Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 96/2024 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 96/2024

Miðvikudaginn 5. júní 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags 24. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 23. febrúar 2024 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 22. október 2021, sem barst Sjúkratryggingum Íslands 28. október 2021, vegna afleiðinga bólusetningar gegn Covid-19 þann X sem framkvæmd hafi verið á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 23. febrúar 2024, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 12. mars 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. mars 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda 13. og 27. mars 2024 sem sendar voru Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 14. febrúar og 4. apríl 2024. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru vísar kærandi í hina kærðu ákvörðun þar sem segi að þann 7. september 2021 hafi verið send tilvísun á J þar sem fram hafi komið að kærandi væri með frjókornaofnæmi og langvinnar nefstíflur. Kærandi greinir frá því að hann hafi aldrei verið með frjókornaofnæmi.

Þá segi í hinni kærðu ákvörðun að sjúklingatryggingu sé ekki ætlað að bæta tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms. Kærandi spyrji hvaða sjúkdóm hann sé með og hvort Sjúkratryggingar Íslands séu með staðfestingu frá lækni, þ.e. gögn sem sýni og sanni þann sjúkdóm. Hann hafi aldrei fengið staðfestingu á neinum sjúkdóm.

Enn fremur segi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að kippum sé hvergi lýst í sjúkraskrá kæranda. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé því ekki að sjá af gögnum málsins að kærandi hafi orðið fyrir heilsubresti vegna bólusetningarinnar, sbr. upplýsingar um aukaverkanir bóluefnisins. Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið skrifað upp á Sobril við þeim kippum af B lækni á Læknavaktinni. Sá læknir hafi sagt að kærandi væri ekki með ME/CFS (Chronic Fatigue Syndrome). Heilsa kæranda hafi verið 100% áður en hann hafi fengið umrætt bóluefni við Covid-19, það séu til vottorð um það. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé ekki orsakasamband til staðar í máli kæranda og verði því ekki talið að þau einkenni sem hann kenni nú megi rekja til bólusetningarinnar heldur verði þau rakin til grunnástands hans. Kærandi bendi á að hann hafi verið hættur á þunglyndislyfjum áður en hann hafi verið bólusettur.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist stofnuninni þann 7. október 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga bólusetningar gegn Covid-19 þann X og X sem hafi farið fram á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni og málið hafi verið talið að fullu upplýst. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 23. febrúar 2024, hafi umsókn kæranda verið synjað á þeim grundvelli að það væri mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki væri orsakasamband á milli heilsutjóns kæranda og bólusetningar þann X og X og þar af leiðandi væri skilyrði bráðabirgðaákvæðis I. í lögum um sjúklingatryggingu ekki uppfyllt. Synjun á bótaskyldu sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnisins fram með fullnægjandi hætti í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 23. febrúar 2024. Að mati stofnunarinnar sé ekki þörf á að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Sjúkratryggingar Íslands telji þó rétt að benda á að málið hafi verið afgreitt á grundvelli fyrirliggjandi [gagna] sem aflað hafi verið sem endurspegli ekki umkvartanir kæranda.

Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi meðal annars fram að samkvæmt umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu, móttekinni 7. október 2021, hafi kærandi farið í bólusetningu gegn Covid-19 þann X og hafi hann verið bólusettur með bóluefninu Janssen. Kvöldið eftir hafi honum orðið mjög kalt og hann skolfið allur og svitnað mikið. Hann hafi verið mjög lasinn í um tvær vikur og rúmliggjandi mest allan tímann. Þá hafi hann fengið Restless Leg Syndrome, fundið það í vinstri hendi og fæti, […] á ákveðnum stöðum í kálfa og framhandlegg. […] Þá komi fram í umsókn að Restless Leg Syndrome hafi farið einhverjum vikum seinna en kærandi hafi áfram verið með síþreytu, hósta og kvef, stíflað nef. Þá kveðist kærandi hafa þurft að fara á þunglyndislyf eftir bólusetninguna þar sem hann hafi alveg verið hruninn og fastur líkamlega í fyrsta gír og ef hann hafi reynt eitthvað á sig þá hafi hann versnað og átt erfiðara með að gera hversdagslega hluti. Kærandi hafi farið í örvunarbólusetningu með bóluefninu Moderna þann X og eftir sprautuna hafi hann upplifað mikinn verk í öxlinni og ekki getað legið á henni í nokkra daga. Kvöldið næsta dag hafi líkaminn og hendur og fætur byrjað að taka kippi sem kærandi hafi engan veginn getað stjórnað og hafi hann orðið virkilega hræddur. Hann hafi því leitað á Læknavaktina og fengið þar lyf til að róa sig. Þessir kippir hafi hætt nokkrum dögum seinna en við hafi tekið kvíðaköst og hafi kærandi engan veginn getað sinnt skóla eða lesið.

Þann X hafi kærandi fengið verk í hjartað og haldið að hann væri að fá hjartaáfall og leitað á slysadeild Landspítala. Tekin hafi verið mynd og blóðprufur og talið hafi verið að þetta hafi verið vöðvakrampi milli rifbeina. Allar blóðprufur hafi verið eðlilegar svo kærandi hafi farið heim og kveðist ekki hafa fundið neitt nýlega fyrir hjartanu. Þá segi í umsókn að núverandi ástand sé mjög líkt ástandinu Chronic Fatigue Syndrome (CFS), eða ME og kveðist kærandi hafa verið að upplifa mikla þreytu eftir litla líkamlega áreynslu. Þá upplifi hann minnistruflanir og erfiðleika við að halda einbeitingu og hafi verið með kvef og smá hósta nánast í fjóra mánuði. Þá komi fram að kærandi hafi þjáðst af langvarandi veikindum áður, sem hafi þá aðallega tengst meltingunni og mataræði, slæmar hægðir en það sé búið að lagast. Kærandi telji núverandi veikindi því frábrugðin þeim gömlu. Þegar hann hafi fengið Janssen sprautu sé eins og líkaminn hafi orðið fyrir svo miklu sjokki/stressi að það hafi fest hann í veikindaástandi og að ónæmiskerfið sé hrunið.

Sjúkratryggingar Íslands hafi farið vandlega yfir sjúkraskrá kæranda frá heilsugæslunni K, Landspítala og Læknavaktinni. Í nótu heilsugæslunnar þann 12. janúar 2021, hafi komið fram að kærandi væri með langa sögu um slappleika, höfuðverk og meltingarvandamál. Þá hafi einnig komið fram að kæranda hefði verið sagt upp í vinnu vegna veikinda hans og að hann væri með sögu um kvíða og þunglyndi og hefði verið á lyfjameðferð vegna þess í rúmt ár. Í samskiptaseðli heilsugæslunnar þann 25. mars 2021 hafi komið fram að kærandi hefði verið að glíma við andlega vanlíðan undanfarið en hafi talið sig hafa jafnað sig á því. Þá hafi einnig komið fram að kærandi teldi sig vera með overtraining syndrome og að hann hafi í raun verið með það í fimm ár. Þá hafi komið fram að hann væri á Sertral en væri að trappa það niður.

Þann 22. júlí 2021 séu skráð rafræn samskipti kæranda við heilsugæsluna þar sem hann kveðist hafa verið búinn að vera mjög lasinn í tvær vikur eftir Janssen bólusetningu. Þá kveðist hann hafa fengið Restless Leg Syndrome nokkrum dögum eftir sprautu og að einkennin væru ekki að fara. Honum hafi verið ráðlagt að gera ekkert í bili en endurmeta þyrfti ástandið um haustið ef það væri enn að plaga hann.

Í samskiptaseðli, dags. 12. ágúst 2021, hafi komið fram að kærandi væri pínu orkulaus og yrði lasinn þegar hann reyndi eitthvað á sig. Þá hafi hann kvartað undan nefstíflu og kvefi og kveðist áður hafa haft svipuð einkenni og hafi þá fengið stera og ofnæmislyf. Tekin hafi verið próf varðandi þunglyndi og kvíða og reyndist hann vera með alvarleg þunglyndiseinkenni og væg kvíðaeinkenni.

Þann 7. september 2021 hafi verið send tilvísun á H þar sem fram hafi komið að kærandi væri með frjókornaofnæmi og langvinnar nefstíflur. Kærandi hafi leitað á Læknavaktina þann 14. september 2021 vegna ofskvíða og óskað eftir því að fá uppáskrifað sobril. Þann 19. september 2021 hafi kærandi haft samband við heilsugæslu í gegnum heilsuveru þar sem hann hafi greint frá því að hann væri búinn að vera með vægan hósta og kvef í þrjá mánuði. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði áður fengið svona langvarandi hósta og þá hafi steralyf og ofnæmistöflur virkað. Kærandi hafi verið settur á stuttan sterakúr og bent á ofnæmislyf [án] lyfseðils. Kærandi hafi leitað á bráðamóttöku Landspítala þann X. september 2021 vegna hjartverks. Í bráðamóttökuskrá hafi komið fram að kærandi hefði greint sig sjálfur með overtraining syndrome árið 2015 en hafi nýlega verið búinn að jafna sig á því að eigin sögn. Allar skoðanir hafi komið eðlilega út og hafi kærandi verið greindur með millirifjagigt og ekki talin ástæða til frekari uppvinnslu.

Í ákvæði I. til bráðabirgða í lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segi að þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. laganna, sem kveði á um að bætur samkvæmt lögunum greiðist ekki megi rekja tjón til eiginleika lyfs sem notað sé við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, greiðist bætur til þeirra sem gangist undir bólusetningu á Íslandi gegn COVID-19 sjúkdómnum á árunum 2020-2023 með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggi til vegna tjóns sem hljótist af eiginleikum bóluefnis eða rangri meðhöndlun þess, þar með talið við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns.

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu nr. 114/2022 segi að markmið bráðabirgðarákvæðinsins að þeir sem kunni að hljóta líkamstjón vegna eiginleika bóluefnis við Covid-19 sjúkdómnum eða verða fyrir tjóni vegna rangrar meðhöndlunar þess, séu eins settir um rétt til bóta og þeir sem verði fyrir tjóni vegna meðferðar eða rannsóknar sem falli undir 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Lög um sjúklingatryggingu taki til tjónsatvika ef könnun á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjón stafi af rannsókn eða meðferð en öðrum orsökum, t.d. fylgikvilla sem upp geti komið án þess að meðferð sjúklingsins hafi á það áhrif. Ef engu verði slegið föstu um orsök tjóns verði að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. Ef niðurstaðan verði sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt gögnum málsins hafi umsækjandi langa sögu um slappleika, þreytu, höfuðverk, kvíða, þunglyndi, frjókornaofnæmi og meltingarvandamál. Þegar farið sé yfir sjúkrasögu kæranda megi sjá að þau einkenni sem hann kvarti yfir í umsókn og telji að rekja megi til bólusetningar gegn Covid-19, þann 14. júní 2021 og 7. september 2021, hafi flest komið fyrir í sjúkraskrá áður en kærandi hafi gengist undir fyrstu bólusetninguna þann 14. júní 2021. Kærandi hafi fengið flensulík einkenni eftir bólusetningu þann 14. júní 2021, sem hafi staðið í um tvær vikur. Eftir það hafi komið fram fótaórói sem hafi lagast á nokkrum vikum. Eftir bólusetninguna þann 7. september 2021 hafi kærandi fundið fyrir síþreytu og kvíða, þá hafi hann einnig fengið nefstíflur líklega vegna ofnæmisbólgu. Öll þessi einkenni hafi kærandi haft áður en hann hafi gengist undir fyrri bólusetninguna, þann 14. júní 2021. Þá hafi hann leitað á bráðamóttöku Landspítala vegna skyndilegra brjóstverkja sem taldir hafi verið frá stoðkerfi. Í umsókn hafi komið fram að hendur og fætur kæranda hafi farið að taka kippi, kvöldið eftir bólusetninguna þann 7. september 2021, sem kærandi hafi engan veginn getað stjórnað og hafi hann orðið virkilega hræddur. Kveðist hann hafa leitað á Læknavaktina og fengið þar lyf til að róa sig. Þessir kippir hafi hætt nokkrum dögum seinna en við hafi tekið kvíðaköst og hafi kærandi engan veginn getað sinnt skóla eða lesið. Þessum kippum sé hvergi lýst í sjúkraskrá kæranda. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé því ekki að sjá af gögnum málsins að kærandi hafi orðið fyrir heilsubresti vegna bólusetningarinnar, sbr. upplýsingar um aukaverkanir bóluefnisins. Sjúklingatryggingu sé ekki ætlað að bæta tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms og sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns kæranda og bólusetningarinnar þann X og X. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé það orsakasamband ekki til staðar í máli kæranda og verði því ekki talið að þau einkenni sem hann kenni nú, megi rekja til bólusetningarinnar, heldur verði þau rakin til grunnástands hans.

Með vísan til framangreinds séu skilyrði bráðabirgðaákvæðis I. í lögum um sjúklingatryggingu ekki uppfyllt. Því sé ekki heimilt að verða við umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar bólusetningar gegn Covid-19 þann X og X sem framkvæmd hafi verið á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins séu bótaskyldar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 111/2000 greiðast bætur samkvæmt lögunum ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð nema þegar um er að ræða klínískar lyfjarannsóknir á mönnum, án bakhjarls, samkvæmt staðfestingu viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Í bráðabirgðaákvæði með lögunum er veitt undanþága frá framangreindri 3. mgr. 3. gr. vegna Covid-19 bólusetningar, en ákvæðið er svohljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. greiðast bætur til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi gegn COVID-19-sjúkdómnum á árunum 2020–2023 með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til vegna tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri meðhöndlun þess, þ.m.t. við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns. Sjúkratryggingastofnunin ber bótaábyrgð samkvæmt ákvæði þessu, sbr. 9. gr.“

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á grundvelli 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að þunglyndi, kvíða og alvarlega síþreytu sé að rekja til bólusetningar við Covid-19. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna skal greiða bætur ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þar með talinni aðgerð sem ætlað sé að greina sjúkdóm og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu eru gefin viðmið hér að lútandi:

  1. Líta skal til þess hve tjónið er mikið.
  2. Líta skal til sjúkdóms og heilsufars viðkomandi að öðru leyti.
  3. Taka skal mið af því hvort algengt sé að tjón verði af umræddri meðferð.
  4. Hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

Til nánari glöggvunar á því hvaða atriði eigi að leggja til grundvallar við framangreint mat verður að líta til tilgangs löggjafans og þess hvert markmiðið hafi verið með ákvæðinu. Í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpi til laganna kemur fram að markmið með nefndum 4. tölul. 2. gr. sé að ná til heilsutjóns, sem ekki sé unnt að fá bætt samkvæmt 1.–3. tölul. greinarinnar, en ósanngjarnt þyki að menn þoli bótalaust, einkum vegna misvægis á milli þess hve tjónið sé mikið og þess hve veikindi sjúklings voru alvarleg. Þá segir að við matið skuli taka mið af eðli veikinda og hve mikil þau séu svo og almennu heilbrigðisástandi sjúklings. Ef augljós hætta sé á að sjúklingur hljóti mikla örorku eða deyi sé sjúkdómurinn látinn afskiptalaus, verði menn að sætta sig við verulega áhættu af alvarlegum eftirköstum meðferðar.

Í færslu C læknakandídats í sjúkraskrá kæranda, dags. X, segir svo í sjúkrasögu:

„Stutt almenn sjúkrasaga: Löng saga um slappleika, þreytu, höfuðverk og meltingarvandamál. Veiktist illa með flensu 2015 og hefur ekki náð sér að fullu síðan þá. Verður veikur 1 -2 í mánuði og missir úr vinnu. Var sagt upp í síðustu vinnu vegna veikinda að hans sögn. Hefur farið í ýmsar rannsóknir en engar gefa skýringu á einkennum. Einnig saga um kvíða- og þunglyndi. Verið á lyfjameðferð í rúmt ár. Grunur um ADHD og bíður eftir mat ADHD teymis á LSH. Fékk neitun frá Virk 2019. Stefnt á að sækja aftur um þar. Hvað í sjúkrasögu telur læknir valda óvinnufærni: Viðvarandi slappleiki sem hefur áhrif á vinnugetu. Einnig þunglyndi og kvíði.“

Í læknisvottorði E læknakandídats, dags. X, segir að kærandi sé andlega og líkamlega heilbrigður og ætti að geta sinnt hvaða almennu störfum sem er. Í samskiptaseðli E læknakandídats, dags. X, segir meðal annars að kærandi hafi fengið almennt vottorð en að skynsamlegt sé að láta hann svara þunglyndis- og kvíðakvörðum í næstu heimsókn, ekki hafi gefist tími fyrir það þá.

Í samskiptaseðli F heimilislæknis, dags. X, segir svo um samskipti hans við kæranda:

„A (X kl. 09:10): Daginn ég varð mjög lasin í svona 2 vikur eftirjansen sprautu og fékk Restless Leg Syndrome nokkrum dögum eftir sprautu, finn þetta í vinstri hendi og fæti, búinn að vera taka iron vítamín en þetta er ekki að fara. er þó hættur að vakna á næturna og þurfa að sprikla. hef aukið hreyfingu mikið:/

F (X kl. 13:27): Sæll, ef þetta er heldur að lagast þá myndi ég ekki ráðleggja að gera meira í bili. Það er til lyfjameðferð sem hefur áhrif á þetta en ég myndi fyrst gefa þessu lengri tíma og koma svo í viðtal til okkar ef þetta plagar þig mikið í haust. Með kveðju F Heimilislæknir.“

Í samskiptaseðli F heimilislæknis, dags. X, segir svo um samskipti hans við kæranda:

„A (X kl. 22:36): Góðan daginn gæti ég fengið skráð á mig Flúoxetín Actavis, hef verið á því en hætti eftir að heilsan mín var góð en svo eftir bólusetningu þá tók heilsan mörg skref aftur á bak, hef verið með kvef í svona 2 mánuði og vægan hósta sem fer ekki og ég er bara búinn að tapa hamingjunni :/

F (X kl. 09:08): Sæll, ég ráðlegg að þú komir í viðtal til að ræða þetta, bóka þig inn hjá mér kl 14 á fim X. Láttu vita ef það hentar ekki. Með kveðju F Heimilislæknir.“

Í samskiptaseðli F heimilislæknis, dags. X, segir svo um lýsingu hans á kæranda:

„Er pínu orkulaus, verður lasinn þegar reynir eitthvað á sig. Varð mikið lasinn af bólusetningunni Jansen, bakka mikið í því vandamáli sem hann hefur verið að glíma við, overtraining syndrome. Áður haft eitthvað svipað, fékk þá stera og ofnæmislyf. Er með frjókornaofnæmi, gras, kettir, hundar, hestar. Ekki með dýr, gæludýrahald bannað í húsinu. Stíflaður í nefinu, Er atvinnulaus, er að byrja í […] núna í haust. Verið áður í […]. Reykir ekki, áfengi í hófi, neitar að nota aðra vímugjafa. Obj: frekar ör í kontakt, er með speglagleraugu í upphafi viðtals, tekur þau niður umbeðinn. lungnahlustun hrein, kok í lagi, PHQ9 2+3+2+3+3+2+1 +1 +1 = 18 miðlungs til alvarleg þunglyndiseinkenni GAD7 2+1 +1 +1 +0+1 +3=9 væg kvíðaeinkenni. fær aftur fluoxetin sem verið á áður. ofnæmissaga og kvartar um langvarandi loftvegaeinkenni, ráðlegg nefúðameðferð við ofnæmi. Endurkoma eftir 3 vikur til eftirfylgdar.“

Í samskiptaseðli F heimilislæknis, dags. X, segir svo um lýsingu hans á kæranda:

„Á að vera byrjaður í námi, ekki verið að mæta en er að fylgjast með á netinu. Er að taka fluoxetinið, Erfitt að átta sig á honum, situr með speglagleraugu og það upplifist ekki mikill kontakt við hann. Það helsta sem hann óskar eftir aðstoð við er nefstífla, sendi tilvísun á HNE lækni.“

Í samskiptaseðli F heimilislæknis, dags. X, segir svo um samskipti hans við kæranda:

„A (X kl. 23:01): Daginn er búinn að vera með 3ja mánaða vægan hósta og stíflað nef og svona líkamlega fastur í 1 gír, eftirjansen sprautu hef fengið áður svona langvarandi hósta og þá virkaði eh stera lyf og ofnæmistölfur með því, var líklegast árið 2016 mátt endilega skrifa það á mig, svo ég fari nú í lag

F (X kl. 10:05): Sæll, ég sendi á þig stuttan sterakúr, 5 töflur á dag í 5 daga. Ofnæmislyf færðu án lyfseðils. Með kveðju F Heimilislæknir.“

Í bráðamóttökuskrá G læknis, dags. X, segir:

„Bráðamóttökuskrá L Áb. sérfr: M X ára almennt hraustur maður. Leitar á BMT vegna brjóstverks. Byrjað um 18 leytið í dag þegar hann var að labba úr […]. Staðsettur yfir vi brjóstkassa, engin leiðni. Finnst eins og væri að pressa á sig. Vaxandi verkur, varð um 9-10 á VAS í um 10-20 mín. Betri hér við komu eftir að hafa lagst niður, nú verkur bara um 1-2 á VAS. Aldrei fengið svona verk áður. KK: Ekki ógleði/uppköst. Ekki svitakast. Aðeins oföndun. Ekki mæði. HFS: - Greindi sig sjálfur með overtraining sy 2015, nýlega búinn að jafna sig. - Veikindi sl 3 mán sem hann tengir við COVID-10 bólusetningu. Stíflað nef, hósti, slappleiki. Er nú að klára 5d sterakúr. - Kvíði, þunglyndi. Fengið ofsakvíða þar sem hann heyrir raddi í höfðinu. - IBS Lyf: Fluoxetin Venjur: Reykir ekki. Drekkur áfengi í hófi. Fjölskyldusaga: Móðir […]. X-Y bræður móður hans dáið […] v. sudden unspected death, talið hjartatengt.“

Í ráðgjafarsvari H hjartalæknis, dags. X, segir:

„Ungur hraustur maður sem fær singandi verki vi meginn í brljostið […] í gær kvöldi. Er með ættarsögu um skyndidauða. ER verkja laus hér. EKG og TnT er eðleigt. Hjartaómun er eðlieg og það er auðvelt að skoða sjúkling. Álti. Millirifjagikt eðligt hjarta og prufur. Ekki ástæað til frekari uppvinnslu.“

Í samskiptaseðli F heimilislæknis, dags. X, segir svo um samskipti hans við kæranda:

„A (X kl. 12:51): Daginn, mátt bóka á mig skimun fyrir Chronic Fatigue Syndrome (CFS), eðe ME hef verið að upplifa mikla þreytu after litla líkamleg áreysnlu, átti líkamlega eftir með að labba, vakna þreyttur, minnis truflanir og erfiðleika við að focusa á hluti. og er enn með kvef og smá hósta í nánast 4 mánuði.

F (X kl. 10:18): Sæll, bóka þig í tvöfaldan tíma hjá mér X kl 08:20, förum yfir þetta þá. Með kveðju F Heimilislæknir.“

Í göngudeildarnótu I læknis, dags. X, segir svo:

„Sjá tilvísun Hefur yfirleitt getað andað með nefinu, en undanfarið ár átt í erfiðleikum með það. Er búin að fara í ofnæmishúðpróf, jákvæður fyrir kött, grasi, hund, en er bara með einkenni fyrir köttum. prófað nefster í 2 vikur hjálpaði ekki. Nef fremri speglun septum skekkja sem þrengir hægri nös, Concha hypertropia og alar insufficience, skoða eftir afþrota, þá batnar öndun lítillega, en septum skekkja greinilega að trufla líka. Skoða aftari hluta með Trefjasjá, sama en annars án athugasemda engir separ.. Munnur rakar slímhimnur og góður tandstatus. Kok symmetriskt og gómbogar lyftastjafnt. Raddbönd og larynx án athugasemda. Prófar nefstera og saltvatn. Mætti prófa RF conchotomiu fyrst, ef ekki dugar þá septum plastik.“

Í samskiptaseðli F heimilislæknis, dags. X, segir svo um lýsingu hans á kæranda:

„Ræðum einkenni sem hann setur undir síðþreytu, ný einkenni núna eftir bólusetningu. Verst núna næmni fyrir birtu og hávaða, ekki verið með slík einkenni áður. alveg hættur í námi núna, var ekki að ganga upp. Er á atvinnuleysisbótum, í atvinnuleit. Var að vinna hjá […] síðast. Fer í göngutúra, kannski 20 mín, nokkuð góður eftir það fer í ræktina, þá lengi að ná sér eftir það. fer einu sinni í viku eða sjaldnar. Obj: gefur ekki mjög góðan kontakt en svara spurningum eðlilega, ekki vart við hugsanatruflanir eða misskynjanir. Hjarta og lungnahlustun eðl, ekki eitlastækkanir, kviður mjúkur og eymslalaus, þreifa ekki líffærastækkanir. PHQ92+2+3+3+3+2+1+1+3=20 GAD7 2+2+2+3+2+1+3=15 WSAS8+4+6+6+5=29 fáum blóðprufur m.t.t. síþreytu og bóka endurkomu í næstu viku til að leggja eitthvað plan.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Líkt og fram hefur komið telur kærandi að þunglyndi, kvíði og alvarleg síþreyta sé að rekja til bólusetningar við Covid-19 og byggir hann rétt sinn til bóta á 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Bætur eru greiddar samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þar með talinni aðgerð sem ætlað sé að greina sjúkdóm og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Þá eru greiddar bætur samkvæmt bráðabirgðaákvæði vegna Covid-19 bólusetningar hljótist tjón af eiginleikum eða rangri meðhöndlun bóluefnis sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til við bólusetningu á Íslandi gegn Covid-19 sjúkdómnum á árunum 2020-2023. Fyrir liggur að kærandi var með verulega einkennasögu áður en hann var bólusettur gegn Covid-19 samkvæmt sjúkraskrárgögnum. Ljóst er að hann fékk tímabundin einkenni af bólusetningunum. Þau einkenni sem síðan hafa komið fram verða, miðað við framlögð gögn, ekki tengd við bólusetningu kæranda heldur mun fremur fyrri sögu hans. Þó til séu dæmi um eirðarleysisheilkenni fóta í kjölfar Covid-19 bólusetningar liggur ekki fyrir um orsakatengsl. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu meiri líkur en minni á orsakatengslum á milli bólusetningarinnar og einkenna kæranda. Í ljósi þessa verður ekki fallist á að rekja megi tjón kæranda til þeirra atvika sem kveðið er á um í 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu og í bráðabirgðaákvæði með lögunum vegna Covid-19 bólusetningar.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum