Hoppa yfir valmynd

Nr. 179/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 179/2018

Fimmtudaginn 23. ágúst 2018

A

gegn

Reykjavíkurborg

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. maí 2018, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 23. apríl 2018, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 26. janúar 2018, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 2018. Kærandi var þá skráður í nám við B. Umsókn kæranda var synjað með bréfum þjónustumiðstöðvar, dags. 7. febrúar og 14. mars 2018, á þeirri forsendu að hún félli ekki að skilyrðum 8. og 15. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 23. apríl 2018 og staðfesti synjunina. Kærandi skráði sig úr náminu þann 29. janúar 2018 og fékk greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 29. janúar til 28. febrúar 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. maí 2018. Með bréfi, dags. 23. maí 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 26. júní 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um styrk hjá Reykjavíkurborg í janúar 2018 þar sem hann hafi ekki enn verið kominn með vinnu. Kærandi hafi verið skráður í nám sem hafi átt að byrja í september 2017 en ekki átt rétt á námsláni hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Síðar hafi komið í ljós að námið var ekki lánshæft. Kærandi tekur fram að hann sé nú kominn með vinnu.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi hafi stundað nám frá september 2017 til desember 2017 og þegið endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á þeim tíma. Hann hafi stundað bóklegt nám fyrir áramót og stefnt á að hefja verklegt nám eftir áramót en hafi skort fjárhagslega burði til þess. Námið sé lánshæft nám en kærandi uppfylli ekki skilyrði reglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að þiggja námslán. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 2018 með umsókn, dags. 26. janúar 2018. Umsókn kæranda hafi verið synjað en eftir að hann hafi skráð sig úr námi þann 29. janúar 2018 hafi hann fengið greidda fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 29. janúar til 28. febrúar 2018.

Reykjavíkurborg tekur fram að litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð. Sú meginregla gildi að umsækjandi fái aðeins greidda fjárhagsaðstoð geti hann ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og 19. gr. laga nr. 40/1991, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Gera verði þá kröfu að einstaklingar hugi fyrst og fremst að framfærslu sinni áður en hugað sé að námi. Fjárhagsaðstoð sé öryggisnet til þrautavara, þ.e. tímabundið úrræði og neyðarráðstöfun til þess að forða þeim einstaklingum og fjölskyldum frá örbirgð sem ekki eigi neinna annarra kosta völ til þess að eiga í sig og á. Það hafi verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að kærandi væri vinnufær á tímabilinu 1. til 29. janúar 2018 og hefði því tök á að framfæra sjálfan sig samhliða námi.

Reykjavíkurborg tekur fram að við afgreiðslu umsóknarinnar hafi einnig verið litið til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð en vegna mistaka hafi ekki verið vísað í þá grein í bókun áfrýjunarnefndar velferðarráðs. Samkvæmt ákvæðinu þurfa rökstuddar ástæður að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og verður skilyrðum reglnanna að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt sé um. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð þann 26. janúar 2018 fyrir tímabilið 1. til 29. janúar 2018. Að því virtu hafi það verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 7. gr. reglnanna. Þá hafi kærandi ekki uppfyllt öll skilyrði reglna um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir framangreint tímabil og því hafi ekki verið fallist á að greiða fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. janúar til [28. janúar] 2018, sbr. 8. og 15. gr. sem og sbr. 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar til 28. janúar 2018 með vísan til 8. og 15. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 15. gr. reglnanna njóta einstaklingar, sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðrir námsmenn eiga ekki rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu nema fullnægt sé skilyrðum annarra töluliða 18. gr. um námsstyrki/lán vegna náms sem óumdeilt er að eiga ekki við í málinu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að gera verði þá kröfu að einstaklingar hugi fyrst og fremst að framfærslu sinni áður en hugað sé að námi. Fjárhagsaðstoð sé öryggisnet til þrautavara en kærandi hafi verið vinnufær á tímabilinu 1. til 29. janúar 2018 og hafi því haft tök á að framfæra sjálfan sig samhliða námi. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann, sbr. 7. gr. framangreindra reglna, og verði skilyrðum reglnanna að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt sé um. Kærandi hafi ekki uppfyllt öll skilyrði reglna um fjárhagsaðstoð og því hafi ekki verið fallist á að greiða fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

Líkt og áður greinir er sveitarfélögum veitt ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Þrátt fyrir það verða reglur um mat þess að vera málefnalegar. Úrskurðarnefndin telur að ákvæði í 15. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð leiði í reynd til þess að ekki fari fram eiginlegt mat á aðstæðum umsækjenda og því hvort þeir geti séð sjálfum sér og fjölskyldum sínum farborða án aðstoðar. Þar sem löggjafinn hefur eftirlátið stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun sem best hentar hag hvers aðila, með tilliti til allra aðstæðna, er stjórnvöldum óheimilt að afnema matið með því að setja til dæmis verklagsreglu sem tekur til allra mála, sambærilegra sem ósambærilegra.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að það að útiloka kæranda með framangreindum hætti frá fjárhagsaðstoð og að teknu tilliti til 12. gr. laga nr. 40/1991, standist ekki fyrrgreindar grundvallarreglur íslensks réttar um rétt til félagslegrar aðstoðar. Þá hefur Reykjavíkurborg ekki rökstutt af hverju kærandi teljist vinnufær á tímabilinu 1. til 28. janúar 2018 en ekki á tímabilinu 29. janúar til 28. febrúar 2018 þegar hann fékk greidda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Með því að synja kæranda um fjárhagsaðstoð á grundvelli 15. gr. framangreindra reglna og án þess að meta aðstæður hans sérstaklega og kanna hvort hann gæti framfært sjálfan sig er skilyrðum laganna ekki fullnægt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 23. apríl 2018, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira