Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 577/2020 - Endurupptekið mál - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 577/2020

Miðvikudaginn 1. september 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með tölvupósti til úrskurðarnefndar velferðarmála 14. mars 2021, óskaði  B, f.h. A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 577/2020 þar sem staðfest var ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 1. september 2020 um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á þríhjóli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 14. ágúst 2020, var sótt um styrk til kaupa á þríhjóli með fótstigi fyrir kæranda hjá Sjúkratryggingum Íslands. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 1. september 2020, var umsókn kæranda synjað. Í bréfinu segir að ástæða synjunar sé sú að reglugerð nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja heimili ekki greiðsluþátttöku og Sjúkratryggingar Íslands veiti ekki styrk til kaupa á rafknúnu þríhjóli. Óskað var eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni frá Sjúkratryggingum Íslands með tölvupósti 7. september 2020. Rökstuðningur var veittur með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 5. október 2020. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. nóvember 2020. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 9. febrúar 2021. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á þríhjóli.

Endurupptökubeiðni barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. mars 2021 og var þar vísað til nýlegs álits umboðsmanns Alþingis. Úrskurðarnefndin féllst á endurupptöku málsins og með bréfi, dags. 25. mars 2021, óskaði nefndin eftir greinargerð frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem tekin yrði afstaða til málsins með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10222/2019. Greinargerð barst með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. apríl 2021, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. maí 2021. Þann 17. maí 2021 bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála taki mál kæranda til meðferðar að nýju með vísan til nýlegs álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10222/2019 en það mál sé að miklu leyti sambærilegt máli kæranda og telur kærandi að úrskurðarnefndin hafi ekki kveðið upp réttan úrskurð í máli hennar.

Í kæru til úrskurðarnefndar fór kærandi fram á að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn hennar um styrk til kaupa á rafknúnu þríhjóli yrði snúið við og umsóknin samþykkt án frekari eftirmála.

Í kæru segir að kærandi hafi fengið heilablæðingu x ára gömul og hafi lifað við mikla hreyfihömlun síðan en sé með óskerta heilastarfsemi að öðru leyti. Hún sé í stöðugri þjálfun og endurhæfingu og hafi gengið vel og leggi hún mikinn metnað í að geta orðið sem mest sjálfbjarga. Kærandi hafi sótt um styrk til Sjúkratrygginga Íslands um kaup á þríhjóli, en þeirri umsókn hafi verið hafnað 1. september 2020. Kærandi telji að sú synjun standist ekki lög og reglugerðir og að Sjúkratryggingar Íslands séu að brjóta gegn rétti hennar með þeirri synjun. Kærandi fari því þess á leit við úrskurðarnefnd velferðarmála að framangreindri synjun verði snúið og hún fái að njóta réttar síns eins og kveðið sé á um í lögum, reglugerðum og vinnureglum.

Kærandi hafi sótt um styrk til kaupa á þríhjóli eins og hún eigi rétt á samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja. Í 2. gr. reglugerðarinnar megi finna skilgreiningu á hjálpartæki og þau skilyrði sem þurfi að uppfylla. Samkvæmt þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem sinni umönnun kæranda uppfylli þríhjólið sem um ræðir þau skilyrði, ella hefðu þeir varla lagt nafn sitt við umsóknina. Einnig hafi verið vísað til greinar 1218 fylgiskjals við ofangreinda reglugerð. Þar komi fram að þríhjól séu greidd fyrir fjölfatlaða sem ekki geti notast við tvíhjól með stuðningshjólum. Grein 121806 segi enn fremur að þríhjól með fótstigi njóti 100% styrkja. Þess er getið að kærandi hafi prófað hjól af þessari gerð og eigi í engum vandræðum með að hjóla á því. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 1. september 2020, hafi umsókn kæranda verið hafnað á þeim forsendum að hún væri ekki fær um að fara á eða af hjólinu án aðstoðar og uppfyllti þannig ekki skilyrði fyrir styrk fyrir slíku hjóli.

Þegar óskað hafi verið eftir frekari rökstuðningi, en hvergi komi fram að einstaklingur þurfi að vera fær um að fara á og af slíku tæki hjálparlaust í ofangreindri reglugerð, hafi verið vísað í innri vinnuhandbók hjálpartækjamiðstöðvar varðandi reglur um hjálpartæki. Eftir ítrekaðar beiðnir hafi kærandi loks fengið að líta þessar greinar vinnuhandbókarinnar sem vísað sé til í synjun Sjúkratrygginga Íslands. Sé rýnt í fyrrgreinda vinnuhandbók sé hvergi minnst á getu einstaklinga til að fara á eða af slíku hjóli og því ekki hægt að bera það fyrir sig til að hafna þeim styrk sem sótt sé um. Kærandi uppfylli öll þau skilyrði sem sett séu fram í ofangreindri vinnuhandbók sem send hafi verið til rökstuðnings og hafi þeir heilbrigðisstarfsmenn sem vinni með kæranda staðfest það. Vinnuhandbókin segi að til að hljóta styrk þurfi einstaklingur að geta:

  • Setið hjól með eða án bolstuðnings.
  • Stigið hjól með eða án fótafestinga.
  • Séð að sér og skynjað hættu.
  • Greint fólk og hluti í umhverfi sínu.
  • Haft fjarlægðarskyn.
  • Ratað um.
  • Hjólað án stýrisstangar.

Aldrei sé minnst á getu einstaklings til að fara á eða af þríhjóli, það sé skilyrði sem hvergi sé að finna og því ekki hægt að beita slíku fyrir sig til höfnunar. Sjúkratryggingum Íslands sé ekki stætt á að hafna umsóknum af handahófi og geðþótta, um sé að ræða opinbera stofnun sem beri skylda til að starfa eftir föstu og gegnsæju verklagi í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki heimild til að víkka út þessa skilgreiningu eða bæta við skilyrðum eftir eigin hentisemi. Stofnuninni beri að vinna innan þess ramma sem settur sé samkvæmt lögum og reglugerðum. Það sé því ljóst að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands í þessu máli eigi sér enga stoð, hvorki í reglugerð né innanhúss vinnureglum stofnunarinnar. Svo virðist sem um sé að ræða eins konar íþyngjandi geðþóttaákvörðun sem standist engan veginn jafnræðisreglu né meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Öll rök, gögn og reglur staðfesti rétt kæranda  til að fá styrk til kaupa á þríhjóli og því sé ekki tækt að starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands telji sig geta breytt reglum eða bætt við skilyrðum eftir hentugleik.

Þá er þess getið að í grein 121821 fylgiskjals við reglugerð nr. 1155/2013 sé tekið fram að aukahlutir á borð við sérstaka hnakka, fótabönd o.fl. njóti 100% styrkja. Það sé nokkuð ljóst að fjölfatlaður einstaklingur, sem þurfi sérstök fótabönd til að festa sig við fótstigin, geti ekki farið einn á og af tækinu, en njóti samt sem áður óskertra réttinda til að fá styrk fyrir slíku tæki og slíkum viðbótarbúnaði. Það sé því erfitt að sjá hvernig rök Sjúkratrygginga Íslands um höfnun standist þegar þau séu í beinni þversögn við fyrrgreindar reglur sem stofnuninni beri að fara eftir.

Þess megi einnig geta að málsmeðferð Sjúkratrygginga Íslands sé mjög ábótavant. Svo virðist sem einstaka mál fái ekki málsnúmer sem geri alla rakningu ferils máls mun erfiðari, erfiðlega hafi gengið að fá að sjá þær reglur og gögn sem vísað sé í og svörun sé bæði hæg og óregluleg.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að í greinargerð sinni fjalli Sjúkratryggingar Íslands að megninu til um rökstuðning og ástæður fyrir höfnun á umsókn, dagsettri 19. júní 2020. Þeirri umsókn hafi vissulega verið hafnað 23. júní 2020 og það hafi verið endanleg lok þess máls. Það mál sem þessi kæra fjalli um sé einfaldlega allt annað mál, önnur umsókn, annað tæki sem sótt sé um og önnur rök fyrir umsókn og höfnun. Það sé sú umsókn og rök fyrir höfnun hennar sem þetta mál snúist um, ekki eldri umsókn. Kærandi geri sér þó grein fyrir að hugsanlega sé erfitt fyrir Sjúkratryggingar Íslands að henda reiður á hvaða kæra sé hvað þar sem málum virðist ekki vera úthlutað málsnúmerum við meðferð mála hjá stofnuninni og utanumhald um gögn, svör og upplýsingar virðist vera ábótavant eins og kærandi hafi áður bent á, en það sé ekki efni þessarar greinargerðar.

Ítrekað er að umsókn kæranda um þríhjól, dags. 14. ágúst 2020, hafi verið hafnað á þeim grundvelli að kærandi kæmist ekki á eða af hjólinu án aðstoðar. Engin gögn, reglur, lög eða vinnureglur stjórnvalds kveði á um að einstaklingur þurfi að komast af eða á hjálpartæki án aðstoðar til að eiga rétt á því. Kærandi hafi ítrekað kallað eftir einhverjum gögnum, tilvísunum í reglur, lög eða reglugerðir þar sem slíkt skilyrði kæmi fram en starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki getað vísað í neitt slíkt máli sínu til stuðnings. Þrátt fyrir það hafi starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands haldið fast við sinn keip og hafnað umsókninni á þessum grundvelli, þ.e. að kærandi ætti ekki rétt á að fá styrk fyrir þríhjóli því að hún væri ekki fær um að fara á eða af því. Umsókninni hafi því verið hafnað á grundvelli reglu sem starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands virðist hafa ákveðið á eigin spýtur.

Það sé þá sennilegast ástæða þess að í greinargerð sinni kjósi Sjúkratryggingar Íslands að minnast varla einu orði á hvers vegna umsókninni hafi verið hafnað en þess í stað að fjalla um aðra umsókn sem komi þessari kæru ekkert við. Í raun sé megnið af greinargerð Sjúkratrygginga Íslands þessu máli algjörlega óviðkomandi þar sem fjallað sé um allt aðra umsókn og allt annað mál og allt aðrar málsástæður. Svo virðist sem Sjúkratryggingar Íslands séu að reyna að rugla úrskurðarnefnd velferðarmála í ríminu með því að blanda saman tveimur málum, en þessi kæra fjalli eingöngu um eina umsókn og eina höfnun og því sé illskiljanlegt hvers vegna verið sé að fjalla um grundvöll höfnunar á umsókn sem ekki sé verið að kæra.

Þá segir að það sé þó ein málsgrein í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands sem fjalli um það mál sem sé viðfangsefni þessarar kæru og færi rök fyrir höfnun umsóknarinnar. Það sé þó lítið fjallað um hvort kærandi sé fær um að fara á eða af hjólinu án aðstoðar sem hafi þó verið megingrundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar. Samkvæmt greinargerð Sjúkratrygginga Íslands hafi þríhjólið engan tilgang fyrir kæranda þar sem hún geti ekki tekið hjólastól eða göngugrind með sér á hjólið og af þeim sökum ekki komist í heimsóknir eða í verslanir eða annað þess háttar. Kæranda þyki þetta merkilegur málflutningur þar sem af þessu megi leiða að enginn eigi rétt á þríhjóli nema viðkomandi sé fullfær um að ganga sjálfur sem sé augljós þversögn þar sem þeir einstaklingar sem geti gengið sjálfir eigi lítið erindi með að sækja um styrk til kaupa á þríhjóli. Staðreyndin sé sú að kærandi þurfi vissulega aðstoð við að komast á og af hjólinu en hún geti gengið með aðstoð og stuðningi og setið ein og óstudd í góðum stól. Með ofangreint í huga þyki kæranda staðhæfing Sjúkratrygginga Íslands um að kærandi geti því ekki farið í heimahús eða annað illskiljanleg því að gera megi ráð fyrir að þangað sem hún sé að fara sé fólk fyrir sem geti aðstoðað hana við að komast af hjólinu og í stól og svo aftur á hjólið að heimsókn lokinni. Það sé ekki erfitt að sjá fyrir sér hvernig það að geta komist ein síns liðs á milli staða bæti líf hennar og líðan og dragi úr fötlun hennar og geri henni kleift að takast á við umhverfi sitt, auka og viðhalda færni og sjálfsbjargargetu, eins og segi í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands og 2. gr. reglugerðar nr. 1155/2013 um hjálpartæki.

Þá er bent á að í grein 121821 fylgiskjals við reglugerð nr. 1155/2013 sé tekið fram að aukahlutir á borð við sérstaka hnakka, fótabönd o.fl. njóti 100% styrkja. Það sé nokkuð ljóst að fjölfatlaður einstaklingur, sem þurfi á sérstökum fótaböndum til að festa sig við fótstigin, geti ekki farið einn á og af tækinu og hvað þá farið einn og óstuddur inn í heimahús eða verslanir en njóti samt sem áður óskertra réttinda til að fá styrk fyrir slíku tæki og slíkum viðbótarbúnaði. Það sé því erfitt að sjá hvernig rök Sjúkratrygginga Íslands um höfnun standist þegar þau séu í beinni þversögn við fyrrgreindar reglur sem stofnuninni beri að fara eftir. Þá er þess getið að kærandi þurfi ekki á slíkum aukabúnaði að halda, hún vilji einfaldlega benda á þessa grein til að undirstrika þá rökleysu sem fram komi í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands.

Það sé ekki líðandi að ríkisstofnun, sem hafi það hlutverk að aðstoða okkar minnstu meðborgara, geti hafnað fólki um styrki sem það eigi rétt á með handahófskenndum ákvörðunum án nokkurs grundvallar í lögum, reglum eða reglugerðum. Stofnunin virðist gefa í skyn að sé einstaklingur ekki fullfær um að fara um fótgangandi þá eigi hann lítið sem ekkert erindi utandyra þar sem viðkomandi sé svo ósjálfbjarga. Það skjóti sannarlega skökku við þar sem Sjúkratryggingar Íslands sé sú stofnun sem hafi það hlutverk að aðstoða fólk við að verða meira sjálfbjarga. Það tæki, sem sótt sé um styrk til kaupa á, hafi einmitt þann tilgang, þ.e. að gera kæranda kleift að verða meira sjálfbjarga og auka sjálfstæði hennar og draga úr þörf á umönnun.

Loks segir að umsókn kæranda eigi fyllilega rétt á sér, ástæður höfnunar standist ekki neina skoðun og þau rök sem Sjúkratryggingar Íslands beiti helst fyrir sig nú í kæruferlinu séu fyrst og fremst rök og málsástæður sem eigi við um annað mál. Þau komi þessari kæru og þessari málsmeðferð ekkert við og slíkur málflutningur opinberrar stofnunnar brjóti í bága við málsmeðferðarreglur laga um opinbera stjórnsýslu, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 37/1993 um opinbera stjórnsýslu, þar sem segir meðal annars: „Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.“ Sjúkratryggingar Íslands séu ekki að því með tilvísunum sínum í annað mál og því sé málflutningur Sjúkratrygginga Íslands, sem snúi að höfnun vegna þess að tækið sé ætlað til þjálfunar og líkamsæfinga, ómarktækur í þessu máli.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. apríl 2021, vegna endurupptöku málsins segir að höfnun Sjúkratrygginga Íslands í þessu máli byggi fyrst og fremst á því að kærandi geti ekki komist hjálparlaust á og af því hjálpartæki sem sótt sé um og málið varði. Samkvæmt Sjúkratryggingum Íslands muni hjálpartækið því ekki auðvelda henni athafnir daglegs lífs og að það sé fyrst og fremst ætlað til útivistar og afþreyingar.

Í umsókn kæranda um hjálpartækið komi fram að þeir heilbrigðisstafsmenn sem sinni umönnun hennar telji hjálpartækið geta auðveldað henni daglegt líf og dregið úr félagslegri einangrun og aukið vellíðan hennar. Auk þess verði það að teljast almenn mannréttindi að geta stundað útivist og sé fötluðu fólki veitt vernd í lögum þar sem lögð sé áhersla á að þeim sé veittur stuðningur til að geta notið fullra mannréttinda og skapa þeim skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum.

Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 10222/2019, sem fjalli um mál sem sé efnislega sambærilegt máli kæranda, segi meðal annars:

„Með vísan til orðalags ákvæðisins er ljóst að það hefur afgerandi þýðingu um réttinn til að fá styrk til kaupa á hjálpartæki hvort tækið sé til þess fallið að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun og teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Þótt úrskurðarnefndin hafi svigrúm til mats þegar teknar eru ákvarðanir á þessum lagagrundvelli þá verða slíkar ákvarðanir í ljósi orðalags ákvæðisins að vera í samræmi við kröfur ákvæðisins um að stjórnvald meti aðstæður umsækjanda um hjálpartæki með einstaklingsbundnum og heildstæðum hætti hverju sinni áður en það tekur ákvörðun. Að því leyti sem ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 felur í sér slíkt skyldubundið mat getur stjórnvald á borð við úrskurðarnefnd velferðarmála ekki sett skilyrði eða viðmið sem afnema eða þrengja um of það mat sem nauðsynlegt er að fari fram hverju sinni eigi úrræðið að ná tilgangi sínum.“

Af þessu megi sjá að umboðsmaður Alþingis taki nokkuð skýrt fram að hvorki úrskurðarnefnd velferðarmála né Sjúkratryggingar Íslands hafi heimild til að ákveða þrengri skorður og skilyrði fyrir styrkveitingu en sem kveðið sé á um í lögum. Í tilfelli kæranda sé helsta ástæða synjunar á styrk sú að hún geti ekki komist hjálparlaust á og af því hjálpartæki sem sótt sé um, en hvergi sé minnst á að einstaklingar þurfi að geta komist sjálfir á og af slíkum hjálpartækjum í lögum eða reglugerðum.

Tekið er fram að kærandi hafi haft aðgang að hjálpartæki eins og því sem þetta mál fjalli um undanfarna mánuði og hafi það gert henni kleift að komast sjálf á milli staða í heimabæ sínum, aukið vellíðan hennar og sjálfstæði til muna og aukið lífsgæði hennar. Þetta sé ekki tæki til líkamsræktar heldur sé þetta tæki sem auðveldi henni að komast sjálf á milli staða þótt hún þurfi hjálp við að komast á það og af því. Það geri henni kleift að njóta útivistar og hreyfingar sem verði að teljast almenn mannréttindi, einnig fyrir fatlaða einstaklinga. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 10222/2019 segi:

„Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum verður því að ganga út frá því að þegar tekin er afstaða til þess hvort hjálpartæki teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs í skilningi 26. gr. laga nr. 112/2008 þá beri að túlka það á þann veg að notkun tækisins nái þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi, og þá í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi.“

Með tilliti til alls framangreinds og þess sem fjallað sé um í umræddu áliti umboðsmanns Alþingis, hvað varði alþjóðlegar skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafi gengist undir, hafi þar verið lögð áhersla á að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi, meðal annars með því að gera því kleift að komast ferða sinna og bæta aðgengi þess, sbr. til dæmis 9. og 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í þessu sambandi hafi verið lögð áhersla á að fötluðu fólki sé þannig veittur stuðningur til að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum.

Þá segir að höfnun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um hjálpartæki byggi nær eingöngu á því að um æfingartæki og/eða tæki til líkamsræktar sé að ræða. Sjúkratryggingar Íslands vísi í eldri umsókn um hjálpartæki máli sínu til stuðnings þar sem í þeirri umsókn sé tekið fram að umrætt tæki geti nýst henni við þjálfun. Enn og aftur sé áréttað að í þessu máli sé kærð höfnun á annarri umsókn, þ.e. umsókn sem lögð hafi verið fram eftir að fyrri umsókn hafi verið hafnað. Í þeirri umsókn sé ekki fjallað um æfingatæki eða tæki til líkamsræktar. Við þetta sé tvennt að segja. Í fyrsta lagi að höfnunin byggi á málsástæðum sem álit umboðsmanns Alþingis taki nokkuð skýrt fram að séu ekki ásættanlegar ástæður til höfnunar og í öðru lagi að Sjúkratryggingar Íslands séu að brjóta gegn málsmeðferðarreglum með því að nota rök og málsástæður úr öðru máli. Ítrekað hafi verið bent á þá brotalöm í verklagi Sjúkratrygginga Íslands að vera ekki með málsnúmer fyrir þau mál sem komi á borð stofnunarinnar sem myndu gera slík vinnubrögð ómöguleg.

Það sé því ljóst að Sjúkratryggingar Íslands hafi brotið á rétti kæranda með synjun sinni með því að túlka framangreindar lagareglur of þröngt og bæta við eigin þrengri skilyrðum fyrir því að veita styrki til hjálpartækja sem hún alla jafna ætti rétt á. Þess er óskað að úrskurðarnefnd velferðarmála snúi við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands með tilliti til alls framangreinds og þá sérstaklega með tilliti til álits umboðsmanns Alþingis í heild og með vísan til lokaorða framangreinds álits í huga:

„Það eru tilmæli mín til úrskurðarnefndar velferðarmála að hún taki mál A til meðferðar að nýju [...] og leysi þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem hafa verið rakin í álitinu. Jafnframt beini ég því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.“

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 23. nóvember 2020, segir að sótt hafi verið um styrk til kaupa á þríhjóli með tveimur umsóknum. Sú fyrri hafi verið dagsett 19. júní 2020 og verið synjað 23. júní 2020 á þeim grundvelli að Sjúkratryggingar Íslands veiti ekki styrk til kaupa á rafknúnu hjóli. Seinni umsóknin hafi verið dagsett 14. ágúst 2020 og verið synjað 1. september 2020 á þeim grundvelli að reglugerð nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja heimili ekki greiðsluþátttöku.

Reglugerð um styrki vegna hjálpartækja nr. 1155/2013, með síðari breytingum, sé sett samkvæmt ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, en þar segi að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem séu til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setji.

Framangreind reglugerð kveði endanlega á um hvaða hjálpartæki falli undir styrkveitingu, greiðsluhluta Sjúkratrygginga Íslands og magn hjálpartækja til sérhvers sjúkratryggðs einstaklings þegar það eigi við. Umsókn skuli meta eftir færni og sjúkdómi hvers og eins umsækjanda og kveði reglugerðin á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi í hverju tilfelli. Í reglugerðinni komi fram að einkum sé um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar.

Í 2. gr. reglugerðarinnar segi: „Hjálpartæki er tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.“

Í 3. gr. sömu reglugerðar segi: „Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar.“ Síðar í sömu grein segir: „Styrkur er ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ. á m. útivist og íþróttir).“

Í tveimur umsóknum sem C, iðjuþjálfi á D, hafi sent inn komi fram að kærandi sé með arfgenga heilablæðingu og hafi fengið endurteknar blæðingar. Í kjölfar þeirra sé hún með helftarlömun, fari að mestu um í hjólastól og sé í stöðugri endurhæfingu.

Í gátlista sem hafi borist með fyrri umsókn segi C að kærandi búi langt frá endurhæfingarstað og að þær aðstæður geti komið upp að erfitt sé að sækja þjálfun, til dæmis vegna veðurs og þess hversu tímafrekt það sé. Sú sérhæfða þjálfun og aðstoð sem þörf sé á sé takmörkuð við endurhæfingardeild og ekki sé hægt að sækja þjálfun til sérhæfðra íþróttafélaga. Með hjóli geti kærandi fjölgað æfingalotum. Seinna komi fram að gert sé ráð fyrir að sett verði upp æfingaprógramm þrisvar í viku með sjúkraþjálfara. Þá komi fram að kærandi geti hjólað einsömul en að þörf sé á eftirliti.

Í rökstuðningi, sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands í viðhengi með fyrri umsókn, dags. 16. júní 2020, segi C og E, sjúkraþjálfari á D, að kærandi búi við mikla hreyfihömlun eftir endurteknar heilablæðingar og að hún njóti mikillar aðstoðar við allar athafnir daglegs lífs. Þar sé einnig fjallað um endurhæfingu kæranda og mikilvægi hjólreiða í því samhengi, enda bæti hreyfingin bæði andlega og líkamlega heilsu og auki útivistarmöguleika. „Sú aðstoð sem A þyrfti við hjólaþjálfun myndi ekki krefjast mikillar sérþekkingar og gæti vel fallið að hlutverki NPA.“ Einnig sé bent á að hjólreiðarnar myndu bæta líkamlegt þrek kæranda og auka möguleika hennar á að verða sjálfbjarga.

Í rökstuðningi, sem hafi borist með seinni umsókninni og dagsettur sé 10. ágúst 2020, segi ofangreindir þjálfarar að kærandi þurfi á mikilli aðstoð að halda við allar athafnir daglegs lífs og sé ófær um að fara sjálf á milli staða óstudd eða án hjálpartækja og sé því alfarið háð öðrum, hafi hún hug á að fara út úr húsi. Þar komi fram: „Rafmagnshjólastól hefur hún ekki sótt um þar sem henni hugnast ekki sá stíll á ferlitæki.“

Í 2 gr. reglugerðar um hjálpartæki segir: „Hjálpartæki er tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.“ Í þessu ákvæði sé skilgreint hvað átt sé við þegar fjallað sé um hugtakið hjálpartæki í reglugerðinni. Ákvæðið feli í sér að hjálpartækinu sé ætlað að draga úr fötlun og gera hinum fatlaða kleift að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu. Í lok ákvæðisins segir að hjálpartækið verði að vera nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs fyrir hinn fatlaða.

Þá segir að það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að þríhjól muni ekki auka sjálfstæði kæranda við að sinna daglegum erindum, svo sem til að fara í heimsóknir eða í verslanir, enda komist hún ekki á hjólið eða af því án aðstoðar. Þá sé hvorki mögulegt að taka hjólastólinn né göngugrindina með á hjólið og því muni kærandi ekki geta farið inn í verslanir eða heimahús þó að hún fengi aðstoð til að komast af hjólinu og á það aftur.

Hjólið virðist fremur ætlað til þjálfunar en sem ferlihjálpartæki. Í reglugerð sé tiltekið að styrkur sé „ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ. á m. útivist og íþróttir). Tæki til líkamsæfinga flokkast ekki undir hjálpartæki skv. þessari reglugerð.“

Undantekning á reglunni um að samþykkja þríhjól einungis sem ferlihjálpartæki sé fyrir börn undir 18 ára aldri. Þau geti fengið þríhjól sem lið í þjálfun til að geta fylgt eftir jafnöldrum sínum í leik og skóla svo sem til að fara í vettvangsferðir með skólanum, útikennslu og svo framvegis á meðan skólaskylda vari. Í kæru sé vísað til vinnureglna Sjúkratrygginga Íslands, en efst í þeirri reglu segi: „Miðað við reglugerð um hjálpartæki eru hjól skilgreind sem ferlihjálpartæki fyrir fólk með hreyfihömlun þ.e.a.s. 18 ára og eldri.“

Það sé því mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé heimilt að samþykkja þríhjól og með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. apríl 2021, vegna endurupptöku málsins kemur fram að álit umboðsmanns Alþingis hafi verið til ítarlegrar skoðunar hjá Sjúkratryggingum Íslands. Úr álitinu megi í þrengri skilningi lesa að í þeim tilvikum þar sem sótt sé um hjálpartæki sem ætlað sé til notkunar í frístundum eða til afþreyingar, þar með talinni íþróttaiðkun, líkt og tilgreint sé í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, þurfi að leggja mat á það hvort tækið sé eingöngu nauðsynlegt til þess eða hvort það sé jafnframt nauðsynlegt til annarra athafna, þ.e. hvort tækið auðveldi einstaklingnum að takast á við athafnir daglegs lífs.

Í víðari skilningi megi svo lesa úr álitinu að Sjúkratryggingum Íslands sé almennt skylt að leggja á það einstaklingsbundið og heildstætt mat hverju sinni hvort skilyrði séu til að fallast á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga til kaupa á hjálpartæki. Umboðsmaður hafi í áliti sínu tekið fram að Sjúkratryggingar Íslands megi ekki setja skilyrði eða viðmið sem afnemi eða þrengi um of það mat sem nauðsynlegt sé að fari fram hverju sinni. Einnig komi fram í álitinu að það verði að ganga út frá því að þegar tekin sé afstaða til þess hvort hjálpartæki teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs í skilningi 26. gr. laga um sjúkratryggingar, beri að túlka það á þann veg að notkun tækisins nái þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi.

Tekið er fram að starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands sé meðvitað um mikilvægi þess að verklagsreglur þrengi ekki réttindi einstaklinga samkvæmt lögum og reglugerðum. Sem ríkisstofnun sé stofnuninni falið að gera einstaklingsbundið mat vegna hverrar umsóknar og taka ákvörðun með vísan til laga og reglugerða. Á hinn bóginn sé það ekki svo að álit umboðsmanns Alþingis verði til þess að Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að samþykkja allar umsóknir um hjálpartæki.

Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að þríhjól muni ekki auka sjálfstæði kæranda við að sinna daglegum erindum eða auðvelda athafnir daglegs lífs þar sem hún sé ekki fær um að bjarga sér án aðstoðar við að komast á hjólið eða af því. Hjálpartækið geti þannig ekki talist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs í skilningi reglugerðar. Enn fremur virðist hjólið fyrst og fremst ætlað til útivistar og afþreyingar en ekki sem ferlihjálpartæki. Í reglugerð er tiltekið að styrkur sé „ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ. á m. útivist og íþróttir). Tæki til líkamsæfinga flokkast ekki undir hjálpartæki skv. þessari reglugerð.“

Það sé því mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé heimilt að samþykkja þríhjól og með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á þríhjóli.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal meðal annars kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar hefur hjálpartæki verið skilgreint þannig að um sé að ræða tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig segir að hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja hefur verið sett með stoð í framangreindu ákvæði. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar greiða Sjúkratryggingar Íslands styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum sé um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Styrkur sé ekki greiddur ef hjálpartæki sé eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar, þar á meðal útivistar og íþrótta.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar eru styrkir eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum hennar.

Í umsókn kæranda kemur fram að sótt sé um styrk til kaupa á þríhjóli með fótstigi samkvæmt lið 121806 í fylgiskjali með reglugerð nr. 1155/2013. Flokkur 12 í fylgiskjalinu fjallar um ferlihjálpartæki og hjálpartæki við flutning. Í flokki 1218 er fjallað um hjól og þar segir:

„Sjúkratryggingar Íslands greiða einungis fyrir þríhjól. Þríhjól eru greidd fyrir fjölfatlaða ef ekki er hægt að nota tvíhjól með stuðningshjólum. Að jafnaði er ekki greitt fyrir þríhjól fyrir börn yngri en tveggja ára.“

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda á þeirri forsendu að þríhjól muni ekki auka sjálfstæði kæranda við að sinna daglegum erindum eða auðvelda athafnir daglegs lífs þar sem hún sé ekki fær um að bjarga sér án aðstoðar við að komast á hjólið eða af því. Hjálpartækið geti þannig ekki talist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs í skilningi reglugerðar, auk þess sem hjólið virðist fyrst og fremst ætlað til útivistar og afþreyingar en ekki sem ferlihjálpartæki.

Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 10222/2019 frá 5. mars 2021 er fjallað um túlkun á skilyrðum 26. gr. laga nr. 112/2008 um hjálpartæki. Í álitinu segir meðal annars svo:

„Stjórnvöld hafa samkvæmt framangreindu svigrúm til mats þegar reynir á hvort skilyrði 26. gr. laga nr. 112/2008 séu uppfyllt með hliðsjón af þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í reglugerð sem ráðherra setur. Af sömu ákvæðum leiðir þó jafnframt að viðkomandi stjórnvöldum er skylt að leggja á það einstaklingsbundið og heildstætt mat hverju sinni hvort skilyrði séu til að fallast á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga til kaupa á hjálpartæki, meðal annars með tilliti til þeirra markmiða sem búa að baki umræddri reglu, sem er meðal annars að veita sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði þeirra og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Í ljósi þeirra skýringa sem úrskurðarnefndin hefur sett fram um viðmið sín við mat á hvort hjálpartæki teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs, þarf hér einnig að gæta að því hvaða heimildir nefndin hefur til að setja sér almenn viðmið sem kunna í reynd að afnema það einstaklingsbundna og heildstæða mat sem nefndinni er skylt að viðhafa við mat á aðstæðum vegna umsóknar um hjálpartæki.

[…]

Ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 eiga það sammerkt með ýmsum ákvæðum laganna að hið eiginlega inntak í réttindum hins sjúkratryggða til aðstoðar í formi hjálpartækis verður ekki fyllilega ráðið af orðalagi ákvæðisins einu og sér. Eins og áður er rakið er almenna skilgreiningu á hjálpartæki að finna í 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008. Með vísan til orðalags ákvæðisins er ljóst að það hefur afgerandi þýðingu um réttinn til að fá styrk til kaupa á hjálpartæki hvort tækið sé til þess fallið að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun og teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Þótt úrskurðarnefndin hafi svigrúm til mats þegar teknar eru ákvarðanir á þessum lagagrundvelli þá verða slíkar ákvarðanir í ljósi orðalags ákvæðisins að vera í samræmi við kröfur ákvæðisins um að stjórnvald meti aðstæður umsækjanda um hjálpartæki með einstaklingsbundnum og heildstæðum hætti hverju sinni áður en það tekur ákvörðun. Að því leyti sem ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 felur í sér slíkt skyldubundið mat getur stjórnvald á borð við úrskurðarnefnd velferðarmála ekki sett skilyrði eða viðmið sem afnema eða þrengja um of það mat sem nauðsynlegt er að fari fram hverju sinni eigi úrræðið að ná tilgangi sínum.

Við túlkun á ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 í þessu sambandi er nauðsynlegt að horfa til þess að eitt markmiða laga nr. 112/2008 er, eins og áður sagði, að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag svo sem nánar er kveðið á um í lögunum og í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra.

Samkvæmt því verður við nánari túlkun á 26. gr. laganna jafnframt að líta til annarra ákvæða þeirra lagabálka sem þarna er vísað til. Eins og endranær þarf við slíka lagatúlkun að beita þeim aðferðum sem eru almennt viðurkenndar og dómstólar hafa mótað hér á landi. Almennt er gengið út frá því við túlkun lagaákvæða að það verði með samræmisskýringu að horfa til annarra efnisreglna í lagabálknum sem þau eru hluti af og eftir atvikum efnisreglna í öðrum lagabálkum. Með öðrum orðum verður að túlka einstök ákvæði á þann veg að þau samrýmist öðrum efnisreglum í lögum sem kunna að hafa þýðingu í þessu sambandi.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður við túlkun á 26. gr. laga nr. 112/2008 að líta til þess að sérstaklega er fjallað um hvað felst í „heilbrigði“ í 1. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, sem vísað er til í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 112/2008. Í fyrrnefnda ákvæðinu kemur fram að meðal markmiða laga um heilbrigðisþjónustu sé að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma „til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði“.

Ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 112/2008 ber því með sér að löggjafinn hafi ekki lagt þröngan skilning til grundvallar í þessu sambandi, eins og úrskurðarnefnd velferðarmála hefur lagt áherslu á, heldur þvert á móti sérstaklega tekið afstöðu til þess að tilgangur með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga á nauðsynlegum hjálpartækjum sé að vernda heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi. Þar verður jafnframt að líta til þess að ákvæðið tekur mið af 76. gr. stjórnarskrárinnar, um skyldu löggjafans til að tryggja í lögum öllum sem þess þurfa rétt til aðstoðar vegna meðal annars sjúkleika og örorku og felur í sér lýsingu á grundvallarréttindum sjúkratryggðra sem líta ber til við framkvæmd laga um sjúkratryggingar.

Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum verður því að ganga út frá því að þegar tekin er afstaða til þess hvort hjálpartæki teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs í skilningi 26. gr. laga nr. 112/2008 þá beri að túlka það á þann veg að notkun tækisins nái þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi, og þá í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi.

[…]

Í ljósi þeirrar afstöðu úrskurðarnefndarinnar að jafnframt beri að leggja þröngan skilning í hugtakið daglegt líf í skilningi 26. gr. laga nr. 112/2008 tel ég tilefni til að minna á að á síðustu árum hefur fötluðu fólki verið búin aukin réttarvernd á grundvelli fjölþjóðlegra samninga og í lögum sem meðal annars leggja áherslu á að virðing sé borin fyrir sjálfsákvörðunarrétti þess. Þannig er löggjöf sem snýr að réttindum fatlaðs fólks almennt ætlað að tryggja því jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, sem voru í gildi þegar atvik þessa máls áttu sér stað.

Ef tekið er mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laga nr. 59/1992, í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laganna, þá hefur þar verið lögð áhersla á að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi, meðal annars með því að gera því kleift að komast ferða sinna og bæta aðgengi þess, sbr. til dæmis 9. og 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í þessu sambandi hefur verið lögð áhersla á að fötluðu fólki sé þannig veittur stuðningur til að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í ljósi alls framangreinds get ég því ekki fallist á þá þröngu túlkun sem úrskurðarnefnd velferðarmála hefur lagt til grundvallar að þessu leyti.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir styrk til kaupa á þríhjóli. Við það mat lítur úrskurðarnefndin til allra fyrirliggjandi gagna um aðstæður kæranda og metur þær með einstaklingsbundnum og heildstæðum hætti. Í umsókn, dags. 19. júní 2020, segir að það að komast út að hjóla myndi gegna veigamiklu hlutverki til að bæta líkamlega og andlega heilsu kæranda. Það myndi gefa henni færi á að bæta þrek sitt og styrk og án mikillar fyrirhafnar auka fjölbreytileika í æfingum. Einnig er nefnt að frelsi til æfinga og hreyfingar gefi kæranda jafnframt tækifæri og hvatningu á öðrum sviðum endurhæfingar. Í umsókn, dags. 14. ágúst 2020, er því lýst að kærandi þrái meira sjálfstæði og fjölbreytileika. Hefði hún kost á að komast út á þríhjóli, sem gerði henni kleift að ferðast um í þorpinu sínu, myndi það þjóna mjög stóru hlutverki til að bæta líkamlega og andlega heilsu kæranda og gera henni kleift að komast út úr húsi og vera ekki alfarið háð öðrum. Einnig myndi það sporna gegn félagslegri einangrun því að kærandi ætti þá hægara með að fara út, hitta annað fólk og taka þátt í félagslegum viðburðum eða sinna efnissöfnun í bloggskrif sem gjarnan fylgi myndum af henni og umhverfi hennar. Í umsóknum kæranda um styrk til kaupa á hjálpartæki er færni lýst með þeim hætti að kærandi þurfi aðstoð við gang, fari að mestu um í hjólastól, þurfi á mikilli aðstoð að halda við allar athafnir daglegs lífs og sé ófær um að fara sjálf á milli staða óstudd eða án hjálpartækja. Þá kemur fram í gátlista frá iðjuþjálfa að kærandi þurfi eftirlit við notkun þríhjólsins.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. apríl 2021, kemur fram að kærandi hafi haft aðgang að hjálpartæki eins og því sem sótt sé um og það hafi gert henni kleift að komast sjálf á milli staða í heimabæ sínum, hafi aukið vellíðan hennar og sjálfstæði til muna og aukið lífsgæði mikið. Þetta sé ekki tæki til líkamsræktar heldur til að auðvelda henni að komast sjálf á milli staða þó að hún þurfi hjálp við að komast á það og af því. Þá geri hjálpartækið henni kleift að njóta útivistar og hreyfingar.

Þar sem fram kemur í gögnum máls að kærandi gæti nýtt þríhjólið til að ferðast sjálf um í þorpinu þar sem hún býr lítur úrskurðarnefndin til heimildar til að greiða fyrir þríhjól sem ferlihjálpartæki samkvæmt flokki 1218 í fylgiskjali með reglugerð nr. 1155/2013. Skilyrði fyrir styrk til kaupa á hjálpartæki samkvæmt orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008, er að hjálpartækið teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir dagslegs lífs. Við túlkun á framangreindu ákvæði horfir úrskurðarnefnd meðal annars til markmiða laga nr. 112/2008, 1. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Með hliðsjón af því sem fram kemur í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 10222/2019 metur nefndin hvort notkun hjálpartækisins nái þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði kæranda í víðtækum skilningi í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins má ráða að kærandi getur hjólað sjálf þótt hún þurfi aðstoð við að komast á og af hjólinu og geti þannig komist sjálf á milli staða. Í rökstuðningi fyrir umsókn, dags. 10. ágúst 2020, telja iðjuþjálfi og sjúkraþjálfari kæranda að þríhjól myndi bæta líkamlega og andlega heilsu hennar og gera henni kleift að komast út úr húsi, vera ekki alfarið háð öðrum og sporna gegn félagslegri einangrun, auk þess sem hreyfing á hjóli gæti haft mjög góð áhrif á líkamsþrek hennar. Þá hefur kærandi bent á að eftir að hún hafi haft aðgang að hjálpartæki eins og því sem sótt sé um hafi það aukið vellíðan hennar og sjálfstæði til muna, aukið lífsgæði mikið og gert henni kleift að njóta útivistar og hreyfingar.

Að öllu framangreindu virtu fær úrskurðarnefnd velferðarmála ráðið að umrætt hjálpartæki sé til þess fallið að auka sjálfstæði kæranda, auðvelda henni athafnir daglegs lífs og vernda heilsu hennar og heilbrigði í víðtækum skilningi og daglegu lífi. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að notkun þríhjóls myndi ná þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði kæranda í víðtækum skilningi og séu því skilyrði 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar uppfyllt í tilviki kæranda.

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um styrk til kaupa á þríhjóli er því felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði fyrir styrk til kaupa á þríhjóli séu uppfyllt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A, um styrk til kaupa á þríhjóli, er felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði fyrir styrk til kaupa á þríhjóli séu uppfyllt.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira