Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd kosningamála

Úrskurður nr. 3/2024 - Kæra vegna villandi upplýsinga í kjörgögnum

Úrskurðarnefnd kosningamála

Ár 2024, laugardaginn 30. nóvember, úrskurðaði úrskurðarnefnd kosningamála um kæru A vegna villandi upplýsinga í kjörgögnum og var kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

mál nr. 3/2024

 

Mál þetta úrskurða Berglind Svavarsdóttir, Anna Tryggvadóttir og Unnar Steinn Bjarndal.

I.

Með tölvupósti dags. 29. nóvember 2024 kærði kærandi, A villandi upplýsingar í kjörgögnum um frambjóðanda [lista] í [kjördæmi], B. Í kærunni kemur fram að frambjóðandinn búi erlendis og hafi hvorki búsetu né fastan dvalarstað á lögheimili sínu. Raunveruleg tengsl hans við kjördæmið séu engin. Þar kemur jafnframt fram að kærandi hafi trú á því að lögheimilisskráning B sé málamyndagjörningur til að komast á kjörskrá. Í kjörgögnum séu því villandi upplýsingar sem kærandi telur vera brot á g-lið 136. gr. kosningalaga, nr. 112/2021.

Í kæru kemur jafnframt fram að ef úrskurðarnefnd kosningamála er ekki viðeigandi stjórnvald til að taka kæruna fyrir óski kærandi eftir því að kæran sé áframsend til viðeigandi stjórnvalds.

II.

Í 2. mgr. 22. gr. kosningalaga er fjallað um ákvarðanir sem má skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála. Þær eru eftirfarandi:

  1. Synjun Þjóðskrár Íslands um að taka kjósanda á kjörskrá, sbr. 3. mgr. 4. gr., og um leiðréttingar á kjörskrá skv. 32. gr., sbr. 33. gr.
  2. Kæru vegna ákvörðunar um hæfi, sbr. 18. og 72. gr.
  3. Ákvörðun landskjörstjórnar og yfirkjörstjórnar sveitarfélags um gildi framboðslista og önnur atriði er þau varða, sbr. 45. og 46. gr.
  4. Ákvörðun yfirkjörstjórnar um kjörgengi frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum, sbr. 48. gr.
  5. Ákvörðun landskjörstjórnar um gildi framboðs til forsetakjörs, sbr. 2. mgr. 50. gr.
  6. Kæru vegna ólögmætis sveitarstjórnarkosninga, sbr. 128. gr.
  7. Kæru vegna ólögmætis forsetakjörs og þjóðaratkvæðagreiðslna, sbr. 129. gr.
  8. Ákvörðun sem landskjörstjórn tekur samkvæmt öðrum lögum.

Af kærunni má ráða að hún lúti að forsendum ákvörðunar Þjóðskrár Íslands um að taka tiltekinn frambjóðanda á kjörskrá. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 22. gr. kosningalaga getur kjósandi sjálfur skotið ákvörðun Þjóðskrár Íslands um synjun á því að taka hann á kjörskrá til úrskurðarnefndar kosningamála og ákvörðunum Þjóðskrár Íslands um leiðréttingu á kjörskrá. Þar sem í máli þessu liggja ekki fyrir slíkar ákvarðanir getur úrskurðarnefndin ekki tekið kæruna til meðferðar á þessum grundvelli.

Af kærunni má jafnframt ráða að hún lúti að framsetningu framboðslista í kjörgögnum í [kjördæmi]. Þar undirliggjandi er ákvörðun landskjörstjórnar um gildi framboða í kjördæminu. Í 2. mgr. 45. gr. kosningalaga kemur fram að umboðsmaður má skjóta ákvörðun landskjörstjórnar um gildi framboðs til úrskurðarnefndar kosningamála innan 20 stunda frá því að hún var afhent honum. Getur nefndin því ekki tekið kæruna til meðferðar á þessum grundvelli.

Ekki fæst séð að hægt sé að taka kæruna til meðferðar hjá úrskurðarnefnd kosningamála á öðrum grundvelli. Verður henni því vísað frá nefndinni. Kæranda er leiðbeint um að hún getur beint kæru eða beiðni um rannsókn til lögreglu vegna háttsemi sem hún telur vera refsiverð.

 

Úrskurðarorð:

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd kosningamála.

 

Reykjavík, 30. nóvember 2024.

Berglind Svavarsdóttir [sign]

Anna Tryggvadóttir [sign]                                                         Unnar Steinn Bjarndal [sign]


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta