Hoppa yfir valmynd

Nr. 139/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 4. maí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 139/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22020021

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 11. febrúar 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2022, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í fjögur ár.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Til vara er gerð sú krafa að endurkomubann kæranda verði stytt.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi til Íslands í október árið 2018. Hinn 23. október 2018 var að beiðni Landsbankans hf gefin út af Þjóðskrá Íslands kennitalan, […], á grundvelli falsaðs grísks kennivottorð sem kærandi framvísaði hjá bankanum. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi starfað hjá íslenskum sjávarfyrirtækjum árin 2019 og 2020 á grundvelli framangreindrar kennitölu undir nafninu […]. Hinn 20. nóvember 2020 var kærandi eftirlýst í kerfum lögreglu og hinn 9. nóvember 2021 var kærandi eftirlýst til handtöku. Hinn 28. janúar 2022 var kærandi handtekin af lögreglu á Keflavíkurflugvelli á leið úr landi. Síðar sama dag var kærandi færð til skýrslutöku hjá lögreglu grunuð um skjalafals, brot á útlendingalögum og lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Kæranda var birt tilkynning hinn 2. febrúar 2022 þar sem fram kom að til skoðunar væri að brottvísa henni og ákvarða endurkomubann á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kom þar m.a. fram að kærandi hafi greint frá því í fyrrnefndri skýrslutöku að hún hafi keypt falsaða kennitölu hér á landi og unnið ólöglega hér á landi á þeim grundvelli. Að því virtu telji Útlendingastofnun að kærandi hafi af ásetningi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendingi og hafi með því brotið alvarlega gegn ákvæðum laganna, sbr. b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Greinargerð kæranda barst Útlendingastofnun hinn 4. febrúar 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2022, var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til Íslands í fjögur ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda hinn 11. febrúar 2022 og sama dag kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 3. mars 2022 ásamt fylgigagni.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 28. janúar 2022, hafi kærandi verið færð til skýrslutöku þar sem hún hafi greint frá því að hún hafi framvísað fölsuðu grísku skilríki í banka með það fyrir augum að verða sér út um kennitölu og heimild til dvalar og atvinnu skv. 84. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi starfað hér á landi á grundvelli umræddrar kennitölu en hafi ekki greitt lögbundna skatta og gjöld af tekjum sínum. Þá hafi kærandi greint frá því að hún hafi dvalið hér á landi frá október 2018. Hafi hún því verið í ólögmætri dvöl í um þrjú ár hér á landi.

Í ljósi framangreinds hafi Útlendingastofnun sent kæranda tilkynningu um hugsanlega brottvísun, dags. 1. febrúar 2022, á grundvelli b-liðar 98. gr. laga um útlendinga. Með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið veittur þriggja daga frestur til að leggja fram andmæli í tilefni tilkynningarinnar. Hafi kæranda ekki verið veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar með vísan til e-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi af ásetningi gefið efnislega rangar og augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga. Þá hafi kærandi brotið alvarlega og ítrekað gegn ákvæðum laga um útlendinga. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að heimilt væri að brottvísa kæranda frá Íslandi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar, með hliðsjón af alvarleika brota kæranda, ítrekun þeirra og einbeitts brotavilja, að 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga verndi kæranda ekki gegn brottvísun. Var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í fjögur ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að skilyrði brottvísunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt. Hún hafi fyrst fengið tilkynningu um að mál hennar væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun hinn 1. febrúar 2022 og geti stofnunin því ekki litið til atvika sem hafi átt sér stað fyrir þann tíma. Þá kannist kærandi ekki við að hafa veitt rangar upplýsingar í stjórnsýslumáli samkvæmt lögum um útlendinga.

Kærandi byggir einnig á því að ákvörðun um brottvísun feli í sér afar ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni þar sem hún hafi sterk tengsl við Schengen-svæðið. Kærandi telur að umfjöllun Útlendingastofnunar um að hún hafi ekki sterk tengsl við móðursystir sína á Ítalíu hafi verið ómálefnaleg og röng. Hún sé náin móðursystur sinni en hafi ekki haft tækifæri til að heimsækja hana eftir að hún kom til Íslands vegna ferðatakmarkana og fjárskorts.

Í greinargerð kemur fram að kærandi sé með diplómu í spænsku, hafi nýverið verið samþykkt í háskólanám á Spáni og hafi skráð aðsetur þar í landi. Á þeim grundvelli sé ljóst að endurkomubann á Schengen-svæðið komi til með að hafa veruleg íþyngjandi áhrif á möguleika kæranda til að mennta sig og eiga í sambandi við móðursystur hennar. Þá telur kærandi að fjögurra ára endurkomubann fari gegn 2. mgr. 11. gr. tilskipunar 2008/115/EB (hér eftir tilskipun ESB). Komi þar fram að endurkomubann skuli ekki vara lengur en fimm ár nema að verulega ströngum skilyrðum uppfylltum, þ.e. ef sá sem sætir endurkomubanni ógni allsherjarreglu, almannaöryggi eða þjóðaröryggi viðkomandi ríkis.

Kærandi telur að rangar eða villandi upplýsingar í skilningi b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga geti ekki talist veittar eftir að hún hafi hlotið rétt til dvalar samkvæmt 84. gr. laganna. Starf kæranda og greiðslur til skattayfirvalda frá árinu 2018 hafi ekkert með stjórnsýslumál útlendingayfirvalda að gera. Í ljósi framangreinds byggir kærandi á því að niðurstaða Útlendingastofnunar um að hún hafi brotið alvarlega eða margsinnis gegn ákvæðum laga um útlendinga, sbr. b-lið. 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, skorti lagastoð.

Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi virt að að vettugi rannsóknarskyldur sínar, enda komi skráð aðsetur hennar á Spáni ekki til álita í hinni kærðu ákvörðun. Á grundvelli 2. mgr. 6. gr. tilskipunar ESB eigi tafarlaust að senda erlenda ríkisborgara sem dvelji ólöglega á landssvæði aðildarríkis til ríkis þar sem þeir hafa lögmæta heimild til dvalar. Kærandi hafi lögmæta heimild til dvalar á Spáni og sé því ekki unnt að ákvarða henni endurkomubann og meina henni um möguleika til menntunar þar í landi.

Kærandi telur að framangreindir gallar á málsmeðferð Útlendingastofnunar séu verulegir. Um sé að ræða skýr brot á lögmætisreglu og form- og efnisreglum laga um útlendinga og stjórnsýsluréttarins. Svo veigamiklir annmarkar varði ógildingu ákvörðunar Útlendingastofnunar og sé því efni til að fallast á kröfur kæranda.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna, hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum eða kemur sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið.

Hinn 28. janúar 2022 var kærandi handtekin og færð til skýrslutöku vegna gruns um skjalafals, brot á lögum um útlendinga og brot á lögum atvinnuréttindi útlendinga. Í skýrslutöku kvaðst kærandi hafa komið til landsins í október árið 2018. Eftir að hún kom til landsins hafi hún framvísað fölsuðu grísku kennivottorði í útibúi Landsbankans og fengið skráða kennitölu á Íslandi á grundvelli þess vottorðs. Kærandi hafi ráðið sig til vinnu hjá fyrirtæki hér á landi undir framangreindu grísku auðkenni og starfað þar um nokkra mánaða tímabil en síðan hætt þar og starfað við þrif í heimahúsum frá þeim tíma.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi af ásetningi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga með því að framvísa fölsuðum gögnum í þeim tilgangi að afla sér heimildar til dvalar og atvinnu hér á landi samkvæmt 84. gr. laganna. Sé ekki aðeins um brot á lögum um útlendinga að ræða heldur einnig brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og almennum hegningarlögum. Þá hafi kærandi dvalið hér á landi í ólögmætri dvöl í um þrjú ár og ekki greitt lögbundna skatta og gjöld af tekjum sínum. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að heimilt væri að brottvísa kæranda frá Íslandi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga þar sem hún hafi brotið alvarlega og ítrekað gegn ákvæðum laga um útlendinga.

Kærandi hefur ekki sótt um leyfi til dvalar hér á landi og hefur því dvalið ólöglega hér á landi frá október 2018. Að virtum gögnum málsins, þ. á m. gögnum sem kærunefnd barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hinn 26. apríl 2022, verður hins vegar ekki ráðið að kærandi hafi brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laga um útlendinga eða gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum, sbr. b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun eru ekki færð rök fyrir því hvernig sú háttsemi að framvísa fölsuðum skilríkjum í banka í því skyni að fá útgefna kennitölu sé heimfærð undir ákvæði laga um útlendinga. Þá er ekki rökstutt með hvaða móti kærandi hafi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga. Af þeim sökum er ekki heimilt að brottvísa kæranda frá landinu á grundvelli b-liðar 98. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira