Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 596/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 596/2020

Fimmtudaginn 21. janúar 2021

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Kópavogsbæjar, dags. 11. ágúst 2020, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð til framfærslu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Kópavogsbæ fyrir júní 2020. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun teymisfundar 10. júní 2020 með vísan til 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs Kópavogsbæjar sem staðfesti synjunina með ákvörðun, dags. 11. ágúst 2020 sem kærandi kveðst hafa móttekið 17. ágúst 2020.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 16. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Kópavogsbæjar barst 14. desember 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. desember 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið í erfiðum félagslegum og fjárhagslegum aðstæðum fyrri hluta ársins 2020. Kæranda hafi verið bent á að sækja um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ, enda hafi hann verið atvinnulaus lengi og ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum. Í byrjun maí 2020 hafi kærandi sent inn umsókn um fjárhagsaðstoð og þá fengið þær upplýsingar að hann ætti ekki rétt á fjárhagsaðstoð vegna umframeigna, sbr. 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Kærandi hafi aftur sent inn umsókn 2. júní 2020 með ítarlegum útskýringum á aðstæðum sínum og öllum gögnum sem óskað hafi verið eftir. Eftir fagleg samskipti við einn starfsmann, sem hafi síðar látið af störfum, hafi kærandi átt samskipti við allmarga starfsmenn, eins og verið væri að kasta umsókn hans á milli starfsmanna. Eftir það hafi kærandi ekki fengið tillitssama þjónustu af hálfu bæjarins, eins og við ætti að búast af starfsmönnum velferðarsviðs gagnvart honum í erfiðri félagslegri stöðu. Kærandi hafi útskýrt ítarlega tilurð bankainnistæðu og hafi staðfest það með yfirlýsingu frá yfirmanni Arion banka og bankayfirlitum. Umsókn kæranda hafi verið synjað með þeim orðum að skýringar hans væru ekki teknar gildar, þrátt fyrir að skýringar væru alfarið byggðar á skjallegum gögnum frá Arion banka. Ekki hafi verið um neinar matskenndar skýringar að ræða af hálfu kæranda. Hjá velferðarráði hafi verið gerð einföld bókun um að ákvörðun teymisfundar hefði verið staðfest. Ekki hafi verið um neinn rökstuðning að ræða hjá velferðarráði sem sé afleit stjórnsýsla. 

Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við ófullnægjandi þjónustu velferðarsviðs Kópavogsbæjar gagnvart honum sem íbúa bæjarins í um 20 ár. Kærandi hafi aldrei fyrr sótt um nokkurs konar aðstoð eða þjónustu frá velferðarsviði bæjarins en hann hafi gert það af brýnni nauðsyn og það hafi sært stoltið. Kæranda hafi ekki einu sinni verið veitt viðtal af hálfu velferðarsviðs Kópavogs eða boðin nokkurs konar félagsleg aðstoð á neinu stigi. Þrátt fyrir Covid-19 faraldur hefði verið einfalt að veita honum viðtal með fjarfundi. Með vísan til 1., 9. og 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð hafi Kópavogsbær brotið gegn skyldum sínum við kæranda sem íbúa bæjarins. Á engu stigi hafi kærandi fengið þjónustu eða ráðgjöf frá Kópavogsbæ til að styðja hann við að komast úr erfiðum aðstæðum. Starfsmenn velferðarsviðs hafi aldrei veitt kæranda leiðbeiningar, hvorki fyrir né eftir synjun þeirra á fjárhagsaðstoð, um hvert hann gæti leitað eftir aðstoð. Reyndar líti kærandi svo á að hann hafi aldrei fengið neina þjónustu, leiðbeiningar eða aðstoð á sviði félagsþjónustu sem sé þó markmið með sviði velferðarsviðs. Þá hafi ekki á neinu stigi, hvorki í synjun velferðarsviðs né staðfestingu velferðarráðs, verið um að ræða raunverulegan rökstuðning. Eini rökstuðningurinn hafi verið sá að skýringar hans á bankainnstæðu væru ekki teknar gildar. Velferðarsvið minnist ekki á að skýringar hann byggi alfarið á skjallegum bankafærslum og yfirlýsingu frá Arion banka. Þessi skjallegu gögn sanni það að kærandi hafi aldrei átt umrædda bankainnstæðu, enda geri velferðarsvið ekki tilraun til að hrekja gögnin með málefnalegum hætti. Það sé mjög ámælisvert af stjórnvaldi að taka ekki skjalleg gögn frá banka gild, enda væri velferðarsvið í raun að saka viðskiptabanka um skjalafals með því að taka ekki gild gögn sem berist frá honum. Einnig geri kærandi athugasemd við að boði hans um að vinna sjálfboðaliðastörf fyrir íbúa bæjarins hafi aldrei verið svarað.

Afgreiðsla Kópavogsbæjar á umsókn kæranda og öll samskipti beri þess merki að starfsmenn velferðarsviðs hafi fyrir fram ákveðið að synja umsókn hans. Kæranda gruni að það sé vegna þess að hann eigi skuldlausa íbúð og bíl, sé vel menntaður og vel máli farinn og ritfær eftir því og hafi alltaf staðið við sínar skuldbindingar. Kærandi sé sennilega ekki hefðbundinn umsækjandi um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ en á árinu 2020 séu ekki heldur hefðbundnir tímar, hvorki fyrir kæranda né aðra. Kærandi krefst þess að höfnun velferðarsviðs á fjárhagsaðstoð frá 2. júní 2020, sem hafi verið staðfest með bókun velferðarráðs síðar um sumarið, verði snúið við. Einnig krefst kærandi þess að úrskurðarnefnd taki málsmeðferð bæjarins til athugunar og krefjist úrbóta á, enda eigi slík vinnubrögð ekki að líðast gagnvart kæranda eða öðrum í neyð.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar er vísað til þess að velferðarsvið telji að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu umsóknar um fjárhagsaðstoð vegna júní 2020 þar sem kærandi hafi átt innstæður í banka. Synjað hafi verið um fjárhagsaðstoð fyrir júní vegna inneigna á bankareikningum þann 1. maí 2020 að fjárhæð 8.433.663 kr., eða 3.464.014 kr. eftir frádrátt vegna reiknings sem kærandi hafi sagt að væri í eigu föður síns.

Við afgreiðslu umsókna um fjárhagsaðstoð sé horft til tekna og eigna í umsóknarmánuði og einnig í mánuðinum á undan og kunna skattskyldar tekjur og peningaeignir í þessum tveimur mánuðum að skerða rétt til fjárhagsaðstoðar að hluta eða að öllu leyti. Ekki sé heimilt að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu skulda. Við áfrýjun til velferðarráðs í ágúst 2020 hafi fjárhagsstaða kæranda breyst til hins verra og því hafi þótt rétt að endurskoða þá ákvörðun velferðarráðs Kópavogs. Haft hafi verið samband við kæranda með símtali sem hafi verið fylgt eftir með tölvupósti 7. desember 2020 til að meta rétt hans til afturvirkrar fjárhagsaðstoðar. Í munnlegu svari sem félagsráðgjafi hafi ritað niður eftir símtal við kæranda 9. desember 2020 komi fram að kærandi sé ósáttur við afgreiðslu velferðarsviðs en jafnframt að hann hafi fengið aðstoð ráðgjafa og læknis við að sækja um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins og fengið afturvirkan endurhæfingarlífeyri frá maí 2020 og út það ár.

Velferðarsviði þyki leitt að kærandi hafi ekki upplifað góða þjónustu frá sviðinu. Markvisst sé unnið að því að aðstoða þá sem til sviðsins leiti með félagslegri ráðgjöf þegar um fjárhagsaðstoð sé að ræða. Þegar fjárhagsaðstoð sé veitt sé jafnframt veitt aðstoð sem miði að því að bæta fjárhagslega og félagslega stöðu. Áhersla sé lögð á að aðstoða þá sem glími við veikindi að hefja bataferli með ýmsum úrræðum og huga síðan að endurhæfingu með endurhæfingaráætlun. Vegna manneklu og anna hefjist slík ráðgjafavinna ekki fyrr en umsækjandi hafi verið þrjá mánuði á fjárhagsaðstoð því þá fyrst þyki ljóst að ekki sé um tímabundna erfiðleika að ræða. Þá sé meðal annars, í samstarfi við umsækjanda, kannað með atvinnuhorfur eða hvort umsækjandi eigi rétt á aðstoð frá sjúkratryggingum, stéttarfélagi eða lífeyrissjóðum. Mál kæranda hafi ekki verið komið á slíkt stig þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, enda hafi kærandi tiltekið í umsókn sinni um fjárhagsaðstoð frá 18. maí að hann væri á batavegi og að hann væri bjartsýnn á að ná fullum bara og hygðist hefja virka atvinnuleit í mánuðinum. Því hafi eingöngu verið fjallað um rétt hans til fjárhagsaðstoðar.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu vegna júní 2020.

Kærandi hefur gert athugasemdir við málsmeðferð og þjónustuleysi Kópavogsbæjar í máli sínu, meðal annars að ekki hafi verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar og að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið rökstudd. Samkvæmt 9. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð skal við afgreiðslu umsóknar veita umsækjanda almennar upplýsingar um rétt sem hann kunni að eiga annars staðar, til dæmis hjá Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun, stéttarfélögum, Sjúkratryggingum Íslands, lífeyrissjóðum, Fæðingarorlofssjóði, Menntasjóði námsmanna eða tryggingafélögum. Leiðbeina skuli umsækjanda um hvert hann skuli leita til að fá nánari upplýsingar um réttarstöðu sína og ákvarðanir þar um eða eftir atvikum framsenda erindið til viðkomandi stofnunar og tilkynna umsækjanda um þá ákvörðun. Kópavogsbær hefur vísað til þess að vegna manneklu og anna hefjist félagsleg ráðgjöf ekki fyrr en einstaklingar hafi verið þrjá mánuði á fjárhagsaðstoð því þá fyrst þyki ljóst að ekki sé um tímabundna erfiðleika að ræða. Með vísan til framangreindrar leiðbeiningarskyldu og leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ljóst að Kópavogsbær sinnti ekki leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda. Hvað varðar rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar vísar úrskurðarnefndin til þess að samkvæmt 3. mgr. 58. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga skal kynna niðurstöðu mála eins fljótt og unnt er. Ef niðurstaða er umsækjanda óhagstæð skal hún skýrð og rökstudd og tilkynnt honum tryggilega. Í slíku tilfelli getur umsækjandi eða talsmaður hans krafist skriflegs rökstuðning. Sömu skyldu er að finna í 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð en þar segir að sé umsókn um fjárhagsaðstoð synjað fái umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar séu rökstuddar ásamt tilvitnunum í viðeigandi greinar reglna um fjárhagsaðstoð. Þá segir í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið. Í hinni kærðu ákvörðun frá 11. ágúst 2020 var kærandi einungis upplýstur um staðfestingu velferðarráðs á synjun teymisfundar. Er því ljóst að Kópavogsbær brást framangreindri skyldu sinni til rökstuðnings ákvörðunar. Úrskurðarnefndin telur þó að úr þeim annmörkum hafi verið bætt gagnvart kæranda við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni þar sem Kópavogsbær veitti nánari rökstuðning undir rekstri málsins.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í III. kafla reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er kveðið á um rétt til fjárhagsaðstoðar. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. dragast skattskyldar tekjur, sbr. 17. gr., og peningaeignir, sbr. 18. gr., frá upphæð fjárhagsaðstoðar. Í 1. mgr. 18. gr. kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili, peninga eignir eða aðrar eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi býr í og eina fjölskyldubifreið eða bifhjól, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu undir viðmiðunarmörkum.

Reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að aðrar eignir en íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann ætti fjármuni inn á bankareikningum, samtals 3.464.014 kr. eftir frádrátt vegna reiknings í eigu föður kæranda, sem honum bæri að nýta sér til framfærslu áður en til fjárhagsaðstoðar kæmi frá sveitarfélaginu.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki hjá því litið að kærandi átti eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið, sbr. 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Þá liggur fyrir að kærandi hefur upplýst Kópavogsbæ um að hann hafi fengið samþykktan afturvirkan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá maí 2020. Með vísan til þess er synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu vegna júní 2020 staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 11. ágúst 2020, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð til framfærslu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira