Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2023. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 23. maí 2023
í máli nr. 2/2023:
ZEA ehf.
gegn
Mosfellsbæ og
Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf.

Lykilorð
Fjárhagslegt hæfi. Byggt á getu annarra. Skaðabótaskyldu hafnað.

Útdráttur
Ágreiningur málsins laut að útboði varnaraðila, M, sem varðaði endurnýjun glugga í Kvíslarskóla. Í úrskurði kærunefndar útboðsmála var rakið að M hefði tekið ákvörðun 26. janúar 2023 um að hafna öllum tilboðum í útboðinu og bjóða innkaupin út að nýju. Kæmi því aðeins til álita krafa kæranda, Z, um að nefndin léti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu M gagnvart honum. Aðilar deildu einkum um hvort að Z hefði uppfyllt kröfu útboðsins um fjárhagslegt hæfi bjóðenda en í þeim efnum vísaði Z til þess að hann hefði uppfyllt kröfurnar að teknu tilliti til fjárhagslegrar stöðu þeirra undirverktaka sem ætluðu að koma að framkvæmd samningsins með honum. Kærunefnd útboðsmála tók fram að með hliðsjón af orðalagi 76. gr. laga nr. 120/2016 yrði að miða við að bjóðanda bæri að upplýsa um það í tilboði sínu hygðist hann byggja á getu annars aðila og sanna fyrir kaupanda að hann hefði tryggt sér tilgreinda aðstoð. Ekki yrði ráðið af tilboðsgögnum Z að hann hefði ætlað að byggja á fjárhagslegri getu undirverktakana við framkvæmd samningsins eða að hann hefði tryggt sér aðstoð þeirra í þeim efnum. Þá vísaði nefndin til þess að Z hefði verið einn tilgreindur sem bjóðandi í tilboðsgögnum og væri því ekki unnt að fallast á að undirverktakar Z hefðu staðið með honum að tilboðinu. Að þessu gættu og öðru því sem var rakið í úrskurðinum lagði nefndin til grundvallar að skilyrði 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016 væru ekki uppfyllt og hafnaði kröfu Z um að nefndin léti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu M gagnvart honum.

Með kæru móttekinni af kærunefnd útboðsmála 10. janúar 2023 kærði ZEA ehf. (hér eftir „kærandi“) útboð Mosfellsbæjar (hér eftir „varnaraðili“) auðkennt „Kvíslarskóli – Endurnýjun glugga“.

Kærandi krefst þess „að varnaraðila sé óheimilt að taka tilboði Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf.“ og að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila 22. desember 2022 um að ganga til samninga við fyrirtækið. Auk þess krefst kærandi að samningur, hafi hann verið gerður, verði lýstur óvirkur. Þá krefst kærandi þess að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum og að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.

Með greinargerð 23. janúar 2023 krefst varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og honum verði gert að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð. Kærunefnd útboðsmála barst tölvupóstur 24. sama mánaðar frá Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf. og kom þar fram að fyrirtækið vísaði til útboðsskilmála útboðsgagna sem allir viðeigandi hefðu þurft að hlíta.

Kærunefnd útboðsmála gaf kæranda kost á að tjá sig um greinargerð varnaraðila og bárust frekari athugasemdir frá honum 14. febrúar 2023.

Með tölvupóstum 15. og 16. febrúar 2023 til varnaraðila óskaði kærunefnd útboðsmála eftir nánar tilteknum gögnum, þ.m.t. tilboðsgögnum kæranda og öllum gögnum sem hann hefði lagt fram við meðferð útboðsins, og gaf varnaraðila einnig færi á að tjá sig um viðbótarathugasemdir kæranda. Með tölvupósti 17. sama mánaðar afhenti varnaraðili umbeðin gögn, tjáði sig stuttlega um viðbótarathugasemdir kæranda og upplýsti um ákvörðun sína 26. janúar 2023 að hafna öllum tilboðum í útboðinu.

Kærunefnd útboðsmála hafnaði stöðvunarkröfu kæranda með ákvörðun 27. febrúar 2023.

Engar frekari athugasemdir bárust frá varnaraðila og Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf. en kærandi lagði fram lokaathugasemdir sínar 8. mars 2023.

I

Í byrjun nóvember 2022 auglýsti varnaraðili eftir tilboðum í hinu kærða útboði. Í grein 0.1.2 í útboðsgögnum kom fram að verkið fælist í því að endurnýja alla glugga Kvíslaskóla ásamt múr- og steypuviðgerðum í gluggagötum og frágangi að innan og utan við glugga. Í grein 0.1.4 voru meðal annars settar fram kröfur til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðenda og fjárhagslegrar stöðu þeirra. Undir fyrirsögninni „hæfni og reynslu“ kom fram að bjóðandi og stjórnendur verksins skyldu hafa reynslu af einu sambærilegu verki og var nánar útskýrt að með sambærilegu verki væri átt við verk sem unnið hefði verið á síðastliðnum fimm árum, teldist sambærilegt að flækjustigi og stjórnunarhlutverki og þar sem upphæð samnings hefði numið að minnsta kosti 50% af tilboðsfjárhæð bjóðanda í hinu útboðna verki. Áttu upplýsingar um sambærileg verk að fylgja með tilboðum bjóðenda.

Í grein 0.1.4 kom einnig fram, undir fyrirsögninni „fjárhagsleg staða“, að meðalársvelta fyrirtækis bjóðanda síðastliðin þrjú ár skyldi að lágmarki hafa verið sem næmi 75% af tilboði bjóðanda í hinu útboðna verki. Þá sagði í greininni að eigið fé bjóðanda skyldi vera jákvætt sem næmi að lágmarki 5% af tilboðsfjárhæðinni með þeim fyrirvara að varnaraðila væri heimilt að taka til greina upplýsingar í formi árshlutareiknings eða yfirlýsingu löggilts endurskoðanda ef eigið fé samkvæmt ársreikningi næði ekki þessari kröfu. Kæmi tilboð bjóðanda til álita við val á tilboðum skyldi bjóðanda vera við því búinn að leggja fram áritaða endurskoðaða ársreikninga þessu til staðfestinga. Krafa um endurskoðun ætti ekki við ef bjóðandi væri á grundvelli laga undanskilinn kröfum um endurskoðun ársreikninga en skyldi bjóðandi þá leggja fram ársreikninga áritaða af löggiltum endurskoðanda. Í grein 0.4.9 kom fram að varnaraðili myndi taka því tilboði sem væri lægst að fjárhæð.

Tilboð voru opnuð 1. desember 2022 og bárust tilboð frá sex bjóðendum. Kærandi átti lægsta tilboðið að fjárhæð 96.732.974 krónum en þar á eftir kom tilboð Múr- og málningarþjónustunnar Hafnar ehf. að fjárhæð 113.964.424 krónum.

Umhverfissvið varnaraðila skilaði tillögu til bæjarráðs 14. desember 2022 og óskaði þar eftir heimild bæjarráðs til að ganga til samninga við Múr- og málningarþjónustuna Höfn ehf. Í tillögunni var tekið fram að samkvæmt minnisblaði tilgreinds ráðgjafa væri mælt með því að gengið yrði til samninga við Múr- og málningarþjónustuna Höfn ehf. þar sem kærandi hefði ekki skilað inn gögnum sem sýndu fram á hæfi fyrirtækisins. Á fundi sínum 22. sama mánaðar samþykkti bæjarráð að ganga til samninga við Múr- og Málningarþjónustuna Höfn ehf. og var bjóðendum tilkynnt um þá ákvörðun sama dag. Þá var í tilkynningunni upplýst um nákvæman biðtíma samningsgerðar og kærufresti.

Með bréfi 26. janúar 2023 upplýsti varnaraðili bjóðendur í útboðinu um að hann hefði ákveðið að afturkalla val á tilboði Múr- og málningarþjónustunnar Hafnar ehf. Í bréfinu var nánar rökstutt að tilboð fyrirtækisins uppfyllti ekki það ófrávíkjanlega skilyrði útboðsgagna að gluggar skyldu vera smíðaðir úr „oregon pine“ við og hefði því verið ógilt. Þá var einnig rakið að tilboð fjögurra annarra bjóðenda hefðu einnig verið í ósamræmi við útboðsgögn að þessu leyti og því einnig ógild. Eina gilda tilboðið hefði verið um 43% yfir kostnaðaráætlun varnaraðila og hefði honum því einnig óheimilt að ganga að því tilboði þar sem það teldist óaðgengilegt í skilningi laga nr. 120/2016 og útboðsgagna. Í niðurlagi bréfsins var rakið að varnaraðili hefði ákveðið að hafna öllum tilboðum með vísan til 2. mgr. 83. gr. laga nr. 120/2016 og myndi í kjölfarið auglýsa útboðið á nýja leik, eftir atvikum með breyttum útboðsskilmálum.

Varnaraðili upplýsti kærunefnd útboðsmála um framangreinda ákvörðun með tölvupósti 17. febrúar 2023.

II

Kærandi byggir á að varnaraðili hafi með útboðsgögnum skuldbundið sig til að ganga að lægsta gilda tilboðinu og hafi honum því borið að ganga til samninga við kæranda sem hafi átt lægsta tilboðið í útboðinu, sbr. einnig 79. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Í bréfi varnaraðila 22. desember 2022 sé að finna tilkynningu til allra fyrirtækja sem hafi ekki verið hafnað eða vísað frá innkaupaferli með endanlegri ákvörðun, sbr. 3. mgr. 85. gr. laga nr. 120/2016. Í bréfinu komi skýrt fram að kærandi hafi átt lægsta tilboðið að fjárhæð 97.023.134 krónur og hafi varnaraðila því borið að ganga til samninga við hann á grundvelli skýru ákvæði útboðsskilmála. Af sömu ástæðum hafi varnaraðila verið óheimilt að taka tilboði Múr- og málningarþjónustunnar Hafnar ehf. Kærandi gerir kröfu um að nefndin láti upp álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum og segir að hann hafi augljóslega átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af varnaraðila og möguleikar hans hafi skerst við brotið. Tilboð hans hafi verið úrskurðað gilt og hafi hann verið með lægsta tilboðið.

Í athugasemdum sínum 14. febrúar 2023 hafnar kærandi því að tilboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna. Hann hafi afhent öll þau gögn sem beðið hafi verið um og hafi varnaraðili ekki gert athugasemdir við gögnin eða tilboð kæranda. Varnaraðili hafi aldrei lýst þeirri skoðun sinni að tilboð kæranda hafi verið ógilt eða ekki uppfyllt ýmis hlutlæg skilyrði útboðsgagna. Eingöngu hafi verið óskað eftir frekari gögnum eins og venja sé í sambærilegum útboðum. Ef varnaraðili hafi talið að eitthvað vantaði upp á hjá kæranda þá hafi honum átt að gefast kostur á að sýna fram á að skilyrði útboðsgagnanna væru uppfyllt á sama hátt og Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf. hafi fengið tækifæri til. Þá bendir kærandi sérstaklega á að tilkynning varnaraðila til bjóðenda, sem hafi meðal annars verið send kæranda, staðfesti að tilboði hans hafi ekki verið hafnað eða vísað frá.

Skýrlega megi ráða af tilboði kæranda að það sé gert með nánar tilteknum undirverktökum. Meðalársvelta bjóðanda sé langt umfram 75% af tilboði bjóðanda í verkið og einnig sé sameiginlegt eigið fé bjóðanda langt umfram skilyrði útboðsins. Þá telur kærandi að glöggt megi sjá af lista yfir sambærileg verk í tilboðsbók að þau teljist sambærileg hinu útboðna verki, hafi öll verið unnin síðastliðin 5 ár og teljist sambærileg að flækjustigi og stjórnunarhlutverki. Þá sé einnig augljóst að upphæð samninga fyrir þessi verk fari langt yfir 50% af tilboðsfjárhæð bjóðanda í verkið. Af öllu þessi megi ráða að tilboð kæranda hafi hvorki verið ógilt né í ósamræmi við útboðsgögn heldur hafi það uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 og ekki verið ógilt samkvæmt 82. gr. laganna. Þá hafi tilboðið uppfyllt hæfiskröfur 69. og 72. gr. laganna.

Í lokaathugasemdum sínum 8. mars 2023 bendir kærandi á að ákvörðun varnaraðila 26. janúar 2023, um að hafna öllum tilboðum, hafi verið tekin eftir að kærandi krafðist þess að ákvörðun varnaraðila um val tilboðs yrði felld úr gildi. Telur kærandi að ákvörðunin sé fyrirsláttur þar sem varnaraðila hafi verið ljóst að honum hafi borið að taka tilboði og ganga til samninga við kæranda sem hafi átt lægsta tilboðið í verkið. Þá rekur kærandi fyrirmæli kafla 1.3 í útboðsgögnum og tekur fram að það sé rangt að það hafi verið ófrávíkjanlegt skilyrði útboðsgagna að gluggar skyldu vera smíðaðir úr oregon pine við. Af útboðslýsingunni megi ráða að tilvísunin til umrædds viðar hafi verið almenn lýsing á lágmarkskröfum um gæði efna og hafi lýsing kaflans verið til viðmiðunar fyrir bjóðendur. Hvergi sé berum orðum tekið fram að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði útboðsgagna að furan sem nota ætti í verkið sé oregon pine þótt vísað hafi verið til þeirra tegundar í útboðsgögnum. Þvert á móti hafi bjóðanda verið heimilt að nota glugga frá þeim framleiðanda sem honum þyki hagkvæmast enda uppfylli þeir allar kröfur verkkaupa, bæði til útlits og tæknilegra og eðlisfræðilegra eiginlega, eins og hafi komið fram í kafla 1.3. Á það sé bent að efnið sem kærandi hafi boðið fram sé samkvæmt sérfræðingum í sölu á timbri alltaf miklu betra en oregon fura sem sé stökk og klofni frekar en sú fura sem varnaraðili hafi lagt til sem efni í útboði sínu. Sú fura komi frá norður Svíþjóð og sé samlímd og kvistalaus. Að mati kæranda gangi það þvert gegn ákvæðum laga nr. 120/2016 og útboði varnaraðila að hægt sé að ógilda tilboð á þeim grundvelli að efni sem lagt sé til í verkið sé betra og henti betur í verkið en sú tegund sem vísað sé til í útboðsgögnum.

III

Varnaraðili byggir á að tilboð kæranda hafi ekki uppfyllt ýmis hlutlæg skilyrði útboðsgagna og hafi tilboð hans því verið ógilt samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016. Í fyrsta lagi hafi meðalársvelta kæranda samkvæmt ársreikningum hans fyrir árin 2019, 2020 og 2021 verið um 10,3% af tilboðsfjárhæð hans í verkið en samkvæmt grein 0.1.4 í útboðsgögnum hafi verið gert að skilyrði að meðalársvelta síðastliðin þrjú ár skyldi að lágmarki nema 75% af tilboði bjóðanda í verkið. Í öðru lagi hafi eigið fé kæranda í loks árs 2021 verið um 0,4% af tilboðsfjárhæð hans og hafi ekki náð því 5% lágmarki sem hafi verið mælt fyrir um í grein 0.1.4. Í þriðja lagi hafi kærandi í tilboði sínu ekki upplýst um tilboðsfjárhæð sambærilegra verka og hafi því verið ómögulegt fyrir varnaraðila að meta hvort að kærandi hefði raunverulega reynslu af sambærilegum verkum í samræmi við fyrirmæli greinar 0.1.4 í útboðsgögnum.

Framangreindar kröfur útboðsgagna hafi verið í fullu samræmi við 1. og 3. mgr. 71. gr., 72. gr. og 74. gr. laga nr. 120/2016. Enginn vafi leiki á því að kaupanda sé óheimilt að velja tilboð sem sé ógilt eða í ósamræmi við útboðsgögn. Hafi þetta verið margstaðfest í dóma- og úrskurðarframkvæmd enda myndi önnur niðurstaða brjóta freklega gegn meginreglum opinberra innkaupa um jafnræði bjóðenda og gagnsæi, sbr. 15. gr. laga nr. 120/2016. Af þessu leiði að varnaraðila hafi verið óheimilt að ganga að tilboð kæranda. Loks vísar varnaraðili til þess að kröfur kæranda séu eingöngu byggðar á þeirri málsástæðu að taka hafi átt tilboði hans þar sem um lægsta tilboðið hafi verið að ræða. Hafi kærandi ekki vísað til neinna annarra ætlaðra annmarka á útboðinu. Að mati varnaraðila sé kæran bersýnilega tilefnislaus og beri því að gera kæranda að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016.

Varnaraðili hafnar því að hann hafi viðurkennt tilboð kæranda sem gilt. Í tilkynningu varnaraðila um opnun tilboða frá 22. desember 2022 hafi verið gerð grein fyrir þeim tilboðum sem hafi borist og fjárhæðum þeirra og engin afstaða tekin til gildi tilboðanna. Þá vísar varnaraðili til þess að kærandi hafi staðið einn sem bjóðandi að tilboð sínu í verkið og þeir undirverktakar sem kærandi hafi tilgreint í útboðsgögnum hafi ekki staðið að tilboðinu sameiginlega með honum og hafi ekki verið byggt á hæfi þeirra í gögnunum, svo sem á grundvelli hæfisyfirlýsingar. Þá hafi fjárhæðir fyrri verka kæranda ekki verið tilgreindar í tilboðsgögnum líkt og áskilið hafi verið í útboðsskilmálum.

IV

Í máli þessu krefst kærandi þess að „varnaraðila sé óheimilt að taka tilboði Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf.“ og felld verði úr gildi ákvörðun hans 22. desember 2022 um að ganga til samninga við Múr- og málningarþjónustuna Höfn ehf. Jafnframt að samningur við umrætt fyrirtæki, hafi hann komist á, verði lýstur óvirkur. Fyrir liggur að varnaraðili tók ákvörðun 26. janúar 2023 um að hafna öllum tilboðum í útboðinu og bjóða innkaupin út að nýju. Þegar af þessum ástæðum er ekki unnt að verða við framangreindum kröfum kæranda og kemur því einungis til álita krafa hans að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Í 1. mgr. 119. gr. laganna kemur fram að kaupandi sé skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þurfi einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið. Bótafjárhæð skuli miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði.

Eins og áður hefur verið rakið gerði varnaraðili tilteknar kröfur til fjárhagsstöðu bjóðenda líkt og honum var heimilt samkvæmt b. lið 1. mgr. 69. gr. og 71. gr. laga nr. 120/2016. Var þar um að ræða tvær meginkröfur, annars vegar átti meðalársvelta bjóðanda síðastliðin þrjú ár að nema að lágmarki 75% af tilboði bjóðanda í verkið og hins vegar varð eigið fé bjóðanda að vera jákvætt um að lágmarki 5% af tilboðsfjárhæð. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi hafi ekki uppfyllt umræddar kröfur upp á sitt eindæmi og virðist ekki sérstakur ágreiningur milli aðila að þessu leyti. Kærandi byggir á hinn bóginn að hann hafi uppfyllt skilyrðin að teknu tilliti til fjárhagsstöðu þeirra undirverktaka sem ætluðu að koma að framkvæmd samningsins með honum.

Af 1. mgr. 76. gr. laga nr. 120/2016 leiðir að fyrirtæki er heimilt að byggja á fjárhagslegri, tæknilegri og faglegri getu annarra aðila óháð lagalegum tengslum við þá og skal fyrirtæki sanna fyrir kaupanda að það hafi tryggt sér tilgreinda aðstoð. Í 2. mgr. kemur meðal annars fram að kaupandi skuli, í samræmi við 73. og 74. gr. laganna, sannreyna hvort aðili, sem fyrirtæki hyggst reiða sig á varðandi getu, uppfyllir viðeigandi hæfiskröfur og hvort ástæða sé til að útiloka hann samkvæmt 68. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. að kaupandi geti krafist þess, þegar fyrirtæki byggir á fjárhagslegri eða efnahagslegri getu annars aðila, að fyrirtækið og viðkomandi aðili beri sameiginlega ábyrgð á efndum samnings. Með sömu skilyrðum geti hópur fyrirtækja, sbr. 2. mgr. 67. gr., byggt á getu þátttakenda í hópnum eða annarra aðila.

Með hliðsjón af orðalagi 76. gr. laga nr. 120/2016 þykir mega miða við að bjóðanda beri að upplýsa um það í tilboði sínu hyggist hann byggja á getu annars aðila og sanna fyrir kaupanda að hann hafi tryggt sér tilgreinda aðstoð, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar útboðsmála 12. febrúar 2021 í máli nr. 47/2020 þar sem talið var að upplýsingar um slík áform, sem bárust fyrst eftir tilboðsskil, hefðu falið í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs í skilningi 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016.

Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér tilboðsgögn kæranda en þar kemur meðal annars fram hvaða undirverktakar myndu koma að verkinu. Á hinn bóginn verður ekki ráðið af þessum gögnum að kærandi hafi ætlað að byggja á fjárhagslegri getu þessara aðila við framkvæmd samningsins eða að hann hafi tryggt sér aðstoð þeirra í þeim efnum. Þá er kærandi einn tilgreindur sem bjóðandi í tilboðsgögnunum og er því ekki unnt að fallast á að undirverktakar hans hafi staðið með honum að tilboðinu.

Í ljósi tilboðsgagna kæranda verður miðað við að kærandi hafi staðið einn að tilboðinu og ekki byggt á getu annarra aðila við framkvæmd samningsins. Svo sem fyrr greinir verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna um fjárhagsstöðu upp á sitt eindæmi. Að þessu og öðru framangreindu gættu verður að telja að varnaraðila hafi verið rétt að hafna tilboði kæranda, sbr. a. og c. liðir 1. mgr. 66. gr. og 82. gr. laga nr. 120/2016. Breytir engu í þessu samhengi þótt varnaraðili hafi ákveðið að senda tilkynningu um val tilboðs á kæranda.

Samkvæmt öllu framangreindu og að virtum fyrirliggjandi gögnum og málatilbúnaði aðila að öðru leyti er það mat nefndarinnar að skilyrði 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016 séu ekki uppfyllt og verður því að hafna kröfu kæranda um að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum.

Varnaraðili hefur uppi kröfu um að kæranda verði gert að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð. Í 2. málsl. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 er mælt fyrir um að ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa geti kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð. Þrátt fyrir að öllum kröfum kæranda hafi verið hafnað eru ekki efni til þess að líta svo á að kæra hans hafi verið bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Þykir því rétt að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, ZEA ehf., er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.


Reykjavík, 23. maí 2023


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum