Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 448/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 448/2022

Fimmtudaginn 8. desember 2022

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. september 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 6. september 2022, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur á árinu 2021. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 6. september 2022, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2021 þar sem fram kom að hann hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur, að fjárhæð 210.829 kr.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. september 2022. Með bréfi, dags. 14. september 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með erindi úrskurðarnefndar 11. og 26. október 2022. Greinargerð barst 26. október 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs og voru þær kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. nóvember 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 5. desember 2022, var óskað eftir afriti af gögnum um eignir kæranda er lágu fyrir við lokauppgjör ársins 2021. Umbeðin gögn bárust 7. desember 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi komið til Íslands í febrúar 2020 og fengið stöðu sem flóttamaður í mars 2020. Kæranda hafi verið mjög brugðið að fá endurkröfu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og komist að því að það væri vegna fjármuna sem hann hafi safnað þegar hann hafi verið búsettur og starfað erlendis. Peningarnir hafi verið millifærðir á íslenskan bankareikning hans í september 2021 og á þeim tíma hafi hann verið í láglaunastarfi og því átt rétt á húsnæðisbótum. Fyrir þann tíma hafi kærandi ekki átt þessa fjármuni en þeir hafi síðan verið notaðir í íbúðarkaup á Íslandi sem hann eigi og borgi skatta af. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé að endurreikna húsnæðisbætur frá byrjun árs 2021 sem kærandi telji ekki sanngjarnt. Í fyrsta lagi vegna þess að peningarnir séu ekki frá Íslandi. Í öðru lagi sé um að ræða sparnað hans af mjög mikilli vinnu á 12 ára tímabili. Í þriðja lagi hafi hann ekki átt peningana inni á banka fyrr en í september 2021 og síðast en ekki síst vegna þess að hann hafi notað peningana í íbúðarkaup. 

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann hafi ekki gert athugasemdir við endurreikningsbréfin þar sem útreikningar hafi verið réttir. Í bréfinu frá ágúst 2022 hunsi stofnunin algjörlega það að hann hafi byrjað að vinna í lok mars 2021 og þá verið á lágum laun og því átt rétt á húsnæðisbótum. Endurkrafa stofnunarinnar sé hins vegar afturvirk þar sem kærandi sé rukkaður um húsnæðisbætur sem hann hafi fengið áður en hann hafi verið byrjaður í vinnu, að minnsta kosti fyrir tímabilið janúar til mars 2021. Kærandi ítreki að um sparnað sé að ræða fyrir 12 ára tímabil og að hann hafi ekki haft aðgang að peningunum fyrr en í september 2021. Kærandi telji ósanngjarnt að það sé verið að innheimta húsnæðisbætur sem hann hafi fengið þegar hann hafi verið atvinnulaus og á lágum launum vegna peninga sem hann hafi átt og ekki hafi verið aflað á Íslandi.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 9. apríl 2020 vegna leigu á húsnæðinu B. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 5. maí 2020. Við lokauppgjör húsnæðisbóta hafi komið í ljós að kærandi hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 210.829 kr. vegna ársins 2021. Bréf vegna endurreiknings húsnæðisbóta hafi verið send kæranda alls fjórum sinnum árið 2021, dags. 25. janúar, 21. apríl, 5. maí og 23. júlí. Endurreikningsbréfin geymi uppfærða tekjuáætlun sem sé byggð á nýjustu fyrirliggjandi upplýsingum frá Skattinum og taki mið af heildartekjum, þar með talið fjármagnstekjum, heildareignum, ásamt orlofs- og desemberuppbótum. Kæranda hafi verið veitt færi á því í öllum framangreindum bréfum að koma að athugasemdum ef hann teldi þær upplýsingar sem notaðar væru við útreikning húsnæðisbóta ekki endurspegla tekjur og eignir ársins 2021. Engar athugasemdir hafi borist stofnuninni frá kæranda í kjölfar áætlana.

Í máli þessu sé deilt um lokauppgjör húsnæðisbóta vegna ársins 2021. Samkvæmt niðurstöðu lokauppgjörs hafi kærandi fengið greiddar húsnæðisbætur árið 2021 vegna eignastöðu. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur megi endurskoða rétt til húsnæðisbóta hvenær sem er og endurreikna fjárhæð þeirra þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna.

Í 2. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur komi skýrt fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. laga um húsnæðisbætur liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur komi einnig skýrt fram að leiði endurreikningur til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbætur, sbr. 26. gr., en þar komi fram að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Í endurreikningsbréfum sé athygli vakin á því að það sé á ábyrgð umsækjanda að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum sem kunni að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Í endurreikningsbréfum sé einnig vakin athygli á því að ef í ljós komi að umsækjandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Í 18. gr. laga um húsnæðisbætur, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, sé fjallað um áhrif eigna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Í 1. mgr. komi fram að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 8.000.000 kr. uns þær falli alveg niður við 60% af þeirri fjárhæð. Í 2. mgr. komi svo fram að miða skuli við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir. Í 3. mgr. komi fram að með eignum samkvæmt lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að frádregnum skuldum. Samanlagðar eignir allra heimilismanna byrji að skerða bótarétt við 8.000.000 kr. og skerði að fullu við 12.800.000 kr. Það liggi fyrir að eignir í lok árs 2021 hafi verið langt umfram 12.800.000 kr. samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 6. september 2022, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2021, að fjárhæð 210.829 kr.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 75/2016 er umsækjanda skylt að veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Enn fremur er skylt að upplýsa um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann fær greiddar húsnæðisbætur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um meðal annars breytingu á eignastöðu á bótagreiðsluári sem kunni að hafa áhrif á bótarétt.

Í 18. gr. laga nr. 75/2016 segir að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 6.500.000 kr., nú 8.000.000 kr., sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna skal miða við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir. Þó skuli fasteign eða búseturéttur samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög, sem geti orðið andlag réttar til vaxtabóta, ekki teljast til eigna samkvæmt 1. mgr. hafi fasteignin eða búseturétturinn ekki verið í eigu umsækjanda eða annarra heimilismanna meðan á greiðslum húsnæðisbóta hafi staðið á almanaksárinu. Þá kemur fram í 3. mgr. 18. gr. að með eignum í lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga um tekjuskatt að frádregnum skuldum samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sömu laga, sbr. þó 2. málsl. 2. mgr. Í 2. mgr. 72. gr. laga um tekjuskatt segir að framtalsskyldar eignir séu allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræði í 74. gr., og skipti ekki máli hvort eignirnar gefi af sér arð eða ekki.

Í 25. gr. laganna er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Kærandi þáði húsnæðisbætur á tímabilinu janúar til september 2021. Samkvæmt tekjuáætlunum, sem lagðar voru til grundvallar við útreikning húsnæðisbóta á árinu 2021, voru heildareignir heimilismanna áætlaðar 0 kr. í fyrsta endurreikningi ársins, dags. 25. janúar 2021, en í næstu þremur endurreikningum ársins, dags. 21. apríl, 5. maí og 23. júlí 2021, voru heildareignir áætlaðar 790.243 kr. Við lokauppgjör ársins 2021 reyndust heildareignir heimilismanna vera 29.956.666 kr. sem leiddi til fullrar bótaskerðingar og ofgreiðslu að fjárhæð 210.829 kr. Kæranda ber í samræmi við ákvæði 26. gr. laga nr. 75/2016 að endurgreiða þá fjárhæð. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta til handa kæranda staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 6. september 2022, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta til handa A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira