Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 344/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 344/2016

Fimmtudaginn 8. desember 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. september 2016, kærir B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Reykjavíkurborgar, dags. 17. ágúst 2016, á umsókn hennar um liðveislu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. febrúar 2016, sótti kærandi um 20 tíma á mánuði í liðveislu frá Reykjavíkurborg á grundvelli 24. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 8. júní 2016, á þeirri forsendu að hún uppfyllti ekki skilyrði reglna um stuðningsþjónustu frá Reykjavíkurborg. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 17. ágúst 2016 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi velferðarsviðs, dags. 1. september 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. september 2016. Með bréfi, dags. 9. september 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 12. október 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. október 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. október 2016, og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. október 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi verið heyrnarlaus frá fæðingu og ávallt þurft að reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta. Forsenda þess að hún geti átt samskipti við aðra, hvort heldur í daglegu lífi eða við aðstæður þar sem hún þurfi að taka ákvarðanir er varða réttindi hennar og skyldur, séu að þau samskipti fari fram á íslensku táknmáli. Í umhverfi með einstaklingum þar sem einungis sé töluð íslenska eða önnur mál sem byggja á heyrn sé kærandi algjörlega einangruð og geti ekki tjáð sig um líðan, hug sinn eða vilja. Tekið er fram að þau almennu úrræði, svo sem félagsstarf og menningarlíf sem íbúum á hjúkrunarheimilinu þar sem kærandi dvelji standi til boða, nýtist kæranda ekki þar sem þau fari fram á íslensku. Þá geti kærandi ekki átt samskipti við aðra íbúa eða starfsfólk ef frá sé talinn einn starfsmaður sem sé í hlutastarfi. Aðstandendur hennar hafi afar takmarkað vald á íslensku táknmáli. Kærandi búi því við mikla félagslega einangrun og þurfi á liðveislu að halda sem veitt sé af liðveitanda sem hafi þekkingu eða vald á íslensku táknmáli. Af framangreindum ástæðum hafi kærandi notið liðveisluþjónustu frá Reykjavíkurborg, allt þar til hún hafi farið á hjúkrunarheimili.

Kærandi tekur fram að hún hafi sótt um 20 tíma á mánuði eða 4,5 klukkustundir á viku í liðveislu sem yrði veitt af liðveitanda sem hafi þekkingu og vald á íslensku táknmáli. Hlutverk liðveitanda yrði fyrst og fremst að eiga samskipti við kæranda með heimsóknum tvisvar sinnum í viku, klukkustund í senn, og fylgja henni í heimsókn einu sinni í viku í föstudagskaffi hjá Félagi heyrnarlausra. Þar komi félagsmenn saman sem hafi reynst mörgum heyrnarlausum einstaklingum mikilvægur þáttur í að rjúfa félagslega einangrun, sér í lagi þeim sem aldraðir séu, og það sé oft eini vettvangurinn þar sem þeir geti átt samskipti á íslensku táknmáli.

Kærandi bendir á að hún uppfylli lágmarksskilyrði um liðveislu sem fram komi í reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavíkurborg og að hún sé talin vera í þjónustuþörf. Þrátt fyrir niðurstöðu mats á þjónustuþörf líti Reykjavíkurborg svo á að hjúkrunarheimilinu, þar sem kærandi dvelji, sé ætlað að tryggja þá þætti sem reglur um stuðningsþjónustu miði að. Kærandi mótmæli þeirri túlkun þar sem þörf hennar fyrir stuðningsþjónustu (liðveislu) verði fyrst og fremst rakin til fötlunar hennar og sé óháð aldri og búsetuformi. Skoða verði umsókn hennar á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólk en samkvæmt 2. gr. laganna eigi einstaklingur rétt á þjónustu samkvæmt ákvæðum laganna sé hann með andlega eða líkamlega fötlun og þarfnist sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Með hugtakinu fötlun sé meðal annars átt við heyrnarskerðingu, sbr. 2. málsl. 2. gr. laganna.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið heyrnarlaus frá fæðingu og ávallt þurft á sérstakri þjónustu og stuðningi að halda af þeim sökum, óháð aldri hennar eða búsetuformi. Þrátt fyrir að heilsu kæranda hafi hrakað sökum aldurs, sem hafi haft þau áhrif að hún geti ekki búið í sjálfstæðri búsetu, þá sé staða hennar sem fatlaðs einstaklings sú sama og áður. Hún þurfi enn sem fyrr á sérstakri þjónustu og stuðningi að halda vegna stöðu sinnar sem heyrnarlaus einstaklingur sem reiði sig á íslenskt táknmál til samskipta. Jafnvel þótt lög nr. 59/1992 veiti sveitarfélöguum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita fötluðu fólki, í samræmi við markmið laganna og þær kröfur sem gerðar séu til aðgengis fatlaðs fólks að þeirri þjónustu, þá séu engin ákvæði í lögunum sem heimili sveitarfélögum að útiloka þá sem ekki búi í sjálfstæðri búsetu.

Kærandi vísar til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 þar sem fram komi að fatlaður einstaklingur eigi rétt á þjónustu þar sem hann kjósi að búa. Fyrir liggi mat sem staðfesti þörf hennar fyrir liðveislu og það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að veita henni þá stuðningsþjónustu sem sveitarfélagið hafi staðfest að hún hafi þörf fyrir á þeim stað sem hún kjósi að búa. Kærandi líti svo á að synjun Reykjavíkurborgar, sem virðist eingöngu byggð á búsetuformi hennar, sé í andstöðu við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Vísað er til þess að með liðveislu sé átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miði að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis aðstoð til að njóta menningar- og félagslífs, sbr. 24. gr. laga nr. 59/1992. Þjónustuþörf umsækjanda sé metin út frá matstæki í fylgiskjali nr. 1 með reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík. Í 7. gr. reglnanna komi fram að til þess að uppfylla lágmarksskilyrði til að fá liðveislu verði niðurstaða mats á þjónustuþörf að vera sú að umsækjandi hafi að minnsta kosti fjögur stig vegna félagslegrar færni og fjögur stig vegna samfélagsþátttöku og virkni. Þau skilyrði séu uppfyllt hjá kæranda og því teljist hún eiga rétt á liðveislu. Niðurstöður mats á þjónustuþörf kæranda séu þær að hún fái annars vegar sex stig vegna félagslegrar færni en það feli í sér að kærandi búi við mikla skerðingu í færni til að mynda tengsl við aðra og erfiðleika við að stunda virkni. Hins vegar fái kærandi átta stig vegna samfélagsþátttöku og virkni en það feli í sér verulega skerta getu til samfélagsþátttöku hjá kæranda og að hún þarfnist reglulegrar aðstoðar. Þrátt fyrir þá niðurstöðu telji Reykjavíkurborg að hjúkrunarheimili þar sem kærandi dvelji beri skylda til að tryggja þá þætti sem reglur um stuðningsþjónustu miði að. Því hvíli umrædd skylda um að veita stuðningsþjónustu ekki á sveitarfélögum heldur á hlutaðeigandi hjúkrunarheimili.

Reykjavíkurborg tekur fram að almennt sé litið svo á að ef umsækjandi, sem sé metinn í þörf fyrir og eigi rétt á stuðningsþjónustu, búi í sértæku húsnæðisúrræði, svo sem í búsetukjarna eða á öldrunarstofnun, sé stuðningsþjónusta veitt af þjónustuaðilum slíkra úrræða. Samkvæmt 16. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu skuli veita hjúkrunarþjónustu fyrir sjúkratryggða einstaklinga sem hafi verið metnir í þörf fyrir þjónustu í hjúkrunarrými. Einstaklingur geti ekki dvalið til langframa í hjúkrunarrými nema að undangengnu mati færni- og heilsumatsnefndar á þörf viðkomandi fyrir dvöl á slíkri stofnun, sbr. 15. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Kærandi hafi samkvæmt því gengist undir færni- og heilsumat og niðurstaða þess mats hafi verið sú að þörfum hennar sé best mætt með þeirri þjónustu sem veitt sé á hjúkrunarheimilum. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 40/2007 falli þjónusta og hjúkrun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum stofnana undir almenna heilbrigðisþjónustu sem ráðherra fari með yfirstjórn á, sbr. 2. gr. laganna. Þá komi fram í 3. gr. laga nr. 125/1999 að ráðherra fari með yfirstjórn öldrunarmála samkvæmt lögunum og með yfirstjórn heilbrigðisþjónustu við aldraða. Dvalarstaður kæranda falli undir þau ákvæði framangreindra laga.

Reykjavíkurborg vísar til þess að samkvæmt 4. málsl. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 125/1999 skuli þjónusta á hjúkrunarheimilum byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum þörfum hins aldraða. Í kröfulýsingu fyrir öldrunarþjónustu, sem hafi verið gefin út af velferðarráðuneytinu í janúar 2013, komi meðal annars fram að hlutverk hjúkrunarheimilis sé að veita heimilismönnum viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu. Óumdeilt sé að kröfulýsingin eigi við um starfsemi og þjónustu þess hjúkrunarheimilis þar sem kærandi dvelji. Þjónustan skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða eða sjúka og miða að því að mæta þörfum hans og stuðla að bestu mögulegu lífsgæðum. Stuðningur við einstaklinginn skuli miða að því að viðhalda getu hans og virkni eins og kostur sé með hans eigin þátttöku, hjúkrun, aðhlynningu, þjálfun, læknishjálp og hjálpartækjum og aðstoða hann við að takast á við breyttar aðstæður. Sérstök áhersla skuli lögð á að virkja íbúa og gefa þeim tækifæri til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni og stuðla þannig að bættri líkamlegri færni og vitrænni getu íbúa en að því verkefni komi sjúkraþjálfi, iðjuþjálfi og talmeinafræðingur.

Reykjavíkurborg bendir á að í framangreindri kröfulýsingu komi enn fremur fram að félagsstarfi heimilismanna skuli sinnt af krafti og áhuga. Hlutverk slíkrar þjónustu á hjúkrunarheimili sé að örva félagslegt samneyti, virkni og innihaldsríkt líf hjá heimilismönnum. Mikilvægt sé að heimilismenn eigi þess kost að sækja virknistarf og þjálfun út af heimiliseiningu sinni jafnframt því að haldnar séu samverustundir inn á einingum þar sem ávallt séu einhverjir heimilismenn sem ekki geti farið út af sinni einingu. Félagsstarf skuli taka mið af óskum og líðan einstaklingsins á hverjum tíma. Áhersla skuli lögð á að skapa heimilismönnum tækifæri til að takast á við fjölbreytileg verk og viðfangsefni sem veki áhuga, ýti undir jákvæða reynslu og veiti þeim gleði og lífsfyllingu. Þetta eigi jafnt við um algeng heimilisstörf eins og til dæmis bakstur og kaffiboð, handiðn eins og léttar smíðar eða málun og félagsstarf eins og að spila á spil. Jafnframt skuli leitast við að gefa kost á ferðum út í samfélagið á eigin kostnað heimilismanna svo að komið verði til móts við þarfir sem flestra til félagslegra samskipta og samveru. Til viðbótar við kröfulýsinguna hafi Embætti landlæknis sett fram faglegar lágmarkskröfur um hjúkrunarheimili, sem gildi einnig um dvalarstað kæranda, sbr. 6. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Þar komi fram að hlutverk hjúkrunarheimilis sé að búa einstaklingnum, sem ekki geti búið á eigin heimili með viðeigandi stuðningi, dvöl og aðstoð við athafnir daglegs lífs og veita þeim viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þjónustan skuli byggð á einstaklingsbundnu mati, heilsufars- og félagslegum þörfum íbúans og miða að því að mæta þörfum hans og stuðla að bestu mögulegu lífsgæðum. Íbúum skuli standa til boða félagsstarf og tómstundaiðja sem stuðli að virkni og auknum lífsgæðum.

Reykjavíkurborg tekur fram að á heimasíðu dvalarstaðs kæranda komi fram að þar sé til staðar öflugt og fjölbreytt félagsstarf og að heimilismönnum sé einnig boðið upp á að fara í lengri og skemmri ferðir. Markmið félagsstarfsins sé að auka virkni heimilismanna og koma í veg fyrir einangrun auk þess að örva samskipti og létta lund þeirra. Sú lýsing falli að skilgreiningu liðveislu sem fram komi í 24. gr. laga nr. 59/1992 en hún miði að því að rjúfa félagslega einangrun þess einstaklings sem sé metinn í þörf fyrir slíka stuðningsþjónustu. Til stuðnings því að það hvíli á hlutaðeigandi hjúkrunarrými eða hjúkrunarstofnun en ekki á sveitarfélagi að veita einstaklingi sem þar dvelji stuðningsþjónustu, sé bent á að í einstökum tilfellum greiði Landspítali – Háskólasjúkrahús fast gjald á klukkustund fyrir þjónustu starfsfólks velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við inniliggjandi sjúklinga. Landspítalinn óski eftir þeirri þjónustu þegar það eigi við þar sem sjúkrahúsið sé ekki í stakk búið til að veita slíka þjónustu, þrátt fyrir skýra lagaskyldu þar að lútandi. Um sé að ræða starfsmenn sem starfi við sértæk húsnæðisúrræði á vegum Reykjavíkurborgar og sinni umönnunarþjónustu. Það sé ljóst að ekkert sé því til fyrirstöðu að velferðarsvið Reykjavíkurborgar geri slíka þjónustusamninga við öldrunarstofnanir vegna liðveislu ef óskað sé eftir því.

Með hliðsjón af framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri umsókn kæranda um liðveislu frá Reykjavíkurborg. Fyrir liggi að málsmeðferð í máli kæranda hafi ekki verið ábótavant, enda hafi mat á aðstæðum kæranda verið unnið og þar með farið að skyldu stjórnvalds um skyldubundið mat. Niðurstaða matsins hafi verið sú að kærandi hafi verið metinn í þörf fyrir þjónustu en á hinn bóginn sé það ekki í verkahring velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að veita umrædda þjónustu. Það sé hlutverk hjúkrunarheimilisins þar sem kærandi dvelji að veita hana. Ákvörðun sveitarfélagsins hafi því hvorki brotið gegn lögum nr. 59/1992, lögum nr. 40/1991 né stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um liðveislu.

Kærandi í máli þessu er X ára gömul og á því rétt á þjónustu á grundvelli laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Kærandi er heyrnarlaus og á því einnig rétt á þjónustu á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, sbr. 2. gr. laganna.

Markmið laga um málefni aldraðra er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast, miðað við þörf og ástand hins aldraða. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.

Markmið laga um málefni fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum, nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í 24. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um að sveitarfélög skuli eftir föngum gefa fötluðu fólki kost á liðveislu. Með liðveislu sé átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miði að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis aðstoð til að njóta menningar og félagslífs.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd aðstoðar við fatlað fólk. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er það mat að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir undir eftirliti ráðherra. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála ef það er byggt á lögmætum sjónarmiðum og í samræmi við lög að öðru leyti. Þrátt fyrir framangreint svigrúm sveitarfélaga verða reglur þeirra að vera málefnalegar. Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík sem samþykktar voru í borgarráði 7. júní 2012. Í 2. gr. reglnanna kemur fram að markmið stuðningsþjónustu sé að veita aðstoð við notendur sem þurfa sakir fötlunar eða aðstæðna sinna á auknum stuðningi að halda umfram grunnþjónustu. Stuðningsþjónusta sé aðstoð við athafnir daglegs lífs og/eða félagslegur stuðningur til þess að rjúfa félagslega einangrun.

Í 3. gr. reglna sveitarfélagsins kemur fram að forsenda fyrir því að geta sótt um stuðningsþjónustu sé að umsækjandi búi í sjálfstæðri búsetu og eigi lögheimili í Reykjavík að fullnægðum frekari skilyrðum sem fram komi í 5. og 7. gr. reglnanna. Sjálfstæð búseta samkvæmt reglunum feli ekki í sér sértæk húsnæðisúrræði, svo sem í búsetukjarna og sértæk húsnæðisúrræði með sameiginlegu rými, þar sem stuðningsþjónusta skuli veitt af þjónustuaðila slíkra úrræða. Óski notandi sértæks húsnæðisúrræðis þess að liðveisla sé framkvæmd af öðrum starfsmanni en veiti reglulega þjónustu innan húsnæðisúrræðisins komi framkvæmdaraðili til móts við óskir notenda eftir því sem kostur er. Hér háttar svo til að reglur þær sem gilda um liðveislu sveitarfélagsins leiða í reynd til þess að ekki fer fram eiginlegt mat á aðstæðum umsækjanda og því hvort hann eigi rétt til liðveislu eða ekki. Þar sem löggjafinn hefur eftirlátið stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun sem best hentar hag hvers aðila, með tilliti til allra aðstæðna, er stjórnvöldum óheimilt að afnema matið með því að setja til dæmis verklagsreglu sem tekur til allra mála, sambærilegra sem ósambærilegra. Þrátt fyrir að stjórnvald hafi ákveðið að byggja mat sitt á nánar tilgreindum sjónarmiðum sem teljast málefnaleg verður endanlegt mat stjórnvalds á þessum sjónarmiðum einnig að vera forsvaranlegt.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 á fatlaður einstaklingur rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Samkvæmt gögnum málsins fór fram mat á þjónustuþörf kæranda í kjölfar seinni umsóknar hennar um liðveislu og er óumdeilt að hún var metin í þörf fyrir þá þjónustu. Umsókn kæranda var hins vegar synjað á ný á þeirri forsendu að hún væri búsett á hjúkrunarheimili og hefur sveitarfélagið vísað til þess að hjúkrunarheimilinu beri skylda til að tryggja þá þætti sem reglur um stuðningsþjónustu miði að.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 125/1999 eru hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum. Þar skuli veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing. Þjónusta skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að einstaklingar geti ekki dvalið til langframa í hjúkrunarrými nema að undangengnu mati færni- og heilsumatsnefndar á þörf viðkomandi fyrir dvöl á slíkri stofnun, sbr. 15. gr. laga nr. 125/1999. Kærandi hefur samkvæmt því gengist undir færni- og heilsumat og niðurstaða þess mats hefur verið sú að þörfum hennar væri best mætt með þeirri þjónustu sem sé veitt á hjúkrunarheimilum. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að á hjúkrunarheimili því sem kærandi dvelji sé til staðar öflugt og fjölbreytt félagsstarf og að heimilismönnum sé einnig boðið upp á að fara í lengri og skemmri ferðir. Markmið félagsstarfsins sé að auka virkni heimilismanna og koma í veg fyrir einangrun auk þess að örva samskipti og létta lund þeirra. Sú lýsing falli að skilgreiningu liðveislu sem fram komi í 24. gr. laga nr. 59/1992 en hún miði að því að rjúfa félagslega einangrun þess einstaklings sem sé metinn í þörf fyrir slíka stuðningsþjónustu.

Líkt og að framan greinir ber að leggja heildstætt mat á þjónustuþörf fatlaðs einstaklings þegar umsókn berst um tiltekna þjónustu og jafnframt skal meta hvernig koma megi til móts við óskir viðkomandi. Jafnframt þarf að meta hvort þjónustuþörf fatlaðs einstaklings sé meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu, en ef ekki skal hann fá þjónustu samkvæmt lögum nr. 59/1992. Þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi lagt mat á þjónustuþörf kæranda fór að mati úrskurðarnarnefndarinnar ekki fram heildstætt mat á aðstæðum hennar, enda einungis vísað almennt til þess hvaða þjónusta sé í boði á hjúkrunarheimili því sem hún er búsett á, auk þess sem vísað er til almennrar kröfulýsingar fyrir öldrunarþjónustu frá janúar 2013. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi sveitarfélaginu borið að afla upplýsinga um og leggja mat á hvort hin almenna þjónusta á dvalarstað kæranda fullnægði þjónustuþörf hennar og þá sérstaklega með tilliti til hennar fötlunar. Tekið skal fram að hvorki í ákvæði 24. gr. laga nr. 59/1992 né lögskýringargögnum með því kemur fram að það hafi verið ætlun löggjafans að undanskilja sérstaklega fatlað fólk sem býr á hjúkrunarheimili eða í þjónustu- og öryggisíbúð frá því að njóta liðveislu. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun um synjun var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn A, um liðveislu er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira