Hoppa yfir valmynd

Nr. 443/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 10. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 443/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080015

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. ágúst 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Rússlands (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. júlí 2021, um að synja henni um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara hinn 6. desember 2018. Útlendingastofnun synjaði umsókninni með ákvörðun, dags. 9. janúar 2020, sem staðfest var með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 90/2020, dags. 13. mars 2020. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 10. september 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. júlí 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 9. ágúst 2021. Með tölvupósti kærunefndar, dags. 9. ágúst 2021, var umboðsmanni kæranda veittur frestur til 23. ágúst 2021 til að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Engin greinargerð eða önnur gögn hafa borist frá umboðsmanni kæranda við uppkvaðningu úrskurðar þessa.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. apríl 2021, hafi kæranda verið synjað um atvinnuleyfi. Væri stofnuninni því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókn hennar því synjað. Bæri kæranda að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunarinnar. Tekið var fram að ólögmæt dvöl gæti leitt til brottvísunar og endurkomubanns, sbr. 98. gr. og 101. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Greinargerð barst ekki frá kæranda.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laganna eru skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis skv. ákvæðinu m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, þ.m.t. ákvarðanatöku um hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að Vinnumálastofnun synjaði því að kæranda yrði veitt atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki með ákvörðun, dags. 7. apríl 2021. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson, varaformaður

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira