. mars, 23. júní og 30. nóvember 2021, hafi kæranda verið tilkynnt um breyttar greiðslur á grundvelli innsendra tekjuáætlana. Með bréfum, dagsettum 11. júní, 12. ágúst og 14. október 2021, hafi kæranda verið tilkynnt um breyttar greiðslur í framhaldi af reglubundnu eftirliti en þá hafði komið í ljós að tekjur kæranda hafi verið hærri samkvæmt staðgreiðsluskrá en gert hafði verið ráð fyrir í gildandi tekjuáætlununum. Í þessum bréfum hafi kæranda verið tilkynnt um ofgreiðslur að fjárhæð 731.187 kr., 375.409 kr. og 119.068 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Við endurreikning og uppgjör greiðslna ársins 2021 hafi niðurstaðan verið ofgreiðsla að fjárhæð 891.187 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Eftirstöðvar kröfunnar séu nú 161.225 kr.

Á árinu 2022 hafi kærandi gert tekjuáætlun 19. júlí og hafi henni verið tilkynnt með bréfi, dags. 22. júlí 2022, um breyttar greiðslur á grundvelli innsendrar tekjuáætlunar. Með bréfi, dags. 12. apríl 2022, hafi kæranda verið tilkynnt um breyttar greiðslur í framhaldi af reglubundnu eftirliti en þá hafði komið í ljós að tekjur kæranda hafi verið hærri samkvæmt staðgreiðsluskrá en gert hafði verið ráð fyrir í gildandi tekjuáætlun. Ofgreiðslan hafi numið 378.838 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Við endurreikning og uppgjör greiðslna ársins 2022 hafi niðurstaðan verið ofgreiðsla að fjárhæð 102.111 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Eftirstöðvar kröfunnar séu nú 88.495 kr. Vakin sé athygli á því að við útreikning á tekjutengdum bótum sé miðað við heildartekjur, þ.e. brúttótekjur án tillits til staðgreiðslu skatta. Við útreikning á ofgreiðslum sé á hinn bóginn tekið tillit til staðgreiðslu skatta af tekjutengdum bótum, þ.e. ofgreiðsla sé lækkuð um staðgreiðslu sem greidd hafi verið af viðkomandi greiðslum frá Tryggingastofnun.

Ekki liggi fyrir upplýsingar um að kærandi hafi, eins haldið sé fram í kæru, óskað eftir að lífeyrisgreiðslur hennar frá Tryggingastofnun væru greiddar í 2. skattþrepi á árunum 2020, 2021 eða 2022. Það hafi hún fyrst gert á árinu 2023, það hafi verið skráð í greiðslukerfi Tryggingastofnunar 26. maí 2023 að kærandi væri með aðrar tekjur sem gangi framar greiðslum frá Tryggingastofnun við útreikning á staðgreiðslu skatta. Fram að því hafi útreikningur skattþrepsins miðast við tekjuáætlun kæranda.

Vakin sé athygli á því að Tryggingastofnun geti eingöngu reiknað staðgreiðslu skatta miðað við upplýsingar sem berist frá greiðsluþega en endanlegur útreikningur á skattskyldu viðkomandi einstaklings fari fram við álagningu skatta hjá skattyfirvöldum.

Kærandi hafi sótt um niðurfellingu á ofgreiðslu með umsókn, dags. 22. desember 2022. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2023, hafi verið samþykkt að fella niður 75% eftirstöðva krafna eða 608.812 kr. vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna.

Kærandi hafi sótt aftur um niðurfellingu á ofgreiðslu með umsókn 13. júlí 2023. Með bréfi, dags. 8. janúar 2024, hafi niðurfellingu verið synjað á grundvelli þess að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður hafi ekki verið taldar vera fyrir hendi.

Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að ákvörðun um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta kæranda á árunum 2021 og 2022, hafi verið rétt ákvörðun, enda hafi þær verið byggðar á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. janúar 2024, um að synja beiðni kæranda niðurfellingu ofgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta áranna 2021 og 2022.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 48. gr. laga um almannatryggingar.

Í 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 3. mgr. 33. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Á árinu 2021 fékk kærandi greiddan endurhæfingarlífeyri á tímabilinu 1. janúar til 31. mars 2021 og frá 1. maí 2021 til 30. nóvember 2021. Þá hefur hún fengið greiddan örorkulífeyri frá 1. desember 2021. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2021 með bréfi, dags. 16. nóvember 2022. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 891.187 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að lífeyrissjóðstekjur voru ekki í samræmi við tekjuáætlanir ársins. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2022 með bréfi, dags. 23. maí 2023. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 102.111 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að lífeyrissjóðstekjur voru ekki í samræmi við upphaflega tekjuáætlun ársins.

Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni beri að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 34. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hún tók við hinum ofgreiddu bótum.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins samþykkti þann 3. febrúar 2023 að fella niður 75% eftirstöðva krafna, eða 608.812 kr., vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna. Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda um að fella niður eftirstöðva krafna vegna áranna 2021 og 2022 þann 8. janúar 2024. Kærandi er ósátt við að Tryggingastofnun samþykkti ekki beiðni hennar um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu þar sem að aðstæður hennar hafi versnað frá því að stofnunin samþykkti umsókn hennar þann 3. febrúar 2023.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að tekjutengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 1. mgr. 47. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins má rekja kröfur vegna tekjuáranna 2021 og 2022 til vanáætlaðra lífeyrissjóðstekna. Því er ekki fallist á að kærandi hafi verið í góðri trú í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Í beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu kemur fram að ástæða beiðninnar séu að fjárhagslegar aðstæður hennar hafi versnað frá því að stofnunin samþykkti umsókn hennar um niðurfellingu að hluta vegna hækkunar á mánaðarlegri greiðslubyrði auk skattaskuldar. Meðaltekjur kæranda á árinu 2023 samkvæmt staðgreiðsluskrá voru 520.557 kr. á mánuði. Þá verður ráðið af gögnum málsins að skuldir kæranda voru umfram eignir á árinu 2022. Úrskurðarnefndin horfir til þess að Tryggingastofnun felldi niður 75% af eftirstöðvum krafna, eða 608.812 kr., þann 3. febrúar 2023 vegna fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna og að stofnunin hefur dreift eftirstöðvum kröfunnar á 47 mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfuna á 12 mánuðum eins og meginreglan er samkvæmt 3. mgr. 34 gr. laga um almannatryggingar. Mánaðarleg greiðslubyrði af kröfunni nemur því 4.802 kr. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Að lokum lítur nefndin til þess að samkvæmt meginreglu 34. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Að öllu framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til frekari niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. janúar 2024 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum