Hoppa yfir valmynd

Nr. 303/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. ágúst 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 303/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070001

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

 1. Málsatvik

  Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU21040050, dags. 20. ágúst 2021, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. apríl 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 23. ágúst 2021. Hinn 30. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar 22. september 2021.

  Kærandi lagði fram endurupptöku á úrskurði kærunefndar 25. nóvember 2021 og var þeirri beiðni synjað með úrskurði kærunefndar 20. janúar 2022. Hinn 1. júlí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku í annað sinn.

  Af greinargerð kæranda má ætla að beiðni hans um endurupptöku málsins byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 2. Málsástæður og rök kæranda

  Í beiðni kæranda kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin) skuli flutningur umsækjanda eins og um getur í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar, frá aðildarríki sem leggur fram beiðni til aðildarríkisins sem ber ábyrgð, fara fram eins fljótt og við verður komið og í síðasta lagi innan sex mánaða frá því að annað aðildarríki samþykkir beiðni um endurviðtöku eða lokaákvörðun tekin um kæru eða endurskoðun ef um er að ræða áhrif til frestunar í samræmi við 3. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar. Lokaákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin með úrskurði kærunefndar útlendingamála 20. ágúst 2021 og því hafi frestur samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar runnið út 20. febrúar 2022.

  Með vísan til framangreinds er þess krafist að málið verði endurupptekið með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

 3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 20. ágúst 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að sérstakar ástæður mæltu með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Í greinargerð kæranda er byggt á ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar um fresti í málinu. Kærandi er handhafi alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi og því eiga ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar ekki við í máli hans, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Þegar við komu sína hingað til lands, dags. 25. nóvember 2020, greindi kærandi frá því að hann væri handhafi alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi og staðfestu ungversk stjórnvöld, dags. 18. mars 2021, að kærandi hefði hlotið viðbótarvernd þar í landi. Í máli kæranda hefur því legið fyrir í allri málsmeðferðinni, í fyrstu hjá Útlendingastofnun og síðar kærunefnd, að ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar, þ. á m. frestir reglugerðarinnar, eigi ekki við um mál kæranda. Þá er för kæranda til Ungverjalands ekki bundin samþykki þarlendra stjórnvalda á móttöku hans ólíkt því sem á við um mál sem heyra undir c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og þ.a.l. Dyflinnarreglugerðina. Málsástæða kæranda er því tilhæfulaus.

Að teknu tilliti til gagna málsins og þess að framangreindur frestur Dyflinnarreglugerðarinnar á ekki við um mál kæranda er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik máls kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar útlendingamála í máli kæranda var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Beiðni kæranda um endurupptöku er því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                       Gunnar Páll Baldvinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum