Hoppa yfir valmynd

Nr. 169/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 169/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21020049

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. febrúar 2021 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. janúar 2021, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað til Útlendingastofnunar til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti fyrst um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hér á landi hinn 5. desember 2016 og var umsókninni synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. júlí 2017. Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki hinn 12. desember 2017 með gildistíma til 25. október 2018 en leyfið var ekki endurnýjað. Þann 6. ágúst 2020 sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. janúar 2021, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 2. febrúar 2021 og þann 16. febrúar 2021 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 2. mars 2021. Með tölvupósti, dags. 12. apríl 2021, óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá kæranda um tengsl hans við Íslands og heimaríki. Þann 19. apríl bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um 78. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Var það mat Útlendingastofnunar þegar litið væri á gögn málsins og aðstæður kæranda í heild að skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið væru ekki uppfyllt. Var umsókn hans því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að hann beri sterk tengsl til Íslands og að atvinnuþátttaka hans hafi skapað honum félagsleg og menningarleg tengsl við landið, sbr. 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í þessu samhengi verði að líta til þess að kærandi hafi lítil tengsl við heimaríki sitt og eigi þar hvorki nána fjölskyldu né vini. Líf hans fari fram á Íslandi, hér hafi hann eignast góða vini og hafi allan þann stuðning sem honum gæti vantað. Hann hafi starfað á veitingastaðnum [...] er hann fékk útgefið dvalarleyfi árið 2017 en sá vinnustaður hafi lofað honum áframhaldandi atvinnu og því sé framfærsla hans hér á landi trygg, ólíkt því ef hann færi aftur til heimaríkis. Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar, þannig hafi hann ekki fengið að koma að andmælum né hafi verið leitast eftir ítarlegri upplýsingum um tengsl hans við Íslands samanborið við tengsl hans við heimaríki. Þar sem ekki hafi verið gætt að andmælarétti hans sé ljóst að rannsóknarreglan hafi ekki verið uppfyllt til hins ýtrasta. Með vísan til þess byggir kærandi á því að hann hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir Útlendingastofnun, þar sem stofnunin hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi líkt og henni hafi borið, og hafi því ekki tekist að færa rökstuddan grun fyrir synjun dvalarleyfisumsóknarinnar.

Í viðbótarathugasemdum er vísað til þess að kærandi hafi verið búsettur á Íslandi frá því í desember 2017. Hafi misskilningur orðið til þess að honum láðist að sækja um endurnýjun á dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki í desember 2018 og því orðið af því tækifæri. Hafi hann í kjölfarið reynt að afla staðfestingar hérlendis á námi sínu og reynslu í matvælaiðnaði, til þess að geta sótt um sem sérhæfður starfsmaður, en hann hafi ekki uppfyllt skilyrðin. Þegar því ferli hafi lokið hafi hann ekki getað ferðast vegna Covid-19 faraldursins og því sé hann enn staddur hér á landi og jafnframt lagt fram þá umsókn sem hér er til umfjöllunar. Fyrrum vinnuveitandi hans hafi beðið þess að hann fái nýtt dvalarleyfi til þess að getað ráðið hann aftur í vinnu og sé hann því með örugga atvinnu, fái hann útgefið dvalarleyfi. Byggir kærandi á því að frá komu til Íslands hafi tengsl hans við heimaríki minnkað, fjölskylda hans þar sé dreifð og foreldrar hans séu aldraðir og atvinnulausir. Hann eigi ekkert þangað að sækja, hvorki samastað né geti hann fengið þar atvinnu. Hér á landi hafi hann hins vegar eignast marga vini og kunningja.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga skal eins og áður segir fara fram heildstætt mat á tengslum umsækjanda við landið. Við matið skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar en jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldu-, félags- og menningarlegra tengsla við landið. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi er varð að lögum um útlendinga kemur fram að við þetta mat þurfi að líta til þess tíma sem útlendingur hafi dvalist hér og hvernig hann hafi aðlagast samfélaginu og tekið þátt í því.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi, sem er [...] ára, með útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga á tímabilinu 12. desember 2017 til 25. október 2018. Þannig hefur kærandi ekki dvalist lengur en tvö ár hér á landi í löglegri dvöl og þá bera gögn málsins ekki með sér að önnur tengsl við landið séu sterk, sbr. þau viðmið sem fram koma í a-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður því ekki talið að lengd lögmætrar dvalar kæranda hér á landi hafi mikið vægi við mat á því hvort veita eigi honum dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þá benda gögnin ekki til þess að umsönnunarsjónarmið séu fyrir hendi í málinu eða að öðru leyti séu fyrir hendi í málinu slík félagsleg-, menningarleg- eða önnur sambærileg tengsl að rétt sé að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli, sbr. 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar bera gögn málsins enn fremur með sér að dvalarleyfisumsókn kæranda grundvallist fyrst og fremst á atvinnusjónarmiðum en um slíkar umsóknir fer samkvæmt VI. kafli laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Gunnar Páll Baldvinsson                              Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira