Hoppa yfir valmynd

867/2020. Úrskurður frá 29. janúar 2020

Úrskurður

Hinn 29. janúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 867/2020 í máli ÚNU 19120016.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 19. desember 2019, kærði A, blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu, ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um synjun beiðni um fundargerðir stjórnar Lindarhvols ehf. fyrir árin 2016-2018.

Upphafleg gagnabeiðni kæranda var send fjármála- og efnahagsráðuneytinu með tölvupósti, dags. 26. september 2019. Í svari ráðuneytisins, dags. 1. október 2019, kom fram að með hliðsjón af umfangi vinnu við meðferð beiðninnar og vinnuálagi væri gert ráð fyrir því að svör myndu liggja fyrir eigi síðar en 15. nóvember 2019. Í kæru segir að þann 15. nóvember 2019 hafi ráðuneytið tilkynnt kæranda að svar myndi liggja fyrir innan þriggja vikna. Að þremur vikum liðnum, þann 9. desember 2019, hafi kærandi ítrekað beiðnina. Ráðuneytið hafi svarað því þann 10. desember 2019 að ekki hafi tekist að afgreiða fyrirspurnina og að ráð væri gert fyrir að það yrði gert í síðasta lagi 20. desember 2019.

Þann 10. desember 2019 kærði kærandi afgreiðslutöf ráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þann 18. desember 2019 tók fjármála- og efnahagsráðuneytið ákvörðun þar sem kæranda var synjað um aðgang að gögnunum á þeim grundvelli að of mikinn tíma tæki að afgreiða hana, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að undir upplýsingabeiðnina falli samtals 41 fundargerð, auk fylgiskjala. Allar fundargerðirnar hafi að geyma upplýsingar sem varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila. Sumar hafi jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklinga og/eða upplýsingar um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Upplýsingum af framangreindu tagi sé ýmist skylt að takmarka aðgang almennings að, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, eða heimilt að takmarka aðgang almennings að, sbr. 10. gr. laganna. Fram kemur að eigi takmarkanir af framangreindum toga við um hluta skjals geti verið skylt að veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Það ákvæði kalli á að hvert skjal sé gaumgæft og vinna lögð í að afmá þær upplýsingar sem óheimilt sé að láta af hendi vegna einkahagsmuna eða sem rétt sé að halda eftir vegna almannahagsmuna.

Í bréfinu segir að samkvæmt áætlun ráðuneytisins myndi það útheimta a.m.k. 25 klukkustunda vinnu að yfirfara og fella brott upplýsingar, og eftir atvikum krefjast samskipta við einkaaðila skv. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, ef skjölin yrðu afhent að hluta í samræmi við 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Slík afgreiðsla beiðninnar myndi koma niður á öðrum lögbundnum störfum ráðuneytisins. Í 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga sé gert ráð fyrir að upplýsingabeiðni kunni að vera hafnað ef „meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki telst af þeim sökum fært að verða við henni“. Ráðuneytinu sé samkvæmt framansögðu ekki fært að verða við upplýsingabeiðninni og henni verði því synjað í heild sinni með vísan til nefnds ákvæðis. Jafnframt sé það bráðabirgðamat ráðuneytisins að upplýsingar sem undanþegnar séu upplýsingarétti séu svo stór hluti af hverri fundargerð að áskilnaður 3. mgr. 5. gr. laganna, um aðgang að hluta skjals, eigi ekki við. Þá sé ekki tilhlýðilegt að veita ríkari aðgang, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna.

Í kæru er vakin athygli á því að 41 virkur dagur sé frá 27. september til 15. nóvember og að skv. nýrri 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga myndist sjálfkrafa kæruréttur til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, hafi beiðni um afhendingu gagna ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá því að hún barst. Þótt afgreiðsla ráðuneytisins liggi strangt til tekið fyrir telji kærandi ljóst að hugur ráðuneytisins standi til þess að reyna að komast hjá því að afhenda umbeðin gögn. Af þeim sökum sé ítrekað dregið að leggja af stað í þá vinnu að afmá upplýsingar sem ráðuneytið telji nauðsynlegt að afmá. Kærandi telji því fyrirséð að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi myndi það taka minnst 30 virka daga að fá afstöðu ráðuneytisins og þar með gögnin afhent. Það yrði ekki í fyrsta sinn sem ráðuneytið tæki þá afstöðu en hið sama hafi verið gert í tilfelli gagna kjararáðs. Þá hafi ráðuneytið neitað að afhenda fundargerðir lengra aftur í tímann en til ársins 2015 þar sem of tímafrekt væri að afmá upplýsingar úr þeim.

Kærandi tekur fram að í sérstökum athugasemdum við 13. gr., í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 72/2019 um breytingu á upplýsingalögum, segi að með greininni sé einungis ætlunin að bregðast við tilvikum þar sem beiðni sé ekki sinnt með neinu móti. Í máli því sem hér um ræði liggi fyrir takmörkuð viðbrögð af hálfu ráðuneytisins. Vissulega hafi borist svör og tímafrestir verið gefnir en ítrekað hafi ekki verið staðið við þá og sé viðbúið að slíkt muni halda áfram. Af þeim sökum telji kærandi rétt að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki málið strax til efnismeðferðar og úrskurði um aðgang. Til vara gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi og málinu vísað til ráðuneytisins á ný til löglegrar meðferðar.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu með bréfi, dags. 20. desember 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 17. janúar 2020, segir m.a. að ákvæði 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga eigi aðeins við ef stjórnvald hafi ekki sinnt upplýsingabeiðni með neinu móti. Í málinu liggi hins vegar fyrir að upplýsingabeiðni kæranda hafi verið afgreidd. Ljóst sé, með vísan til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 72/2019, að úrskurðarnefnd um upplýsingamál beri að fella málið niður eða kveða upp úrskurð um frávísun málsins þar sem upplýsingabeiðni kæranda hafi verið afgreidd.

Í umsögninni segir einnig að lítið svigrúm sé hjá þeim starfsmönnum sem hafi með málefni Lindarhvols ehf. að gera til þess að taka jafn umfangsmikla beiðni og hér um ræði til meðferðar. Sú forskoðun á beiðninni sem fram hafi farið í aðdraganda svars ráðuneytisins hafi þegar komið niður á öðrum lögbundnum verkefnum ráðuneytisins. Af þeim sökum hafi ráðuneytið hafnað beiðninni á grundvelli 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. laganna. Umfang upplýsingabeiðni kæranda sé slíkt að vinna við afgreiðslu hennar myndi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum ráðuneytisins til að sinna öðrum hlutverkum sínum. Fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla beiðninnar útheimti í það minnsta 25 klukkustunda vinnu til viðbótar. Starfsskipulag og verkaskipting ráðuneytisins geri ráð fyrir því að hver starfsmaður sinni fullu starfi og hafi samanlagður fjöldi starfsmanna ekkert með starfssvið og verkefnaálag starfmanna að gera, líkt og gefið sé í skyn í kærunni.

Fram kemur að upplýsingarnar í fundargerðunum, sem ekki sé heimilt eða unnt að láta af hendi skv. 9. og 10. gr. upplýsingalaga, skiptist í grófum dráttum í eftirfarandi flokka:

1. Gögn er varði einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga og mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila. Megi þar nefnda upplýsingar sem tengist fjárhagsstöðu og úrvinnslu skulda, meðferð fullnustueigna og öðrum réttarágreiningi o.fl. Um sé að ræða upplýsingar sem væru til þess fallnar að skaða hagsmuni þeirra aðila ef þær yrðu gerðar opinberar og að mati ráðuneytisins vegi þau sjónarmið þyngra en almennt upplýsingagildi gagnvart almenningi.
2. Gögn sem varði efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Megi þar nefna upplýsingar sem tengist réttarágreiningi, stöðu slitabúa og virðismati á eignum, sem myndu hafa verulega skaðleg áhrif á hagsmuni ríkissjóðs ef þær yrðu gerðar opinberar.

Að lokum segir að í ljósi þess að kærandi byggi aðallega á 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga en til vara á því að afgreiðsla ráðuneytisins verði felld úr gildi sé það mat ráðuneytisins að fella eigi málið niður hjá nefndinni eða vísa málinu frá.

Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 20. janúar 2020, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. janúar 2020, ítrekar hann kröfu sína um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki málið til efnismeðferðar og úrskurði um aðgang. Hann telji kröfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frávísun málsins ekki eiga við enda hafi kæra í málinu verið send nefndinni eftir að afstaða ráðuneytisins lá fyrir. Kærandi neiti því að trúa að 25 stunda vinna sé slík að ráðuneytinu yrði ógerlegt að sinna öðrum lögbundnum verkefnum. Það tæki einn starfsmann þrjá daga að afgreiða málið, tvo starfsmenn einn og hálfan dag o.s.frv. Vissulega myndi það tefja önnur verkefni sem því næmi en því fari fjarri að umfang beiðninnar sé slíkt að það myndi lama ráðuneytið.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að fundargerðum Lindarhvols ehf. árin 2016-2018. Í kæru óskar kærandi þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurði um rétt hans til aðgangs að gögnunum á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Ákvæðið á aðeins við ef beiðni hefur ekki verið afgreidd en fyrir liggur að beiðni kæranda var afgreidd og honum synjað um aðgang að gögnum. Verður því leyst úr málinu á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið synjaði beiðni kæranda um aðgang að gögnunum á þeim grundvelli að meðferð upplýsingabeiðninnar tæki það langan tíma að það kæmi niður á öðrum lögbundnum störfum ráðuneytisins yrði hún tekin til meðferðar, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Hluti upplýsinganna sem fram komi í fundargerðunum varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila, einkamálefni einstaklinga og/eða upplýsingar um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins, sem ýmist óheimilt væri að veita aðgang að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga eða heimilt að takmarka aðgang að, sbr. 10. gr. laganna. Til þess að geta afhent fundargerðirnar þyrfti ráðuneytið fyrst að yfirfara þær og fella brott ofangreindar upplýsingar. Ráðuneytið áætlaði að vinna við það tæki um 25 klukkustundir.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er aðilum sem falla undir gildissvið upplýsingalaga skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, sé þess óskað, með þeim takmörkunum sem greinir í 6. – 10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir jafnframt að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Með vísan til þessa ákvæðis hefur úrskurðarnefnd ítrekað kveðið á um að stjórnvöld skuli afhenda tiltekinn hluta umbeðins gagns eða lagt fyrir stjórnvöld að strika yfir ákveðnar upplýsingar og afhenda gagn þannig.

Í 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga segir að beiðni megi í undantekningartilfellum hafna ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur skýrt fram að ákvæðið geti aðeins átt við í ýtrustu undantekningartilvikum. Þá segir að til þess að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt þurfi umfang upplýsingabeiðni eða fjöldi þeirra frá einum og sama aðilanum að vera slíkt að vinna stjórnvalds við afgreiðslu hennar mundi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lýst er í athugasemdum við ákvæði 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 verður að leggja til grundvallar að ákvæðinu verði einungis beitt þegar sýnt þykir vinnsla beiðni um upplýsingar myndi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum. Þegar horft er til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið af hálfu ráðuneytisins í samskiptum við þess við úrskurðarnefnd um upplýsingamál getur nefndin ekki fallist að yfirferð á fundargerðum Lindarhvols ehf. árin 2016-2018 taki svo mikinn tíma að undantekningarákvæðið eigi við. Beiðni kæranda er því vísað til nýrrar og lögmætrar afgreiðslu hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í ljósi þess langa tíma sem leið frá því að upphafleg beiðni kæranda var send ráðuneytinu og þar til ráðuneytið synjaði beiðninni, leggur úrskurðarnefndin áherslu á að málsmeðferð verði hraðað eftir föngum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni, A, blaðamanns hjá Viðskiptablaðinu, um aðgang að fundargerðum Lindarhvols ehf. árin 2016-2018, er felld úr gildi og lagt fyrir ráðuneytið að taka málið til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira