Mál nr. 412/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 412/2024
Fimmtudaginn 14. nóvember 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 4. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2024, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2024, var kæranda tilkynnt að réttur hennar til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. september 2024. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. september 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. október 2024, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 1. nóvember 2024.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hafa þann 3. maí 2024 fengið tvö sms skilaboð frá Vinnumálastofnun í símann. Í þeim báðum hafi staðið: „Þú átt skilaboð á Mínum Síðum. Kv. Vinnumálastofnun“. Kærandi viti vel eftir fyrri samtöl við starfsfólk skrifstofu að hún þurfi að skoða Mínar síður um leið og slík skilaboð berist og því hafi hún gert það. Kærandi hafi farið í tölvu og kíkt á Mínar síður og séð að þar hafi staðið:
„Tengslanet/Social Network“. Kærandi hafi opnað þau skilaboð og lesið. Þegar kærandi hafi opnað Mínar síður hafi einungis þessi skilaboð blasið við. Kærandi hafi ekki haft vit á því að athuga hvort það væru fleiri skilaboð neðar og ekki dottið í hug að það væru tvenn ný skilaboð á Mínum síðum sama daginn. Að vísu hafi hún fengið tvö sms skilaboð en í þeim hafi staðið það sama, að hún ætti skilaboð á Mínum síðum. Kærandi hafi talið að þessi tvö skilaboð væru bæði til þess að láta hana vita að hún ætti skilaboð um tengslanetið. Ekkert meira hafi staðið í sms skilaboðunum, ekkert um tilefnið.
Einhverjum dögum seinna hafi kærandi aftur fengið tilkynningu um einhvers konar eftirlit. Kærandi hafi þá aftur kíkt í tölvuna og hringt í Vinnumálastofnun. Í símtalinu eða fyrir símtalið hafi komið í ljós að á flipa fyrir neðan hafi staðið að hún væri boðuð í viðtal þann 6. maí 2024. Til þess að skýra þetta nánar þá hafi Vinnumálastofnun sett inn tvær tilkynningar á Mínar síður þann 3. maí 2024. Það fyrra klukkan 10:14 um boðun í viðtal og seinna klukkan 10:40 um Tengslanetið. Þegar kærandi hafi skoðaða síðurnar hafi hún einungis sé þau skilaboð sem hafi borist klukkan 10:40, enda hafi þau verið ofar í listanum yfir skilaboð þar sem þau hafi verið nýrri. Skilaboð birtist þannig á Mínum síðum að nýjustu skilaboðin séu efst og til þess að sjá eldri skilaboð þurfi að skrolla niður. Vinnumálastofnun hafi ekki sent sms um boðun í viðtal heldur einungis að það væru skilaboð á Mínum síðum.
Vegna þessa hafi kærandi fengið þá refsingu að fá engar greiðslur í tvo mánuði. Um sé að ræða gríðarmikla refsingu. Kærandi telji refsinguna ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hafi staðið til að koma í veg fyrir að hún fengi greiðslur í tvo mánuði hefði verið eðlilegra að hún hefði fengið símtal þar sem henni hefði verið tilkynnt um boðun í viðtal eða þá að það væri sannreynt að hún væri búin að sjá skilaboðin á Mínum síðum. Ef ekki þá að minnsta kosti að setja með í sms skilaboðin að hún væri boðin í viðtal. Þær skýringar sem kærandi hafi lagt fram séu sannar og eigi að koma í veg fyrir þessa refsingu. Kærandi hafi raunverulega ekki séð skilaboðin um boðun í viðtal af því að á Mínum síðum hafi verið tvenn skilaboð.
Kærandi tekur fram að það komi sér sérstaklega illa fyrir hana að hafa ekki fengið umræddar greiðslur. Hún sé einstæð móðir með tveggja ára gamalt barn. Hún hafi sýnt mikinn vilja í sinni atvinnuleit og hafi nú þegar hafið verktakavinnu sem lögfræðingur sem hún hafi skráð á Mínar síður. Kærandi hafi ávallt staðfest atvinnuleit og skilað virkniskýrslum. Hún hafi verið á atvinnumarkaði á Íslandi frá 16 ára aldri og hafi aðeins þegið bætur einu sinni áður á ævinni um nokkurra mánaða skeið vegna atvinnuleitar árið 2013. Kærandi óski þess að meðfylgjandi skjöl verði skoðuð vel og að íhugað verði að fella niður refsitímabilið. Þá finnist kæranda eðlilegt að vinnureglum Vinnumálastofnunar verði breytt þannig að þegar boðun í viðtal geti leitt til slíkra afleiðinga eins og hér sé um að ræða að skilaboðin beri með sér að um sé að ræða boðun í viðtal, þ.e. að það standi ekki einungis í þeim að viðkomandi eigi skilaboð á Mínum síðum.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2024, um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2024, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 4. september 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir